Leita í fréttum mbl.is

Kreppa geðlæknisfræðinnar og svefnvandi þjóðar

Viðtal Unu Sighvatsdóttur við Steindór J. Erlingsson birtist í Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Það birtist í framhaldi af grein Steindórs í tímariti námsráðgjafa, Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni.

Í viðtalinu segir meðal annars:

Að sögn Steindórs var það í kringum 1980 sem byrjað var að leggja aukna áherslu á líffræðilegu skýringarnar. Nýtt greiningarkerfi geðraskana var smíðað sem byggðist á flokkun ákveðinna einkenna í skýrt afmarkaðar raskanir. „Þeir sem bjuggu til þetta kerfi sáu fyrir sér að í framtíðinni myndu líffræðilegu skýringarnar finnast með aukinni tæki. Nú 30 árum síðar eru þær ekki komnar. Þannig að þetta kerfi lýsir bara einkennum, en greinir ekki orsakirnar.“

Flokkunarkerfið sem geðlæknisfræðin reiðir sig á virðist því vera hluti af vandanum, að sögn Steindórs, því það byggist á veikum vísindalegum grunni. Afleiðingarnar virðast m.a. vera þær að fjöldi þeirra einstaklinga sem hægt er að greina með geðröskun hefur aukist verulega, og lyf yfirgnæfa önnur meðferðarform geðraskana.

Í ljósi þess að ekki er vitað fyrir víst hvað það er sem veldur geðröskunum eins og t.d. þunglyndi, þarf heldur ekki að koma á óvart að ekki er með vissu vitað hvernig t.d. þunglyndislyfin virka í raun.

Steindór rekur einnig í grein sinni í Tímariti félagsráðgjafa að hvorki ríkir einhugur um mögulega virkni geðlyfja né hversu mikið beri að nota þau til að meðhöndla geðraskanir, en óvíða eru fleiri ávísanir á geðlyf en einmitt á Íslandi.

Vilhjálmur Ari Arason gerir grein Steindórs einnig að umtalsefni í pistli um Svefnvanda þjóðar. Þar segir hann:

Allt of auðvelt er að ánetjast svefnlyfjum, sérstaklega þar sem þau virðast við fyrstu sýn vera svo heppileg lausn við algengum vanda. En í upphafi skyldi endinn skoða, eins og á við um allar skyndilausnir. Of gott aðgengi og hvatning að skyndilausnum eins og svefnlyfjum getur í vissum tilvikum skýrt vandann sem við nú stöndum frammi fyrir. Svefnlyf geta nefnilega orðið eins og hækja sem viðkomandi þorir ekki að sleppa þótt hugsunin hafi verið að nota hana aðeins tímabundið. Stundum verður stressið við það eitt að ná ekki að sofna mesta vandamálið og því meira sem fólk hefur vanist að nota svefnlyf sem lausn. Og það getur líka verið ansi erfitt að losna undan viðjum vanans seint og um síðir.

Svefnlyf er því miður ekki eina skyndilausnin sem við ofnotum í heilbrigðiskerfinu. Lyfjakostnaður vegna tauga- og geðlyfja er hins vegar allmennt mjög hár á Íslandi miðað við Norðurlandaþjóðirnar og skipar hér 2. sætið, strax á eftir hjarta- og æðalyfjum. Hluti skýringarinnar er líklega ofnotkun og vert að benda á ágætis grein sem Steindór J. Erlingsson skrifaði í síðustu viku í Tímarit félagsráðgjafa um þátt lyfjafyrirtækja í lyfjanotkun og hugsanlega hugmyndafræðilega kreppu innan geðlæknisfræðinnar. Að mörgu leiti einkenna skyndilausnir hins vegar allt okkar þjóðfélag, hvert sem litið er og sjúklingurinn er að mörgu leiti þjóðfélagið sjálft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Geðlækningar eru rangnefni. Aldrei hefur þessi grein læknað geðræna bresti. Meðferðin byggist grófri lyfjagjöf, sem lítið er vitað um í raun. Geðlæknisfræðin er fyrst og fremst réttlæting fyrir að taka úr umferð eða taka úr sambandi óæskilega einstaklinga. Eiginlega bara mildari týpan af eugenics.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2011 kl. 18:29

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Geðlæknisfræðin eru að mínu mati non diciplin í ætt við guðfræði. Svona semi metafýsík einhver.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2011 kl. 18:32

3 identicon

Jón, ég ligg einmitt á grein sem nefnist "Eiga trúarbrögð og geðlæknisfræði eitthvað sameiginlegt?". Mun senda hana frá mér einhvern tíma á næstunni.

Steindór J. Erlingsson (IP-tala skráð) 13.5.2011 kl. 20:04

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Það hlýtur að vera virkilega erfitt að reyna að skilja rætur og orsakir geðsjúkdóma. Sem svipgerð er þetta eitt það erfiðasta sem til er, dýralíkön eru af skornum skammti, frumulíkön eru ákaflega takmörkuð (hefur þú einhvern tímann séð morgunhressa frumurækt?) og erfitt að greina áhrif líffræðilegs og félagslegs umhverfis.

Samúð mín liggur samt frekar hjá þeim sem þjást af geðsjúkdómum, en þeim sem reyna að skilja þá og meðhöndla.

Ég held að í geðlæknisfræðinni birtist verstu gallar læknavísinda nútímans, smættunarhyggjan gaf mikla innsýn en hana vantar samhengi. Og læknar og líffræðingar hafa gert sig seka um lélega tölfræði og skort á sjálfsgagnrýni.

Arnar Pálsson, 14.5.2011 kl. 15:24

5 identicon

Vel mælt Arnar!

Steindór J. Erlingsson (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband