Leita í fréttum mbl.is

Tinnabrenna og umfjöllun fjölmiðla

Þegar Tinni var brenndur á báli ...  Sævar Helgi Bragason, einn umsjónamanna Stjörnufræðivefsins og vísindaþáttarins á Útvarpi sögu, birti grein í Fréttablaði fimmtudagsins 11. ágúst 2011, undir þessum titli. Hann ræðir frekar dapurlega umfjöllun íslenskra fjölmiðla um vísindi, sem er alvarlega ábótavant. Vísinda og tæknimenntað fólk er nauðsynlegt fyrir nútíma þjóðfélag, til að stuðla að hagvexti og sjálfbærni, með því t.d. að leysa vandamál umhverfis og orku. Sævar segir meðal annars:

Fyrir skömmu skrifaði Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, leiðara undir fyrirsögninni „Nördarnir eru framtíðin“. Það er sannarlega hárrétt hjá ritstjóranum enda leiða vísindi og tækni hagvöxt og framfarir. Í leiðaranum segir Ólafur: „Úr þessu verður ekki bætt nema gera átak í vísinda- og tæknimenntun og vekja áhuga ungs fólks á henni.“

Að vekja áhuga er einmitt lykilatriði. Ein af ástæðum þess að ungt fólk fær ekki áhuga á vísindum er svo til algjör skortur á góðri umfjöllun um vísindi í fjölmiðlum almennt.
Til þess að efla vísindi og tækni á Íslandi þurfa margir að taka höndum saman: Vísindasamfélagið, skólayfirvöld og ekki síst fjölmiðlar. Sennilega er fyrirhöfnin minnst hjá þeim síðastnefndu. Því skora ég á ritstjóra Fréttablaðsins og ritstjóra annarra fjölmiðla að efla umfjöllun sína um vísindi. Ein frétt í viku væri skref í rétta átt. Ekki skortir plássið. Það mun skila okkur ómældum ávinningi til lengri tíma litið.

Ég tek heils hugar undir með Sævari, það væri frábært að fá ítarlegri og betri umfjöllun um vísindi í íslenskum fréttamiðlum. Nóg setur ritstjórnin af dálkametrum í íþróttir, lífstílsfréttir ("dulbúnar" auglýsingar) og froðufréttir af "fræga" fólkinu. Mig grunar svo sem að listamenn fái sömu velgju þegar fjallað er um listir í Fréttablaðinu t.d., þar sem allur seinasti hluti blaðsins er matreiddur á sama Bieber-Lohan grillinu.

Annars fannst mér orðalag pistils ritstjórans Nördarnir eru framtíðin, ansi furðulegt. Af orðlaginu mátti leggja að þjóðin þyrfti að sinna nördunum sínum vel til að búa til peninga fyrir fólkið. Svona rétt eins og sniðugt er leggja áherslu á að ala grísinn vel til slátrunar, en það er allt í lagi að kalla hann svín í leiðara. Hluti af vandamálinu er viðhorf fólks gagnvart þekkingu og fræðum. Fræðimenn og forritarar eru stimplaðir nördar, góðir til síns brúks en er ekki boðið í betri stofuna.

Sævar bendir sérstaklega á að ítarlegar umfjallanir um framfarir í vísinum séu af skornum skammti og að þær vísindafréttir sem birtist séu flestar hraðsoðnar þýðingar á erlendum fréttaskeytum. Eins og til að undirstrika málflutning Sævars prentaði Fréttablaði vísindafrétt um o ofurmýs (Ofurmýs ónæmar fyrir eitri)

Nokkrar evrópskar mýs hafa þróað með sér ónæmi fyrir sterkustu eiturtegundum. Þetta segja vísindamenn.

Mýs í Þýskalandi og á Spáni hafa eignast afkvæmi með alsírskum músum, segir Michael Kohn prófessor, sem stýrði rannsókninni. Flest afkvæmi músanna geta ekki fjölgað sér vegna þess hversu ólíkar tegundirnar eru, en þó virðist sem sum afkvæmin séu fær um það.

Rannsakendur segja fjölgun mannkyns og aukin ferðalög hafa valdið samdrætti þessara músategunda. Óttast er að það sama gæti gerst hjá rottum.

- þeb

Á þessari frétt er frekar lítið að græða. Um er að ræða erfðafræðilega rannsókn sem sýndi að gen sem miðlar þoli fyrir nagdýraeitri hefur flust inn í evrópska húsamýsa stofna. Það gerir þeim kleift að þola eitur sem meindýraeyðar leggja fyrir þær. Um er að ræða flutning gena á milli skyldra tegunda, svona rétt eins og notað er í ræktun og gerist iðullega í náttúrunni.

Nánari upplýsingar um rannsókn Kohn og félaga má nálgast á vefsíðu þeirra við Rice háskóla.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Ég heiti Arnar og ég er Nörd.

Skil ekki hvað margir taka því neikvætt, því innst inni eru allir nörd.

Varðandi vísindaumfjöllun þá helst það nokkuð í hendur við vísindaáhuga almennt, mér finnst hann frekar takmarkaður svona almennt.  Það sorglega er að fólk sækist í að lesa froðufréttir um 'fræga' fólkið sem er ekki frægt fyrir neitt annað en að vera frægt.  Miðlarnir eru bara að svara eftirspurninni.

Arnar, 15.8.2011 kl. 16:07

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Góður pistill hjá Sævari. Ég man eftir því þegar ég var unglingur að sökkva mér í tækni og vísindi í blöðunum (það litla sem þar var), en núna er enn minna af þess konar efni og þá ekki tekið saman af til þess menntuðum blaðamönnum. Við á loftslag.is höfum m.a. séð okkur tilneydda að leiðrétta umfjallanir í íslenskum fjölmiðlum tengda loftslagsvísndum. Það hafa m.a. verið einhverjar hálfkláraðar þýðingar af lélegum erlendum fjölmiðlum gerðar af blaðamönnum sem ættu ekki að koma nálægt þess konar efni, sjá t.d. Er jörðin að kólna? – Í tilefni fréttar á Visir.is og Stöð 2

Hitt er svo annað mál, það hlýtur að vera einhver áhugi á tækni og vísindum í samfélaginu, allavega er eitt tímarit (Lifandi vísindi) sem er á markaðnum, og það ætti alveg að vera hægt að hafa einn eða jafnvel fleiri daga í viku í öðrum fjölmiðlum þar sem vísindi væru tekin fyrir.

En allavega góð ábending hjá Sævari.

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.8.2011 kl. 16:08

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hver og einn einstaklingur er nörd á sínu styrkleikasviði.

Grunnskóla-stjórnmálin/námsgagnastofnun hafa takmarkaðan áhuga á að hlúa að styrkleikum einstaklinga. Útgáfa nýrra námsbóka á hverju hausti með gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið og nemendur, er aðaláhugamál gæluverkefna-námsbóka-útgefenda.

Fá styrkleikar einstaklinganna, í skólunum þann nauðsynlega stuðning frá skólayfirvöldum, sem gerir þeim kleyft að njóta sín og nýtast samfélaginu?

Lifandi Vísindi er blað, sem vekur athygli á ýmsu nýju og vísindalegu.

Skólaganga í Tækniskólanum þykir líklega ekki eins "fín" og háskólanám, og kannski hafa launamál og almennings-álit/sýn eitthvað að segja um þá skoðun í sumum tilfellum?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.8.2011 kl. 02:42

4 Smámynd: Arnar

Kennslu-stefnu-pólitíkin spilar auðvitað stóran þátt í þessu.  Nemendur sem skara frammúr í getu á einhverju sviði eru bara látnir sjá um sig sjálfir meðan kennararnir sinna þeim sem eiga við námserfiðleika að stríða.  Svoleiðis var það fyrir 20-25 árum þegar ég var í grunn-/gagnfræði skóla og svoleiðis er það því miður en þá hjá 10 ára syni mínum.  Auðvitað þurfa nemendur með námserfiðleika að fá extra athygli en það gleymist að þeir sem standa sig vel og vilja læra þurfa svolitla athygli líka.

Arnar, 16.8.2011 kl. 09:41

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Arnar ég er líka nörd.

Það er rétt hjá þér að miðlarnir eru að svara eftirspurn, jafnvel simpansar hafa gaman af því að fylgjast með kynlífi annara og bavíanar hópast í kringum slagsmálabavíana.

Svatli

Áhuginn er sannarlega til staðar, forvitni okkar beinist ekki eingöngu að afdrifum frændfólks, frægs fólks og íþróttamanna.

Anna Sigríður

Þetta kann að vera rétt, nörd er kannski frekar orða en skammaryrði.

Ég hef ekki fylgst nóg með starfi námsgagnastofnunar til að geta metið hvort þeir séu á rangri leið. Oft hefur loðað við skólastarf að friða hópinn frekar en örva einstaklinga. Vonandi rætist úr því.

Sannarlega þykja gráður misfínar. Það sem skiptir máli er hvað fólk gerir við menntun sína. Samt má alveg hugsa um hversu marga skapahárahreinsara þjóðfélagið þarf að mennta á ári, eða kvikmyndagerðmenn og vélstjóra?

Arnar comment 2.

Alveg sammála.

Arnar Pálsson, 17.8.2011 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband