Leita í fréttum mbl.is

Hrun í bleikjustofninum

Undanfarin ár hafa borist tíðindi af minnkandi veiði í sjóbleikjustofnum og sumum stofnum vatnableikja.

Bleikjan er kuldaþolnasti laxfiskurinn og einnig harðgerasti, því hún þarf minnst æti og getur framfleytt sér við ótrúlegar aðstæður.

Bjarni K. Kristjánsson prófessor á Hólum hefur rannsakað dvergbleikjur í lindum og litlum tjörnum við hraunjaðra, og ásamt samstarfsmönnum sínum komist að því að þær virðast hafa þróast oft á undanförnum 10.000 árum. En þá lauk síðustu ísöld og ný búsvæði opnuðust fyrir ferskvatnsfiska. Svo virðist sem sjóbleikja hafi þá farið að ganga upp í ár og vötn. Samfara landrisi (vegna þess að jökulhettan hélt ekki lengur niður landinu) einangruðust margir stofnar í vötnum eða ám ofan við stóra fossa. Sjóbleikjan gat ekki lengur gengið þangað upp, og stofninn sem fyrir var þróast í samræmi við aðstæður. Margir stofnar þróuðust í sömu átt, að undirmynntum dvergfiskum.

Í Mývatni  eru nokkrar gerðir af bleikjum, m.a. dvergbleikjur í hellum og hraungangakerfum sem tengjast vatninu. Bjarni og félagar eru einmitt að rannsaka þá stofna núna, og reyna að kortleggja skyldleika fiska í ólíkum hellum og mæla flutning á milli þeirra.

En stóra bleikjan í Mývatni hefur verið í mikilli niðursveiflu. Sögulega hafa veiðst um 27.000 fiskar í vatninu á hverju ári. En síðasta áratug hefur fjöldinn verið minna en 10% af því.

Guðni Guðbergsson sviðstjóra auðlindasviðs Veiðimálastofnunar fjallar um þetta í nýlegri skýrslu, sem rætt var um í Fréttablaðinu:

Guðni er sammála því að varla sé hægt lengur að tala um veiðistofn bleikju í Mývatni og að staðan sé verulegt áhyggjuefni. Í skýrslu sinni mælir hann með því að sem allra mest verði dregið úr veiði, sem hann segir að sé í raun hvatning til þess að veiði sé alfarið hætt um tíma. Dregið hefur verið úr sókn í bleikjustofninn síðustu þrjú ár. Vegna þess hefði mátt búast við hækkandi afla en Guðni segir að þær vonir hafi ekki ennþá ræst ennþá. Ennfremur er ekkert úr netaveiði undir ís fyrrhluta mars í Mývatni sem bendir til að hagur silungsins sé að vænkast, nema þvert á móti þar sem veiðin var lélegri en undanfarin tvö ár.

Guðni hefur einnig miklar áhyggjur af hugmyndum um virkjun í Bjarnarflagi, sem gæti mögulega raskað streymi vatns og jafnvel breytt efnasamsetningu vatnsins.

„Svo eru menn að tala um Bjarnarflag og þá hugsar maður með sér hver verður dropinn sem fyllir mælinn. Í mínum huga þá mega menn ekki tefla á tvær hættur með þessa stofna,“ segir Guðni en Landvirkjun hefur uppi áform um nýja og stærri jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag skammt austan Reykjahlíðar. Verulegar áhyggjur hafa komið fram um áhrif virkjunarinnar á grunnvatnsstreymi til Mývatns og efnasamsetningu þess, sem kunni að raska lífríki vatnsins.

Fréttablaðið 25. mars 2014. Vart hægt að tala um veiðistofn í Mývatni lengur

Ysta nöf og loftslagsvísindin

Loftslag jarðar er að breytast samfara aukinni losun loftslagstegunda af mannavöldum.

Þetta er staðreynd, en smáatriðin eru ekki alveg á hreinu.  Það er að segja, við vitum t.d. ekki alveg hversu mikið hitinn mun aukast, eða hvar hitinn breytist mest, eða hvaða aðrar afleiðingar það mun hafa fyrir veðrakerfi og strauma í höfunum.

En til að geta búið til góð líkön um væntanlegar breytingar þurfum vísindamenn að skilja  náttúrulegar sveiflur í hita og veðrakerfum. Við vitum öll um árstíðasveifluna, en einnig er vitað að stærri sveiflur eða umskipti gerast í veðurlagi jarðar. Íslendingar kannast flestir við Litlu ísöld, sem varaði frá 1450-1900.

Með því að kanna fjölda, samsetningu og dreifingu frjókorna í jarðlögum er hægt að meta sveiflur í loftslagi og öðrum þáttum.

Það er einmitt viðfangsefni fornvistfræði, sem er á mörkum líffræði og jarðfræði. Lilja Karlsdóttir doktorsnemi við Líf- og umhverfisfræðideild HÍ mun á morgun verja doktorsritgerð sína um birkifræ í jarðlögum.

Lilja var að rannsaka kynblöndun birkitegunda á nútíma (síðustu 10.000 ár, e. Holocene).

Erindi Lilju verður í Hátíðarsal aðalbyggingar kl 14.00 og heitir Kynblöndun íslenskra birkitegunda á nútíma lesin af frjókornum.

Prófdómari hennar Chris Caseldine prófessor við landfræðideild háskólans í Exeter flytur fyrirlestur mánudaginn 24.mars kl.16:30, í Öskju,stofu 132.

Heiti fyrirlestursins Chris er From esoteric fringe to Climategate – the changing role of Quaternary science over recent decades and into the future.

Ítarefni

Litla ísöld á wikipedia.


Laxlús og lyfjanotkun í Noregi

Líffræðifélag Íslands, NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna og Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands standa fyrir málstofum um líffræði og umhverfisfræði fiskeldis. Á málstofu 14. mars fluttu erindi erlendir sérfræðingar sem hafa rannsakað áhrif...

Fuglaflensuveirur hérlendis

Gunnar Þór Hallgrímsson dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, tók þátt í rannsókn á dreifingu veira meðal fugla á norðurhveli. Niðurstöðurnar sýna að hérlendis finnast margar gerðir fuglaflensuveira, og gæti Ísland verið suðupottur fyrir Evrópska,...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband