Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins:Flokkun lífvera

Sumir flokka frímerki, aðrir fótboltaspil, enn aðrir kærustur og Hemúllinn plöntur. Börn raða hlutum upp, bílum í röð eftir stærð, kúlum eftir lit og dúkkum eftir innri verðleika. Þörfin fyrir að flokka og skipa hlutunum í kerfi virðist vera okkur ásköpuð - og í sumum tilfellum öðrum þörfum sterkari. Náttúrufræðingar byrjuðu snemma að flokka steina og lífverur. Stigi náttúrunnar (scala naturae - lífsstiginn) var ein fyrsta hugmyndin, þar sem efni og lífverum er raðað í einfalda röð (frá eter, vatni...upp í manninn). Áður en Darwin kom til sögunnar var flokkun lífvera í algerri óreiðu. Hann setti fram hugmyndina um þróunartré og útskýrði hvers vegna sumir eiginleikar geta breyst hratt í einum hópi lífvera en verið eins í öðrum hópi. Guðmundur Guðmundsson  skrifar um flokkun í bókinn Arfleifð Darwins (kaflinn heitir Áhrif darwins á flokkunarfræði 19. aldar og nútímans) og hefur mál sitt á þessum orðum:

Flokkunarfræðin er ein af elstu sérgreinum líffræðinnar og sennilega er hún jafngömul mannlegri rökhugsun og siðmenningu. Eflaust hefur hörð lífsbaráttan kennt áum mannkyns að flokka dýr og plöntur eftir einhvers konar reglu við leit að nýjum nytjategundum eða til að forðast þær eitruðu eða varasömu. Meginviðfangsefni flokkunarfræðinnar hefur ávallt síðan verið að leita að kerfi til að kortleggja og skýra fjölbreytni bæði steingerðra og núlifandi tegunda. Þegar aldirnar liðu urðu flokkunarkerfin samofin allskyns hugmyndum um eðli, uppruna, skipulag, sköpun, tilgang eða hvaðeina annað sem menn töldu hluta af gangverki lífheimsins.
Á öndverðri 19. öld var það almennt viðtekin skoðun að flokkunarkerfin ættu að endurspegla náttúruleg tegundavensl, í þeim skilningi að þau væru raunsönn fremur en að flokka tegundir eftir hentugleikum hverju sinni. Þó var nokkuð á reiki hvað nákvæmlega átt var við með náttúrulegum venslum. Eina þekkta leiðin til að uppgötva náttúrulega tegundahópa var að kortleggja á ýmsa vegu það sem var líkt og ólíkt með tegundum. En hlutlægar aðferðir til að sannreyna hvaða einkenni það væru sem afhjúpuðu hin raunverulegu tegundavensl hvíldu á veikum grunni. Flokkunarfræðingar litu gjarnan svo á að viðfangsefni þeirra væri að lýsa tegundum. Fyrst beindist athyglin að ytri einkennum og innri líffærum, en þegar tækninni fleygði fram bættust við sífellt nákvæmari upplýsingar um mismunandi vefi og frumugerðir. Á 19. öld lá þegar fyrir mikið safn upplýsinga um allskyns sértæk og sameiginleg tegundaeinkenni. En upplýsingar einar og sér hrökkva skammt til að flokka lífverur, vegna þess að hvorki flokkunarkerfið né úrvinnsla upplýsinga eru sjálfgefin. Tiltæk gögn um tegundir hafa aukist gríðarlega síðan á dögum Charles Darwin, einkum með nákvæmri þekkingu á byggingu stórsameinda og erfðaefnis. Meginviðfangsefni flokkunarfræðinnar er þó enn óbreytt – að þróa aðferðir til að leiða líkur að náttúrulegum venslum tegunda og skipa í kerfi samkvæmt því.

Guðmundur þýddi uppruna tegundanna sem einnig kom út hjá HIB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband