Leita í fréttum mbl.is

Mikilvægi eggjastærðar fyrir fjölbreytileika hjá laxfiskum

Laxfiskar hrygna í lækjum, ám og vötnum. Hrygnurnar leggja eggin á botninn, laxar hreinsa oft botninn með ákveðnu atferli, og síðan skvettir hængurinn svili sínu yfir. Foreldrarnir krossa síðan ugga sína og vona að allt fari vel, þeirra hlutverki er lokið og ungviðisins að spjara sig. Reyndar leggja hrygnurnar afkvæmum sínum til meira en erfðaefni, eggin eru hlaðin næringu, boðsameindum og prótínum sem hafa áhrif á þroskun fóstursins.

Þessi áhrif eiginleika eggjanna og stærðar þeirra voru viðfangsefni Camille Leblanc, sem kynnir doktorsverkefni sitt miðvikudaginn 19. október 2011. Verkefnið heitir “The importance of egg size for the diversity of salmonids”, eða Mikilvægi eggjastærðar fyrir fjölbreytileika hjá laxfiskum.

Camille framkvæmdi margskonar athuganir á bleikju og laxi, og einnig tilraunir inni á rannsóknarstofu. Hún sýndir fram á að stærð eggjanna minnkar þegar fiskarnir hrygna á tilraunastofu miðað við egg sem fengin eru úr villtum fiski. Ungviði sem klaktist úr smærri eggjum þroskast hraðar en ungviði úr stórum eggjum. Fiskar úr litlum eggjum verða einnig smærri að meðaltali, en fiskar úr stórum eggjum. Eggjastærðin getur þannig haft heilmikil áhrif á útlit og eiginleika fiskanna. Camille skoðaði einmitt atferli fiska úr stórum og litlum eggjum, og sá greinilegan mun. Fiskar úr stórum eggjum, urðu stærri, hreyfðu sig meira og leituðu víðar að fæðu en fiskar úr smáum eggjum, sem héldu sig við botninn og lifðu rólegheita lífi. Móðurarfurinn getur þannig haft heilmikil áhrif á lífsögu einstaklingsins.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgMynd af bleikjuhrognum, tekin haustið 2010 við Þingvallavatn. Mynd Arnar Pálsson.

Fyrirlestur Camille verður kl 16:00 í stofu 132 í náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Camille Leblanc hlaut doktorsgráðu, frá Háskóla Íslands og Fylkisháskólanum í Oregon (Oregon State University), en leiðbeinendur hennar voru Sigurður S. Snorrason (við HÍ), Skúli Skúlason (við Hólaskóla) og David Noakes við Fylkisháskólanum í Oregon.

Meira um rannsókn Camille - í fréttabrefi Oregon háskóla (bls. 5).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband