23.12.2015 | 11:45
Kæri jólasveinn/þingmaður, mig langar í náttúruminjasafn í jólagjöf
Meðan við bjuggum í Chicago höfðum við það fyrir hefð að fara í vísinda og tæknisafnið á aðfangadagsmorgun. Safnið var opið til 16 og yfirleitt frekar rólegt þennan dag. Safnið er allt hið glæsilegasta, þar má kanna krafta náttúrunnar og undur tækni. Skoða má þýskan kafbát frá seinnastríði og frábært smálestaland, erfðabreytta fiska og fylgjast með kjúklilngum klekjast.
Náttúruminjasafnið í Chicago er einnig í heimsklassa, með T. rex eðluna Sue (mynd ArnarP) og frábært safn minja frá helstu menningarsamfélögum mannkynssögunar.
Ísland á ekkert safn um náttúru eða tækni, þrátt fyrir að samþykkt hafi verið með lögum árið 2007 að stofna Náttúruminjasafn Íslands.
Væri ekki frábært að eiga náttúruminjasafn, ef ekki með beinagrind af risaeðlu þá kannski hval, rostung og ref. Þar mætti sjá hraun af ýmsum gerðum, útskýrðir væru heitir reitir og flekar, sprungubelti og kvikuþrær, fuglabjörg og lífríki vatna, líf undir og í jöklum og hin gríðarlega auðgi hafsins í kringum landið.
Kæri jólasveinn (þingmaður) mig langar í náttúruminjsafn í jólagjöf, hvaða dag ársins sem er.
Síðasta ríkisstjórn og borgin gerðu samkomulag um að setja upp sýningu í Perlunni, en þingmenn núverandi ríkistjórnar hentu þeim plönum út af borðinu án þess að bjóða upp á aðra kosti.
Hilmar Malmquist forstjóri náttúruminjasafnsins rekur þetta mál í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar segir:
Fyrir skömmu fjallaði Fréttablaðið um vilja áhugafólks og stofnun einkahlutafélagsins Perluvinir ehf. í þeim tilgangi að setja upp náttúrusýningu í Perlunni. Þar kom m.a. fram að viðræður milli Náttúruminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt sýningarhald í Perlunni hafi siglt í strand. Rétt er að benda á að viðræður safnsins og borgarinnar beindust að ráðuneyti Náttúruminjasafnsins, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og voru að frumkvæði safnsins. Jafnframt skal bent á að ákvörðun um að hætta viðræðunum var tekin af hálfu Reykjavíkurborgar...
Núverandi stjórnvöld hafa nú hafnað tveimur meginleiðum við fjármögnun náttúrusýningar á vegum Náttúruminjasafnsins, þ.e. að kosta verkefnið alfarið á vegum hins opinbera eða í samstarfi við utankomandi fjárfesta. Er nema von að spurt sé á hvaða vegferð ráðherra mennta- og menningarmála er með þetta höfuðsafn þjóðarinnar?
Hafa skal í huga að Náttúruminjasafnið er skilgreint sem ein af lykilstofnunum landsins á sviði miðlunar og fræðslu í náttúrufræðum og lögum samkvæmt á stofnunin að hafa sömu stöðu og hin höfuðsöfnin tvö, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands. Stöðu sinnar vegna sem fræðslu- og menntastofnanir á vegum ríkisins hafa höfuðsöfnin sérstöðu og hlutverki þeirra verður ekki sinnt af einkaaðilum nema að takmörkuðu leyti.
Íslenska þjóðin og gestir landsins eiga löngu skilið að Náttúruminjasafn Íslands þjóni þeim af engu minni metnaði og gæðum en best þekkist í náttúrufræðisöfnum nágrannaþjóðanna. Ríki og einkaaðilar geta vel unnið saman í þessu brýna verkefni ég er fullviss um að þjóðin vill það.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2015 | 16:28
Leyndardómar gena, baktería og uppruna lífs
Leyndardómar gena, baktería og uppruna lífs
Rannsóknir á erfðum, frumum og lífefnum gátu af sér sameindaerfðafræðina á fyrstu áratugum síðustu aldar. Á þeim árum nam Guðmundur Eggertsson í Kaupmannahöfn og kynntist rannsóknum sem lögðu grunninn að sameindaerfðafræðinni. Rannsóknir Guðmundar snerust um gen baktería og kerfin sem þýða erfðatáknmálið, og síðar um erfðir hitakærra baktería. Í nýlegu ritgerðasafni, Ráðgáta lífsins, fjallar Guðmundur um nokkur lykilatriði sameindaerfðafræðinnar og tilgátur og rannsóknir á uppruna lífsins.
(Við rituðum stutta rýni um nýlega bók Guðmundar Eggertssonar, Ráðgáta lífsins, sem Bjartur gaf út 2014. Greinarstúfurinn kom út í Náttúrufræðingnum nú í desember og hefst svo.)
Bókin er tvískipt. Í fyrstu fjórum þáttunum rekur Guðmundur sögu erfðafræðinnar, kynnir hugmyndir um genið, segir frá erfðum baktería og veira þeirra og útskýrir loks líkanið um byggingu erfðaefnisins DNA. Síðan eru hugmyndir og tilraunir tengdar uppruna lífsins raktar í þremur þáttum. Umræðan um uppruna lífs sprettur náttúrulega úr sameindaerfðafræðinni og er samofin grunnatriðum hennar, enda þurfa tilgáturnar að skýra tilurð gena, prótína og kerfa frumunnar. Í lokin dregur Guðmundur efnið saman og tekst á við ráðgátur lífsins.
Leyndardómar gena og sameindaerfðafræði
Rétt eins og erfðaefnið er byggt upp af tveimur samofnum þáttum eru rætur sameindaerfðafræði aðskildar en samtvinnaðar, úr örverufræði, erfðafræði, lífefnafræði og tilraunalíffræði. Viðfangsefni sameindaerfðafræði eru fjölbreytt. Hún ber upp spurningar á borð við: Hvernig virkar fruman, hvað er gen, hvernig hafa gen og breytingar í þeim áhrif á svipfar, hvernig verða stökkbreytingar og hví hafa ólíkar breytingar í geni missterk áhrif? Vísindamenn með bakgrunn í ólíkum fræðum, jafnvel eðlisfræðingar og læknar, tókust á við stórar spurningar og hjálpuðust að við að svara þeim. Framfarir í rannsóknum á byggingu gensins urðu fyrir tilstuðlan vísindamanna á sviði bakteríuerfðafræði, en þegar þá rak í strand nýttust niðurstöður fengnar með öðrum aðferðum, svo sem lífefnafræði. Guðmundur lýsir þessu í samantekt kaflans um bakteríuveirur.
Það er líka ástæða til að benda á að margar af tilraunum bakteríuveiruskólans voru með sérstökum glæsibrag. Flestar snertu þær erfðir veiranna. Lífefnafræðin var lengi vel sniðgengin en þrátt fyrir það fengust skýrar niðurstöður sem hlutu þegar fram liðu stundir að höfða til lífefnafræðinga og beinlínis kalla á afskipti þeirra. Þannig urðu rannsóknir á hinum örsmáu bakteríuveirum einn helsti hvati þess samruna erfðafræðilegra og lífefnafræðilegra rannsókna sem gengið hafa undir nafninu sameindalíffræði. (68)
Í fyrsta kafla bókarinnar er kynnt genið og eðli erfða. Hvernig flytjast eiginleikar frá foreldrum til afkvæma? Hvers vegna eru afkvæmi stundum stærri eða rauðhærðari en foreldrarnir? Tilraunir Gregors Mendels (18221884) og fyrstu erfðafræðinganna sýndu að einhverjar eindir fluttust frá foreldrum til afkvæma. En úr hverju voru erfðaeindirnar sem Wilhelm Johannsen (18571927) kallaði gen? Það reyndist erfitt að finna byggingarefni gensins og enn í dag er erfitt að rannsaka virkni þeirra. Í öðrum og þriðja kafla bókarinnar rekur Guðmundur sögu rannsókna á erfðum baktería og veira þeirra. Grundvallarlögmál erfða afhjúpuðust með rannsóknum á plöntum og dýrum.
Vísindi og fræði | Breytt 22.12.2015 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2015 | 16:21
Áhrif stað- og svæðisbundinna mótunarþátta á tegundafjölbreytni plantna í túndrulandslagi
Vísindi og fræði | Breytt 16.12.2015 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2015 | 09:06
Dagatal hugmynda, uppgötvana og uppfinninga fyrir árið 2016
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó