Leita í fréttum mbl.is

Langtíma breytileiki í erfðasamsetningu þorsks (Gadus morhua) við Ísland

Tilkynning frá HÍ.

 --------------------------------

Þriðjudaginn 29. janúar n.k. fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild. Þá ver Klara Björg Jakobsdóttir doktorsritgerð sína: Langtíma breytileiki í erfðasamsetningu þorsks (Gadus morhua) við Ísland (á ensku: Historical genetic variation in Atlantic cod (Gadus morhua) in Icelandic waters).

Andmælendur eru  Svein-Erik Fevolden, prófessor við Háskólann í Tromsø, Noregi  og  Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum

Leiðbeinendur eru Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Daniel E. Ruzzante, prófessor við Dalhousie háskólann í Halifax, Kanada og Dr. Christophe Pampoulie, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent við Líf- og Umhverfisvísindadeild og forseti Líf- og Umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, mun stjórna athöfninni.

Tengill á ritgerð: http://skemman.is/handle/1946/13858

Ágrip

Þekking á erfðafræðilegri stofngerð þorsks hefur aukist til muna á undanförnum áratugum. Hins vegar er enn lítið vitað um sögulegar breytingar í erfðasamsetningu þessa fisks eða möguleg áhrif fiskveiða á hana, hvort sem er í tíma eða rúmi. Markmið þessa doktorsverkefnis var að kanna erfðabreytileika þorsks á seinni hluta síðustu aldar og meta áhrif fiskveiða.

Unnt er að nýta gamlar kvarnir sem hefur verið safnað af Hafrannsóknastofnun til aldursgreininga, til að nálgast erfðaefni. Í fyrsta hluta verkefnisins er fjallað um notkun nýrra erfðamarka en léleg gæði erfðaefnis sem einangrað var úr uppþornuðum vefjaleifum af yfirborði kvarnanna kallaði á þróun nýrra aðferða til að auðvelda notkun þess.

Í öðrum hluta ritgerðarinnar var hið valbundna Pan I erfðamark notað til að aðgreina erfðafræðilega tvo hópa þorsks sem sýnt hafa ólíkt atferli m.t.t. til fæðunáms. Þannig var sýnt fram á að Pan IAA arfgerð einkennir grunnfarsþorsk, sem heldur sig á grunninu allt árið um kring en Pan IBB arfgerð virðist einkenna djúpfarsþorsk sem leitar í dýpri sjó og í hitaskil til fæðuöflunar.

Í megin hluta ritgerðarinnar var notað erfðaefni af  kvörnum sem safnað var á árunum um 1948-2002 auk líffræðilegra upplýsinga til að kanna langtíma breytingar á arfgerðatíðni Pan I erfðamarksins sem og hlutlausra erfðamarka (örtungl) í hrygnandi þorski við Ísland. Helstu niðurstöður voru þær að jafnframt því sem að meðalaldur fiska lækkaði á tímabilinu urðu breytingar á arfgerðatíðni Pan I erfðamarksins. Þessar niðurstöður bentu eindregið til þess að hlutfall Pan I BB arfgerðar sem einkennir djúpfarshópinn hafi minnkað í kjölfar aukins fiskveiðiálags á rannsóknartímabilinu.

Ítarleg rannsókn á langtíma breytileika í hlutlausum erfðamörkum (örtungl) leiddi í ljós töluverðan breytileika og erfðafræðilegan mun á milli ára, sér í lagi yfir seinni hluta tímabilsins. Erfðafræðileg stofnstærð (Ne) var metin vera á bilinu nokkur hundruð til þúsunda fiska sem er mjög lág miðað við eiginlegan hrygningarstofn. Niðurstöður bentu til þess að sá mikli breytileiki sem einkennir ýmis lífsöguleg atriði í íslenska þorskinum endurspeglist í breytilegri erfðasamsetningu en um leið tiltölulega lágri erfðafræðilegri stofnstærð. Jafnframt sýna niðurstöður fram á mikilvægi endurtekinnar söfnunar yfir lengri tímabil svo greina megi erfðafræðilegar langtímabreytingar frá skammtímasveiflum.

------------

sjá einnig Aðlögun að dýpi og  Intense Habitat-Specific Fisheries-Induced Selection at the Molecular Pan I Locus Predicts Imminent Collapse of a Major Cod Fishery

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband