Leita í fréttum mbl.is

Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19?

Arnar Pálsson. „Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2020. Sótt 15. apríl 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=79179.

Þetta er síðasta bloggfærslan mín hér.

Aðrir pistlar munu birtast á uni.hi.is/apalsson.

Afbrigði veira eru skilgreind út frá mismun í erfðaefni þeirra.[1] Veirur fjölga sér kynlaust og stökkbreytingar sem verða í erfðaefni þeirra geta haft áhrif á hæfni þeirra í lífsbaráttunni. Þrátt fyrir dramatískt nafn eru stökkbreytingar aðeins frávik í erfðaefni sem geta haft jákvæð, neikvæð eða engin áhrif á hæfni lífvera.[2] Neikvæðar breytingar eru kallaðar svo því þær draga úr hæfni lífvera til að fjölga sér eða minnka lífslíkur. Töluverður hluti nýrra stökkbreytinga eru neikvæðar, en þær eru yfirleitt sjaldgæfar í stofnum, sérstaklega þeim sem fjölga sér kynlaust eins og á við um veirur. Mun sjaldgæfari eru jákvæðar breytingar, sem auka hæfni á einhvern hátt. Algengasta form erfðabreytileika eru hlutlausar breytingar, sem hafa engin áhrif á hæfni lífvera. Ólíklegt er að stökkbreytingar í erfðamengi veirunnar SARS-CoV-2 valdi illvígari sjúkdómi. Mest af breytileika sem finnst milli ólíkra veira sem valda COVID-19 er því hlutlaus. Afbrigði veiranna sem valda COVID-19 eru talin vera jafngild af sérfræðingum, það er að segja þau valda áþekkum sjúkdómi með svipaðri dánartíðni. Erfðabreytileiki milli veiranna gerir okkur hins vegar kleift að rekja ættir smitanna (mynd 1).

Mynd 1. Stökkbreytingar á erfðaefni veiru sem berst milli einstaklinga má nota til að rekja smitið. Ættartré veiranna endurspeglar smitsöguna. Myndin sýnir einfaldað tilfelli. Sýndir eru litningar 5 gerða af veiru sem eru ólíkir vegna 7 stökkbreytinga (litaðar línur). Þessir litningar mynda fimm ólíkar setraðir (e. haplotypes) sem einnig má kalla afbrigði. Sumar stökkbreytingar eru eldri (og finnast í tveimur eða fleiri gerðum), en aðrar yngri og finnast bara í einni gerð.

Engu að síður hafa fjölmiðlar upp á síðkastið fjallað um breytileikann í veirunni og slegið upp æsilegum fyrirsögnum. Snemma í mars birtist til að mynda frétt hérlendis með fyrirsögninni „Kórónuveiran hefur stökkbreyst“. Kjarninn í þeim skrifum var að til væru mismunandi afbrigði veirunnar og eitt afbrigði væri hættulegra en hin. Önnur frétt birtist í USA TODAY þann 31. mars undir fyrirsögninni: „8 strains of the coronavirus are circling the globe. Here's what clues they're giving scientists“ ( „8 afbrigði kórónuveirunnar eru á ferli um jörðina. Þetta hafa vísindamenn lært af þeim.”) Báðar fréttirnar byggja á rangtúlkunum. Byrjum á þeirri fyrri sem var byggð á meingallaðri rannsókn. Minnumst þess að afbrigði veirunnar eru flokkuð út frá erfðabreytileika, sem er aðallega hlutlaus. Vegna sögu sýkinga verða sum afbrigði algengari á vissum landssvæðum en önnur afbrigði annars staðar. Greining lífupplýsingafræðingsins Trevor Bedford og félaga á smitinu í Washington-fylki í Bandaríkjunum er dæmi um þetta. Flest smitin í fylkinu bárust snemma frá Wuhan og voru flest af einni gerð (afbrigði) veirunnar.

Mynd 2. Ættartré kórónuveira sem valda COVID-19 út frá raðgreindum erfðamengjum veirunnar á tímaskala faraldursins (x-ás). Rauðir punktar eru 346 erfðamengi veira sem greindust úr einstaklingum í Washington-fylki í Bandaríkjunum. Hópun rauðra tilfella um miðbik myndar sýnir smit sem barst frá Kína um 15. janúar og fjölda einstaklinga sem sýktust í kjölfarið. Örvar tilgreina smit sem barst síðar til svæðisins og olli smiti í smærri hópum. Myndin sýnir að saga faraldursins veldur því að viss afbrigði verða algengari á ákveðnum landsvæðum en önnur fátíðari.

Sumir hafa haldið því fram að afbrigðin séu á einhvern hátt mismunandi. Fjölþættar ástæður eru fyrir því en mestu skiptir að mat á dánartíðni vegna veirunnar getur verið mismunandi eftir svæðum vegna margra þátta. Má þar nefna mun á greiningarátaki, ólík heilbrigðiskerfi, mun á aldurssamsetningu landa eða svæða og sögulegra tilviljana. Í fyrsta lagi er dánartíðni hlutfall þeirra sem deyja vegna sýkingar og þeirra sem eru greindir með sjúkdóminn. Ef einungis þeir sem deyja úr sjúkdómnum (eða fá alvarleg einkenni) eru prófaðir og svo greindir virkar dánartíðnin há. En ef mjög margir eru prófaðir, líka fólk með væg einkenni eða einkennalaust, þá verður dánartíðni metin lægri. Fyrir veiruna sem veldur COVID-19 spanna gildin frá 0,02 (2 af hverjum 1000 í Suður-Kóreu) til 4 (4 af hverjum 100 í Kína). Mynd 2. sýnir að saga faraldursins veldur því að viss afbrigði verða algengari á ákveðnum landsvæðum en önnur fátíðari. Það virðist því vera samband á milli afbrigða veirunnar og dánartíðni en það er ekki raunverulegt. Fylgni milli þátta er ekki sönnun fyrir orsakasambandi. Í annan stað eru spítalar og heilbrigðiskerfi mismunandi eftir svæðum og það hefur áhrif á mat á dánartíðni. Það getur einnig búið til falska tengingu milli afbrigða og alvarleika sjúkdómsins. Í þriðja lagi er aldurssamsetning mismunandi eftir löndum og landsvæðum. Yngra fólk býr eða safnast saman á vissum stöðum á meðan eldri borgarar eru algengari á öðrum svæðum. Aldursdreifingin er ólík á skíðasvæðum í Ölpunum og smáþorpum á Ítalíu. Þar sem veiran leikur eldra fólk verr en unga bjagar það matið á dánartíðni. Að síðustu getur það verið tilviljun háð hvaða hópur innan ákveðins svæðis verður þungamiðja smitsins. Veiran fer ekki í manngreinarálit en ólukkan getur valdið því að smitið berst inn á hjúkrunarheimili á einum stað en í pönkhljómsveitagengi á öðrum stað. Hin fréttin notaði orðið afbrigði eins og það er skilið í almennu máli sem er mun víðtækara en lýst var hér að ofan. Afbrigði veirunnar eru bara stofnar af sama meiði og engin ástæða til að halda að þeir séu ólíkir eða misalvarlegir. Kórónuveirurnar fjórar sem sýkja menn að staðaldri þróast vissulega en á mun hægari tímaskala en faraldurinn sem nú gengur yfir. Ef veiran sem veldur COVID-19 verður enn á sveimi eftir tvö til þrjú ár, þá kann að vera að henni hafi gefist tími til að aðlagast manninum betur. En sem fyrr er rétt að skerpa á því að litlar líkur eru á að hún stökkbreytist í illvígara form. Samantekt:

  • Veiruafbrigði eru greind út frá breytileika í erfðaefni.
  • Saga smitanna veldur því að viss afbrigði veirunnar eru algeng á einu svæði en fátíð á öðru.
  • Mat á dánartíðni er mjög ólíkt milli landsvæða og landa.
  • Þetta tvennt býr til ásýnd fylgni milli afbrigða og dánartíðni, en sannar ekki orsakasamband.
  • Engar vísbendingar eru um að afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19 séu mishættuleg.

Tilvísanir:

  1. ^ Arnar Pálsson. Eru til tvö eða fleiri afbrigði af kórónuveirunni sem veldur COVID-19? Vísindavefurinn, 14.04 2020. (Sótt 15.04.2020).
  2. ^ Arnar Pálsson. Hvort er líklegra að veiran sem veldur COVID-19 verði hættulegri eða hættuminni fyrir menn vegna stökkbreytinga? Vísindavefurinn, 01.04 2020. (Sótt 07.04.2020).

Heimildir og myndir:


Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og eru því grunnforsenda allra framfara

Stjórn Vísindafélags Íslands hefur sent forsætisráðherra auk annarra ráðherra sem sitja í Vísinda- og tækniráði, bréf í tilefni af stefnumörkun stjórnvalda sem ráðið vinnur að um þessar mundir. Þar er áhyggjum lýst yfir vegna stöðu grunnrannsókna á Íslandi. Grunnrannsóknir eru þær rannsóknir sem stundaðar eru með þekkingaröflun að meginmarkmiði án þess að hagnýting sé beint takmark þeirra. Grunnrannsóknir eru jafnframt eina aðferðin til að skapa alveg nýja þekkingu og eru þær því grunnforsenda allra framfara. Mörg dæmi eru um það hvernig grunnrannsóknir nýtast á óvæntan hátt og er CarbFix verkefnið, þar sem koltvíoxíð úr andrúmsloftinu er bundið í grjót, gott dæmi um slíkt.

Í bréfinu segir meðal annars að áhersla stjórnvalda á nýsköpun sé afar jákvæð en mikilvægt sé að hafa í huga að grunnrannsóknir eru mikilvægur grundvöllur nýsköpunar, bæði þegar kemur að þekkingaröflun og þjálfun vísindamanna í rannsóknarvinnubrögðum. Bent er á að einungis 14% þeirra verkefna sem sóttu um styrki til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs fengu styrk í ár, sem þýðir að 86% verkefna hlutu ekki brautargengi. Í þeim hópi sem ekki hlutu brautargengi segir sig sjálft að leynast sprotar að uppgötvunum sem bæði myndu gagnast nýsköpunargeiranum en ekki síður samfélaginu öllu auk þess að búa mögulega yfir svörum við viðfangsefnum sem samfélagið stendur frammi fyrir í framtíðinni og engin leið er að spá fyrir um í dag. Það hefur því auga leið að fjármögnun til grunnrannsókna þarf að auka og tryggja.

Í bréfinu er ennfremur bent á að samkvæmt svokölluðum Barcelona-viðmiðum aðildarríkja Evrópusambandisins sé markmiðið að fjárfesting hins opinbera í rannsóknum og þróun eigi að vera 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) en að 2% eigi að koma frá einkaaðilum. Það er raunhæft að Ísland, sem meðal annars er þátttakandi í rammaáætlunum Evrópusambandsins um menntun, rannsóknir og tækniþróun, setji sér sama markmið, en fjárfesting íslenska ríkisins í rannsóknum og þróun var 0.72% af VLF árið 2018. Vísindafélagið leggur því höfuðáherslu á að ríkið auki fjárfestingu sína í rannsóknum upp í 1% af VLF og að það framlag fari alfarið í grunnrannsóknir.

Vísindafélagið leggur í bréfinu til eftirfarandi:

Fjármagn Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs verði tvöfaldað í þremur skrefum á árunum 2021 – 2024, þannig að í sjóðinn verði bætt sem svarar um 800 milljónum á ári á verðlagi dagsins í dag þar til heildarfjármögnun sjóðsins nái 5 milljörðum árlega.

Að tryggt verði að fjármögnun sjóðsins haldi í við efnahagsþróun. Lagt er til að fjármögnun sjóðsins verði bundin við verga landsframleiðslu á svipaðan hátt og framlög Íslands til rammaáætlunar Evrópusambandsins

Ríkið fari í sértækar aðgerðir og ívilnanir til þess að hvetja til stofnunar einkasjóða og fjárfestingar einkaaðila í grunnrannsóknum að fyrirmynd erlendra sjóða eins og til dæmis Carlsberg-sjóðsins í Danmörku.

Fylgja þarf fjárfestingu í grunnrannsóknum eftir þar til Ísland stendur jafnfætis nágrannalöndunum í vísindafjármögnun.

Vísindafélag Íslands styður þann metnað sem íslensk stjórnvöld hafa sett í fyrri stefnur og hvetur til þess að Ísland verði áfram leiðandi í tækninýjungum og haldi samkeppnisstöðu sinni á alþjóðavísu sem mun skila sér í áframhaldandi velsæld og bættum hag samfélagsins alls.

Í hér má lesa bréfið í heild sinni.

https://visindafelag.is/wp-content/uploads/Visndastefna2020-VisindafelagIslands.pdf


Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs

Frá Lífvísindasetri Háskóla Íslands. Efni: 150. Löggjafarþing 2019-2020 - Þingskjal 1 – 1. mál Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 Lífvísindasetur Háskóla Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við óbreytt framlög til samkeppnissjóða Vísinda- og...

Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?

Ný rannsókn íslenskra vísindamanna leiðir í ljós að erfðamunur er á þremur afbrigðum bleikju í Þingvallavatni sem gæti verið vísbending um fyrstu stig myndunar nýrra tegunda. Sagt er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband