Leita í fréttum mbl.is

Rithöfundalaun

Nokkrir af samstarfmönnum mínum við Líffræðistofnun og aðrir vinir og kunningjar hafa staðið í því að skrifa fræðirit á Íslensku. Margar af þeim bókum eru hreint stórkostlegar, vel skrifaðar, hugsaðar og myndskreyttar. Samt sem áður er það allur gangur á því hvernig þessum fræðimönnum gengur að fá greitt fyrir störf sín. Þeir sem starfa innan Háskólaumhverfis er umbunað með svokölluðu stigakerfi, og fá greidda einhverja umbun eftir á (yfirleitt mjög hóflega). Hinir þurfa að sækja um rithöfundalaun eða styrk frá fræðimannasjóði Rannís. Sigrún Helgadóttir gerir rithöfundalaun að umræðuefni í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í dag (og finna má á vísi.is). Hér fylgja nokkrar málsgreinar úr pistli hennar:

Rithöfundar á Íslandi geta sótt um laun í tvo opinbera sjóði, Launasjóð rithöfunda sem er hluti listamannalauna og Launasjóð fræðiritahöfunda hjá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís). Sérstakar nefndir úthluta úr sjóðunum, vega og meta umsóknir höfunda og ákveða hverjir fái laun fyrir að semja fyrir þjóðina, hugsanlega verðandi listaverk eða grundvallarrit um íslensk fræði, samfélag eða náttúru. Þeir sem ekki hljóta náð fyrir augum sjóðstjórna skrifa í sjálfboðavinnu og basla jafnhliða við önnur störf ef þeir ekki gefast upp. Úthlutanir sjóðanna má sjá á heimasíðum þeirra og ég skoðaði þar sérstaklega síðustu þrjú ár. ...[]..

Í reglugerð um Launasjóð fræðiritahöfunda segir að rétt til að sækja um í sjóðinn hafi höfundar alþýðlegra fræðirita, handbóka, orðabóka og viðamikils upplýsingaefnis á íslensku í ýmsu formi. Sjóðurinn úthlutar 36 mánaðarlaunum á ári en árið 2008 voru þau þó 10. Síðustu þrjú ár hefur sjóðurinn launað 22 höfunda.

Þetta eru verktakalaun, í ár 320 þús. kr. á mánuði og enginn fær meira en sex mánaða laun á ári. Mjög fátítt er að sjóðurinn veiti sama höfundi oftar en einu sinni og líklega þekkist ekki að höfundur fái laun úr sjóðnum tvö ár í röð. Sjóðstjórnir hafa greinilega gætt jafnræðis á milli karla og kvenna en síður þegar horft er til fræðasviða. Aðeins þrír höfundar hafa fengið laun til að skrifa um náttúru Íslands, einn á ári. ...[]...

Á síðustu þremur árum hefur verið veitt um sexfalt hærri upphæð til fagurbóka en fræðibóka úr þessum opinberu sjóðum. Það vekur einnig furðu að verk nokkurra höfunda, sem hlotið hafa laun af opinberu fé til að skrifa fyrir almenning, eru vandfundin og spurning hvernig þjóðin á að finna þau til að njóta.

Hinir opinberu rithöfundasjóðir hafa á síðustu þremur árum launað fjóra karla í 39 mánuði samanlagt (um 2% af laununum) til að skrifa um náttúru Íslands fyrir almenning.

Nú auglýsir Launasjóður rithöfunda eftir umsóknum fyrir árið 2011. Er ekki bara tímasóun fyrir kvensnift eins og mig að sækja enn einu sinni um til slíkra verka?

Nógu erfitt er það fyrir karlana. Á ég ekki bara að snúa mér að öðru?

Nýjasta bók Sigrúnar fjallar um Jökulsárgljúfur - Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli, margrómuð og verðlaunuð bók sem tvinnar saman útivist, náttúru og sögu náttúruverndar svæðisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Ekki veit ég hvers vegna er verið að (verð)launa höfunda íslenzkra fagurbókmennta. Ég les aldrei þannig bækur, enda hafa þær yfirleitt mjög takmarkað gildi nema fyrir höfundinn sjálfan. 

Vendetta, 2.9.2010 kl. 12:23

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Mér finnst allt í lagi að samfélagið borgi laun fyrir nokkur skáld, listamenn og fræðimenn. En það verður að vera gagnsætt kerfi sem farið er eftir við úthlutun, gæta verður sanngirni og athuga sérstaklega að ekki sé hallað á konur eða minnihlutahópa.

Arnar Pálsson, 2.9.2010 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband