Leita í fréttum mbl.is

Fuglablik

Mér var bent á að Fuglavernd stendur fyrir ljósmyndasýningu í ráðhúsi Reykjavíkur (frá 9. til 29. september 2011). Tilkynning af vef Fuglaverndar:

Fuglablik - Ljósmyndasýning Fuglaverndar tileinkuð Hjálmari R. Bárðarsyni

Fuglavernd stendur nú fyrir annarri ljósmyndasýningu sinni.  Að þessu sinni er sýningin tileinkuð velunnara félagsins, Hjálmari R. Bárðarsyni, sem lést í mars 2009.  Hjálmar var brautryðjandi í fuglaljósmyndun og gaf út fyrstu stóru ljósmyndabókina um íslenska fugla árið 1986.  Hjálmar, ásamt Grétari Eiríkssyni, var af annarri kynslóð íslenskra fuglaljósmyndara en það var Björn Björnsson frá Norðfirði sem ruddi brautina.  Hjálmar var gríðarlega áhugasamur, iðinn, nákvæmur og listrænn í ljósmyndun sinni.  Myndir hans á sýningunni eru allar teknar á 6x6 cm filmu.

image002

Þegar stafræna byltingin varð á fyrstu árum aldarinnar fjölgaði mjög í hópi fuglaljósmyndara, eins og sést á því að þátttakendur í sýningunni eru 18, auk Hjálmars, þar á meðal margir af helstu myndasmiðum þjóðarinnar á sínu sviði.  Aldurinn spannar frá 14 ára til 87 ára.  Viðfangsefni þeirra eru ærið misjöfn en sammerkt með verkunum er aðdáun og virðing á íslenskri náttúru og íslenskum fuglum.  Í verkunum leika ljósmyndararnir sér að litum, ljósi og skugga, sýna fugla að leik og starfi, í aksjón eða kyrra, portrett eða sem hluta af náttúrunni.  Efnistökin eru jafn margbreytileg og ljósmyndararnir eru margir og býður sýningin uppá afar skemmtilega upplifun.

Sýningin opnar föstudaginn 9. september kl. 17:00 og stendur til 29. september. Sýningin er opin virka daga frá 8-19 en um helgar frá 12-18. 

Umhverfisráðuneytið styrkti sýninguna og Ljósmyndasafn Íslands (Þjóðminjasafnið) veitti góðfúslega aðgang að ljósmyndasafni Hjálmars.

Ég kíkti við á göngu um miðbæin nú um helgina og get vel mælt með sýningunni. Það er skemmtilegt að skoða myndir af fuglum í Ráðhúsinu og síðan lifandi fugla á tjörninni.

Í mér blundar sá draumur að setja upp ljósmyndavef fyrir íslenskar vísinda og náttúrulífsmyndir, en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum enn. Þegar maður sækir ráðstefnur sér maður nefnilega oft ótrúlega flottar myndir, af iðandi maðkasúpu, DNA flókum á geli eða blómabreiðum í skugga jökla. Lífríkið er innblástur margra listamanna, eins og t.d. Bjarna Helgasyni sem hannaði boli með líffræðilegu ívafi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband