Leita í fréttum mbl.is

Rauða drottningin og hagfræði

Getur próf í dýrafræði bjargað efnahagnum?

Námsferill Matt Ridley var frekar hefðbundinn, hann lauk BS og doktorsprófi í dýrafræði. En að námi loknu varð hann vísindaritstjóri The economist, og vann sig síðar upp í ritstjóra amerísku útgáfunar. Nú er von á honum til landsins til að ræða efnahagsmál.

Framan af skrifaði Ridley mest um líffræði, best þekkta bók hans fjallar um ráðgátuna um kynæxlun, Rauða drottningin, kynæxlun og þróun mannlegra eiginleika (The Red Queen: Sex and the Evolution of Human Nature) (sjá einnig Þróun kynæxlunar).

Rauða drottningin er persóna í bók Lewis Carroll um Lísu Undralandi (Through the looking glass). Hún hleypur til þess að standa í stað. Leigh Van Valen sá í greiningu á steingervingum að aldur* tegunda hefði engin áhrif á líkurnar á því að þær deyja út. Með öðrum orðum, það skiptir ekki máli hversu lengi þú hefur verið að þróast, líkurnar á því að tegundin þín deyji út eru nokkurn vegin jafnar. Með orðum rauðu drottningarnar, lífverur hlaupa og hlaupa í lífsbaráttunni, án þess að komast úr sporunum. Þær verða að hlaupa til að deyja ekki út.

Van Valen setti fram tilgátuna um Rauðu drottninguna, sem fjallar um vopnakapphlaup milli lífvera og hraða útdauða í þróun. Matt Ridley vann síðan út frá þessari hugmynd í bók sinni um þróun kynæxlunar. Þar er hugmyndin sú að kynæxlun auki færni lífvera til að "hlaupa" með umhverfinu, sérstaklega hættulegu umhverfi eins og sýklum eða sníkjudýrum.

Skrif Matt Ridley hafa síðan fjallað um mörg önnur viðfangsefni, byggingu erfðamengisins, samspil erfða og umhverfis og núna síðast aðlögunarhæfni mannkyns. Það er efni bókarinnar Skynsami bjartsýnismaðurinn: hvernig auðlegð þróast ( The Rational Optimist: How Prosperity Evolves). Þar útskýrir og rökstyður hann þá skoðun sína að mannkyninu sé ágæt framtíð búin, vegna þess hversu sveiganleg og lærdómsfús við erum. Einnig sér hann mikið notagildi í hagnýtingu náttúrulegra ferla í hagfræði og mannlegu samfélagi, ekki síst lögmála þróunarkenningarinnar (sjá t.d. How Darwin would reform Britain's banks).

Ég er ekki sammála öllum málatilbúnaði Ridleys, en hlakka samt til að hlýða á erindi hans næsta föstudag (27. júlí 2012 kl. 17:30–19.00 í Öskju, stofu 132 í Háskóla Íslands). Erindið er á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, og heitir „Hvers vegna ég er bjartsýnn af skynsemisástæðum“ (Why I am a Rational Optimist).

Ítarefni:

http://www.rationaloptimist.com/home

http://leighvanvalen.com/

*Aldur tegunda segir til um hversu lengi þær viðhaldast í jarðlögum. Sumar tegundir staldra stutt við en aðrar má finna í jarðlögum sem spanna marga tugi alda.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hann er fluttur inn af nýju frjálshyggjuhugveitu HHG og Co. Hafa ber í huga að Ridely var stjórnarformaður Northern Rock bankans sem var þjóðnýttur árið 2008. Ekki hef ég lesið bókina en að mér læðist sá grunur að hér sé Ridely að réttlæta kerfið sem kom bankanum á hausinn. 

Steindór J. Erlingsson (IP-tala skráð) 24.7.2012 kl. 16:41

2 identicon

Það væri sannarlega gaman að heyra skoðanir hans ( og þínar) um hvernig norræn velferðarsamfélög pluma sig gagnvart þróunarkenningunni!

Jóhann (IP-tala skráð) 24.7.2012 kl. 18:52

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Steindór

Ég hef ekki heldur lesið bókina. En mér skilst, á skrifum á síðu hans, að kjarninn er sá að kynæxlun á milli hugmynda, í gegnum viðskipti og samskipti manna, hafi aukið auðlegð og hagvöxt.

Það er í sjálfu sér ágæt hugmynd, en einnig er spurning hvort að hann gleymi ekki öðrum þáttum.
Ritrýni the NY Times er hörð (Book Review - The Rational Optimist - By Matt Ridley), the Telegraph er frekar gagnrýninn (The Rational Optimist, By Matt Ridley), en rýnir the Guardian líklega mildastur (The Rational Optimist: How Prosperity Evolves).

Jóhann

Ég skil ekki alveg spurninguna.

Ertu að spyrja hvernig norræn þróunarsamfélög þróast?

Þróunarkenningin á við um þróun lífvera, samfélög og hugmyndir breytast af öðrum orsökum. Þróun siðmenningar (cultural evolution) er enn mjög ungt fræðasvið og ég er ekki sterkur á þeim velli. Tékkaðu á Guðmundi Inga Markússyni, hann hefur spáð í svona hlutum.

Arnar Pálsson, 25.7.2012 kl. 14:24

4 identicon

Ekki skil ég af hverju þú skilur ekki spurninguna. Þú segir t.d.:

"Einnig sér hann mikið notagildi í hagnýtingu náttúrulegra ferla í hagfræði og mannlegu samfélagi, ekki síst lögmála þróunarkenningarinnar"

Væntanlega er hægt að leggja mat á hvers konar samfélagsform henta mannskepnunni best miðað við"lögmál þróunarkenningarinnar", eða hvað? 

Hins vegar skil ég ekki hvað þú átt við með "kynæxlun hugmynda" í svari þínu til Steindórs.

Hvað er það?

Er til kynlaus æxlun hugmynda?

Jóhann (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 19:08

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Þróunarkenningin útskýrir eiginleika lífvera, skyldleika þeirra og starfsemi.

Lögmál hennar útskýra eiginleika eins og byggingu, hegðan og lífsferla EINSTAKLINGA. Hún nýtist ekki (nema að mjög takmörkuðu leyti) til að útskýra eiginleika samfélaga og vistkerfi. Það eru viðfangsefni félagsfræði, þróunarfélagsfræði og vistfræði.

Á þessum efri stigum skipulags (efri af því að í þeim taka þátt margir einstaklingar og margar tegundir) koma til lögmál og kraftar sem byggja ekki beint á þróunarkenningunni. Til dæmis eru margir kraftar eða þættir í félagsfræði (eða vistfræði), sem ekki byggjast beint á þróunarkenningunni.

Því tel ég hæpið að vísa til þróunarkenningarinnar um það hvaða samfélagsform séu best fyrir Homo sapiens.

Kynlaus æxlun er klónun, þá umbreytist ein hugmynd yfir í aðra með tíð og tíma.

Kynlaus æxlun er blöndun á hugmyndum. Tvær hugmyndir lenda í sömu höfn, og þeim er skellt saman á nýjan hátt - til að gefa þriðju hugmyndina. 

Einnig má orða þetta sem kynæxlun tækni (tæknilegra fyrirbæra), og skírskota til bronziðju, framfara í skipagerð, raftækni o.s.frv.

Arnar Pálsson, 27.7.2012 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband