Leita í fréttum mbl.is

Öflugt ríkisútvarp takk fyrir

Ég er fylgjandi öflugu ríkisútvarpi hérlendis, sem rekur trausta fréttastofu, er með útsendingar um land allt, og margskonar þætti þar sem fjallað er um með þjóðmál, umhverfi, atvinnuþróun og efnahag landsins.

RÚV hefur einnig fjallað um íslensk vísindi betur en flestir aðrir miðlar. Tilraunaglasið var t.d. eini íslenski útvarpsþátturinn helgaður vísindum, en því var stungið inn í skáp í niðurskurðinum. Það var einstaklega bagalegt í ljósi þess að vísindi og tækni eru nauðsynleg fyrir eflingu þjóðlífs og nýsköpun.

Áskorunin í heild sinni:

-------------------

Ríkisútvarpið hefur verið hornsteinn mannlífs á Íslandi í meira en áttatíu ár. Í okkar unga lýðveldi eru fáar stofnanir svo grónar og ríkar að hefðum. Ríkisútvarpið er einn besti vettvangur sem vísinda- og fræðafólk á Íslandi hefur til þess að miðla nýrri vitneskju, fróðleik og gagnrýni til almennings og er því ómetanlegur tengiliður háskólanna við samfélagið. Ráðstafanir sem veikja Ríkisútvarpið draga um leið úr áhrifum og sýnileika háskólanna í þjóðfélaginu.

Ríkisútvarp er meira en fjölmiðill. Það er í fyrsta lagi varðveislustaður þjóðmenningar, þar á meðal dægurmenningar. Þetta má sjá glögglega í nágrannalöndunum á því að í kringum ríkisfjölmiðla hafa orðið til fjölsótt söfn fyrir fræðimenn og almenning. Dægurefni er ein mikilvægasta uppspretta skilnings á samfélaginu og sinnuleysi um varðveisluhlutverk RUV hefur því í för með sér ómælt tjón fyrir samfélag framtíðarinnar.

Ríkisútvarpið er í öðru lagi miðstöð dagskrárgerðar. Þrátt fyrir ítrekaðar aðgerðir til að þynna dagskrána, hefur Rás 1 til dæmis haft afgerandi sérstöðu fram að þessu. Þessa dagskrárgerð má ekki meta út frá áhorfs- og hlustunartölum einum. Sú staðreynd að útvarpið getur endurtekið margra áratuga gamalt efni sýnir vel hversu oft hefur verið unnið mikilvægt og gott starf í dagskrárgerð. Tjónið af því að þrengja enn frekar að henni er ekki aðeins tjón hlustenda dagsins í dag, heldur ekki síður fyrir framtíðarstarfsemi útvarps og sjónvarps.

Undanfarin ár hefur Ríkisútvarpið þolað mikinn niðurskurð og í því frumvarpi til fjárlaga sem liggur fyrir Alþingi er áformað að höggva enn í sama knérunn. Í kjölfar harkalegra uppsagna á stofnuninni fyrir hartnær þremur vikum hefur risið mótmælaalda í samfélaginu. Ráðamenn þjóðarinnar og Ríkisútvarpsins hafa ekki brugðist við þeirri gagnrýni sem að þeim er beint utan úr samfélaginu, heldur vísar þar hver á annan. Það er ótækt.

Við skorum á Alþingi
• að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð fjárframlaga til Ríkisútvarpsins sem boðaður hefur verið.
• að sjá til þess að útvarpsgjaldið sem lagt er á landsmenn renni óskipt til Ríkisútvarpsins og þjóni þannig markmiðinu sem löggjafinn ætlar því.
• að þrýsta á stjórn RÚV ohf., sem kjörin er af Alþingi, að sjá til þess að uppsagnir starfsmanna verði dregnar til baka og tryggja að Ríkisútvarpið geti starfað af þeim metnaði sem sæmir lykilstöðu þess í
samfélaginu.

Tilraunaglasið | RÚV

 


mbl.is Háskólastarfsmenn skora á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband