Leita í fréttum mbl.is

Um fjármögnun rannsókna, það var vitlaust gefið

Rannsóknir eru að mestu stundaðar fyrir skattfé. Ástæðan er sú að rannsóknir eru fjárfesting í þekkingu, mannviti og tækni, sem skilar sér fyrir þjóðfélagið og efnahag þess.

Þegar framlög þjóða til rannsókna eru borin saman, skiptir töluverðu máli að mælistikurnar séu skýrar. Magnús Karl Magnússon forseti læknadeildar Háskóla Íslands ritaði grein í kjarnann um fjármögnun rannsókna á Íslandi. Sú nýbreytni komst á árið 2013 að Hagstofan tók við útreikningunum af Rannsóknarmiðstöð Íslands. Við þær breytingar, kemur í ljós að framlög til rannsókna eru í raun lægri hérlendis, en áætlað var. Magnús segir:

Nú bregður svo við að Hagstofan gaf út nýjar tölur í síðustu viku um fjárfestingar í rannsóknir og þróun. Tölurnar fyrir 2013 eru hvorki meira né minna en þriðjungi lægri en við höfum séð síðastliðinn áratug; þær nema 1,88 prósentum af vergri landsframleiðslu, eða sem nemur rúmlega 35 milljörðum. Hvað gerðist? Hefur orðið hrun í þessum geira?

Skýringanna er sennilega ekki leita í hruni. Líklegra er að við höfum reiknað vitlaust síðustu áratugi. Nýlega var tekin sú ákvörðun að flytja þessa mikilvægu en flóknu útreikninga frá Rannís til Hagstofunnar enda skiptir meginmáli að við getum borið okkur saman við nágrannalöndin en í flestum tilvikum eru þessir útreikningar í höndum hagstofa viðkomandi landa. Aðferðir eru flóknar og niðurstaðan hefur afgerandi áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og atvinnulífs í vísinda- og nýsköpunarmálum...

Það má því álykta sem svo að útreikningar síðustu áratuga hafi verið ríflega þriðjungi of háir. Ef tölur fyrri ára eru leiðréttar samkvæmt þessum forsendum þá getum við séð leiðréttar tölur í rauðu línunni. Hér er um að ræða 10-15 milljarða skekkju á ári eða vel yfir hundrað milljarða síðasta áratug. Það munar um minna.

Þessar tölur setja alla opinbera stefnumótun í þessum málaflokki í uppnám. Við erum ekki að að fjárfesta til framtíðar eins og við héldum að við værum að gera. Við þurfum að snúa við blaðinu, það þolir ekki bið.

Í grein Magnúsar Það var nefnilega vitlaust gefið (kjarninn 29. apríl 2015) er einnig graf og nánari útskýringar.

Guðrún Nordal, formaður vísinda og tækniráðs fjallar einnig um þessar tölur í pistli í kjarnanum. Hún segir.

Í áðurnefndri aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014-16 hefur nú þegar verið gripið til ýmissa aðgerða til að laða fram meiri fjárfestingu til rannsókna og þróunar sem mun leiðrétta þessa mynd, en ný tölfræði kallar þó á endurmat aðgerða. Þegar hefur verið ákveðið að hækka framlög til samkeppnissjóðanna um 2,8 milljarða 2015 og 2016 sem mun hafa áhrif til hækkunar á framlagi ríkisins. Þar er einnig tekið undir markmið um að framlög til háskóla skuli verða sambærilega við meðalviðmið í háskólum á Norðurlöndum árið 2020, en nú er Háskóli Íslands t.d. aðeins hálfdrættingur á við háskóla á Norðurlöndum. Það er því ljóst að framlög til rannsóknarstarfs og rannsóknarinnviða muni stórhækka á næstu árum gangi þessi stefna eftir.

En ekki er síður mikilvægt að hvetja atvinnulífið til dáða. Í Evrópu er jafnan stefnt að því að atvinnulífið standi straum af 2/3 framlagsins, en í litlu hagkerfi er raunhæfara að miða við helming á móti helmingi hins opinbera – eins og raunin hefur verið hér á landi. Í aðgerðaáætluninni eru tillögur um ýmsa skatahvata til að laða fram fjárfestingu fyrirtækja til vísinda og nýsköpunar en fylgjast þarf vel með að þeir virki til hækkunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband