Leita í fréttum mbl.is

Um trúverðugleika vísindamanna og orðræðu stjórnmálamanna

Þórarinn Guðjónsson skrifar í Fréttablaðið (23. janúar 2014), Um trúverðugleika vísindamanna og orðræðu stjórnmálamanna.

--------------

Í heimi vísinda og fræða skiptir trúverðugleiki miklu máli. Vísindamenn vinna út frá forsendum og tilgátum, greina gögn og draga ályktanir eftir bestu vitund. Skoðanir og niðurstöður vísinda- og fræðimanna eru alls ekki yfir gagnrýni hafnar. Þvert á móti. Vísindi nærast á akademískri gagnrýni sem byggir á rökstuddri umræðu um viðfangsefnin.

Í nýlegu viðtali við Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í þætti Gísla Marteins Baldurssonar „Sunnudagsmorgni“ hinn 12. janúar var hann spurður um álit sitt á athugasemdum sérfræðinga úr faghópi eitt í öðrum áfanga Rammaáætlunar. Athugasemdirnar birtust í DV 10. janúar í kjölfar tillögu ráðherra um breytingar á Rammaáætluninni. Ráðherra dró fagmennsku vísindamannanna í efa án þess að útlista nánar hvað hann ætti við annað en að hugsanlega væru viðkomandi vísindamenn í pólitískum erindagjörðum. Þess ber að geta að hópurinn samanstóð af 11 vísinda- og fræðimönnum frá mismunandi stofnunum og ólíkum fræðasviðum. Ráðherra til hróss sá hann eftir þessum ummælum og baðst afsökunar á þeim (sjá hádegisfréttir RÚV 15. janúar).

Bætum umræðuhefðina
Sambærileg atvik hafa áður komið upp og vekur þetta spurningar um skyldur vísindamanna til að miðla upplýsingum á opinberum vettvangi um málefni þar sem þeirra sérþekking liggur. Á vísindamaðurinn að þegja þrátt fyrir að hann telji sig búa yfir mikilvægum upplýsingum sem eigi erindi til almennings? Að vegið sé að trúverðugleika fólks án rökstuðnings er óásættanlegt.

Slík vinnubrögð hafa hins vegar gjarnan tíðkast meðal stjórnmálamanna þegar þeir berjast innbyrðis og vega hver að öðrum. Kannski er það ein ástæða þess að stjórnmálin skortir trúverðugleika og að Alþingi er sú stofnun sem fólk ber hvað minnst traust til. Auðvitað geta vísindamenn haft rangt fyrir sér eins og aðrir og er það bara mannlegt en þá takast menn bara á í upplýstri umræðu um málefnin. Það eru ákveðin teikn á lofti um að hluti þingmanna vilji breyta orðræðu í stjórnmálum til hins betra og er það gott. Slíkur viðsnúningur mundi skila sér í betri samskiptum manna á milli og án efa efla samskipti og samvinnu stjórnmálamanna við ráðgefandi hópa í þjóðfélaginu hvort sem það eru vísinda- og fræðimenn eða aðrir. Það er afar mikilvægt að við bætum umræðuhefðina í samfélaginu, hættum að fara í manninn og ræðum málefnin á grundvelli raka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband