Leita í fréttum mbl.is

Kröfur til akademískra starfsmanna

Rúnar Vilhjálmsson prófessor við Hjúkrunarfræðideild HÍ sendi góðan pistil á starfsmenn HÍ fyrr í dag. Hann gaf góðfúslegt leyfi fyrir því að ég endurprentaði hluta úr greininni hér.

Áhyggjuefni er hve takmarkaðar formlegar kröfur Háskóli Íslands gerir við ráðningu akademískra starfsmanna. Lögum og reglum samkvæmt er deildum enn heimilt að ráða lektora til starfa sem ekki hafa þá rannsóknaþjálfun sem felst í doktorsnámi. Dæmi eru jafnvel um að ráðnir hafi verið lektorar sem ekki luku rannsóknarritgerð í meistaranámi sínu (en skrifuðu í staðinn yfirlitsritgerð). Meira að segja leyfa lög og reglur Háskólans að dósentar og prófessorar séu ráðnir til starfa án þess að hafa doktorsmenntun. Um þetta segir í 16. grein laga um opinbera Háskóla: „Þeir sem hljóta akademískt starf við háskóla eða háskólastofnun skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar.“ 41. grein reglna Háskóla Íslands er nánast samhljóða en þar segir: Þeir sem hljóta akademískt starf við háskólann eða stofnun hans skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar...

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Háskólinn hefur sett sér stefnu um að komast í hóp 100 bestu háskóla heims. Þessir 100 háskólar (og raunar miklu fleiri skólar) gera almennt þá kröfu til lektora að þeir hafi lokið doktorsnámi í fræðigrein lektorsstöðunnar. Sama er að segja um forstöðumenn rannsóknastofnana. Að ekki sé talað um ráðningu eða framgang dósenta og prófessora. Ástæðan er einföld: Sterkt samband er milli menntunarstigs og rannsóknarvirkni. Þeir sem ekki hafa lokið doktorsnámi skila mun minni árangri í rannsóknum en þeir sem doktorsmenntun hafa. Raunar er menntunarstig kennara og sérfræðinga einn sterkasti mælikvarði á rannsóknaárangur háskóladeilda og rannsóknastofnana. Torsótt verður fyrir Háskólann að komast í hóp 100 bestu háskóla heims ef hann setur sér ekki og framfylgir því viðmiði almennt, að þeir sem ráðnir eru í starf háskólakennara eða forstöðumanns rannsóknastofnunar hafi doktorsmenntun.

 

Það var ekki fyrr en síðdegis að ég fór á vef HÍ og sá frétt um ráðningu Ástu Möller. Það er mögulegt að það hafi verið kveikjan að pistli Rúnars (þó ég geti ekkert um það fullyrt). Hann gætir þess altént að móðga ekki nýja stjórnandanna beint...

Framangeind orð eru sögð með fullri virðingu fyrir öllum þeim einstaklingum sem sótt hafa um og fengið téðar stöður. Vandinn er ekki þeirra heldur skólans sjálfs og þeirra sem ábyrgð bera á ráðningarmálum skólans.

 

 

Mér þætti reyndar gaman að vita hvernig þessi ráðning sé fjármögnuð, því nú verður 10% niðurskurður á fjármagni til HÍ. Ætli peningurinn fáist ekki með því að skera niður þá sem gagnrýna...úps.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, þegar þú minnist á þessa frétt á forsíðu HÍ þá verður póstur Rúnars skiljanlegri. Annars veit ég ekki hvort hægt sé að kalla þennan forstöðumann akademískan. Forstöðumaður þessarar stofnunar er ekki akademískt ráðinn, ekki með rannsóknaskyldu og tekur ekki laun á sama hátt og akademískir starfsmenn gera.

Þá hefur skólinn gert góðan skurk í menntunarmálum akademískra starfsmanna og nú er það meginreglan að gerð er krafa um doktorspróf við nýráðningar. Samt er það svo að í vissum greinum er erfitt að gera þessa kröfu þar sem doktorsmenntun er ekki mjög algeng (miðað við fjölda), t.d. í lögfræði, viðskiptafræði og í tannlæknisfræði

baddi (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 22:02

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Þakka þér Baddi fyrir athugasemdirnar.

Ég held reyndar að bréfið standi óháð nýjustu ráðningu HÍ.

En ef önnur manneskja, með doktorspróf og mikla reynslu sótti um viðkomandi, en fékk stöðuna ekki, þá er augljóst að stjórn HÍ hefur dregið svarta Pétur viljandi og þarf að svara svona gagnrýni!

Vitanlega verður að taka tillit til mismunar á starfsgreinum, sumar eru ekki með mikla hefð fyrir framhaldsnámi eða doktorsgráðum, en þetta ætti samt að vera grundvallarreglan.

Háskólagráður eiga ekki að vera mælikvarði allra hluta, það skiptir einnig máli að viðkomandi hafi skilað góðu starfi áður, og henti fyrir verkefnið.

Ég veit heldur ekki hvort að þessi staða sé akademísk, en tel heppilegast að yfirmaður akademískra starfsmanna að hafa skilning á akademísku starfi.

Arnar Pálsson, 19.1.2010 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband