Leita í fréttum mbl.is

Hross úr forneskju

Hesthaus á staur mætti göngumönnum á miðri heiðinni. Uggur fór um hópinn og þeir pískruðu sín á milli, "hvaða kraftar eru hér að verki?" Þokan skreið niður dalverpin og umlukti mennina, og vitið yfirgaf þá endanlega.

-----------------

Menn og hestar tengjast fornum og traustum böndum. Forfeður okkar beisluðu hross og þau eru meðal elstu og forvitnilegustu húsdýra mannsins. En hver er uppruni hestsins, eða ólíkra hestakynja? Hvenær greindust þeir frá öðrum hest-tegundum og ösnum? Eru Przewalski hestarnir náskyldir eða fjarskyldir nútíma hestum og eru þeir í hættu vegna kynblöndunar? genimage_ashx.jpg

Þessar spurningar voru viðfangsefni nýlegrar rannsóknar Ludovic Orlando við Háskólann í Kaupmannahöfn, og samstarfsmanna hans (um 40 manna hóps).

Til að svara þessum spurningum beittu þeir aðferðum stofnerfðafræðinnar. Þeir nýttu nýlega tækni, sem gerir fólki kleift að raðgreina heilu erfðamengi tegunda og einstaklinga. Að auki duttu þeir í lukkupottinn og náðu erfðaefni úr tveimur ævafornum hestsbeinum. Annað var um 42.000 ára bein, en hitt var 560.000–780.000 ára gamalt bein úr sífreranum í Yukon.

Þetta er nýtt met í raðgreiningu á beinum. Elstu nýtilegu gögn til þessa komu úr 70.000 ára gömlum efnivið. Að auki sýna gögnin að hestar aðskildust líklega frá öðrum hestategundum fyrir um 4 milljónum ára.

Mongólsku villihestarnir, kallaðir Przewalski hestar, eru náskyldasti hópur núlifandi hestanna okkar. Gögnin benda til aðskilnaðar fyrir um 40.000 árum, og gefa ekki til kynna að kynblöndun hafi átt sér stað á milli þeirra síðan.

En gögnin sýna líka hvaða erfðaþættir hafa breyst samfara því að menn tömdu hesta, og fóru að ala þá sem húsdýr. Upp á enskuna er talað um "domestication", en ég megna ekki að snara því orði almennilega. Niðurstöður Orlandos og félaga sýna hvaða erfðaþættir hafa mögulega tengst breytingum á eiginleikum hesta, frá villtu stóðdýri, til þeirra öflugu áhrifavalda sem hestar hafa verið í mannkynsögunni.

En þótt að genin opni okkur sýn aptur í forneskju, þá skulum við muna að erfðir eru ekki allt. Margir þeir eiginleikar sem prýða hross eru einmitt tilkomnir vegna dásamlegs atlætis, og persónulegrar þjálfurnar og samveru. Að því leyti eru hestar ekki ólíkir okkur, genamundurinn er ekki allt, það skiptir líka máli að fæðast inn í rétt samfélag eða fjölskyldur. Það getur skipt máli hvernig maður tekst við hinu óvænta, eins og níðstöng á miðri heiði.

Ítarefni:

Mynd eftir Halldór Pétursson af vefnum www.myndlist.is.

Fréttatilkynning Kaupmannahafnar háskóla A 700.000 year old horse gets its genome sequenced 26 Júní 2013

Ludovic Orlando, ofl. Recalibrating Equus evolution using the genome sequence of an early Middle Pleistocene horse Nature (2013) doi:10.1038/nature12323


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband