Leita í fréttum mbl.is

Gögnin ljúga ekki, hvorki um tamiflu né homeopatíu

Cochrane hópurinn hefur beitt sér fyrir vönduðum yfirlitsrannsóknum á mörgum lyfjum og læknisfræðilegum fyrirbærum. Heimspeki þeirra er að meta tilraunir og gögn með ströngustu gleraugum tölfræðinnar. Það þýðir að bera saman uppsetningu rannsókna, rannsóknarhópa og viðmiðunarhópa, mælistikur og aðra þætti sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar.

Þetta hljómar flókið, af því að þetta er flókið. 

En þetta er einnig ákaflega mikilvægt, því að illa hannaðar eða framkvæmdar rannsóknir eru ekki bara til óþurftar heldur geta þær kostað mannslíf.

Í morgun bárust fréttir af því að Cochrane hópurinn hefði loksins komist í gögn frá Roche lyfjafyrirtækinu um flensulyfið Tamiflu, og fundið út að lyfið standi ekki undir nafni. Ég legg áherslu á loksins, vegna þess að Roche var mjög tregt til að birta niðurstöður prófanna á lyfinu, jafnvel þótt að verklagsreglur krefðust þess.

Fyrir 5 árum hafði heimurinn miklar áhyggjur af fuglaflensufaraldri, og ríkisstjórnir keyptu fjöll af Tamiflu til að bregðast við. Samantekt frá Cochrane hópnum (2008) benti til að Tamiflu drægi úr áhrifum og stytti meðgöngu sjúkdómsins. En þá kom japanski barnalæknirinn til bjargar.

Keiji Hayashi áttaði sig á því að merkið var drifin áfram af gögnum úr einni grein, sem tók saman gögn úr 10 öðrum rannsóknum. Og, þetta er lykilatriðið, 9 rannsóknanna voru innanhús rannsóknir Roche. Það sem í kjölfarið fylgdi var tryllt sauðaleit (wild sheep chase), með ótrúlegum útúrsnúningum af hálfu fyrirtækisins. Eftir tæp 5 ár náðust gögnin úr klóm Roche, og þegar þau voru síðan greind af óháðum aðillum kemur í ljós að efnið mildar ekki áhrif flensunar.

Gögnin afhjúpa líka lygina á bak við hómeopatíu

Í dag birtust einnig fréttir af því að nýleg Áströlsk rannsókn afsannaði fullyrðingar um að smáskammtameðferðir séu nothæfar sem lækningar. Það er í sjálfu sér ekki ný frétt, allar kerfisbundnar og vandaðar rannsóknir á fyrirbærinu hafa komist að sömu niðurstöðu.

Í þessu tilfelli tala gögnin sínu máli, alveg eins og í tilfelli Tamiflu.

En samt lifir mýtan meðal fólks, og því er sannarlega nauðsynlegt að fjölmiðlar fjalli um þessa rannsókn. Ég ætla ekki að ræða smáskammta-þjóðtrúnna frekar hér, en vísa frekar á eldri pistil okkar og Ben Goldacre um sama efni.

Ítarefni:

Arnar Pálsson 19. nóvember 2007 Högun tilrauna og smáskammta"lækningar"

Arnar Pálsson 17. desember 2012  Smáskammtalækningar eru ekki studdar af vísindum

The Guardian 16. nóvember 2007 Ben Goldacre A kind of magic?

The Guardian 10. apríl 2014. Ben Goldacre  What the Tamiflu saga tells us about drug trials and big pharma

Ben Goldacre - Bad Pharma : review The Telegraph

Carl Elliott -  White Coat, Black Hat

Steindór J. Erlingsson Lyfjafyrirtæki og blekkingar, Fréttablaðið, 26. nóvember, 2009.


mbl.is Milljónum kastað í gagnlaus flensulyf?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband