Leita í fréttum mbl.is

Kynbundin áhrif og óþekktir umhverfisþættir

Þegar ég vann hjá íslenskri erfðagreiningu þá fékk ég að taka þátt í rannsókn á gáttatifi (atrial fibrilation). Tölfræðingarnir (klárustu kallarnir í Decode) höfðu fundið tengsl ákveðins svæðis í erfðamenginu við sjúkdóminn. Svæðið var fjarri genum, og ég fékk þann starfa að athuga hvort þar leyndust mögulega stjórnraðir og hvort að stökkbreytingarnar sem sýndu fylgni við sjúkdóminn hefðu áhrif á slíkar stjórnsvæði (stjórnsvæði eru nauðsynleg til að kveikja, slökkva og stýra framleiðslu á afurðum gena). Genið sem í þessari rannsókn var bendlað við gáttatif, er einmitt tjáð í öðrum helmingi hjartans. Og þegar það er skaddað í músum, þá þroskast og virkar gangvirki hjartans ekki eðlilega.

Gáttatif er kannski flestum framandi sjúkdómur en það skiptir máli, því það ýtir undir líkurnar á heilablóðfalli. Læknar og tölfræðingar LSH og Hjartaverndar könnuðu breytingar á tíðni sjúkdómsins meðal íslendinga síðastliðin tuttugu ár. Í ljós kemur að hlutfall landsmanna (prevalance) sem er með gáttaflökt hefur aukist á tímabilinu, sérstaklega í konum. Úr grein Hrafnhildar og félaga:

The age-standardized prevalence increased per year by 1.8% (95% CI 1.3–2.3) in men and 2.3% (95% CI 1.7–2.9) in women from 1998 to 2008.

Höfundar greinarinnar áætla einnig hvernig staðan getur orðið ef aukningin verður stöðug næstu 39 árin. Tíðni gáttatifs mun þá fara úr 2% í 3.8%. Það er sannarlega aukning, en tæplega faraldur. Framreikningur (extrapolation) sem þessi er alltaf háður ákveðnum forsendum og skorðum (þó íþróttamenn hafi hlaupið 100 metrana á sífellt styttri tíma, munu þeir aldrei hlaupa þá á 0 sekúndum eða -1 sekúndu).

Hitt þykir mér forvitnilegra, hvaða þættir hafa valdið aukningu í tíðni gáttatifs. Þetta skýrist að hluta af stærri hlutfalli eldri borgara hérlendis, en einnig skipta þættir eins og offita og sykursýki af gerð 2 máli. Ég veit ekki hvort að þessi þættir plagi kvenfólk meira en karlmenn. Hins vegar eru líkur á því að breytingar á matarvenjum og mögulega lifnaðarháttum þjóðarinnar hafi átt hér hlut að máli. Einnig er mögulegt að stökkbreytingar sem nú ýta undir gáttatif hafi verið einkennalausar á fyrri öldum. Áhrif genanna velta nefnilega á samspili þeirra við umhverfið (Það þarf erfðamengi til).

Ítarefni:

Líkur á faraldri hjartasjúkdómsins gáttatifs

Trends in the incidence and prevalence of atrial fibrillation in Iceland and future projections Hrafnhildur Stefansdottir, Thor Aspelund, Vilmundur Gudnason, and David O. Arnar Europace (2011) eur132 first published online May 7, 2011 doi:10.1093/europace/eur132

Það þarf erfðamengi til


mbl.is Ný rannsókn spáir faraldri gáttatifs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Bíddu hægur. Hvernig skýra menn aukninguna hjá konum? Er ekki alveg eins líklegt að aukin inntaka Omega 3, sem konur hafa tekið meira til sín en karlar, geti valdið því að veruleg aukning kemur í ljós hjá konum á 39 árum? Bara til að nefna eitthvað?

Svo ekki sé talað um að mælingarnar hafa ef til vill ekki verið eins góðar hér á árum áður. Hvenær byrjuðu menn á því að fá fræðilegan áhuga á atrial fibrilation/delerium cordis á Íslandi.Tóku menn eftir þessu hjá fólki við mælingar hjá Hjartavernd eða í kjölfar einhvers annars hjartasjúkdóms? Ef stökkbreytingarnar, sem valda gáttatifi fyrr á öldum, hafa "legið í dvala", er það vart aukin inntaka hættulegrar fitu sem veldur. Kolvetnisinntaka og aukin alkóhólneysla hjá konum gæti hugsanlega valdið aukninguna og væri því gaman að sjá kynjamun á aukningu á gáttatifi í öðrum löndum.

Er yfirleitt nokkuð vit í því að tengja þenna sjúkdóm við gen?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.5.2011 kl. 12:42

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Vilhjálmur

Nokkrar spurningar, ég ætla að byrja á því að svara þeirri fyrstu.

Er yfirleitt nokkuð vit í því að tengja þenna sjúkdóm við gen?

Maður kannar bara hvaða þættir hafa áhrif á sjúkdóm. Það hafði komið í ljós að gáttatif er arfgengt að hluta (Davíð O. Arnar):

When the analysis was limited to subjects diagnosed with AF before the age of 60, first-degree relatives of the AF cases were nearly five times more likely to have AF than the general population.

Familial aggregation of atrial fibrillation in Iceland. Arnar DO, Thorvaldsson S, Manolio TA, Thorgeirsson G, Kristjansson K, Hakonarson H, Stefansson K. Eur Heart J. 2006 Mar;27(6):708-12. Epub 2006 Jan 20.

Spurning tvö, hvernig útskýra menn aukninguna hjá konunum? 

Ég veit það ekki, þetta er opin spurning.

Spurning þrjú, um gæði skráningar. Grein Hrafnhildar og félaga er sú fyrsta sem fylgir fólki eftir yfir lengra tímabil, sem er það sem gagnaskrá Hjartaverndar er svo frábær fyrir! Aðrar rannsóknir hafa skoðað fjölda tilfella, sem gæti sannarlega verið vegna breytinga á greiningu.

Varðandi spurningu þrjú, hvernig getur stökkbreyting legið í dvala?

Þetta er alþekkt í erfðafræði, stökkbreyting getur verið einkennalaus í bakteríu sem vex við 37°C en drepið hana við 42°C. Í þessu tilfelli eru áhrifin örugglega veikari og mögulega vegna áhrifa margra ólíkra gena (Pitx2 - sem ÍE fann árið 2007 hafði frekar lítil áhrif eitt og sér). Það er síðan virkilega erfitt að reyna að skilgreina hvaða erfðaþáttur (einn af 30 milljónum) spilar með hvaða umhverfisþætti (einn af ?? milljónum).

Arnar Pálsson, 27.5.2011 kl. 13:04

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

"AF shows strong evidence of heritability among unselected patients in Iceland, suggestingthat there may be undiscoveredgenetic variants underlying the risk of the common form of AF", segir  D.O. Arnar et al. í grein þeirri sem þú vitnar til. (Feita letrið og undirstrikunin er mín)

En gæti það ekki alveg eins verið mataræði í þessum fjölskyldum, venjur sem erfast, lélegur, feitur og einhæfur matur eins og í sveitinni? T.d. slátur í morgunmat, og það oftar en nokkru sinni áður, skolað niður með jógúrt og þar á eftir þykkt lag smjör á hverri brauðsneið.

DNA er ekki allt!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.5.2011 kl. 17:04

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur

Ég veit vel að DNA er ekki allt, annar hver pistill hérna fjallar um nákvæmlega það, sbr. Genadýrkun.

Málið er að arfgengi er vísbending um að erfðaþættir skipti máli, en segir ekki hvaða erfðaþættir. Ein leið til að meta arfgengi er að skoða hversu miklar líkur eru á að fá sjúkdóm, ef einhver ættingi er með sjúkdóminn.

Einfaldasti samanburðurinn er á eineggja og tvíeggja tvíburum.

Ef eineggja tvíburi eru með 2x meiri hættu á að fá sjúkdóm, en eineggja tvíburi (ef hinn tvíburinn greinist), þá er það mjög sterk vísbending um erfðaþátt.

Í þessu tilfelli fannst síðan erfðaþáttu, en eins og ég sagði (en lagði kannski ekki nægilega áherslu á) þá er hann vægur!!!!! (Pitx2 - sem ÍE fann árið 2007 hafði frekar lítil áhrif eitt og sér)

Það er reyndar mýta að dýrafita sé slæm, sykur og unninn matur er margfallt verri. Málið er bara að borða EKKI OF MIKIÐ! Eins og Michael Pollan segir í Unhappy Meals(NyTimes - 28 jan. 2007)

Eat food. Not too much. Mostly plants. 

That, more or less, is the short answer to the supposedly incredibly complicated and confusing question of what we humans should eat in order to be maximally healthy. I hate to give away the game right here at the beginning of a long essay, and I confess that I’m tempted to complicate matters in the interest of keeping things going for a few thousand more words. I’ll try to resist but will go ahead and add a couple more details to flesh out the advice. Like: A little meat won’t kill you, though it’s better approached as a side dish than as a main. And you’re much better off eating whole fresh foods than processed food products. That’s what I mean by the recommendation to eat “food.” Once, food was all you could eat, but today there are lots of other edible foodlike substances in the supermarket.

Arnar Pálsson, 27.5.2011 kl. 18:33

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ekki borða of mikið af neinu, sem minnir mig á erlendan lækni sem eitt sinn vann á íslensku sjúkrahúsi á landsbyggðinni, en var ekki of sleipur á íslensku tungunni. Eitt sinn koma kona nokkur, vel í holdum, illa haldinn af skitusting eða jafnvel gáttatifi. Læknirinn skoðaði hana og hún var mynduð hátt og lágt og læknirinn segir. "Feita kona borða minna". Sú holduga varð bara vond og kærði lækninn fyrir dónaskap.

Það er því miður búið á supersiza Íslendinga svo illilega og gera þá að stórmarkaðsþrælum, að það verður vart næsta kynslóð sem nær sér á strik. Ekki bætir kreppan. Fólk fer bara út í búð og kaupir meira gott. Pizzurestir frá því í nóvember 2010 hanga enn í holum á ristli 25% þjóðarinnar, sem ekki borðar trefjar í mat sínum. Svo eru sniðugir einstaklingar að selja útspúlun upp gegnum rassboruna, þegar fólk getur sjálft burstað út úr sér rusl og seyru með heilbrigðari lifnaðarháttum og með því að borða minna, hreyfa sig meira og sleppa sykrinum.

Pollan er varhugaverður. "Mostly plants" Fólk fellur alltaf til baka ef það hefur ekki verið vant því að borða eins og Víetnamar. Íslendingar lenda alltaf aftur í kjötátinu og drekka mjólk eða kók með, og mantran á Íslandi er að kjötstykkin eigi að vera stór og vel úti látin.

Þegar almennilegt grænmeti er á ránverði hjá sykurpusherunum og Cheriosheildsölunum, þá er þess ekki að vænta að fólk borði meira grænmeti. Það þarf hærri sætindaskatta, og peningarnir þurfa að renna t.d. til íþrótta fyrir atvinnulausa.

Svo ber að banna bloggara, t.d. lækna, sem blogga um mat, og sem virðast hafa tröllatrú á sem stærstum skammti á kjöti, að íslenskum sið.  

En ætli þessir matarsiðir Íslendinga, sem í sumum tilfellum er hægt að kalla ófát, sé í genunum?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.5.2011 kl. 05:36

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Frábær blástur Vilhjálmur

Mér finnst þetta alveg merkilegt, hvernig hægt er að selja fólki bæði eitrið og móteitrið. Þetta er dálítið eins og lyfjarisarnir, sem fjárfesta bæði í hefðbundnum lyfjum og nýaldarkukli/óhefðbundnum lækningum, því fólk vill alltaf KAUPA sér lausnir...í stað þess að fara í labbitúr eða breyta neysluvenjum.

Ég er ekki viss um að gamli íslenski kosturinn sé slæmur, og það er alveg mögulegt að íslenski stofninn hafi lagað sig að þeim kosti. Með öðrum orðum, að erfðasamsetning okkar hafi breyst og gert okkur kleift að gera gott úr súrmat og byggkökum forfeðranna. Ég efast um að kjötgleypingar hafi verið normið hér áður fyrr, voru það ekki grautar, súrt kjöt og skreið?

It takes a genome (það þarf erfðamengi til) fjallar um það að erfðasamsetning mannkyns er afleiðing sögu forfeðranna, þar á meðal matarsögu. 

Forfeður okkar voru ávaxtaætur (mannapar) sem tóku upp veiðar og safnaralifnað (manntegundir) og síðan landbúnað, á mjög  norrænum slóðum.

Tilgátan þín: 

En ætli þessir matarsiðir Íslendinga, sem í sumum tilfellum er hægt að kalla ófát, sé í genunum?

Er ekki fjarri því sem Jim Neel setti fram, sem thrifty genotype hypothesis. Ég kalla það hvalrekatilgátuna, þ.a. þeir sem átu vel þegar mat var að fá, og bjuggu þar með til forða, hafi lifað af í gamla daga. Með þínum orðum, ofát borgaði sig þegar lítið var um mat. En núna getur of mikil matarlyst verið óheppileg.

Arnar Pálsson, 28.5.2011 kl. 11:44

7 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Arnar, nú hefur ykkur Vilhjálmi tekist að orða það sem mér hefur stundum fundist (engin vísindi á bak við það ) að við sem erum feitlagin séum það vegna þess að við höfum erft það sem formæður okkar þróuðu gegnum kynslóðir til þess að komast af.

Ég held að meira segja að  hér á landi sé fólk að eðlisfari ólíkt hvað holdafar varðar.

Með þessu er ég ekki að afsaka offitu, eða gera lítið úr næringarfræði og þekkingu um fæðuval og matreiðslu. (það væri nú skárra, að gera lítið úr ævistarfinu)

Það er full ástæða til að samgleðjast þeim sem hreyfa sig mikið vegna þess að þannig líður þeim best og borða mátulega mikið af sömu ástæðu og þykir grænmeti og ávextir betra en rautt kjöt. Við hin reynum að gera það sem við vitum réttast þó við þurfum á öllum okkar viljastyrk að halda og góðum stuðningi umhverfisins.

Hvatning virkar. Boð og bönn ekki. Reynsla annarra þjóða sýnir að verðlagning hefur mikið að segja.

Hólmfríður Pétursdóttir, 28.5.2011 kl. 12:22

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl frænka

Ég er reyndar ekki alveg viss um að Jim Neel hafi rétt fyrir sér, að það hafi verið náttúrulega valið fyrir átsýki. Sannarlega  mun sú lífvera deyja út sem ekki neytir fæðu, en við erum með kerfi hormóna (ghrelin og leptin) sem stýra svengd og seddu.

The role of leptin and ghrelin in the regulation of food intake and body weight in humans: a review. Klok MD, Jakobsdottir S, Drent ML. Obes Rev. 2007 Jan;8(1):21-34. Review. [veit ekki hver S. Jakobsdóttir er, en nafnið virkar Íslenskt]

Fólk er sannarleg mismunandi að upplagi, en vandamáli er umhverfið. Sístreymi sykurs og unnina matvæla. Það getur útskýrt aukingu í offitu fólk hérlendis, og líka hlutfall barna sem stefna í offitu ef ekkert er að gert.

Bönn hafa sitt gildi, en spurningin er bara hvar eigi að draga mörkin. Ekki bönnum við mysuost þótt af einn af 300000 skaði sig alvarlega með því að borða 10 kíló á dag í heilan mánuð. Ég var fylgjandi sykurskatti og tel að skólamötuneyti þurfi líka betra aðhald (og meira fjármagn). Þar læra börnin að borða, ef ekki heima hjá sér.

Arnar Pálsson, 28.5.2011 kl. 13:06

9 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Frændi sæll, auðvitað er þetta allt rétt hjá þér. Ég var ekki beint að tala um átsýki (ég hef samt séð nokkur dæmi hennar í kennslu í eldhúsi) ég var meira að tala þessa tilhneigingu til að bæta á sig eins og fram kemur á myndum af móðurfólkinu okkar.

Matarval erfist líka eins og önnur hegðun, og langt fram eftir aldri hélt ég að það tæki svona 2 kynslóðir að bæta grænmetinu, ávöxtunum og grófa korninu inn og minnka annað á móti. Nú er ég ekki viss um að það skili sér í minni offitu. Sennilega eru sykur og mikið unnar vörur aðal sökudólgarnir.

Eitt er víst að það verður að taka á þessu af alvöru og skynsemi.

Hólmfríður Pétursdóttir, 28.5.2011 kl. 13:36

10 Smámynd: Arnar Pálsson

Vel mælt Hólmfríður.

Það eru greinilega erfðaþættir sem gera sumum auðveldara með að safna forða en öðrum, líklegast eru einhverjir slíkir hjá móðurfólkinu okkar (og þá mögulega okkur ;).

Arnar Pálsson, 29.5.2011 kl. 09:37

11 Smámynd: Hans Miniar Jónsson.

Afar athyglisverð færsla sem skýrir frekar fréttina sjálfa. Takk fyrir það.

Hans Miniar Jónsson., 31.5.2011 kl. 17:50

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Bestu þakkir fyrir innlitið og athugasemdina Hans.

Arnar Pálsson, 4.6.2011 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband