Leita í fréttum mbl.is

Tengsl sjófugla við vistfræði sjávar

Eftir rétta viku (16. desember 2011) mun Gunnar Þór Hallgrímsson verja doktorsritgerð sína: Takmarkandi þættir í vistfræði tveggja máfategunda. Erindið verður í stofu 132 í Öskju (náttúrufræðahúsi HÍ), kl 10:00.

gth_lardel010509_9 Gunnar er óforbetranlegur fuglaáhugamaður (sbr. myndir af www.fuglar.is - t.d. af Hringmáf (Larus delawarensis)) hefur stundað rannsóknir á fuglum um nokkura ára skeið og hefur birt um þær nokkrar greinar. Úr tilkynningu.

Í doktorsverkefni sínu, sem byggir á átta greinum, athugaði Gunnar takmarkandi þætti í vistfræði tveggja máfategunda, sílamáfs og silfurmáfs. Miklar breytingar urðu nýlega í stærsta varpi sílamáfa  á Reykjanesskaga, bæði í útbreiðslu og í mikilli fækkun fjölda verpandi máfa. Ástæður breytinga í útbreiðslu varpsins má rekja til staðsetninga tófugrenja en hrunið í fjölda varpfugla er einkum rakið til fæðuskorts sem m.a. hefur haft áhrif á eiginleika tengda varpinu t.d. minnkandi eggjastærða. Áhrif vítamínsskorts (þíamíns) á fækkun máfa í meginlandi Evrópu var athuguð og einnig hér á landi og eins möguleg áhrif mengunar. Auk þessa voru far sílamáfa og kyngreiningaraðferðir athugaðar. ...

Andmælendur eru dr. Robert Furness, prófessor við Háskólann í Glasgow, Skotlandi og dr. Kristján  Lilliendahl, sérfræðingur á Hafrannsóknarstofnun. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Páll Hersteinsson prófessor hjá Líf- og umhverfisvísindadeild. Eftir andlát Páls í október síðastliðnum tók dr. Snæbjörn Pálsson, dósent við sömu deild, við sæti hans í doktorsnefndinni, en auk hans í nefndinni eru dr. Agnar Ingólfsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, dr. Lennart Balk, dósent við Stokkhólmsháskóla, og dr. Ólafur Karl Nielsen, sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.  

Erlendur andmælandi Gunnar, dr. Robert Furness mun einnig halda erindi sama dag (kl 14:00, í sömu stofu), sem nefnist samskipti sjófugla, sandsíla afræningja í sjó og fiskveiða.

Fjöldi sjófugla í Skotlandi jókst töluvert frá sjötta áratug síðustu aldar fram á þann tíunda. Vísbendingar eru um að ein ástæða þessarar aukningar var fjölgun sandsíla. Ofveiði á þorski, lýsu, makríl og síld í Norðursjó leiddu til fjölgunar sandsíla. Veiðar á sandsílum jukust í kjölfarið. Í lok níunda áratugarins hrundi sandsílastofninn við Hjaltlandseyjar og hafði það áhrif á varpárangur og stofnstærð nokkurra sjófuglategunda. Eftir aldamót hafa flestir sandsílastofnar minnkað stórlega í Norðursjó og sýnt litla nýliðun. Samfara hruni sandsílastofnsins jókst síld í Norðursjó. Stofnstærð margra skoskra sjófugla er nú minnkandi að undanskilinni súlu sem lifir á síld auk minni fiska. Fyrirlesturinn mun rekja þessar breytingar og fjalla um að hve miklu leyti breytingarnar megi rekja til fiskveiða frekar en náttúrlegra orsaka einsog loftslagsbreytinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband