Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Tölvulíkön og nóbelsverðlaun

Nýjum botni hefur verið náð. Mbl.is, sem er vefútgáfa elsta fréttablaðs landsins, fjallar um Nóbelsverðlaunin í efnafræði á svo daprann hátt að manni liggur við gráti.

Í fyrsta lagið þá finna þeir upp nýtt orð til að lýsa starfi einstaklinganna þriggja sem verðlaunin hlutu. 

"Sameindafræðingar" er nýtt orð í íslenskri tungu, sem birtist í fyrsta skipti á veraldarvefnum á síðu mbl.is. Réttara væri að kalla viðkomandi efnafræðinga, enda er um að ræða Nóbelsverðlaun í efnafræði.

Í næstu setningu segja þeir að "sameindafræðingarnir" hafi "hannað tölvubúnað sem líkir eftir og útskýrir meðhöndlun efna".

Þeir, Martin Karplus, Michael Levitt og Arieh Warshel hönnuðu ekki búnað, heldur fundu aðferðir til að lýsa eiginleikum efna og efnasambanda.

Aðferðirnar eru töluleg líkön, sem sameina lykilatriði eðlisfræði Newtons og hina athyglisverðu eiginleika skammtafræðinnar (quantum physics). Ofan á þennan grunn hafa fjölmargir sérfræðingar byggt og rannsakað eiginleika lítilla sem stærri sameinda, allt frá lyfjum til stórra prótína.

Almenna lexían er sú, að efnafræði fortíðar hefur vikið fyrir nútímalegri vísindum þar sem töluleg líkön, flóknir reikningar og tölfræði eru notuð til að skilja og spá fyrir um eiginleika efna.

Svipuð bylting hefur einnig  verið í líffræði og læknisfræði, þar sem gagnmagnið er orðið það mikið og kerfin það flókin, að stærðfræði og tölvunarfræði er nauðsynleg fyrir flestar flottustu rannsóknirnar.


mbl.is Þrír fá Nóbelsverðlaunin í efnafræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Málþing á vegum Vísindafélags Íslendinga

Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Þjóðminjasafn Íslands

Fimmtudaginn 17. oktober frá 12-14

  • 12:00 -12:15.      Hvernig er rétt að fjármagna grunnrannsóknir Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti læknadeildar HÍ
  • 12:15 -12:30.      Framtíð og gæði doktorsnáms á Íslandi Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri hugvísindasviðs HÍ
  • 12:30 – 12:45.    Mikilvægi ungra Vísindamanna í endurnýjun og framþróun vísindasamfélagsins Erna Magnúsdóttir, sérfræðingur HÍ
  • 12:45 – 13:00.    Hagnýting grunnrannsókna Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
  • 13:00 – 13:15.    Upplýsingasamfélagið og grunnrannsóknir Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor, hagfræðideild HÍ.
  • 13:15 – 14:00.    Pallborðsumræður

Fundarstjóri Guðmundur Þorgeirsson, prófessor, HÍ

Mikilvægt að sem flestir sjái sér fært að mæta málstaðnum til stuðnings.

http://lifvisindi.hi.is/events/malthing-vegum-visindafelags-islands


Vísindi sem hópíþrótt

Í dag fengu tveir eðlisfræðingar Nóbelsverðlaun fyrir Higgs-bóseindina. Í gær fengu þrír frumulíffræðingar verðlaun fyrir rannsóknir á frumubólum.

Ein spurning sem spyrja má er - hvers vegna fengu þessir þrír einstaklingar verðlaunin, en ekki einhverjir aðrir?

Svarið er viðeigandi sænsk eða norsk nefnd eða vísindaakademía velur. Tilnefningar þarf til, en meðlimir þessara nefnda og félaga eru þeir sem ákveða.

Dýpri spurning er, hvers margir mega fá Nóbelsverðlaun í hverjum flokki (efnafræði, eðlisfræði...o.s.frv.)?

Svarið  í mesta lagi 3 geta fengið hver verðlaun. 

Það er í hæsta máta bagalegt, því að vísindi eru ekki afrek einstaklinga, heldur hópíþrótt.

Peter Higgs og Francois Englert hafa sannarlega staðið sig vel, og uppgötvað og staðfest mörg fyrirbæri og afsannað önnur.  En þeir unnu ekki einir. 

Higgs bóseindin var ekki fundin af tveimur köllum sem voru að leika sér með flugdreka í þrumuveðri. Eindin fannst eftir margra ára starf hundruða einstaklinga við nokkrar stórar stofnanir í Evrópu.

Það er veruleiki vísinda í dag, þau eru hópvinna sem krefst annara eiginleika en prýddu snillinga fortíðar.

Tilhögun Nóbelsverðlaunanna endurspeglar vísindalega fornöld, þegar sérvitrir snillingar grúskuðu í einrúmi og hrópuðu Eureka um miðja nótt. 

Vísindi þarfnast því bæði góðs fólks og góðrar umgjörðar. Umgjörðin samanstendur af bærilegum tækjakosti og húsnæði, en ekki síst fjármagni til að standa undir launum nemenda og aðstoðarmanna, sem og efniskostnaði. Rask á umgjörð vísinda þýðir tap á þekkingu og hægir á þroskun nýrra vísindamanna.

Hugmyndir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, um 260 milljón króna lækkun á framlögum til rannsóknasjóðs Rannís er í ekki rask heldur aðför að umgjörð vísinda hérlendis.

Ítarefni:

The Guardian 8. okt. 2013 Jon Butterworth 'Nobel falsely promotes view of lone genius'

Niðurskurður í grunnrannsóknum


mbl.is Verðlaunaðir fyrir Higgs-bóseindina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóbelsverðlaun fyrir bólur, þ.e. frumubólur

Nóbelsverðlaunin í læknisfræði og lífeðlisfræði voru tilkynnt núna fyrir stundu.

Þau hlutu þrír bandaríkjamenn, fyrir rannsóknir á kerfum sem stýra flutningi um frumur, með  vökvafylltum bólum (For elucidating the machinery that regulates vesicle transport through the cell.)

Verðlaunhafarnir eru:

James E Rothman, Yale University

Randy W Schekman, Berkeley

Thomas C Südhof, Stanford University

Randy Schekman notaði sveppafrumur til að finna stökkbreytingar sem röskuðu flutningi um frumuna. Hann fann að vissir erfðagallar leiddu til þess að bólur söfnuðust upp á vissum þrepum ferlisins.

James E Rothman fann og rannsakaði prótín sem gera bólunum kleift að bindast við ákveðnar himnutr. Þetta gerir frumunni t.d. kleift að senda ákveðnar bólur beint að ytri himnu frumunnar, og losa þannir farm sinn út í umhverfið.

Thomas Südhof fylgdi í kjölfarið og rannsakaði hvernig svona frumulosun virkar í taugafrumum. Hann leitaði að og fann prótín sem bregðast við auknum styrk kalsíumjóna.

Ef þetta hljómar ekki mjög læknisfræðilegt, þá er það vegna þess að niðurstöðurnar eru það ekki. Þetta eru í raun Nóbelsverðlaun í frumulíffræði, rétt eins og verðlaunin í fyrra voru í raun fyrir þroskunarfræði.

Þetta eru grunnrannsóknir, sem síðan er hægt að nota til að skilja marga sjúkdóma og aðra líffræði. 

Ítarefni:

The Guardian 7. okt. 2013 Nobel Prize in Physiology or Medicine 2013 – live blog

The New York Times 7. okt. 2013 3 Biologists at U.S. Universities Win Nobel in Medicine

Fyrirtaks viðtal við Helgu Ögmundsdóttur í Sjónmáli Smátt en flókið flutningakerfi frumunnar

 


Nauðsynleg viðspyrna við framleiddum ótta

Af einhverri ástæðu hafa forvígismenn sjálfbærs landbúnaðar og lífrænnar matvæla framleiðslu ákveðið að erfðabreytingar séu hættulegar.

Engar vísindalegar niðurstöður benda til þess að erfðabreyttar nytjaplöntur eða afurðir úr þeim séu á einhvern hátt skaðlegar mönnum.

Engu að síður er sífellt hamrað á því að hætta sé til staðar, að því er virðist til að hræða fólk til þess að borða lífrænan mat og blása því eldmóði í brjóst.

Næst komandi mánudag verður málþing - skipulagt af andstæðingum erfðabreyttra matvæla, þar sem frekar verður alið á þessum ótta. 

Morgunútvarp rásar 2 ræddi við Jón Hallstein Hallson dósent við Landbúnaðarháskólann um málið nú í morgun. Hann ræddi sögu ræktunar og erfðabreytinga, og skerpti á því að engar vísindalegar ástæður séu til að óttast áhrif þessara afurða á heilsu fólks.

Hann lagði sérstaka áherslu á að með kröfunni um að erfðabreyttar vörur væru erfðabreyttar, þá væri verið að senda villandi skilaboð.

Hið neikvæða við að merkja erfðabreyttar vörur sérstaklega er að þá er gefið í skyn að matvaran sé eitthvað hættuleg þótt ekkert sé sannað. segir Jón Hallsteinn. Eiginlega sé verið að villa um fyrir fólki. Jón Hallsteinn sagði merkingar matvæla séu augljóslega líka viðskiptalegs eðlis. Vilji íslenskir bændur vinna að því að fá grænan stimpil á vörur sínar og skipta út erfðabreyttu fóðri þá sé ekkert athugavert við það í viðskiptalegu tilliti. Það þýði þó ekki að erfðabreytt fóður sé skaðlegt.

Ég er fyllilega sammála. Réttara hefði verið að þeir sem vilja borða óerfðabreytt, veldu mat sem vottað væri að sé ekki  erfðabreyttur.

Tökum val gyðinga á kosher-matvælum sem hliðstætt dæmi. Gyðingar kjósa flestir, af  TRÚARLEGUM ástæðum, að borða Kosher merktan mat. Þeir borga fyrir vottunina með vörunni sem þeir kaupa. Það yrði uppi fótur og fit ef gyðingar myndu krefjast þess að allur annar matur væri merktur Ó-kosher.  Þá þyrfum við hin að borga fyrir vottunina, sem þau vilja fylgja.

Á sama hátt er ósanngjarnt að við sem vitum að erfðabreytt er skaðlaust, þurfum að borga merkingar sem eiga að slá á ótta þeirra sem eru á annari skoðun.

RÚV 4. okt. 2013 Merkingar skapa óþarfan ótta


Niðurskurður í grunnrannsóknum

Stöð 2 fjallaði um áhrif nýju fjárlagana á grunnrannsóknir.

Þar var rætt við Eirík Steingrímsson prófessor við Læknadeild. Fram kom

[þetta er E]kki björt framtíð, fyrir unga fólkið sem er að koma heim og hasla sér völ. Þeirra tækifæri eru að hverfa...

Fjárfesting í  grunnrannsóknum er afar ódýr, en verðmætasta nýsköpun sem völ er á.

Allur niðurskurður í rannsóknarsjóðum og samkeppnisjóðum gengur þvert gegn ríkistjórnarinnar, fyrri ríkistjórnar og þessarar ríkistjórnar,  í vísindamálum.

Ég tek heilshugar undir þessi skilaboð Eiríks.

Mikilvægt er að halda samfellu í vísindastarfi, og þjálfa nýtt fólk með kunnáttu á vísindalegum vinnubrögðum og aðferðum.

Samfellan í hættu, því að eitt slæmt ár hjá Verkefnasjóði Rannís brýtur upp verkefni og seinkar framvindu þeirra.

Nógu erfitt er að stunda rannsóknir í fremstu röð, þó að íslenskir vísindamenn séu ekki dregnir heilt ár aftur úr kollegum sínum erlendis.

Einnig er hætt við að framhaldsnemar flosni upp úr verkefnum (sem er reyndar vandamál nú þegar vegna skorts á heildarstefnu Stjórnar, HÍ og Rannís). Einnig þýðir þetta að færri nýjir nemendur byrja í rannsóknum. Og bestu nemendurnir munu örugglega fara í nám annarstaðar, nema þeir séu bundnir átthagafjötrum eða séu með rómantíska óra um samstöðu einstakrar þjóðar á norðurhjara.

Ísland er ekki nafli alheimsins. Við niðurskurð í grunnrannsóknum lendum við nær útnára veraldar.

Vísindamenn ósáttir við fjárlögin

Ekki skynsamlegt að draga úr stuðningi við rannsóknir

Á nýjum fjárlögum er framlag til rannsóknarsjóðs Rannís minnkað um 200 milljónir, auk þess sem aðrir sjóðir á vegum Rannís eru skertir.

Grunnrannsóknir eru nær eingöngu reknar fyrir opinbert fé*. Þær eru grunnurinn sem hagnýtar rannsóknir byggja á. Einnig eru þær mikilvægar til að þjálfa fólk til vísindalegra vinnubragða, sem nýtist við hagnýtingu og betrumbætur á flestum sviðum.

Vísindamenn skrifa umsóknir, senda til Rannís, sem fær fagmenn til að meta þær og raða eftir gæðum. Um 29.9% umsókna hlutu brautargengi árið 2013 (úthlutað var 317 milljónum), en aðeins 20.2% árið 2012 (úthlutað var 233 milljónum). 

Hlutfall styrktra umsókna er frekar lágt, og upphæðirnar ekki háar á landsmælikvarða.

Rannsóknasjóður Rannís styrkir verkefni til 3 ára í senn. 2/3 sjóðsins eru því bundnir á hverju ári, í verkefni sem samþykkt voru árin tvö á undan.

Það þýðir að mikil skerðing á sjóðnum, getur þýtt að fá eða engin verkefni verða styrkt í janúar 2014.

Ef maður étur útsæðið og brennir smíðaviðinn, er ekki von á góðu.

*Einkaðillar vilja ekki fjárfesta í slíkum rannsóknum, nema helst á sjúkdómum sem þeir eða nærstaddir eru að drepast úr.


mbl.is Mesti vöxtur sjávarklasans er í líftækni og fullvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi loftslags og umræðan

Nú um helgina veðrur málþing um Loftslagsvísindin og loftslagsumræðan. Til þingsins var boðið nokkrum þekktustu sérfræðingum á sviði loftslagsrannsókna. Úr tilkynningu:

------------------

Málþing með nokkrum þekktustu sérfræðingum samtímans á sviði loftslagsrannsókna, Stefan Rahmstorf, Michael Mann, Kari Norgaard og Peter Sinclair. Laugardaginn 5. október í Háskólatorgi 105 (13.00–17.00). Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.

Guðni Elísson, forseti Íslensku- og menningardeildar, setur þingið og kynnir þátttakendur. Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, stýrir umræðum. Ráðstefnan er haldin í tengslum við námskeiðin Menning og andóf (MFR702F 2013), Loftslagsbreytingar – orðræða og aðgerðastefna (MFR008F 2013) og Heimildamyndir (KVI106G 2013) sem Guðni Elísson kennir.

5. október 2013 - 13:00  Háskólatorg Stofa 105
 
Frekari upplýsingar um fyrirlesara má finna á vef HÍ.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband