Leita í fréttum mbl.is

Hvar eru rauðhærðir algengastir?

Í hvaða landi eða landsvæði eru rauðhærðir algengastir? Hvar er Ísland í röðinni hvað varðar hlutfall rauðhærðra? Er hægt að sjá með DNA-rannsókn hvaðan rauðhærðir Íslendingar koma?

Arnar Pálsson. „Hvar eru rauðhærðir algengastir?“. Vísindavefurinn 5.2.2015.

Rautt hár er algengast meðal Vesturlandabúa, en nær óþekkt hjá upprunalegum ættbálkum Afríku, Ameríku og Ástralíu. Rautt hár finnst að auki í nokkrum asískum ættbálkum. Í Vestur-Evrópu er það algengast á Bretlandseyjum. Tíðnin er hæst á Írlandi og í Skotlandi (frá 10-30% eftir svæðum), en sýnu lægri í Wales og svo Englandi. Rautt hár er ansi algengt í Suðvestur-Noregi (um 10%), en tíðni þess er lægri annars staðar í Skandinavíu og Danmörku. Svipaða sögu er að segja af meginlandi Vestur-Evrópu, tíðnin lækkar með fjarlægð frá Bretlandseyjum. Um 8% íslenskra kvenna og 6% íslenskra karlmanna eru rauðhærð.

Rautt hár er algengast á Bretlandseyjum og Suðvestur-Noregi en fer svo dvínandi eftir því sem fjær dregur. Kortið sýnir væntanlega megindrætti en er varla hárnákvæmt, tæplega er hægt að skipta Íslandi í tvö svæði með tilliti til þess hversu algengur rauður háralitur er eins og hér er gert.

Rautt hár er arfgengt. Ef einstaklingur er arfhreinn um stökkbreytingu/ar á geninu MC1R (e. melanocortin-1 receptor) þá verður hár hans rautt (sjá nánar í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Eru litningar í rauðhærðum eitthvað gallaðir?) Gen eru strengur – oft þúsund eða fleiri þúsund basa langur. Basarnir eru fjórir, oftast táknaðir með bókstöfum (A, C, G og T) og verða þeir að vera í réttri röð til að afurð gensins myndist og starfi eðlilega. Stökkbreytingar valda oft víxlum á tilteknum bösum, til dæmis verður basi A á stað 241 í strengnum að basa G. Það getur leitt til þess að afurð gensins skaddist eða eyðileggst alveg. Rétt eins og mataruppskriftir geta farið aflaga á marga vegu, geta gen skemmst á ólíkan hátt.

Því eru margar ólíkar stökkbreytingar í MC1R geninu. Sumar eru alvarlegar en aðrar mildari. Það fer eftir því hvaða tvær MC1R stökkbreytingar einstaklingur er með, hvers konar rauðan lit hárið fær. Rautt hár er nefnilega ansi fjölskrúðugt, til dæmis brúnt með roðaglans, rauðbirkið eða ljósgyllt. Einnig gæti skipt máli hvaða aðra erfðaþætti viðkomandi er með, auk gallana í MC1R, en ekki verður farið út í þá sálma hér.

 

 

 

Rautt hár tengist stökkbreytingu á geninu MC1R. Þessi brosmildu tvíburasystkini hafa fengið stökkbreytt gen frá báðum foreldrum þar sem rautt hár er víkjandi eiginleiki.

Spurt var hvort að hægt væri að sjá með DNA-rannsókn hvaðan rauðhærðir Íslendingar koma? Hugsum fyrst bara um MC1R-genið. Þar sem rautt hár getur orsakast af ólíkum stökkbreytingum og vegna þess að tíðni þeirra er ólík milli landa og jafnvel landsvæða, er möguleiki að meta uppruna rauðhærðra Íslendinga. Ef ákveðin stökkbreyting í MC1R væri algengust á Bretlandseyjum en önnur stökkbreyting væri algengust í Noregi, þá væri hægt að greina hvaðan rautt hár tiltekins Íslendings sé ættað. Ef við gefum okkur að þetta séu einu tvær breytingarnar í MC1R hérlendis og báðar jafn algengar er dæmið einfalt. Þá væri líklega helmingur rauðhærðra með eitt eintak af hvorri stökkbreytingu, og því með norskt/breskt rautt hár. Hvor fjórðungur hinna rauðhærðu væru með annað hvort með norskt eða skoskt/írsk rautt hár.

En MC1R er bara hluti svarsins. Í erfðamengi mannsins eru um 25.000 gen og hefur hvert þeirra sína sögu. Þar að auki eru genin innan við 2% af erfðamengi mannsins. Þegar spurt er um uppruna Íslendinga (rauðhærðra eða annarra) þarf að taka eins konar „meðalsögu“ allra genanna og erfðamengisins. Það má jafnvel ímynda sér ýkt dæmi. Íslensk kona kann að vera arfhrein um stökkbreytingu í MC1R (og því rautt hár) sem er komin frá Noregi, en stærsti hluti erfðamengis hennar er samt ættaður frá Bretlandseyjum.

Að síðustu má geta þess að MC1R er ekki einhamt, frekar en önnur gen. Gallar í MC1R auka einnig líkurnar á freknum, og húð arfbera er yfirleit mjög ljós og viðkvæmari fyrir sólbruna. Samfara eru auknar líkur á sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum. Reyndar eru líkurnar á húðkrabbameinum tengdar því hversu mikla sól fólk fær. Stökkbreytingar í MC1R tengjast ekki húðkrabbameinum hérlendis en í sólríkari löndum eins og Hollandi og Spáni eru tengslin ansi sterk.

Þvert á staðalímyndir valda breytingar í MC1R ekki grænum augnlit. Breytingar á OCA2-, SLC24A4- og TYR-genunum eru taldar mikilvægastar fyrir græn augu.

 

  • Í stuttu máli eru rauðhærðir menn algengastir á Bretlandseyjum og á vissum svæðum á Norðurlöndum.
  • Rautt hár prýðir 6-8% Íslendinga.
  • Tíðni stökkbreytinga sem auka líkur á rauðu hári er ólík milli landsvæða.
  • Mögulega er hægt að meta uppruna erfðaþátta sem tengist rauðu hári einstaklinga, en það væri bara lítill hluti af erfðamenginu og ónákvæmt mat á erfðafræðilegum uppruna viðkomandi.

Ítarefni:

  • Sulem P, Gudbjartsson DF, Stacey SN, Helgason A, Rafnar T, Magnusson KP, Manolescu A, Karason A, Palsson A, Thorleifsson G, Jakobsdottir M, Steinberg S, Pálsson S, Jonasson F, Sigurgeirsson B, Thorisdottir K, Ragnarsson R, Benediktsdottir KR, Aben KK, Kiemeney LA, Olafsson JH, Gulcher J, Kong A, Thorsteinsdottir U, Stefansson K. 2007. Genetic determinants of hair, eye and skin pigmentation in Europeans. Nature Genetics, 39(12):1443-52.
  • Jonathan Rees 2/4/03. The roots of red hair | The Human Genome. (Skoðað 13. 1. 2015).
  • Gerstenblith MR, Goldstein A, Fargnoli MC, Peris K, Landi MT. 2007. Comprehensive evaluation of allele frequency differences of MC1R variants across populations. Human Mutation 28: 495-505.

Myndir:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnar!

Það er til kenning um að rauðhært fólk eigi uppruna sinn af annarri plánetu.

=Að rauðhært fólk hafi komið frá plánetu í Lyra-stjörnukerfinu.

http://www.exopaedia.org/Lyran+Redheads

Gætum við reynt að ímynda okkur plánetu þar sem að allir væru rauðhærðir alveg eins og að allir asíubúar eru dökkhærðir?

=Kynþættirnir komu allir úr sitthvoru stjörnukerfinu fyrir þúsundum ára en málið snýst ekki um stökkbreytingar:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1548604/

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 11:23

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Tíðni rauðs hárs í Ísrael er miklu hærra en það sem þetta kort gefur til kynna. Léleg tölfræði Patricks Sulem!

FORNLEIFUR, 9.2.2015 kl. 13:29

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón

TILGÁTAN um rautt hár sé frá öðrum plánetum er álíka spennandi og tilgátan um að sóleyjar eigi uppruna sinn á sólinni.

Sæll Fornleifur

Kortið er af EU-vefsíðu sem er helguð rannsóknum á tíðni rauðs hárs. Patric Sulem er frábær tölfræðingur! Hann greindi íslendinga og hollendinga en ekki Ísraelsmenn. Ég er sammála að myndin er ekki nákvæm. Til að fá svona fínar línur á landakortið þyrfti hundruði sýna yfir alla álfuna. Enginn þeirra rannsókna sem ég fann er með slíka sýnastærð. En stóru drættirnir á myndinni eru réttir.

Arnar Pálsson, 9.2.2015 kl. 15:10

4 identicon

Rautt ár var í hundruðir ára aðallega tengt við gyðinga í Austur Evrópu og í minna mæli Þýskalandi. Í Austur-Evrópu, þar sem þeir sem hafa ljósara hár eru næstum alltaf "ash blonde" og gullna slikjan er mikið sjaldgæfari en í Vestur Evrópu, þótti rautt hár því bera vitni um "vafasamt" ætterni og skapaði tortryggni. Líklega er uppruni fordóma manna gegn rauðhærðum að finna út af þeim tengslum. Eineltið á rauðhærðum eflaust líka. 

Það sést á þessum tölum að rautt hár hefur verið skilgreint frekar þröng. Margt sem við köllum hér ljóshært er kallað "strawberry blonde" þar sem rautt hár er sjaldgæfara og ýmislegt sem við köllum brúnt kallast "kastanínubrúnt" eða "rauðbrúnt" þar sem rauður bjarmi á hárinu er sjaldgæfari. 

Haplogroup Martian (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 20:22

5 identicon

* og í minna mæli í Þýskalandi. Ratt hár er mikið algengara þar en austur frá, afþví skiljan á hári þar er almennt gullleit frekar en "ash" og þaðan er stutt yfir í rautt. Í Ísrael hafa margir gyðingar eldrautt hár sem hvorki er blandað gulli eða brúnu.  

Haplogroup Martian (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 20:24

6 identicon

Dæmigerður rauðhærður Ísraeli: http://c8.alamy.com/comp/DEG1PH/orthodox-religious-jewish-boy-with-red-hair-sidelocks-examines-an-DEG1PH.jpg

Haplogroup Martian (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 20:28

7 identicon

Gleymdist að segja frá að ranghugmyndin rauðhærður = gyðingur var ennþá algengari á Ítalíu, þar sem er samt ágætlega mikið af rauðhærðu fólki, að minnsta kosti ef rauðbrúnt telst með. Þessar ranghugmyndir fundu sér leið inn í Evrópskar bókmenntir og rithöfundar teiknuðu mun oftar upp karaktera sem voru gyðingar sem rauðhærða en dökkhærða. Shakespeare og Dickens eru til dæmis fræg dæmi um svoleiðis höfunda. 

Haplogroup Martian (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband