Leita í fréttum mbl.is

Vongott skrímsli - skrímsli á von

Íslenskan er dásamlegt tungumál. Ljóð og frásagnarlist á sterka hefð í málinu og í hverri kynslóð fæðist afburðafólk sem sýnir okkur nýja hlið á tungunni, og víkkar þannig út sjóndeildarhringinn. En, og það er alltaf en á þessari síðu, samt er tungumálið ekki fullslípað. Fyrr í dag átti ég samræður við Guðmund Eggertsson fyrrum erfðafræði prófessor við Háskóla Íslands (faðir sameindalíffræði á Íslandi og höfundur bókarinnar Líf af lífi). Hann lýsti fyrir mér þeirri upplifun, nýkominn að utan, að fara að kenna ný fög á okkar ástkæra ylhýra móðurmáli. Fögin, erfðafræði og frumulíffræði, leitast við að svara nýjum spurningum um starfsemi lífvera og gena, og því heilmikill orðaforði sem þurfti að byggja upp. En Guðmundur minntist einnig á, og sem ég kannast við úr mínum eigin skrifum, að tungumálið er ekki mjög lipurt fyrir vísindaleg skrif. Vissulega vantar uppá hefð fyrir vísindalegri rökræðu og framsetningu, en einnig er mögulegt að ástæðan liggi í tungumálinu sjálfu (ég reyni ekki að svara þeirri spurningu, enda á útivelli í öðru sólkerfi).

Hvernig tengist þessi umræða skrímslum?  

Listapenninn Olivia Judson ræðir um skrímsli og þróun á vefsíðu New York Times. Judson gat sér gott orð fyrir lipurlega og sprenghlægilega bók um kynlífsráðgjafa (Dr Tatiana) sem svarar erindum héðan og þaðan úr dýraríkinu (Dr Tatiana's Sex Advice to All Creation The definite guide to the evolutionary biology of sex.) Í nýlegum pistli tekur Olivia á hugtaki sem Richard Goldschmidt kom fram með á síðustu öld, sem á ensku útlegst "Hopeful monster". Bein þýðing væri vongott skrímsli sem nær alls ekki inntaki hugtaksins. Goldschmidt rannsakaði stökkbreytingar og sá að sumar stökkbreytingar voru mjög afdrifaríkar (skópu skrímsli). Hans hugdetta var sú að eitthvað af þeim mun sem greina má á milli tegunda, eins og t.d. milli fíla og sækúa, mætti rekja til afdrifaríkra stökkbreytinga. Þannig að stökkbreytingin skapi skrímsli en að, ef vistfræðilegir þættir væru hagstæðir og lífveran annars ekki vanhæf, þá ætti skrímslið von (í þróunarlegum skilningi - lifa af, eignast afkvæmi o.s.frv.). Þýðingin og lag orðanna skiptir meginmáli um inntakið. En er hugmynd Golschmidts rétt, getur þróun gerst í stökkum?

Þróunarfræðingar hafa hins vegar frá dögum Darwins lagt áherslu á smáar og samfelldar breytingar, og fannst flestum Goldschmidt vera á villigötum með hugmyndir sínar. Röksemdafærsla þeirra er sú að margar smáar breytingar duga til að útskýra þróun lífveranna, og að þess vegna sé ekki þörf á útskýringum Goldschmidts. Einfaldasta skýringin er ekki endilega sú rétta, en það þarf alltaf vísindalegar rannsóknir/niðurstöður til að hrekja einfaldari tílgátu. Vísindamenn sem rannsaka þroskun og starfsemi gena, hafa samt alltaf verið veikir fyrir skrímsla-möguleikanum um að þróun geti gerst í stökkum. Judson er höll undir þá sýn, og tekur dæmi um breytingar í homeobox genum, sem geta valdið veigamiklum breytingum á lífverum (t.d. breytt þreifurum í fætur). Að mínu viti er ekki rétt að álykta um möguleika gena á að taka þátt í þróun útlitsbreytileika með því að skoða einfaldar (og oft mjög afdrifaríkar) stökkbreytingar sem oft eyðileggja genið.

Engu að síður er einn flötur á þróun svipfars sem líkanið um samfellda þróun á erfiðar með að útskýra. Sumir eiginleikar eru ekki samfelldir, t.d er fjöldi útlima 4,6 og 8 í ferfætlingum, skordýrum og köngulóm. Það finnur enginn skordýr með 6.45 fætur. Slíkir eiginleikar eru þröskuldseiginleikar, þar sem undirliggjandi getur verið mörg gen með smá áhrif, en eitthvað í þroskunarkerfi lífverunnar varpar áhrifum genanna yfir í ósammfelldar eiginleika, útlimi, æðar, fingur.

Á meðan þroskunarfræðingarnir horfa á niðurstöður sínar og segja að þeir geti útskýrt þróun, þá er veruleiki málsins sá að ferlin sem skipta mestu máli fyrir þröskuldseiginleika eru lögmál þroskunar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband