Leita í fréttum mbl.is

Tígrisdýr og taðflugur

Við erum tjóðruð af skilningarvitum okkar. Við vitum að tígrisdýr eru stór og kröftug rándýr, sem vekja með okkur ótta og virðingu. Taðflugur eða mykjuflugur vekja allt aðrar kenndir (hroll en enga virðingu), ef við svo mikið sem tökum eftir þeim.

Aldrei myndum við heyra Zulkifli Hasan, utanríkisráðherra Indónesíu, segja

Við erum hér saman komin til þess að ræða áhyggjur okkar af sjálfbærni taðflugnanna

Auðvitað er mikilvægt að vernda tígrisdýrin, og það væri svo sannarlega sorglegt ef þau hyrfu af yfirborði jarðar.

En hvers vegna væri það sorglegt? 

99.999% allra tegunda sem orðið hafa til á jörðinni hafa dáið út. Útdauði er eitt víðtækasta lögmál líffræðinnar, á sama borði og erfðalögmál Mendels og þróunarkenning Darwins og Wallace. Hví ættum við að kippa okkur upp við að ein tegund í viðbót "lúti í gras" (eins og Bjarni Felixson sagði)? 

Ein ástæða gæti verið sú að maðurinn ræður nú lögum og lofum á jörðinni, og hefur beint eða óbeint áhrif á tilvist margra annara tegunda. Í aðra röndina hömpum hveitiplöntum og beljum, klónum bananna fyrir Latabæ og gersveppi fyrir Ölgerðina, en hina röndina eyðum við skógum, mýrum og ströndum, og þar með líffræðilegum fjölbreytileika (tegundum, erfðabreytileika og vistkerfum). Berum við sem "drottnarar" jarðar einhverjar skyldur gagnvart náttúrunni (Ath. ég kvitta ekki undir þá gömlu biblíulegu skilgreiningu að maðurinn séu útvalinn drottnari Jarðar).

Það eru hagnýt rök fyrir því að varðveita náttúruna, til að verja vatnsból, erfðabreytileika, bæta loftslag og verja beitiland/akra.

En höfum við einhverjum siðferðilegum skyldum að gegna gagnvart náttúrunni?

Eða eigum við bara að horfa til hennar sem nýtanlegrar auðlindar?

Ólafur Páll Jónsson segir að náttúran hafi innra gildi, óháð skammtímasjónarmiðum nýtingarsinna.


mbl.is Ræða verndun tígrisdýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

En höfum við einhverjum siðferðilegum skyldum að gegna gagnvart náttúrunni? Já.

Eða eigum við bara að horfa til hennar sem nýtanlegrar auðlindar? Nei.

Vendetta, 12.7.2010 kl. 15:57

2 Smámynd: Vendetta

Það eru skiptar skoðanir á því hvað mönnunum ætti að leyfast og hvað ekki. Sumir álíta að þróun Homo sapiens sapiens séu stærstu mistök náttúrunnar. Dýra-og plöntulíf væri allavega í jafnvægi, ef Cro-Magnon maðurinn hefði skyndilega dáið út. Því að þótt chimpanzar séu fremri mönnum í sumu (m.a. hafa þeir betra minni), þá er ólíklegt að þeir hefðu náð að komast í yfirburðarstöðu á milljón árum. En það veit svo sem enginn.

Og það er víst, að mannkynið hefur haft neikvæð áhrif á eðlilega þróun villtra dýra með því að útrýma eða fækka verulega ýmsum dýrategundum í fæðukeðjunni, sér í lagi sl. 3 - 4 aldir. Þess vegna hefurinn maðurinn, sem er eina dýrið sem getur stjórnað náttúrunni upp að vissu marki, eða amk. eyðilagt hana, einn ábyrgð á því að varðveita það sem eftir er.

Hins vegar mætti alveg fækka einstaklingum um svona nokkra billjarða af þeim tegundum sem leitast við útrýma mér, t.d. bitmýi. Og ég hef ekki mikla samúð með vissum öðrum meindýrum af skordýrakyni. En skordýr eru líka þau dýr sem ómögulegt er að útrýma. En allar aðrar dýrategundir ber að varðveita og bezta leiðin til þess er að láta vistkerfi þeirra vera óhreyfð.

Það eru skammtíma- og gróðasjónarmið sem ráða því að regnskógum Suður-Ameríku, Afríku og Indónesíu er eytt. Og öfugt við lauf- og barrskóga eru regnskógar ekki sjálfbærir, nema þeir séu látnir í friði.

Vendetta, 12.7.2010 kl. 16:29

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ef þú kvittar ekki undir það sem segir í biblíunni um hlutverk mannsins í náttúrunni er það vegna þess að það er ekki verið að ræða sama siðferðishlutverk og þú bryddar uppá?

Getur verið að ritendur á dögum biblíunnar hafi raunverulega skilið hversu inngrip mannkynsins er afdrifaríkt? Arfsögnin um Nóa segir okkur um "val" mannsins á þeim dýrum sem fengu að lifa af. Auðvitað vil ég ekki að þú þurfir að kvitta undir allt sem stendur í biblíunni frekar en öðrum ritum, en var ekki þetta komment dálítið "paranóíd"? Biblían er orðin "óhrein" fyrir þá sem "trúa á" vísindin.

Varð bara að kverúlera um þetta þar sem "hreinleiki" vísindalegrar hugsunar er orðinn jafngildur "heilögu orði" biblíunnar hjá ansi mörgum.

Mín afstaða er ekki trúarleg þegar ég tel að við berum siðferðilega ábyrgð á athöfnum okkar gagnvart 3ja aðila einsog náttúrunni, en ég gæti gert hana að trúarlegri sannfæringu minni jafnvel án þess að vitna í biblíuna. Reyndar hef ég átt erfitt með að finna klára boðun í biblíunni um varðveislu jurta og dýra. Ef einhver getur leiðrétt mig er það kærkomið.

Gísli Ingvarsson, 12.7.2010 kl. 21:10

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Vendetta fyrir athugasemdina.

Ef við (homo sapiens sapiens) hefðum ekki þróast er líklegt að þessi fjöldi tegunda sem nú hefur eða er við það að deyja út, hefði þraukað. Reyndar er talið að stór dýr í Afríku hafi haldið velli þrátt fyrir veiðar forfeðra okkar og náfrænda (Australopithecus, homo habilis o.s.frv.) en að þegar forfeður okkar komu til Ameríku hafi stór dýr þess meginlands ekki átt möguleika (forfeður okkar hafi útrýmt þeim á nokkrum öldum eða árþúsundum).

Gísli

Takk fyrir góðan punkt. Það sem ég átti við, var að ég trú því ekki að maðurinn hafi verið settur yfir lífríki jarðar sem drottnari. Biblían er ekkert óhrein fyrir mér, en ég finn lítið í henni sem gagnast mér í vísindum og sýn á náttúruna. Reyndar er hreyfing innan margra amerískra söfnuða sem leggur áherslu á náttúruvernd, sem byggir á þeirri skoðun að um sé að ræða sköpun guðs og að sköpunina beri að varðveita.

Niles Eldredge sem hefur verið ötull við að hrekja lygar sköpunarsinna bendir á að þarna sé flötur sem líffræðingar og kristnir geta sameinast um. Líffræðingum er upp til hópa umhugað um náttúruna og margir kristnir eru það einnig. Niles óskar þess að þessir hópar gætu samnýtt krafta sína til að vernda náttúruna, í stað þess að þræta um uppruna og þróun lífsins.

En það er vissulega athyglisvert að velta fyrir sér hver sé hvort hreinleiki vísindalegrar hugsunar sé kominn í stað heilags orðs biblíunar.

Aðal vandinn er að vísindin hjálpa okkur ekki mikið við að skilja "rétt og rangt" eða siðferðilegar spurningar. Biblían leggur nokkrar línur í þessum málum, en finna má í henni mótsagnir og skoðanir sem við höfnum nú til dags.

Mér finnst þetta mál, siðferðileg skylda okkar gagnvart náttúrunni vera hið erfiðasta. Hver er siðferðileg skylda okkar gagnvart dauðum hlutum - eins og gullfossi eða Geysi? Hver er siðferðileg skylda okkar gagnvart tigrísdýrum, taðflugum, vespum, þráðormum, bakteríum og rotsveppum?

Arnar Pálsson, 13.7.2010 kl. 14:09

5 identicon

Við gætum verið næst. Hver sem við erum, við höfum komist að mörgu, en við vitum ekki enn hver við erum. Og hver erum "við", erum við öll það sama, sama tegundin? Er það virkilega? Og komum við frá þessari plánetu? Eða kannski ekki?

Y O X C (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 03:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband