Leita í fréttum mbl.is

Jane Goodall á leið til landsins

Jane Goodall er einstök. Hún fylgdist með simpönsumm í Gombe og komst að stórmerkilegum hlutum um líffræði þeirra og atferli. Nú er verið að reyna að skipuleggja heimsókn Jane til landsins, í samstarfi Landverndar, margra stofnanna innan HÍ og fleiri aðilla.

Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir skrifuðu um feril Jane á vísindavefinn fyrir nokkrum árum. Þar segir:

Jane Goodall fæddist árið 1934 í London á Englandi. Frá barnæsku var hún afar áhugasöm um dýr, sér í lagi um framandi dýr Afríku. Þegar henni bauðst að heimsækja vinafólk í Kenía greip hún tækifærið og 23 ára gömul fór hún til Afríku í fyrsta sinn. Þar komst hún fljótt í kynni við fornleifa- og steingervingafræðinginn Louis S. B. Leakey sem heillaðist af óbilandi áhuga hennar og þekkingu á dýrum. Hann réð hana sem aðstoðarkonu sína og sendi hana árið 1958 aftur til London til að læra um atferli prímata. Leakey taldi að stóru aparnir gætu veitt innsýn í þróun prímata og þar af leiðandi þróun mannsins. Árið 1960 sendi hann Goodall til Gombe í Tansaníu til að fylgjast með atferli simpansa. Með sjónauka og skrifblokk að vopni hóf Jane athuganir sínar sem einkenndust af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju.

Goodall gerði fljótt merkilegar uppgötvanir. Til dæmis að simpansar voru ekki grænmetisætur eins og áður var talið heldur voru þeir alætur líkt og maðurinn. Þá uppgötvaði hún einnig að simpansar notuðu verkfæri. Hún fylgdist með hvernig simpansarnir hreinsuðu og snyrtu til greinar og notuðu þær svo eins og veiðistangir til að veiða termíta úr termítahraukum. Þessi uppgötvun kollvarpaði því þeirri hugmynd að það væri sérstaða mannsins að nota verkfæri. Þessar merkilegu niðurstöður urðu til þess að frekari fjárveitingar fengust í rannsóknir Goodall og þrátt fyrir að hún hefði ekki lokið grunnháskólagráðu var hún tekin inn í doktorsnám við Cambridge-háskóla.

evolution.jpgHrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða?Vísindavefurinn, 3. janúar 2011. Sótt 9. desember 2015. http://visindavefur.is/svar.php?id=58124.

Mynd af simpansa er af vef lauksins - sem er ekkert heilagt...


Menntamálaráðuneyti sveltir fagfélög

Mennta- og menningarmálaráðuneyti tilkynnti nýlega breytingar á úthlutun fjármagns til fagfélaga. Styrkir verða í framtíðinni aðeins veittir í sérstök verkefni sem eru ráðuneytinu þóknanleg eða í samræmi við stefnu þess.

Merkilegt er að frjálslyndi flokkurinn skuli standa fyrir slíkri forræðishyggju og stjórnræði. Fagfélög hafa stundað margþætt og lifandi starf, sem nærir fagstéttir kennara um allt land og skilar sér þannig í betri og upplýstari kennarastétt og vandaðari kennslu.

Að þessu tilefni sendi stjórn samtaka líffræðikennara frá sér bréf til ráðherra þar sem þessum fyrirætlunum er mótmælt. Bréfið birtist hér í heild sinni.

---

Reykjavík, 1. desember 2015
Til: Mennta- og menningarmálaráðherra
Efni: Rekstrarstyrkir til faggreinafélaga, MMR15090148

Í bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsettu 15. september 2015 segir

„Vakin er athygli á því að ráðuneytið hefur ákveðið að breyta verklagi við veitingu styrkjanna þannig að í framtíðinni verða þeir einungis veittir fyrir verkefni sem fagfélög eru fengin til að vinna fyrir ráðuneytið. t.d. til að fylgja eftir stefnu ráðuneytisins og forgangssviðmiðum.”

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að endurskoða þessa ákvörðun. Með þessari breytingu er faglegu sjálfstæði kippt undan faggreinafélögum auk þess sem þátttaka kennara af landsbyggðinni í stjórnarstarfi faggreinafélaganna er útilokuð.

Um leið og Samlíf þakkar fyrri styrki, gott samstaf og ítrekar að stjórnarmeðlimir og félagsfólk sé áfram tilbúið að vinna þau verkefni sem ráðuneytið kallar eftir teljum við mikilvægt að rekstrarstyrkir séu áfram veittir.

Árlegur styrkur til faggreinafélaga hefur verið 150.000 kr. undanfarin ár, hafði þá verið skorinn niður úr 800.000 kr. (var um tvenn mánaðarlaun kennara á ári) svo nú þegar er búið að setja starfsemi faggreinafélagins ansi þröngan stakk.
Rekstrarstyrkurinn hefur verið notaður til almenns rekstrar fag-félagsins eins og rekstrarskýrslur sem berast til ráðuneytis árlega sýna. Félagið er sameiningatákn líffræðikennara á öllum skólastigum, félagsfólk er frá leikskólum til háskóla. Félagið kemur að umræðu um kennslu í líffræði, heldur fundi um námskrárvinnu, námsefnisgerð, heldur úti heimasíðu og sendir árleg fréttabréf svo það helsta sé nefnt.
Stjórnarfólk starfar allt í sjálfboðavinnu.

Faggreinafélög hafa borgað ferðastyrki samkvæmt töxtum KÍ fyrir þá framhaldsskólakennara sem starfa fyrir félagið og búa utan höfuðborgar-svæðisins. Með niðurfellingu rekstrarstyrkja er þátttaka þessa hóps úti-lokuð.

Faggreinafélögin þurfa að hafa fjárhagslegt svigrúm til þess að vinna sem gagnrýnir og sjálfstæðir fagaðilar. Fagfélög hafa lagt sig fram um að eiga gott samstarf við yfirvöld menntamála um málefni sem á hverjum tíma þarfnast umræðu, faglegrar rýni og úrvinnslu.

Með bréfi þessu fer stjórn Samlífs fram á að ráðuneytið endurskoði ákvörðun sína varðandi styrkveitingar til faggreinafélaga og hækki styrkinn frekar en leggja hann niður.

Fyrir hönd stjórna Samlíf

Hólmfríður Sigþórsdóttir formaður


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband