Leita í fréttum mbl.is

Fiskurinn í okkur

Fiskurinn í okkur (Your inner fish) eftir steingervingafræðinginn Neil Shubin er kominn út á íslensku.

Ég las bókina fyrir nokkru á engilsaxnesku, en nýt hennar engu síður á íslensku (í ágætri þýðingu Guðmundar Guðmundssonar). Ég mun birta ritdóm um bókina hér von bráðar.

Úr tilkynningu Ormstungu.

Hvers vegna lítum við út eins og raun ber vitni? Hvað á mannshöndin sameiginlegt með fluguvæng? Eru tengsl milli brjósta, fiskhreisturs og svitakirtla? Af hverju fáum við hiksta?


Til þess að skilja betur starfsemi líkamans og grafast fyrir um uppruna algengustu sjúkdóma þarf að leita að upptökunum í ótrúlegustu kvikindum eins og ormum, flugum og fiskum.

Í þessari bók skyggnist höfundur milljónir ára aftur í sögu alls lífs, löngu áður en nokkur skepna gekk um á jörðinni, og skýrir hvernig nýjar uppgötvanir og aðferðir náttúruvísindanna bregða birtu á skyldleika manna við gerólíkar lífverur, eins og bakteríur, sæfífla, orma, flugur, fiska og marglyttur.

Fyrst er lýst hvernig menn bera sig að við að leita steingervinga og segir svo frá því hvernig Tiktaalik, „týndi hlekkurinn“ milli lagar- og landhryggdýra, fannst árið 2006 á norðurslóðum Kanada nálægt 80. breiddargráðu. Fundurinn varpaði nýju ljósi á upphafið að þróun landhryggdýra og breytingarnar sem urðu á vistkerfi jarðar.

Steingervingarnir, ásamt DNA-athugunum, veita athyglisverðar vísbendingar um hvernig bein og vöðvar, sem mynda fiskugga, umbreyttust í ganglimi landhryggdýra. Gangverki þróunarinnar er lýst á ljósan og auðskilinn hátt, til að mynda hvað mannslíkaminn er nauðalíkur fiski.

Lesendur sjá sjálfa sig og umheiminn í algerlega nýju ljósi eftir lestur bókarinnar. Fiskurinn í okkur er vísindaskrif fyrir almenning eins og þau gerast best. Hrífandi og upplýsandi frásögn, aðgengileg og sögð af ómótstæð[u]ilegum eldmóði.

Ítarefni

Tiktaalik


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er mjög skemmtilegur fyrirlestur Shubin.  Hann segir þarna í upphafi að tengslin við fiska séu bara ein leið til að nálgast þessa þróunarsögulegu tengingu. Hann hefðialveg eins getað valið aðrar tegundi. Köngulóin í okkur t.d.

Það er allavega á hreinu að þetta er frábær leið til að koma dýpri skilningi á þróun á framfæri til leikmanna.

Hann talar svo þarna í lokin um það hvernig þessi þekking og hugsun nýtist okkur í læknisfræðilegu samhengi og bendir á að flestir þeir sem hafa hlotið Nóbelinn í læknisfræði undanfarið hafa verið að stúdera skorkvikindi, orma og fleira fjarskylt manninum.

Takk fyrir þessa ábendingu. Ég vona að það spæli engann, en ég náði í bókina á Kindle, sem kostar aðeins $11. Hlakkar til að lesa.

Ég held að Shubin hafi þarna ratað á frábæra leið til að vekja forvitni og áhuga á þróun og erfðum, sem muni nýtast til kennslu. Ekki síst á grunnskólastigum.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2011 kl. 13:31

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk sömuleiðis Jón Steinar fyrir ábendinguna.

Það er augljóst að Shubin er slípaður kennari og fræðari, það drífur bókina áfram og er bersýnilegt í erindinu sem þú bendir á.

Ég hneigi mig fyrir flugunni í okkur alveg eins og fiskinum.

Aðalatriðið  er að lífverurnar eru tengdar saman í ættartré, og að í fiskum nútímans má líka finna sameiginlega arfleifð þeirra og flugna.

Sameiginlegir forfeður, það var lykilhugmynd Darwins. Ég er sammála að þetta mætti að kenna fyrr í skólum, og nota til að þræða saman líf og læknisfræði.

Ég get alveg mælt með ensku útgáfunni, en textinn í þýðingu Guðmundar er mjög lipur miðað við margar íslenskar vísindabækur.

Arnar Pálsson, 1.11.2011 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband