Leita í fréttum mbl.is

Munur á kristnifræði, trúarbragðafræði og trúboði

Umræðan um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sýnir í hnotskurn hversu lélegri við íslendingar erum í því að ræða saman málefnalega.

Frá því að tillögurnar voru kunngjörðar hefur umræðan verið mjög fjörug, en því miður lituð af fordómum, miskilningi, rangtúlkunum og sleggjudómum. Örn Bárður blés til sóknar í síðustu viku (grein á pressunni:Gildahlöður og menningarbylting) og sagði meðal annars:

Hvað má gera með börnum? Hvað má kenna í skólum? Við þurfum að taka það allt til endurskoðunar, einkum í ljósi þess, að nú er hamast á kirkju og kristni sem aldrei fyrr og boðskapurinn um frið og kærleika sem þaðan kemur er af fámennum hópi talinn hættulegur börnum þessa lands.

Kristinn Theodórsson hakkar þessa þvælu í sig:

Hér er um tvær rökvillur/útúrsnúninga að ræða.

Það þarf ekki að taka „allt“ til endurskoðunar þótt eitthvað eitt sé tekið til endurskoðunar. Það vitum við vel og þetta er bara óheiðarlegt orðaskak.

Og „boðskapurinn um frið og kærleika“ er ekki talinn „hættulegur börnum þessa lands“, þetta eru hreinir útúrsnúningar hjá Erni Bárði og afskaplega lágkúrulegir. Þyki einhverjum boðskapur kristninnar hættulegur eða óheppilegur þá er það að sjálfsögðu ekki sjálfur boðskapurinn um „frið og kærleika“ sem þykir vondur. Ég veit ekki hvernig yfirlýstur fylgismaður boðorðanna tíu fær sig til að skrifa svona undirförla þvælu og birta í fjölmiðlum undir nafni.

Örn Bárður heldur áfram og röksemdafærslan verður sífellt furðulegri. Fyrst dregur hann upp bein tengsl milli tillaga mannréttindaráðsins og menningarbyltingarinnar í Kína, síðan fetar hann beint út í það kviksyndi að segja að allt sé gildishlaðið og því megi gildishlaðið trúboð Kirkjunnar viðgangast.

Viljum við kannski þjóðfélag í anda menningarbyltingarinnar í Kína á dögum Maós formanns sem reyndi að þurrka allar skoðanir og háttsemi út nema eina skoðun og einn klæðnað?

Allt er gildishlaðið. Engin kennsla er hlutlaus og verður aldrei. Hvernig á til dæmis að kenna sögu í skólum, menningu, trúarbrögð, tungumál, félagsfræði? Hvar ætla þau sem vilja kirkju og kristni út úr öllum skólum að draga mörkin? Krafa þeirra um að „gerilsneyða“ skóla, af boðskap kristinnar trúar, vekur upp spurningar um allt sem fram fer í skólum, einnig í ríkisreknum fjölmiðlum og víðar.

Mínar skoðanir eru mjög nálægt þeim sem Guðmundur I. Markússon setti fram í Fréttablaðinu 22. október  2010. :

Opið bréf frá trúlausu foreldri

Sæll Örn Bárður. Ég er foreldri með tvö börn á grunnskólaaldri. Ég er einnig trúarbragðafræðingur og skrifa þér þetta bréf með báða hatta á höfði.

Grein þín hér í blaðinu "Gildahlöður og menningarbylting" um samskipti kirkju og skóla olli mér vonbrigðum. Í stað þess að tala málefnalega og virða að þeir sem þú ert ósammála hafi raunverulegar áhyggjur, sem í það minnsta kalli á skynsamleg skoðanaskipti, talar þú um þá í sömu andránni og blóðþyrsta kúgara. Einföld breyting á skólastarfi í Reykjavík er skyndilega sett út á blóðakur menningarbyltingar Maós. En látum kyrrt liggja. Tökum gífuryrðin út af borðinu. Ég er trúlaus en ég er ekki "andstæðingur kristinnar trúar". Ég hef lengi staðið utan trúfélaga en ég er ekki "að hamast á kirkju og kristni". Og fyrst ég er byrjaður er ég hvorki í Vantrú né Siðmennt og hef aðeins átt góð kynni af kirkjunnar fólki.

Þú spyrð margra spurninga í greininni, Örn Bárður, m.a. hvort við viljum sögukennslu út úr skólakerfinu. Ég segi "?!" Hér er verið að tala um að skólastarf skuli ekki blandast trúarlegum tilgangi. Hvernig getur "engin sögukennsla" verið næsta skref? En í allri sanngirni segir þú áður að öll kennsla sé gildishlaðin - líka sögukennsla. Meira að segja bestu sögukennarar hafa skoðanir. Alveg rétt. En það er ekki þar með sagt að hægt sé að leggja boðun trúar og sögukennslu að jöfnu. Gildin (merkingin) sem koma fram í sögukennslu og samfélagsfræði eiga að byggjast á rannsóknum sagnfræðinga og samfélagsfræðinga. Ekki trúarhugmyndum. Því gildi, eins og þú ýjar að, eru ekki jafnrétthá. Við viljum að kennsluefnið eigi rætur við Suðurgötuna en ekki í Hádegismóum.

Þetta er kjarni málsins um tengsl trúar og skóla. Trúarbragðafræðin er veraldlegt fag með rætur í hug- og félagsvísindum. Trúarbragðafræðin á að fræða um trúarbrögð sem mannlegt fyrirbæri - eitthvað sem fólk gerir og hugsar. Heimsóknir presta og annarra fulltrúa trúfélaga eiga heima innan þessa ramma - sem innlegg í trúarbragðafræðslu. Sömu sögu er að segja um heimsóknir í kirkjur og önnur musteri, sem og föndur trúartákna - ekki í trúartilgangi heldur þeim að uppfræða. Hér á kristindómurinn sinn sess og þannig fræðast börn þjóðkirkjufólks, múslíma, trúleysingja og annarra um kristna trú og önnur trúarbrögð. Ekki er hægt að kenna Íslandssögu án þess að kirkjan spili þar stóra rullu. Því eru áhyggjur þínar, Örn Bárður, og annarra um "gerilsneydda" skóla ástæðulausar. Þú spyrð hvar eigi að láta staðar numið. Svarið er einfalt: látum skólann gegna sínu hlutverki. Hann á ekki að boða trú heldur fræða um trú. Þetta svarar einnig áhyggjum þínum um þöggun - fræðsla og upplýsing eru andstæður þöggunar og þröngsýni.

Látum það liggja á milli hluta að mannréttindi eru fyrst og fremst til þess að vernda minnihlutann. Þetta ættu kristnir að skilja manna best. En þetta er ekki aðalatriðið. Skólakerfið er opinbert og veraldlegt og þar má ekki mismuna. Með því að blanda trú inn í skólastarf er verið að víkja frá hlutverki skólans sem fræðslustofnunar. Og það getur ekki verið að neinn íhugi í alvöru þá "lausn" að taka börn "þessa fólks" út úr hópnum - varla eftir alla þá umræðu sem verið hefur um einelti. Finnst þér, Örn Bárður, að þú hafir rétt til þess að gera lítið úr lífsskoðunum foreldra í mínum sporum og taka fram fyrir hendurnar á þeim um uppeldi eigin barna? Finnst þér að þú hafir meiri rétt til minna eigin barna en ég sjálfur? Svona snýr þetta við mér sem trúlausu foreldri sem sendir börnin sín til fræðslu í hverfisskólanum. Og hvers vegna þarf skólinn að vera vettvangur trúarinnar? Kirkjur eru víða. Ég sé a.m.k. eina út um stofugluggann. Þar er blómlegt barnastarf oft í viku. Ég er sammála þér þegar þú segir að "í fjölhyggjusamfélagi þarf fólk að læra að virða og meta skoðanir annarra". Þetta er háleitt en raunsætt markmið. Leyfum skólanum að sinna sínu hlutverki og kirkjunni sínu. Leyfum kristnum að láta sín börn koma til Krists - leyfum börnum trúlausra að vera börn foreldra sinna. Þetta er engin bylting, aðeins lítið sanngirnismál.


mbl.is Jón Gnarr fylgjandi kristinfræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott mál. Ég kom reyndar með pínulítið aðra pælingu:)

http://gvendarbrunnur.blogspot.com/2010/10/af-truboi.html

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 10:49

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Gummi, sérstaklega fyrir persónulegann og forvitnilegan pistil.

Ég hef þannig séð ekki miklar áhyggjur af áhrifum trúboðsins á börnin, en mér finnst þetta vera prinsippmál. Ég vil sjá fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Arnar Pálsson, 25.10.2010 kl. 11:05

3 identicon

Það er útilokað að segja krissum hvað mannréttindi eru; Fyrir það fyrsta þá eru þeir allir fullir tilhlökkunnar með að komast í EINRÆÐIÐ á himnum.
Bara það eitt segir okkur að krissar vita ekki hvað réttindi eru, það sem þeir telja sín mestu réttindi, það er að bugta sig og beygja, kissa rass á geggjuðum galdrakarli til eilífðar.

Ef Jón Gnarr ber saman kristni og hollan mat.. .þá bara skorum við á hann með að lifa á biblíu einni saman

doctore (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 11:17

4 identicon

Ég er alveg sammála því, en set kannski spurningamerki við aðferðina. Kannski af því að trúleysingjar eru ekkert saklausir af því að grípa aðeins of oft til tilfinningaraka (börnin verða útundan og líður illa) í stað þess að velta hlutunum fyrir sér frá öllum sjónarhornum. En þjóðkirkjan er fornaldarfyrirbæri sem á að leggja niður sem fyrst.

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 11:28

5 identicon

Sammála Arnari, semsagt:) (en ekkert endilega ósammála doctornum)

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 11:29

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Jón Gnarr skilgreindi ekki kristnifræði, kannski hélt hann að jólasálmar væru kristnifræði.

Það er ekkert að því að ræða um uppbyggingu og sögu trúarbragða, og þau siðfræðilegu gildi sem fram koma í dæmisögum, eins og Guðmundur Ingi ræðir um, en það á ekki að moka í börnin þjóðsögum um almætti á himnum og líf eftir dauðann.

Arnar Pálsson, 25.10.2010 kl. 11:32

7 identicon

Svo ég súmmeri upp það sem ég skrifaði:

- Mér finnst mikilvægara að börn læri að beita gagnrýnni hugsun heldur en að læra staðreyndir (þess vegna var ég mjög ánægður með fermingarfræðslu Siðmenntar, þar sem lögð var mikil áhersla á gagnrýna og fordómalausa umræðu)

- Að útiloka trúboða úr skólum gerir út af fyrir sig lítið sem ekkert til að efla gagnrýna hugsun. En ef trúboðar eiga að fá aðgang að skólum verður jafnt yfir alla hópa að ganga og hvetja börn til að taka þeim með gagnrýnu hugarfari.

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 12:10

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Gummi

Auðvitað á að kenna börnunum gagnrýna hugsun, en það þarf ekki trúboð til að kenna slíkt. Það á að vera hægt að leiðbeina þeim í rökfræði, gagnrýnum lestri og umræðum án þess að takast á við spurningar um trú mál.

Ég veit reyndar ekki hversu öflugt þetta starf er í skólunum, en mér þykir ólíklegt að það hefjist fyrr en í fjórða eða fimmta bekk. Málið er að trúboðarnir vilja endilega tala við leikskólabörnin og yngstu bekkina.

Kannski það ætti að hlífa trúarhópum við því að boða trú sína í skólum þar sem börnin fá góða kennslu í gagnrýnni hugsun:)

Arnar Pálsson, 25.10.2010 kl. 12:16

9 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Guðmundur

Ég er alveg sammála því, en set kannski spurningamerki við aðferðina. Kannski af því að trúleysingjar eru ekkert saklausir af því að grípa aðeins of oft til tilfinningaraka (börnin verða útundan og líður illa) í stað þess að velta hlutunum fyrir sér frá öllum sjónarhornum. En þjóðkirkjan er fornaldarfyrirbæri sem á að leggja niður sem fyrst.

Þetta eru ekki tilfinningarök, Guðmundur. Það að barn verði útundan og líði fyrir einhverja hegðun er raunverulegur atburður sem tekið skal mið af ef hugmyndin með reglunum m.a. er að tryggja vellíðan barna í skóla og gott námsumhverfi. Þar sem það er einmitt hluti af myndinni eru slík dæmi viðeigandi í umræðunni.

Það að Sigga þyki það sorgleg hugmynd að banna trúboð í skólum er dæmi um tilfinningarök sem við reynum kannski einmitt að leiða hjá okkur.

Líðan barna og foreldra er hluti af myndinni í þeirri merkingu að þurfi börn í skyldunámi að taka þátt í starfi sem börnum eða foreldrum mislíkar er það eitthvað sem gjarnan má hafa áhrif á mat yfirvalda á hvað gert sé í skólum.

Trúboð í skólum er fremur lítið og smávægilegt. Þó er það nógu mikið til að fjöldi fólks upplifir það sem átroðslu á eigin lífsskoðunum. Af því að það er bæði í senn ómerkilegt í umfangi fyrir kirkjuna, en ergilegt fyrir suma foreldra og börn, er fremur augljóslega praktískt að banna það.

Kristinn Theódórsson, 25.10.2010 kl. 12:17

10 identicon

Víst eru það tilfinningarök. 7 ára gömlu barni líður ekki illa í skóla þegar prestur kemur í heimsókn vegna þess að það hafi einhverjar sterkar skoðanir eða andúð á trú og prestinum, heldur vegna þess að foreldrarnir hafa sterka skoðun á því hvað má segja og ekki segja við barnið. Það má vel vera að þetta sé prinsíppmál, en ég hef bara enga samúð með foreldrum sem troða sinni lífsskoðun upp á börnin sín, hvort sem þau eru trúuð eða trúlaus. Og já, ég er trúleysingi og hef átt barn í skóla og treysti mínum syni til að komast að sinni eigin niðurstöðu (sem þýðir ekki að ég ræði ekki við hann um málin og láti hann óáreittan). Niðurstaða hans er að hann fermdist borgaralega og er trúlaus, en það var hans eigin niðurstaða.

Og ég er á móti ítökum þjóðkirkjunnar í skólum, eins og þú ættir að sjá af því sem ég skrifa. Mér finnst þetta bara ekki alveg rétt leið.

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 12:36

11 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Guðmundur

Ég skil hvað þú ert að fara. Þú ert hinsvegar að skilgreina og nota orðið tilfinningarök á rangan hátt. Það er nú bara þannig. Hafirðu áhuga á að ræða það frekar, þá er ég alveg til. En annars treysti ég mér líka alveg til að láta það mál kyrrt liggja.

Þú getur auk þess hæglega haft afskaplega rangt fyrir þér með að skoðunum hafi verið "troðið" í börnin, á því er allur gangur og það er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að það er rangt hjá þér að um tilfinningarök sé að ræða.

Kristinn Theódórsson, 25.10.2010 kl. 12:52

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Guðmundur

Reyndar getur barninu liðið illa ef það heyrir eitthvað í skólanum sem gengur í berhögg við það sem það heyrir heima hjá sér.

Ef barninu líður illa gildir það einu máli hvort það sé vegna þess sem foreldrið segi, eða vegna þess sem presturinn segir.

Það að þroskast er að læra að fólk hefur mismunandi skoðanir, og að maður þarf að taka sína eigin afstöðu. Við viljum líka að kennarar og þeir sem börnin hitti í skólanum sýni fordæmi, með málefnalegri umfjöllun, rökvísi og gagnrýnni hugsun. Mig grunar reyndar að það sé víða pottur brotinn þar, en það er önnur saga!

Kristinn

Trúlausir nota líka tilfinningarök, kannski ekki þú en margir aðrir, en þetta er samt rétt staðhæfing hjá Guðmundi. Tilfinningarök eru ekki alsæm, við viljum draga úr þjáningu, og því er mikilvægt að átta sig á því hvað kvelur fólk. Við vitum að sígarettur draga úr lífslíkum og geta leitt til sársaukafullra veikinda (t.d. lungnakrabba), þar með vinnum við gegn þeim (bönnum sígarettur í skólum).

Arnar Pálsson, 25.10.2010 kl. 12:53

13 identicon

Þetta er orðið skemmtilegt:)

Kristinn: Það sem ég á við er að þegar gripið er til svona raka (að börnum líði illa) er undirtónninn sá að trúboðið sé slæmt af því að sumum börnum líði illa, sem eru ekkert sérstaklega haldbær rök (kannski er betra að kalla það eitthvað annað en tilfinningarök, en það er allt önnur umræða). Vissulega er alvarlegt þegar börnum líður illa í skóla, en það líður mörgum börnum illa í leikfimi en það eru varla rök fyrir því að leggja niður leikfimi í skólum. Það er ástæða fyrir því að kennd er leikfimi, semsé sú að börn þurfa hreyfingu o.s.frv. Þess vegna þarf að berjast gegn trúboðinu með vitrænum rökum, eins og flestir gera reyndar alveg prýðilega.

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 13:16

14 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Guðmundur

Ég var ónákvæmur í orðalagi. Að sjálfsögðu má kalla þessi rök tilfinningarök, en ekki í þeim skilningi að í þeim felist rökvilla af þeirri gerð sem um er að ræða þegar einhver segir t.d. að guð sé til, því annars líði honum ekki vel.

Ég held að flestir fari í nytjastefnuna þegar að skólamálum kemur. Við kennum viðurkenndan sannleik og reynum að miða kennsluna að því að sem flestum líði vel og sem flestir komi ferskir inn í samfélagið úr skólakerfinu.

Rökin að einhverjum líði illa t.d. í leikfimi eru fullgild rök sem meta þarf gildi leikfimi út frá. En á meðan samfélagið (sérfræðingar þess, ekki fjöldinn) er sammála um að leikfimi geri meira gagn en ógagn verða þeir sem ekki vilja fara í leikfimi ekki látnir ráða því hvort leikfimi sé kennd heldur reynt að koma til móts við þá með öðrum hætti.

Trúboð er hinsvegar nokkuð sem lítið er reynt að færa rök fyrir að sé til gagns. Það er bara vilji kirkjunnar. En þar sem trúboð ergir einhverja foreldra og veldur sumum börnum vandræðum og vanlíðan og ekki er um neina staðfesta eða almennt viðurkennda gagnsemi að ræða heldur fyrst og fremst hefð, hefur það að börnum líði illa þýðingu í því samhengi. Við veljum ekki í skólastarfið hluti sem ekki eru til gagns og valda auk þess börnum vanlíðan.

Réttlætissjónarmiðið er því að ekki eigi að hleypa einu lífsskoðunarfélagi um fram önnur inn í skólakerfið (skyldunám) og ekki að mismuna börnum með því að gera sumum erfitt fyrir og valda þeim vanlíðan með trúarstarfi sem stríðir gegn sannfæringu þeirra og/eða foreldra þeirra.

Praktíska sjónarmiðið er í framhaldi að skólinn megi ekki fyllast af trúaráróðri og því sé betra að banna allt trúboð en að leyfa það. Undir praktísk atriði fellur þá líka að það eigi ekki að leyfa starfsemi í skólanum sem valdi sumum vanlíðan ef ekki þykir ljóst að sú starfsemi hafi mikilvægi og komi nemendum að gagni - eins og leikfimi.

Þannig að á meðan trúarbrögð eru ekki sönn né boðun þeirra til gagns fyrir börnin, er vanlíðan vegna þeirra boðunar fullgild rök fyrir því að íhuga bann við þeirri boðun, sé gengið út frá svipuðum forsendum og gert er með flest annað starf á vegum skólanna - sem ég gef mér að sé nytjastefnuleg hugsun.

Kristinn Theódórsson, 25.10.2010 kl. 14:35

15 identicon

Allt satt og rétt. En það er reyndar þessi nytjastefnuhugsun sem ég set að mörgu leyti spurningamerki við, þ.e. að börnum er ekki leyft að "uppgötva" hlutina og nálgast heiminn með gagnrýnu hugarfari. Að því leyti set ég spurningamerki við það að útiloka trúarbrögð frá skólastarfi að öðru leyti en sem kennslu um sannanlegar staðreyndir. Trúarbrögðin eru hluti af samfélaginu (ég veit að mörgum trúleysingjum dreymir um þann tíma þegar trúarbrögðin hverfa með öllu, en það held ég að gerist seint) og því finnst mér ekkert að því að börn (á skólaaldri, kirkjan eða söfnuðir eiga ekki að fá að koma nálægt leikskólum) fái að takast á við slíkar spurningar, rétt eins og aðra þætti samfélagsins, ef það er gert með gagnrýnu hugarfari og þau hvött til að efast og spyrja. Almennt er allt of lítið gert af því í skólastarfi að virkja eðlislæga forvitni barna, og kannski borin von að láta sig dreyma um slíkt. En þetta segi ég auðvitað í þeirri einlægu trú að ef börnum er leyft að láta eðlislæga forvitni og efahyggju ráða og þau hvött til að spyrja spurninga, þá leiði það nokkuð sjálfkrafa til trúleysis... :)

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 17:31

16 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ég get alveg tekið heilmikið undir þetta, Guðmundur.

Sjálfur tel ég samt að takmarka eigi trúarumfjöllun í skólum. Mér finnst alveg óverjandi að ríkið sé að fjármagna annað en akademíska umfjöllun um trú í skólum. Því kristni er jú bara hindurvitni. Um það má hinsvegar deila vel og lengi :-)

Kristinn Theódórsson, 25.10.2010 kl. 21:34

17 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk herramenn fyrir skýra og hófstillta umræðu.

Ég er sammála Guðmundi um að það eigi að kenna gagnrýna hugsun, en það er mitt mat að það sé erfitt að kenna sex ára barni slíkt.Tíu ára börn eiga flest að vera fullfær um gagnrýna hugsun, eða allavega að spyrja áleitinna spurninga og sætta sig ekki við hvaða svar sem er!

En ég árétta þá skoðun mína að ég tel rétt að takmarka aðgang trúfélaga að skólastarfi.

Arnar Pálsson, 28.10.2010 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband