Leita í fréttum mbl.is

Halló þögla hugsun, viltu vera ein?

Hvað gerum við þegar ekkert er að gera?

Hvert leitar hugurinn þegar augun eru ekki að gleypa í sig umhverfið, eyrun samræður eða fingurnir form?

Hvernig líður okkur þegar við erum ein með hugsunum okkar?

Nýleg rannsókn sem birtist í Science tókst á við þriðju spurninguna. Rannsóknin verður rædd hér af áhuga og takmarkaðri þekkingu.

Einangrun sturlar hugann

Fyrir nokkru var sýndur þáttur í sjónvarpinu um franskan frumkvöðul sem vildi rannsaka innri klukku líkamans og hvernig menn brygðust við því að vera einangraðir í helli án þess að sjá klukku eða sólarupprás. Hann lýsti því hvernig einangrunin fór að hafa áhrif á sálarlífið, og hvernig hugsanirnar urðu einfaldari og tímaskynið brenglaðist.

Í þessu samhengi eru einnig minnisstæðar sögur Paul Auster um einfara í New York Trilogy. Þær fjalla um menn sem lenda í þeirri aðstöðu að dvelja einir í lengri tíma. Einn þeirra húkir í húsasundi í fleiri mánuði og bíður eftir því að sjá gamlan mann ganga inn í hús. Hugur mannsins í húsasundinu hrynur. Hann fer ekki einu sinni heim til sín eða baðast. Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig einangrun fer með huga, t.d. fanga eða þeirra sem týnast í mörkinni.*

Einveran er böl

Rannsóknin í Science byggðist á því að setja sjálfboðaliða í herbergi án bóka, sjónvarps, síma eða annarra hluta sem við notum til að "drepa tímann". Fólk þurfti að sitja þarna inni í 6-15 mínútur. Í ljós koma að flestum fannst óþægilegt að sitja ein með hugsunum sínum. Mun óþægilegra en að leysa einfalda þraut eða verkefni.

Í einni tilrauninni gat fólk gefið sjálfum sér létt rafstuð. Ótrúlega margir kusu að prufa að gefa sér rafstuð, frekar en að sitja einir með hugsunum sínum. Jafnvel þó að þau hefðu, samkvæmt spurningarlista sem lagður var fyrir í upphafi tilraunar, frekar kosið að borga pening en að fá rafstuð.

Rannsóknin hefur valdið töluverðri umræðu um orsakir og afleiðingar þessara tilhneyginga. Nú er rétt að minna á að ég er ekki sálfræðimenntaður, og get því ekki metið umræðuna sem slíkur. Ég styðst að miklu leiti við greinarstúf Kate Murphy í NY Times (No time to think).

Einvera er blessun

Dauðar stundir og einvera bjóða upp á innhverfa hugsun. Þá gefst okkur tækifæri á að hugsa um líf okkar, fortíð, framtíð og nútíð. Sannarlega leitar hugurinn oft til óleystra vandamála (finnum við betra húsnæði, mun hún elska mig áfram, jafnar afi sig af veikindunum) og gefur okkur þá tækifæri á að meta þau og jafnvel leysa. Í greininni í NY Times er vitnað í Ethan Kross, háskólann í Michigan (University of Michigan).

One explanation why people keep themselves so busy and would rather shock themselves is that they are trying to avoid that kind of negative stuff...

It doesn’t feel good if you’re not intrinsically good at reflecting. 

Niðurstöðurnar má einnig túlka sem merki um eirðarleysi mannfólks. Okkur líður illa í verkfalli, þar sem við þurfum eitthvað við að vera. Þróunarsálfræðingar gætu túlkað niðurstöðurnar þannig að árangur okkar sem tegundar sé tengdur þessu eirðarleysi. Lúsiðnir forfeður okkar voru duglegri að safna mat, reisa hús, skerpa vopn og sauma föt, og því hæfari. Þetta er óprófuð tilgáta, en samkvæmt henni er mögulegt að eirðaleysið finni sér annan farveg í veröld nútímans. Hér er ofgnótt áreitis, sjónvörp, tónlist og netið í símanum, sem heldur okkur frá skapandi iðju og hugsun.

Flestir túlka niðurstöðurnar þannig að hugur í einveru líði kvalir, mögulega vegna ofgnótt vandamála eða vegna þess að einveran er framandi. Ég held að hugurinn þurfi rólegar stundir, til að halda þræði og hugsa um hið mikilvæga lífinu. Sem er að mínu viti ekki tölvuleikir, fótbolti, bíó eða myndband af dansandi hömstrum, heldur persónlegur þroski, samband okkar við ættinga og vini, og velferð mannfólks. 

 

*Það eru vísbendingar um að þeir sem hafa yfirgripsmikla þekkingu og vald á flóknum hugmyndakerfum, t.d. tónlist, ákveðinni fræðigrein eða veröld Tolkiens, þoli frekar einangrun. Þeir geti drepið tíma og sársauka, með því að hleypa huganum inn á slíkar lendur.

Timothy D. Wilson o.fl. Just think: The challenges of the disengaged mind  Science 2014:  Vol. 345 no. 6192 pp. 75-77 DOI: 10.1126/science.1250830

Afneitunarhyggja og flóttinn frá raunveruleikanum

María lætur ekki bólusetja barnið sitt. Hans afneitar erfðabreyttum maís. Jakóbína afneitar þróunarkenningunni, og trúir að guð hafi skapað líf á jörðinni fyrir fjórum milljörðum ára. Trilli afneitar gögnunum úr lyfjaprófinu og heldur áfram að selja pillur með alvarlegum aukaverkunum. Blómberg afneitar loftslagsvísindunum og trúir því að breytingar á loftslagi séu óháðar athöfnum mannsins.

Þetta eru nokkur dæmi um afneitunarhyggju (denialism), þar sem hluti samfélagsins afneitar veruleikanum og sættir sig við þægilega lýgi í staðinn.

Ekkert okkar er fullkomlega rökfast eða höfum rétt fyrir okkur í öllum málum. Þannig að stundum getum við tekið rangar ákvarðanir, höldum t.d. að morgungull með erfðabreyttum maís sé slæmt þegar enginn gögn styðja þann grun. En menn eru ekki eylönd. Og afneitanir geta ferðast manna á milli, rétt eins og góðar fréttir af útsölum eða nýju sýklalyfi. Þar á ofan myndast oft einarðir hópar í kringum vissar afneitanir og lífskoðanir.

Ef við höldum okkur við afneitun á erfðabreyttum maís, þá er augljóst að fólk sem markaðsetur lífrænan lífstíl, matvöru, hjálpartæki og "lyflíki" hagnýtir sér þetta mál til að þétta raðir og vinna nýja liðsmenn.

Afneitunarhyggja

Í hinum vestræna heimi er ákveðin mótsögn. Við byggjum velferð okkar á framförum tækni og vísinda, og grunngildum upplýsingarinnar. En margar af afurðum tækni og vísinda vekja okkur ugg. Michael Specter fjallar um þetta í bók frá árinu 2009, sem heitir Afneitunarhyggja (denialism). Hann vitnar í dæmi Michael Lipton um rafmagn. Ef rafmagn hefði fyrst verið notað í stuðprik og rafmagnsstóla, í stað ljósapera og vifta, er mögulegt að samfélagið hefði afneitað tækninni.

Bók Specters fjallar um afneitanir forkólfa lyfjafyrirtækja á eigin gögnum. Hann rekur dæmið um Vioxx, sem hafði jók tíðni hjartaáfalla hjá þeim sem tóku það, en Merck reyndi að hylja þá staðreynd með spuna og öðrum óþverrabrellum. Lyfið var á endanum tekið af markaði.

Hann fjallar líka um trúnna á vítamín og lífrænan mat, sem eins og áður sagði byggir á að fá viðskiptavini til að gangast undir ákveðna afneitun á gæðum annarar fæðu og kostum hefðbundins landbúnaðar.

Menn smíða gervilíf

Einn kaflinn hreyfði samt við mér. Hann fjallaði um gervilíf, synthetic biology. Hann lýsir þar möguleikum nýrrar tækni til að erfðabreyta lífverum. Þessi aðferð er frábrugðin hefðbundinni erfðatækni að því leyti að fleiri breytingar eru gerðar og þær samhæfðar, t.d. á ákveðin efnaskiptakerfi. Þegar ég las þann kafla, þá fann ég til tilfinningalegra ónota. Þannig skildi ég (að vissu leyti) andstæðinga erfðabreyttra matvæla og lífvera. Viðbrögð þeirra hljóta að vera líkamleg og tilfinningaleg, og ansi sterk.

Sálfræðingar hafa sýnt fram á að við erum ekkert sérstaklega rökvís, og að djúpgreypt fælni eða skoðanir geta mótað hegðan okkar. Daniel Kahneman fjallar um þetta í bókinni "Að hugsa hratt og hægt" (Thinking fast and slow), sem við rituðum um fyrir nokkru (alger perla sú bók fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegri hugsun).

Gallar í bók Specters um afneitun

En umfjöllun þó Specters um gervilíf sé snörp og hreyfi við manni, þá er hún ekkert sérstaklega nákvæm. Hann er sekur um einfaldanir og óraunhæft mat á möguleikum tækninnar. Og að vissu leyti er það gallinn á bókinni allri. Hún er mjög snaggarlega skrifuð, uppfull af skörpum setningum og oft mjög háðskum. En rökflæðið er ekkert svakalega sterkt. Einnig afgreiðir hann afneitara á of einfaldann hátt.

Hann reynir ekki að skilja hvað fær fólk til að afneita tækni eða þekkingu?

Hvað er það í mannlegri hegðan sem fær okkur til að afneita vísindalegri þekkingu?

Hvað er það við miðlun þekkingar sem gerir fólki kleift að afneita henni?

Einnig spáir hann ekki í því hvernig við getum hjálpað fólki að yfirvinna fordóma á tækni eða félagslegum nýjungum?

En fyndnasti parturinn er að Michael Specter var afneitari sjálfur. Eins og DARSHAK SANGHAVI rekur í bókadómi í New York Times, þá hafði Specter sem blaðamaður ritað um kosti lyfjafyrirtækja og hvernig "óhefðbundnar" lækningar lofuðu góðu fyrir framtíðina. Í bók sinni hefur hann alveg söðlað um, og skammar Merck lyfjafyrirtækið fyrir að einblína á hagnað og fólk sem fellur fyrir boðskap um óhefðbundnar meðferðir og heilsubótarefni. Hann nýtir sér ekki tækifærið til að kafa í eigin afneitanir, og hvað hann þurfti til að sá villu síns vegar.

Bók Specters er hraðlesin og frísklega skrifuð. Hann vísar í ágætar heimildir og tekst á afneitunarhyggju, sem birtist á marga vegu í samfélagi nútímans. Hann hefði e.t.v. getað rýnt dýpra í ástæður fyrir afneitun og hvernig við sem einstaklingar og samfélag getum tekist á við fordóma okkar og afneitanir.

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um bókina bendi ég á tvo, ansi ólíka ritdóma í NY Times.

Ég get ekki beinlínis mælt með henni, nema í samhengi við aðrar betri bækur um skyld efni, bók Kahnemans og bækur Shermers (að neðan).

img_1137.jpgHér er smá raunveruleiki, sem væri sniðugt að flýja frá. Mynd AP.

Ítarefni.


Verjum afkvæmin fyrir ásókn mannfólks

Við mennirnir erum orðnir fleiri en 7 milljarðar. 7.000.000.000 einstaklinga, sem hver um sig þarf fæðu og húsnæði, klæði og eldsneyti, skraut og lyf, lífsfyllingu og minningar. Áður en frumbyggjar Ameríku námu þar land, bjuggu mörg stór dýr bæði norðan...

Tígrar líða undir lok, eftir að Mógli sigraði Séra Kan

Mógli úlfastrákur var hugarfóstur Rudyard Kiplings. Flestir kannast núna við Disney útgáfuna af sögunni, en sögur Kiplings voru mun frískari en það hvítþvegna kúltúrsull. Kipling var frægur fyrir "af því bara" (just so) sögur, þar sem allt var mögulegt....

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband