Leita í fréttum mbl.is

Er barnablóð vörn gegn öldrun?

Hvað veldur öldrun? Getum við hægt á öldrun með einhverjum ráðum? Er ódauðleiki innan seilingar?  Hví er meðalaldur ólíkra tegunda svo mismunandi? Mannkynið hefur spurt sig (og hundana sína) þessara spurninga í gegnum aldirnar. Vísindin hafa gefið okkur nokkur svör. Upplýsingin og iðnbyltingin hefur líka haft gríðarlega jákvæð áhrif á lífslíkur og meðalaldur manna.

En er hægt að lengja líf manna með einföldu inngripi?

Nýlegar rannsóknir sýna a.m.k. að draga úr vissum einkennum öldrunar í músa, með því að gefa þeim blóð úr yngri músum. S. Villeda* gerði nokkrar tilraunir með mýs. Í fyrsta lagi settu þeir upp hringrás blóðs, á milli ungrar (3-4 mánaða) og gamallar músar (18-20 mánaða), sem blandar blóði beggja og það flæðir um líkama þeirra. Til viðmiðunar voru einnig settar upp hringrásir milli tveggja ungra og tveggja eldri músa. Svona tilraunir eru kallarð parabiosis, og eru algengar í rannsóknum m.a. á ónæmiskerfinu. Önnur tilraun var sú að dæla blóði ungrar músar í eldri og öfugt, gömlu blóði í unga mús. 

Næsta skref var að skilgreina hvaða þætti ætti að mæla? Villeda og félagar eru taugalíffræðingar og þeir skoðuðu stofnfrumur í heila og boðefni og prótín í blóði.

Ungt blóð hefur jákvæð áhrif á heilann

Niðurstöður rannsóknanna sýna að unga blóðið eykur fjölda stofnfruma í heilum eldri músa. Og að sama skapi veldur eldra blóð því að stofnfrumum fækkar í heila ungra músa. Þeir könnuðu styrk 68 boðsameinda og boðprótína ónæmiskerfis og fundu 6 sameindir sem tengdust yngingaráhrifunum.

Á nýlegum fundi Amerísku taugalíffræðisamtakana kynnti Villeda síðan nýjar niðurstöður (reyndar óbirtar!), sem sýna að ungt blóð eykur fjölda tenginga í heilanum. Auki hefur meðferðin jákvæð áhrif á minnið.

Frá ævintýrum til meðferðar?

En hugmyndin um að blóð ungviðis sé æskubrunnurinn er alls ekki ný. Hún finnst í fornum þjóðsögum og ævintýrum, og samkvæmt orðrómi átti Kim Jong-il fyrrum einræðisherrann í Norður Kóreu að hafa sprautað sig með blóði jómfrúa (ungra líklega). Hugmyndin um að vísindin geti fært okkur nær heilbrigðri öldrun er ekki ný, sbr. rannsóknir Lindu Partridge sem visiteraði Ísland fyrir nokkrum árum.

Er hægt að nýta blóð sem yngingarlyf, eða e.t.v. til að sporna við einkennum andlegrar öldrunar? 

Rannsóknir Villeda gefa tilefni til bjartsýni, að það sé e.t.v. hægt að greina þá þætti í blóðinu sem hafa þessi jákvæðu áhrif á taugakerfið. Það er mun raunhæfara að einangra virka þætti úr blóði, og gefa þá með sprautu eða úða, heldur en að dæla blóði í stórum stíl úr ungviði inn í sjúklinga og aldraða. Það eru efri mörk á því hversu mikið blóð einstaklingar geta gefið, en ég er ekki nægilega vel að mér í þeim fræðum til að ræða það frekar.

Eins og alltaf er samt langur vegur frá uppgötvun til meðferðar. Áhersla Villeda og félaga er á taugakerfið en þeir kynnt niðurstöður um aðra vefi. Rannsóknir annars hóps sýndu svipuð áhrif ungs blóðs á endurmyndun eða viðgerð í vöðvum. En í mínum huga er lykilspurningin sú hvort að þetta geti ýtt undir krabbamein. Meðferðir sem auka líkurnar á frumuskiptingum, sérstaklega í stofnfrumum, geta haft þær súru aukaverkanir að hvata myndun krabbameina.

Þannig að þótt niðurstöður Villeda og félaga gefi sannarlega góð fyrirheit, segir reynslan okkur að skála ekki alveg strax.

Að auki.

Varðandi titilinn, þá fyrirgefst okkur vonandi galgopahátturinn. Gárungarnir hafa nú þegar hlaupið kínamúrinn með þessa niðurstöður, sbr. Jezebel,  “Turns Out, Baby Blood Might Be the Actual Fountain of Youth”

Viðbót: Guðni Elísson sendi upplýsingar um forvitnilega frú (Elizabeth Báthory) " baðaði sig í blóði ungra kvenna til að halda í æskuljómann".

Ítarefni. 

Alok Jha Young blood can reverse some effects of ageing, study finds. The Guardian, 17. október 2012.

 

Saul Villeda starfaði við Stanford University með  Tony Wyss-Coray en er nú við Californíuháskóla í San Fransisco (UCSF).

Villeda SA, et al The ageing systemic milieu negatively regulates neurogenesis and cognitive function. Nature. 2011 Aug 31;477(7362):90-4. doi: 10.1038/nature10357.

Conboy, I. M. et al. Rejuvenation of aged progenitor cells by exposure to a young systemic environment. Nature 433, 760764 (2005


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki gefa elítunni neinar hugmyndir Arnar, þeir hafa tekið  meira en nóg nú þegar ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 12:00

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Doctor

Hvað áttu við. Elítan drekkur gojoberjasafa (eða aðra upphækkað gosdrykki),keyrir á bílnum í likamsrækt, flýgur á þotum en endurvinnur plastið um borð og borðar sérinnpakkaðar kremkex-þangblöndur.

Það eina sem getur gefið henni eilíft líf er ferskt blóð...

Arnar Pálsson, 22.10.2012 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband