Leita í fréttum mbl.is

Umhverfi, erfðir og andlegir eiginleikar

Eilífðarspurningin er sú hvort að erfðir eða umhverfi hafi meiri áhrif eiginleika mannfólks?

Breytileiki í sumum eiginleikum er nær eingöngu undir áhrifum erfðaþátta, á þetta við um ýmis útlitseinkenni eins og fingraför (sem skipta litlu sem engu hæfni einstaklinga).

Breytileiki í öðrum eiginleikum er nær eingöngu undir áhrifum umhverfisþátta. Þetta á iðullega við eiginleika sem eru nátengdir hæfni, t.d. afkvæmafjölda og frjósemi.

Síðan eru allir hinir eiginleikarnir sem eru breytilegir vegna áhrifa gena og umhverfis, og samspils gena og umhverfis.

Þriðji meginþátturinn er síðan tilviljun, sem getur haft veruleg áhrif á suma eiginleika. Tilviljun veldur því t.d. að andlit eru aldrei fullkomlega samhverf. Andlitin okkar eru með sömu arfgerð, og þroskast í sama umhverfi, en samt er smávægilegur munur á hægri og vinstri hlið. Í sumum tilfellum geta áhrif tilviljunar verið umtalsverð, t.d. vantar mig vænan bita í aðra eyrnablöðkuna, mögulega vegna þess að einhver fruma dó vitlausum tíma eða æð þroskaðist ekki.

Síðan getur líka verið um að ræða samspil milli tilviljunar og erfða, tilviljunar og umhverfis, eða sértækts samspil tilviljunar, erfða og umhverfis. Því þarf ekki að koma á óvart að eiginleikar mannfólks (og annar lífvera) eru mjög breytilegir.

Umhverfi, erfðir, tilviljun og samspil þessara þátta hafa áhrif á útlit og andlega eiginleika.

Í geðlæknisfræðinni hafa líffræðilegar skýringar verið ríkjandi um nokkuð skeið, e.t.v. vegna einhverrar sameindalíffræðiöfundar eða vegna annmarka fyrri nálganna. Líffræðilegar skýringar skiptast í tvo hópa, þær geta þýtt erfðamun á milli einstaklinga eða að umhverfisþættir  hafi áhrif á líffræði einstaklinga (fæða, virk efni, ljóslota o.s.frv.). Umhverfi mannfólks er hins vegar margslungnara en flestra annar lífvera, því við ölumst upp í samfélagi, fjölskyldum og hverfum. Margir þættir í hinu mannlega umhverfi geta mótað og sveigt eiginleika okkar þegar við þroskumst.

Steindór J. Erlingsson fjallar um þessa togstreitu, í pistli sem setur kastljósið á skilgreiningu á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD). Nýlegur pistill hans á vefsíðunni innihald.is (Er staðhæfing ADHD samtakana rétt?) hefst á þessum orðum:

Hvað er geðröskun. Á hún rætur sínar í 1) meðfæddum erfða- og lífefnafræðilegum þáttum í heilanum, 2) áhrifum umhverfisins á einstaklinginn og mótun hans, 3) eða samkrulli þessara þátta? Um þetta hefur verið deilt um langan aldur og sitt sýnist hverjum. ADHD samtökin hafa tekið skýra afstöðu í þessu máli: „Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum.” Er hér á ferðinni vísindaleg eða pólitísk staðhæfing?

Nýlega birtist í tímaritinu Journal of Child Neurology athyglisverð yfirlitsgrein þar sem því er haldið fram að ólíklegt sé að ADHD sé skýrt afmarkaður sjúkdómur. Höfundurinn segir „einbeitingarskort, ofvirkni og hvatvísi vera meðhöndlanlega birtingarmynd margra undirliggjandi læknisfræðilegra, tilfinningalegra og sálfélagslegra þátta sem hafa áhrif á börn“. Hér kemur skýrt fram að ADHD á rætur sínar í líffræðilegum, sálfræðilegum og félagslegum þáttum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ég er bæði mamma og amma fólks með athyglisbrest, dóttirin hefur aldrei verið ofvirk, en dóttursonurinn er vaxinn frá henni að mestu.

Bæði hafa þau reynslu af lyfjum, en velja að vera lyfjalaus og takast á við vandkvæði sín og vanlíðan á annan hátt, með lærðu atferli og sjálfsaga.

Þeim hefur verið hjálpað til að finna sína sterku hliðar og notið elsku og umburðarlyndis þegar þau eiga bágt.

Af reynslu minni af þeim og fleirum nákomnum og svo öllum nemendum mínum hef ég ályktað að upphafið sé erft, en úrvinnslan er svo háð umhverfinu.

Mér fannst þessi tvö sem ég þekki best strax á fyrstu mánuðum bregðast öðruvísi við áreiti en önnur börn sem ég þekki náið.

Það er áríðandi að viðurkenna takmarkanir þeirra og gera ekki kröfur um að þau geti það sem er þeim ómögulegt. Aftur á móti er nauðsynlegt að finna með þeim sterkar hliðar þeirra og hæfileika og styrkja þá.

Þau geta verið miklar orkusugur og þurfa mikla athygli, jafnvel þó þau sæki hana ekki alltaf að fyrrabragði.

Nóg að sinni. Sem sagt, lífeðlisfræði, tilfinningar og umhverfi. En fæstir losna samt við skavankann.

Hólmfríður Pétursdóttir, 10.2.2012 kl. 14:33

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Eitt gleymdist. Það er ekki af því að í þessu erfða sé alkóhólismi og afbrotahneigð og ADHD er margfalt algengari inna fangelsa en utan. Þessi þjóð verður að fara að viðurkenna fólk með þessa eiginleika og ekki krefjast þess að þau verði eitthvað annað. Við ætlumst ekki til að lamað fólk gangi.

Þar með er ekki sagt að þau eigi að vaða uppi í skólunum, heldur að þau fái verkefni við sitt hæfi og með því að nota styrkleika sína.

Hólmfríður Pétursdóttir, 10.2.2012 kl. 14:40

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Hólmfríður fyrir athyglisverða frásögn.

Mér grunar að sjúkdómsgreiningar á geðrænum vandamálum séu farnar að teygja sig inn á róf breytileika í mannlegri hegðun. Sannarlega eru til einstaklingar sem líða vítiskvalir, jafnvel bróðurpart ævi sinnar, vegna geðrænna veikinda. En eirðarleysi, ofvirkni, skortur á athygli finnst hjá flestum, amk undir vissum kringumstæðum.

Það sem ég held að Steindór  sé að leggja áherslu á, sé það að við förum að veita kringumstæðum, samfélagi og félagsumhverfinu betri gaum. Og e.t.v. reyna að takmarka þætti sem ýta undir vanlíðan af geðrænum toga.

Etv. er slíkt ómögulegt, ef t.d. kringumstæður sem draga úr athyglisbresti sumra kunna að kynda undir þunglyndi annara. Þá hljótum við að leita að lausnum fyrir mismunandi manngerðir....

Arnar Pálsson, 10.2.2012 kl. 16:54

4 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Mér sýnist ákveðin gerð þungllyndis, svona óyndi, sækja á fólk með athyglisbrest, sem er vont orð um það sem um er að ræða, því það er í raun ekki athyglin sem eitthvað er að, heldur eitthvað miklu víðtækara.

Ég er á því að alltaf þurfi að mæta einstaklingnum þar sem hann er, hver sem hann er, hvort sem eitthvað þjáir hann eða ekki.

Hólmfríður Pétursdóttir, 10.2.2012 kl. 17:28

5 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Mér var svo mikið niðrifyrir að ég gleymdi Steindóri. Ég er hjartanlega sammála því að við þurfum að gefa gaum að umhverfisþáttunum og því hvernið atlæti börn fá, því lengi býr að fyrstu gerð.

Ég ætlaði ekki að koma í veg fyrir umræðum um þetta spennandi efni og tek fræðilegar umræður ekki nærri mér, jafnvel þó ég sé ekki sammála öllu sem sagt er um geðræna kvilla.

Svo ég vona að þú og þar með ég fáum fleiri viðbrögð.

Hólmfríður Pétursdóttir, 12.2.2012 kl. 17:39

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Hólmfríður.

Ég er sammála þér með það að mæta þurfi einstaklingnum þar sem hann er, hver sem hann er!

Ég held reyndar að félagsumhverfið hérlendis hafi verið ágætt, fjölskyldur samtvinnaðar og stuðningur góður, hvort sem maður þurfi fjör eða ró.

Ef til vill eru það mínir fordómar eða forna sjálf, en mig grunar að hvaðeina sem raskar reglunni á lífinu geti ýtt undir geðrænar raskanir. Áreiti og hraði kann að fara þversumm í sumar persónugerðir, og valda þeim hugarangist eða jafnvel líkamlegum kvölum. Ég þekki fólk sem líður vítiskvalir í Kringlunni á útsölum eða þolir ekki stanslaust áreiti netvæðingarinnar.

Þetta eru bara mínar vangaveltur, það þarf félagsfræðilegar rannsóknir til að prófa slíkar og skyldar tilgátur. Þær geta vonandi sagt okkur hvaða þættir ýta undir geðhvörf, athyglisbrest og bloggæði...

Arnar Pálsson, 14.2.2012 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband