Leita í fréttum mbl.is

Skyldleiki og frjósemi

Fyrrverandi samnemendur mínir við erfðafræðideild North Carolina State University stríddu mér oft á að Íslendingar væru innræktaðir og afbrigðilegir. Vitanlega tók ég þessu með ró, en reyndi líka að fræða þá um sögu og stofnerfðafræði þjóðarinnar, að bæði keltneskt og norrænt fólk hafi flust (eða verið flutt) hingað, að landnámsþjóðin hafi verið stór (um 30000) og að töluvert far hafi verið milli Íslands og annara landa í álfunni. Allir þessir þættir draga úr líkunum á innrækt, og þannig úr líkunum á að skaðlegar stökkbreytingar verði algengar (nái hárri tíðni). Vissulega eru einhver áhrif á stofngerð okkar, eins og há tíðni stökkbreytingar sem veldur brjóstakrabbameini bendir til (Thorlacius et al) og einnig finnst munur á tíðni arfgerða innan Íslands.

Megin rök samnemenda minna voru þau að innræktun dregur úr hæfni og frjósemi, nokkuð sem búast má við út frá stofnerfðafræðilegum líkönum. 

Í dag birtist grein í Science frá Agnari Helgasyni, Snæbirni Pálssyni við Háskóla Íslands og fleirum við Íslenska Erfðagreiningu, nefnd "An association between the kinship and fertility of human couples". Sú rannsókn sýnir að frjósemi para fellur ekki jafnt með auknum skyldleika. Það virðist sem ættingjar í þriðja og fjórða lið eigi fleiri afkvæmi, en bæði þeir sem eru fjarskyldari og skyldari. Vissulega er sýnið ekki mjög stórt fyrir skyldustu einstaklingana, en annars er gagnasettið nokkuð viðamikið. 

Túlkunin er náttúrulega vandamálið, og Agnar og félagar eru varkárir og álykta að um líffræðilega ástæðu sé að ræða frekar en umhverfis eða samfélagslega. En spurningin er hvort að þetta sé hrein áhrif erfðaþátta, eða hvort um sé að ræða afleiðingar stofnbyggingarinnar, eða samspil stofngerðar og samfélagsþátta.

Hver sem ástæðan er þá virðist mynstrið traust og rétt að óska Agnari og Snæbirni til hamingju með pappírinn. Í framhaldi af fyrri umræðu um léttar fréttir (hér og hér) á þessi niðurstaða eftir að fara sem eldur um vefinn samanber "kissing cousins" á heimasíðu BBC.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband