Leita í fréttum mbl.is

Fjársveltur Háskóli

Útskrift nemenda er sérstaklega ánægjulegur viðburður. Fólk sem hefur lagt hart að sér við nám kemst yfir marklínuna og heldur áfram á lífsins braut. Menntun er sérkennileg að því leyti að hún er ekki jafn áþreifanleg og önnur afrek manna. Það stendur ekki eftir bygging, rúllubaggastæða eða bretti af frosnum fiski. Menntun mótar bara einstaklinginn, en þannig óbeint samfélagið allt.

Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ ræddi við útskriftina 22. febrúar um stöðu HÍ, fjármögnun, velgjörðarmenn og hlutverk. Hún tiltók fjölmörg dæmi um mikilvægar rannsóknir sem stundaðar eru við HÍ, bæði hagnýtar og grunnrannsóknir (ekki tíunduð hér). Rektor ræddi sérstaklega um fjármögnun skólans, lagði áherslu á skort á stuðningi frá ríkinu og hina fjölmörgu velgjörðarmenn skólans. Rektor segir:

Ef við miðum tekjur Háskóla Íslands við meðaltal  tekna háskóla í löndum OECD, skortir fimm milljarða króna árlega til að við stöndum jafnfætis. Ef borið er saman við Norðurlönd, er munurinn talsvert meiri.  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ákvæðum í samningi um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands verði fylgt, en þar er kveðið á um stefnumótun til framtíðar um fjármögnun skólans. Fyrsta markmið er að tekjur skólans verði sambærilegar við meðaltal OECD-ríkja.  Við fögnum vilja stjórnvalda til að helga sig þessari vinnu. Á móti skuldbindur skólinn sig til að afla þriðjungs þeirra tekna sem upp á vantar gegnum sjálfsaflafé, meðal annars með sókn í rannsóknastyrki úr erlendum samkeppnissjóðum.  Við fögnum niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Capacent um að meirihluti Íslendinga vilji auka framlög til háskóla.  Fyrir rúmri öld gengum við sameinuð til verka og stofnuðum háskóla í bláfátæku samfélagi. Hvers erum við þá megnug í dag?  Við skulum svara þeirri spurningu með því að láta verkin tala. Og samfélagið mun uppskera eins og til verður sáð.

En rektor bendir einnig á að fjárskorturinn hafi alvarlegar afleiðingar fyrir starf skólans. Hún tiltekur sérstaklega að skólinn sé ekki samkeppnishæfur við erlenda háskóla.

Háskóli Íslands keppir um verkefni og mannafla við fjárhagslega sterkar stofnanir um allan heim. Við sjáum þess sárgrætileg dæmi að öflugir vísindamenn og kennarar, sem vilja starfa við skólann, finna sér starfsvettvang annars staðar þar sem fjárhagur og starfsskilyrði eru betri.  

Þetta á ekki að koma á óvart því það hefur ítrekað komið fram að íslenska háskólakerfið er stórkostlega undirfjármagnað. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að horfast í augu við afburðafólk, fólk  sem er tilbúið að leggja líf sitt í verkin, og geta ekki boðið viðunandi kjör og starfsskilyrði. Þetta er ekki bara missir fyrir Háskóla Íslands heldur samfélagið allt því uppbygging háskólastarfs leggur grunn að lífskjörum okkar í framtíðinni.

Þetta er allt satt og rétt. En það eru reyndar líka gallar á innra starfi HÍ sem hrekja fólk frá skólanum. Eitt dæmi er hversu veikur rannsóknasjóður HÍ er. Yfirvöld skólans vilja frekar deila afmælissjóðnum í önnur mál, en að styrkja grunnrannsóknirnar. Helga Ögmundsdóttir ræðir nokkur þessara atriða í Sjónmáli í síðusut viku.

Þar utan ræður meingallað punktakerfi að miklu leyti miðlun fjármagns til rannsókna innan skólans.

En í víðara samhengi, má einnig spyrja sig til hvers er menntun og hverjir eiga að fjárfesta í henni. Í síðustu viku ræddi Páll Skúlason um málið í Sjónmáli, og við lögðum út af því í litlum pistli (brot úr honum birtist hér).

Páll Skúlason lagði áherslu á að peningar mega ekki einir ráða ferðinni. Við verðum að meta menntun að eigin verðleikum. Og líka átta okkur á að hún er ekki einkamál nemanda, heldur skiptir hún líka samfélagið máli. Samfélagið fjárfestir í góðri menntun þegnanna, með það að markmiði að upplýsa fólk og gefa því tækifæri til að bæta sig í lífi og starfi. Samfélagið fjárfestir líka í menntun, til að skaffa atvinnulífi hæfa einstaklinga og til að næra grasrótina þaðan sem nýjar hugmyndir og fyrirtæki spretta.

Sannarlega eru peningar af skornum skammti, en það er algerlega misráðið að einblína á menntakerfið með augum aurasálarinnar. Í Bandaríkjunum hafa peningasjónarmið verið ríkjandi í rekstri margra háskóla, með mörgun alvarlegum aukaverkunum. Meðal þess sem Páll tíundaði er það að skólagjöld í BNA hafa tilhneygingu til að hækka langt umfram almennt verðlag. Þetta skilar sér ekki endilega í betri menntun, en örugglega í feitari bónus fyrir rektor viðkomandi háskóla. Afleiðingin er líka stéttaskipting. Bara hinir ríku komast í bestu skólana. Og þeir sem læra í bestu skólunum fá bestu vinnurnar.

Það er sérlega ánægjulegt að rektor skuli leggja spilin á borðið og segja frá því hversu fjársveltur HÍ er. En einnig er mikilvægt að við tökum til við að lagfæra það sem gallað er í innra starfi skólans.

Ítarefni og heimildir:

HÍ 22. febrúar 2014. Ræða rektors við brautskráningarhátíð

Rás 1. Sjónmál. 20. 2. 2014 Vilja búa hér en vinna erlendis

Rás 1. Sjónmál 17. 2. 2014 Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans

Ritdómur um University, Inc.: The Corporate Corruption of American Higher Education eftir Jennifer Washburn.


mbl.is Tekjur þurfi að aukast um fimm milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband