Leita í fréttum mbl.is

Gæði háskólarannsókna á tímum kreppu

Grein Magnúsar K. Magnússonar og Eiríks Steingrímssonar Háskólarannsóknir á tímum kreppu og gæði þeirra úr Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. október 2010 er hér birt í heild sinni:

Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fara í gegnum samkeppnissjóðina.

Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fara í gegnum samkeppnissjóðina. Í hinum vestræna heimi er þetta hlutfall víðast mun hærra og er um 30-40% á hinum Norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum koma um 85% af rannsóknafé háskóla úr samkeppnissjóðum. Það er því ljóst að Ísland sker sig verulega úr hvað þetta varðar.

Samkeppnissjóðirnir tryggja gæðaeftirlit með rannsóknunum. Rannsóknaverkefni og virkni vísindamanna sem sækja um styrki eru metin reglulega og þegar dregur úr virkni eða hugmyndaauðgi, fá viðkomandi vísindamenn ekki styrki lengur. Hér á landi nær þetta eftirlit aðeins til þess hluta af framlagi ríkisins sem fer gegnum samkeppnissjóði. Sumir íslensku samkeppnissjóðanna, t.d. Rannsóknasjóður, notast nú við erlenda matsaðila þannig að flestar, ef ekki allar, umsóknir fara í mat erlendra, óháðra vísindamanna. Þannig fæst óháð mat á gæðum íslenskra vísindaverkefna og vísindamanna. Sjóðurinn og þjóðin ættu því að vera nokkuð viss um að þessu fé er vel varið. Aðrir sjóðir notast við innlenda matsaðila og ættu, í ljósi jákvæðrar reynslu Rannís, að breyta þeirri stefnu sinni og taka upp erlent mat. Sumir hinna sjóðanna eru reyndar fremur pólitískir sjóðir og eiga lítið skylt við alvöru vísindasjóði. Sem dæmi um slíkan sjóð er AVS (Aukið verðmæti sjávarfangs) en nýskipaður stjórnarformaður hans er þingmaður og náinn samstarfsmaður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Mikill munur er einnig á árangurshlutfalli íslenskra vísindasjóða. Sem dæmi má nefna að í Rannsóknasjóði er þetta hlutfall að nálgast 10% en er 50% í AVS. Þetta þýðir að það er mun meiri samkeppni um fé úr Rannsóknasjóði en AVS.

Hvað með gæðaeftirlit með hinum 85-90 prósentunum af framlagi ríkisins til rannsókna? Staðreyndin er sú að með þeim er lítið sem ekkert ytra eftirlit og ekkert er spurt um gæði eða árangur. Þessu þarf að breyta. Víðast erlendis er strangt gæðaeftirlit með öllu fé sem veitt er til rannsókna til að hámarka nýtingu almannafjár. Við erum ekki að tala um hefðbundið bókhaldseftirlit heldur eftirlit með gæðum rannsóknanna. Í Bandaríkjunum og víða í Evrópu er þetta oftast gert á þann hátt að á 5 ára fresti þarf hver rannsóknastofa að útskýra fyrir sérstakri úttektarnefnd vísindamanna hvað stofan hefur gert á tímabilinu og hvað hún hyggst gera næstu 5 árin. Rannsóknastofan undirbýr vandlega skýrslu sem nefndin fær til yfirlestrar, nefndin mætir síðan á rannsóknastofuna þar sem verkefnin eru útskýrð með fyrirlestrum, farið er yfir árangurinn og hann metinn og skoðað hvort framtíðaráætlanirnar séu raunhæfar. Að lokum kemst úttektarnefndin að niðurstöðu sem sett er fram í viðamikilli skýrslu. Í úttektarnefndinni eru yfirleitt leiðandi vísindamenn á viðkomandi sviði sem ekki hafa starfað með viðkomandi rannsóknastofu en þannig er tryggt að úttektin sé fagleg og óháð. Við höfum kynnst svona úttektum í störfum okkar erlendis. Þessi aðferð virkar afar vel. Hún er fagleg og leiðir til gagnrýninnar umræðu. Rannsóknastofum er hrósað fyrir það sem vel er gert en þær gagnrýndar fyrir það sem miður hefur farið. Niðurstöður slíkra úttekta eru síðan notaðar við ákvarðanatöku og stefnumótun.

Hér á landi er ekkert slíkt gæðaeftirlit með þeim fjölda stofnana sem stunda vísindarannsóknir. Hið opinbera, og þar með skattgreiðendur, vita því ekki hvort þessu fé er vel varið. Vísinda- og tækniráð hefur þó nýlega tekið málið til umfjöllunar og segir í núverandi stefnu ráðsins: "Sjálfstæð greiningarvinna á afrakstri rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði styrkt hér á landi og unnin af óháðum aðilum". Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýlega sett á fót Gæðaráð háskóla sem ætlað er að skoða gæðamál innan háskóla, þ.á?m. tengsl kennslu og rannsókna. Ráðið er skipað sex erlendum aðilum og ætti því að geta verið faglegt og óháð. Það vekur furðu að Gæðaráðið er einungis skipað einstaklingum úr hug-, félags- og menntavísindageiranum. Í því eru engir með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum, þeim greinum vísindanna sem sterkust eru á Íslandi. Það er áhyggjuefni enda mikill munur á vinnubrögðum í raun-, heilbrigðis- og lífvísindum annars vegar og félags-, hug- og menntavísindum hins vegar. Gæðaráðið er því ólíklegt til að geta lagt mat á gæði rannsókna í raun-, heilbrigðis- og lífvísindum. Þessu þarf að breyta til að slík úttekt verði trúverðug.

Við leggjum því til að i) hafið verði gæðaeftirlit með öllu rannsóknafé á Íslandi; ii) við þetta eftirlit verði notast við þær aðferðir sem gefist hafa best annars staðar (sbr. hér að ofan); iii) niðurstöður slíkra úttekta verði notaðar við ákvarðanatökur; iv) í gæðanefndina verði skipaðir aðilar úr raun-, heilbrigðis- og lífvísindageirunum.

Sjá einnig:

Fjármögnun vísindarannsókna á tímum kreppu

Grunnannsóknir á tímum kreppu og hlutverk háskóla

Sameiginleg hlutverk og baráttumál vísindafólks


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

"Það vekur furðu að Gæðaráðið er einungis skipað einstaklingum úr hug-, félags- og menntavísindageiranum. Í því eru engir með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum, þeim greinum vísindanna sem sterkust eru á Íslandi. Það er áhyggjuefni enda mikill munur á vinnubrögðum í raun-, heilbrigðis- og lífvísindum annars vegar og félags-, hug- og menntavísindum hins vegar."

Þar eð nær enginn íslenzkur embættismaður í menntamálaráðuneytinu og tengdum stofnunum né nokkur menntamálaráðherra, hefur neina vísindalega menntun eða þekkingu, þá er augljóst að ástandið er bágborið. Það væri tilvalið að reka Katrínu Jakobsdóttur og skipa einhvern utanþingsráðherra, sem hefur bakgrunn í raunvísindum.

Vendetta, 15.10.2010 kl. 13:32

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Vandamálið er gæðaráðið og sú hefð innan stjórnsýslunar að leggja meiri áherslu á samantektir en eiginlegar rannsóknir. Ráðaneytin eru mjög viljug að kynna samantektir og glansgröf um hlutfall þjóðarframleiðslu sem fer til rannsókna, en líta fram hjá því hversu lítill hluti fjárins fer í gegnum samkeppnissjóði eða stofnanir á Háskólastigi.

Raunvísindin hafa verið raddlaus og án fulltrúa á þingi og í stjórnsýslunni. Það eru tveir líffræðingar á þingi Össur Skarphéðinsson og Álfheiður Ingadóttir, en þau hafa ekki beinlínis lagt áherslu á grunnrannsóknir og raunvísindi í sínum þingstörfum. 

Arnar Pálsson, 15.10.2010 kl. 15:56

3 Smámynd: Vendetta

Væri þá ekki betra ef Össur væri menntamálaráðherra í staðinn fyrir Katrínu frekar en utanríkisráðherra? Eða væri hann þá heldur ekki að sinna þessum málaflokki? 

Vendetta, 15.10.2010 kl. 16:21

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Er ekki Össur bara að spá í pólitík, ekki menntastefnu ríkisins.

Steingrímur J. er jarðfræðingur, og hann er mest að vinna í því að rétta af fjárhag ríkisins.

Samt finnst mér eins og stjórnarliðar hafi ekki haft neina hliðsjón af menntastefnu finna í kjölfar kreppunar í lok síðustu aldar.

Arnar Pálsson, 15.10.2010 kl. 17:02

5 Smámynd: Vendetta

"Samt finnst mér eins og stjórnarliðar hafi ekki haft neina hliðsjón af menntastefnu Finna í kjölfar kreppunar í lok síðustu aldar."

Hvernig lítur þetta þá út í Finnlandi? Maður heyrir ekki mikið af finnskum rannsóknum.

Vendetta, 15.10.2010 kl. 17:08

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Það heyrist mun meira af þeim en íslenskum. Þeir efldu grunnrannsóknir og sérstaklega samkeppnissjóðina í kreppunni sinni, sem er talið hafa hjálpað þeim að jafna sig.

Arnar Pálsson, 15.10.2010 kl. 17:41

7 Smámynd: Vendetta

Ef ég má breikka umræðusviðið í umræðu um fjárframlög til almenns háskólanáms, þá er það dæmigert af svona skilningslausri manneskju eins og Kartrínu Jakobsdóttur að skrifa í greinargerð:

"Ódýrasti reikniflokkurinn, reikniflokkur 1, þ.e. nám á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði, lögfræði og annað sambærilegt nám, hefur lengi verið talinn vanmetinn í líkaninu. Tæplega helmingur alls háskólanáms fellur undir þann reikniflokk og var við endurskoðun á líkaninu lögð áhersla á að hækka reikniflokk 1 en þar með lækka aðrir reikniflokkar á móti."

Það sýnir skilningsleysi og heimsku menntamálaráðherra að álíta að bara það að einhverjar deildir sé kostnaðarminna að reka en aðrar, þá þurfi að auka fjárframlög til þeirra á kostnað annarra deilda!!!

Að mínu áliti ætti frekar að lækka framlög til áðurnefndra deilda (leggja guðfræðideildina niður svo og kynjafræði og minnka framlög til félagsfræði) og færa það sem sparast við þetta óskorið til Raunvísindadeildarinnar, sem er mikilvægasta deild HÍ, hvernig sem á það er litið.

Vendetta, 17.10.2010 kl. 12:38

8 Smámynd: Vendetta

Með svona hugsunarhætti og forgangsröðun eins og stjórnvöld hafa gagnvart háskólanámi, þá er engin furða þótt HÍ komist ekki einu sinni á lista yfir 500 beztu háskólana.

Vendetta, 17.10.2010 kl. 12:42

9 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Mér finnst ljótt af þér, Vendetta, að tala um að Katrín sé heimsk. Hennar niðurstaða kann að vera röng og þá er um að gera að benda á það, en með hóflegu orðavali til að sem flestir vilji heyra það. 

Kristinn Theódórsson, 17.10.2010 kl. 22:02

10 Smámynd: Vendetta

Kristinn, ætlarðu að ritskoða mig hér? Það er mín skoðun, að það sem hún gerir sé heimskulegt og ég stend fast við það. Einnig get ég sagt að forgangsröðun hennar byggi á þröngsýni hennar og fáfræði. En ég er ekki að segja að hún sé heimskari en aðrir ráðherra í þessari ríkisstjórn.

Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að forgangsraða í ríkisreknum háskólum, enda eru deildir skólans mismikilvægar fyrir þjóðfélagið. Það sem Katrín Jakobsdóttir ætlar að gera er að fara í kolvitlausa átt.

Vendetta, 17.10.2010 kl. 22:39

11 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ég er ekki að ritskoða þig með þessari gagnrýni frekar en þú ert að ritskoða mig.

Það er eitt að segja eitthvað vera heimskulegt og annað að segja eitthvað sýna heimsku einhvers.



Í nýja innleggi þínu ertu réttu megin við línuna

Kristinn Theódórsson, 17.10.2010 kl. 22:46

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Vendetta er heitt í hamsi, og réttilega.

Auðvitað er óþarfi að kalla fólk heimskt, eða geðveikt.

Ég tek undir það sem Vendetta segir um forgangsröðunina. Annars fannst mér Katrín vera frekar afstöðulaus í greininni um reikniflokkana. Þeir væru bara fyrir ríkið til að útdeila peningum, en að Háskólarnir gætu sjálfir ákveðið hvað þeir gerðu við peninginn.

Nei takk fyrir, hún gæti allt eins sturtað klinki á Háskólatorg og sagt háskólamönnum að mæta og hirða það sem þeir vildu. Það myndi leiða til glundroða.

Ríkið þarf að hafa stefnu varðandi háskólamenntun og nýsköpun. Reikniflokkarnir eru vísbending um það hvaða nám er dýrt og hvað er ódýrara í kennslu. Á þessum tímum þarf einnig að huga að nýsköpunartækifærum.

Við þurfum raunvísinda og tæknimenntað fólk, sem kann á viðskipti. Við ættum frekar að búa til leiðir fyrir blandaðar námsleiðir, þar sem fólk með áhuga á rekstri og viðskiptum tekur raungreinapróf og skimar eftir möguleikum og lausnum við vandamálum samfélagsins. 

Ég viðurkenni (með stolti) að námið í líffræði er fræðilegt, það miðar að því að útskrifa fólk með trausta grunnþekkingu og í bestu nemendunum efnilega vísindamenn. En á sama tíma veit ég að það væri hægt að leggja meiri áherslu á hagnýtingu þekkingarinnar - og þá ekki bara til þess að skaffa vísindalega hljómandi umgjörð utan um krem eða pillur.

Arnar Pálsson, 18.10.2010 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband