Leita í fréttum mbl.is

Sigurvegari bandarísku forsetakosninganna...Nate Silver

Barack Obama og Mitt Romney voru frambjóðendur stóru flokkana tveggja til forseta Bandaríkjanna. Aðrir frambjóðendur voru Gary Johnson, Virgil Goode, Jill Stein og Rocky Anderson, oft lýst sem frambjóðendur þriðja flokksins, þótt þau hafi öll ólíkt pólitískt bakland.

Nate Silver var ekki í framboði til forseta. Hann er tölfræðingur sem heldur úti bloggsíðunni Fivethirtyeight þar sem hann spáði fyrir um úrslit kosninga. Silver stóð sig afbragðsvel í aðdraganda kosninganna 2008, spáði rétt fyrir um úrslit í öllum fylkjum nema einu og öllum 35 öldungardeildarsætunum sem kosið var um.

Í ár gerði hann enn betur og spáði rétt fyrir um úrslit í forsetakosningum í öllum 50 fylkjum Bandaríkjanna, sem og um öll öldungadeildarsætin. (Numbers nerd Nate Silver's forecasts prove all right on election night - the Guardian 7. nóv 2012) MSNBC TV lýsti hann sigurvegara bandarísku forsetakosninganna.

Hvernig í ósköpunum getur hann gert þetta þegar kannanir daginn fyrir kosningar sýndu að munurinn á Obama og Romney var það lítill í lykilfylkjum, að ekki var hægt að segja til um útkomuna?

Silver beitti tölfræði sem séra Thomas Bayes lagði grunninn að, sem fjallar um skilyrtar líkur (conditional probability). Það er ef A hefur gerst, hverjar eru líkurnar á að B gerist?

Silver notar ekki bara eina könnun, heldur allar kannanir t.d. á fylgi forsetaframbjóðenda í hverju fylki. Segjum að í könnun sé ekki marktækur munur á frambjóðendum (t.d. 51.2% Obama 48.7% Romney, skekkja upp á 3%). En ef næsta könnun metur fylgi Obama 50.9% - Romney 49.2%, og sú næsta Obama 51.0% og Romney 48.9%, þá birtist mynstur. Obama hefur yfirhöndina. Í hverri einni könnun er munurinn ekki marktækur, en þegar eldri kannanir eru notaðar til grundvallar minnkar óvissan í heildarmatinu.

Þetta er í sjálfu sér engin geimvísindi, en Silver hefur beitt þessari reglu af miklu innsæi. Galdurinn við góð spálíkön er að gefa gögnum rétta vigt, t.d. hvaða kannanir eru áreiðanlegar (gefur Gallup betra mat en Luggap) og hvaða tilhneygingar má lesa úr gögnum yfir ákveðið tímabil.

Stjórnmálaskýrendur bergmála oftar en ekki staðhæfingum flokksvéla og einhverra innvígðra spunameistara. Silver vinnur algerlega fyrir utan þá hringiðu, á gögnum úr könnunum og kosningaþátttöku fyrri ára. Kosningarvél Romney var ekki sátt þegar Silver lýsti því yfir rétt fyrir kosningar að 90% líkur væru a því að Obama myndi vinna. Maskínan reyndi að gera hann tortryggilegann og kalla hann tölvunörd og homma (hann er hvorutveggja). Það skiptir engu máli, því hann spáði rétt fyrir um niðurstöðuna.

Silver er fyrirtaks talsmaður vísindalegrar aðferðar og gagna. Hann segir til dæmis, að við getum byggt á "gögnum, sem sannarlega eru aldrei fullkomin, eða bulli." ('It's numbers with their imperfections versus bullshit.') Það sem hann kallar bull eru stjórnmálaskýrendur sem tala við einn kennara og þrjár búðardömur og tjá sig svo fjálglega um tilfinningar kjósenda í Hlúnkadúnkasýslu.

Gögnin bera í sér sannleikann, er einmitt lexían sem við lásum fyrir nemendur okkar í lífmælingum, þar sem við kennum þeim aðferð vísinda og tölfræði. Í veröld óvissu er þörf fyrir skýrar aðferðir til að greina raunveruleika frá suði, sérstaklega þar sem spunameistarar flokka, fyrirtækja og hagsmunaaðilla dæla út kjaftæði sem hindrar oss sýn (sbr. Olíurisarnir og atlagan að loftslagsvísindum).

Ítarefni:

 Nate Silver: it's the numbers, stupid Carole Cadwalladr The Observer, Saturday 17 November

The Signal and the Noise by Nate Silver  review Ruth Scurr the guardian Fri 09 November 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góður og skemmtilegur pistill, takk! Minnir mig á það fyrirbæri í gamla daga þegar Jónas Kristjánsson var ritstjóri DV að DV spáði alltaf réttara um úrslit kosninga hér heldur en aðrir, þeirra á meðal Gallup.

DV notaði afbrigði af aðferð Nate Silver og "leiðrétti" skoðanakönnunina um nokkur ákveðin prósent varðandi fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem hafði í flestum ef ekki öllum kosningum á undan fengið minna fylgi í kjörklefanum en í skoðanakönnunum.

Ómar Ragnarsson, 21.11.2012 kl. 09:46

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Ómar fyrir athugasemdina.

Þetta gæti verið dæmi um leiðréttingu eins og Silver notar.

Þetta snýst allt um nákvæmni mælinganna.

Hversu grófur er mælikvarðinn, og eru viss tæki bjöguð að einhverj leyti?

Ef maður veit bjögunina, eins og væri í misræmi á skoðannakannafylgi og kjörfylgi, þá er hægt að ná betra spá líkani.

Hin hliðin á málinu er sú að stundum er ekki marktækur munur á milli kannana, en samt túlka stjórnmálafræðingar niðurstöðuna. Ef t.d. flokkur X er með landsfund og fylgið fer upp um 2% eftir fundinn, en munurinn er ekki marktækur, þá verið að oftúlka suð.

En breytingar vekja meiri athygli en ekki breytingar, og einhverju verða fréttamenn að  segja frá...

Arnar Pálsson, 21.11.2012 kl. 13:49

3 identicon

Saelir,

vil benda a ad thad voru fleiri sem gerdu jafnvel, e.g., Drew Linzer a votamatic.org og Simon Jackman a Huffington Post (http://www.huffingtonpost.com/simon-jackman/pollster-predictive-perfo_b_2087862.html). Thannig ad thad er ekki innsaei hans sem gerir thetta ad verkum heldur einfaldlega almennilega notkun a gognum og tolfraedi.

Olikt thessum tveimur sem eg nefni ad ofan tha ma reyndar gagnryna Silver fyrir visindalega vinnubrogd, th.e., adferdir hans eru ekki fullkomlega opinberar. M.o.o., ef eg vil sannreyna adferdir med gognum ur odrum kosningum tha er thad ekki fullkomlega mogulegt. Thad samraemist ekki visindalegum vinnubrogdum - en hinsvegar ma segja ad thad skipti kannski minna mali her thar sem hann er ad spa fyrir um urslit en ekki utskyra kosningar sem hafa att ser stad.

kv,

i

Indridi Indridason (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 19:54

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Indriði fyrir góðar ábendingar.

Innsæi hjálpar þegar maður er að byggja líkön og setja vikt á prior líkur. 

Betra er ef maður hefur raunverulegar niðurstöður sem geta hjálpað til við að gefa viktina.

Það er sannarlega ámælisvert ef Silver gerir ekki líkön sín aðgengileg. Sérstaklega ef hann hefur birt ritrýndar greinar um þau. Hefur hann gert það, eða skrifar hann bara fyrir sína eigin síðu? Það er náttúrulega ekki nægilega gott til lengdar, enginn vill að hann verði Véfréttin í Delphi, hulinn bak við reyk og tjöld.

Arnar Pálsson, 26.11.2012 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband