Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Erindi: Stofnfrumur og þroskun lungna

Föstudagsfyrirlestur Líffræðistofnunar háskólans þessa vikuna (8. apríl 2011) er Sigríður Rut Franzdóttir nýdoktor við Læknadeild HÍ. Hún lauk nýverið doktorsprófi frá Háskólanum í Münster, þar sem hún rannsakaði ferðalög fruma í þroskun augna ávaxtaflugunar. Hún hlaut viðurkenningu semungur vísindamaður á ráðstefnu um rannsóknir í Líf og heilbrigðisvísindum síðastliðinn janúar. Nú starfar Sigríður við rannsóknir á stofnfrumum lungna og hefur ásamt samstarfsmönnum sínum þróað frumulíkan til þeirra rannsókna.
 
Hið flókna berkjutré lungans myndast með greinavexti þekjufruma. Nær öll þekking á þroskun og vexti lungna er úr músum og mikill skortur hefur verið á hentugum kerfum til rannsókna á ferlinu í mönnum. Hér verður kynnt frumulíkan fyrir lungu. Örva má mannafrumur í rækt til herma eftir greinavexti lungna og nota þær til rannsókna á stjórn greinamyndunar og líffræði mannslungans. Sigríður mun fjalla um þessar rannsóknir í fyrirlestri sínum.
Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Þeir eru haldnir í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ (kl 12:30-13:10).

Næstu fyrirlestrar.

13. apríl 2011  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
(Athugið fyrirlestur Guðmundar er á miðvikudegi ekki föstudegi - hluti af afmælisdagskrá HÍ)
29. apríl 2011  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
6. maí 2011   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13. maí 2011  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir

Einnig er fólki bent á 3 fyrirlestra miðvikudaginn 13. apríl (frá 16:30-18:00) um ""Rannsóknir á lífríki Íslands".

Jörundur Svavarsson greinir frá lífríki sjávar, en hann hefur stundað rannsóknir á lífríki sjávar um árabil og m.a. unnið við og skipulagt hið alþjóðlega BIOICE verkefni sem kortlagði tegundir botndýra og útbreiðslu þeirra á Íslandsmiðum.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjallar um gróðurfar en hún hefur unnið að rannsóknum í grasa- og umhverfisfræðum og nýlega rannsakað gróðurframvindu á Skeiðarársandi.

Í fyrirlestri sínum mun Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, fjalla um sjófuglastofna, tilvist þeirra og aðferðir til að rannsaka þá og tryggja framtíð þeirra, en um fjórðungur allra sjófugla í Norðaustur-Atlantshafi á heima á Íslandi og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims, sérstaklega á Hornströndum, í Látrabjargi og Vestmannaeyjum.

Fyrirlestrarnir er hluti af dagkrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í aprílmánuði í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands.

Fyrirlestur meistara David Suzuki í dag

Margt stórkostlegt stendur fyrir dyrum í tilefni 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Apríl er helgaður verkfræði og náttúruvísindum, og að því tilefni verður boðið til fyrirlesturs David Suzuki síðdegis í dag (4. apríl 2011, kl 17:00 í stofu 132 í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ). Úr tilkynningu:

Dr. David T. Suzuki er prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Bresku Kólumbíu sem hefur fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir störf sín. Margir líffræðingar kannast við nafn hans sem meðhöfundar vinsællar kennslubókar í erfðafræði sem hefur verið kennd í mörg ár í líffræðiskor HÍ. Hann er virkur náttúruverndarsinni,sem hefur m.a. unnið ötullega við að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga. Meðal almennings er David Suzuki best þekktur sem sjónvarpsmaður en hann er þekktur fyrir að útskýra náttúruvísindin á einfaldan og heillandi hátt. Sjónvarpsþættir hans "The Nature of Things",  hafa verið sýndir á mörgum helstu sjónvarpsstöðvum heims. Þættir hans voru sýndir í ríkisjónvarpinu á níunda áratug síðustu aldar.

Kesara Jónsson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild kynnir fyrirlestur David Suzuki. Fyrirlesturinn sem fer fram á ensku er fluttur með fjarfundarbúnaði og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Fólk á mínum aldri kannast vel við Suzuki úr sjónvarpsþáttunum sem sýndir voru á níunda áratugnum. Hann er einstaklega góður fræðari og miðlaði bæði áhuga og virðingu fyrir náttúrunni. Líffræðingar kannast einnig við hann sem höfund bókarinnar An introduction to genetic analysis (nú erum við að kenna útgáfu 9. en sjöunda útgáfan er aðgengileg í heild sinni á vef Bandarísku heilbrigðismálastofnunarinnar). 

Dr. Suzuki er erfðafræðingur að upplagi, lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Chicago háskóla. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vinna sem nýdoktor við þann háskóla milli 2003 og 2006, í þróunarfræði og vistfræðideildinni og vann einmitt með ávaxtaflugur eins og David Suzuki. Hann notaði ávaxtaflugur til að rannsaka endurröðun erfðaefnis, áhrif efna á þau ferli og einnig hitanæmar stökkbreytingar. Hann greindi einnig stökkbreytingar sem eru kuldanæmar, það þýðir að einstaklingar eru einkennalausir, nema þeir þroskist við lágan hita. 

Áhugi Suzuki á umhverfismálum varð til þess að hann stofnaði sérstakan sjóð (David Suzuki foundation) til að berjast fyrir friðun dýra og landsvæða, til að sporna gegn loftslagsbreytingum, ýta undir sjálfbærari efnahag og vekja vitund og áhuga fólks á náttúrunni. Sjóðurinn og starfsmenn þess hafa beitt sér í mörgum málum, loftslagsmálum, heilbrigðismálum, verndun vatnakerfa, hafsins og villtrar náttúru. Á síðunni að dæma þá virðast áherslurnar vera ágætar, en dálítið örlar á granólahippa réttrúnaði (þar sem staðhæfingar um hreinleika og vistvináttu ýmissa úrræða virðast byggðar á litlum gögnum). En í það heila er áherslan sannarlega lofsverð og mörgum þörfum verkefnum er sinnt.

Í þessum anda verður fyrirlesturinn fluttur með fjarfundarbúnaði, sem er umhverfisvænt að því leyti að Dr. Suzuki þarf þá ekki að þyngja breiðþotu sem flýgur yfir Atlanshafið með tilheyrandi útblæstri koltvíildis.

Upplýsingar um lífshlaup David Suzuki má finna á vef samtaka hans.

Hlýðið endilega á mjög forvitnilegt viðtal við David Suzuki í speglinum (1. apríl 2011). Hann talar meðal annars um stríðið gegn þekkingu og vísindum, sem tóbaksframleiðendur og olíufélögin hafa stundað með hræðilega góðum árangri.


Sjófuglar feta vísindaveginn

Í hádeginu í dag (1. apríl 2011) mun Arnþór Garðarsson halda fyrirlestur, skyndimynd af stofnvistfræði sjófugla. Fyrirlesturinn er öllum opinn, hefst kl 12:30 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ. Ágrip erindis:

Menn hafa frá örófi alda sótt að ströndinni og stundað veiðar á fiskum, sjávarskjaldbökum, sjófuglum og sjávarspendýrum. Þessi sókn leiddi til fækkunar og útdauða stofna og tegunda í takt við lögmál framboðs og eftirspurnar. Röskun af völdum þessara strandveiða var veruleg hér á landi en um 25% af öllum sjófuglum í Norðaustur-Atlanrshafi á heima á Íslandi, og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims. Í þessu erindi verður fjallað almennt um sjófuglastofna, áhrif þeirra á vistkerfi strandarinnar og áhrif manna á tilvist sjófugla.

Í dag hefst afmælisdagskrá Verk og náttúruvísindasviðs HÍ. Margt verður í boði, og flest af því stílað á þegna landsins (m.a. fyrirlestur David Suzuki 4. apríl). Þetta er því einstakt tækifæri fyrir landann til að kynnast starfi íslenskra vísindamanna. Á morgun munu raunvísindamenn við HÍ opna hús sín almenningi. Dagskrá þeirra gengur undir nafninu, fetum vísindaveginn.

Hvenær : Laugardagur 2. apríl, kl. 13-16

Hvar:  Raunvísindastofnun, Tæknigarður, VR-I, VR-II og VR-III

Raunvísindadeild og Raunvísindastofnun opna dyrnar og bjóða almenningi í heimsókn í húsakynni sín. Gestum býðst að feta vísindaveginn gegnum Raunvísindastofnun, VR-I, VR-II, VR-III og Tæknigarð þar sem tilraunastofur verða opnaðar, veggspjöld verða til sýnis og vísindamenn fræða gesti um rannsóknir sínar. Fróðleikur fyrir alla fjölskylduna.

Meðal atburða á svæðinu má nefna:
Rjúpnastofninn gerður útreiknanlegur.
Svipast um í stjörnuveri.
Sameindir vigtaðar.
Flakkað á milli kaldasta og hreinasta staðar og mesta lofttæmis á Íslandi.
Leikið á eldorgel.
Vísindavefurinn býður brot af því besta.
Tilraunastofur opnaðar.
Kíkt á sólina.
Þreifað á eðlisfræðilögmálunum.
Kafbátur á þurru landi.
Getraunaleikur með veglegum vinningum


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband