Leita í fréttum mbl.is

Uppruni hænsna og nautgripa

Við fyrstu sýn virðist fólki e.t.v. sem spurningar um uppruna og útdauða einstakra tegunda vegi lítið fyrir velferð þjóðarinar. Sú er samt raunin, og má t.d. draga athyglisverðan og hagnýtan lærdóm af nýlegum tíðindum um að ræktaða hænsnfugla, sem ég í ónákæmni kallaði veigalitil.

Þannig er mál með vexti að landbúnaðarbyltingin gerði mannkyninu kleifar margskonar framfarir. Sjaldan er samt litið til þess að byltingin fól í sér ræktun og val á afbrigðum, bæði plantna og dýra, sem við treystum á enn í dag. Eins og hænurnar, þá má rekja uppruna margra annara afbrigða mörg þúsund ár aftur í tímann (með einföldum aðferðum þróunarfræðinnar, sem beitt er á gögn um erfðabreytileika). Við vitum að margar tegundir hafa svarað vali mjög vel, t.d. varð maís til úr hinni viltu plöntu teosinte, á um það bil 2000 árum. Munurinn er mjög afdrifaríkur, sjá mynd úr kennslubók Barton og félaga, teosinte er vinstra megin, maís hægra megin, og blendingur í miðið (www.evolution-textbook.org).

Hagnýti lærdómurinn af hænuatinu er að í mörgum tilfellum verða ræktuð afbrigði til við kynblöndun, nærtækasta dæmið eru nautgripir. Sumir einstaklingar annarar megin nautgripategundarinnar Bos taurus eru með erfðaefni úr útdauðu nautakyni (e. aurochs), og niðustöðurnar benda til þess að nautgripir hafi verið fyrst ræktaðir fyrir um 10.000 árum. Það er reyndar viðurkennt að þróun lífvera, og sérstaklega plantna, gerist stundum vegna kynblöndunar skyldra tegunda.

Ræktendur nýta sér þetta, og safna tegundum sem eru skyldar þekktum nytjaplöntum eða dýrum. Þótt ættingjar maís plöntunar virki óásjálegir og varla ætir, er vel mögulegt að gen þeirra nýtist þegar þeim hefur verið blandað við erfðamengi ræktaðra afbrigða. 

Ræktun er sífellt í gangi, til að bæta uppskeru, auka þurrkþol, finna varnir gegn sníklum og pestum. Vissulega hefur erfðatæknin sitthvað til borðs að bera, en klassísk ræktun, t.d. með æxlun skyldra tegunda verður burðarás í framleiðslu á matvælum framtíðarinnar. Þótt fyrstu ræktendurnir hafi líklega ekki áttað sig á náttúrulegu vali gátu þeir engu að síður beit því lögmáli til að bæta líf sitt og afkomenda.

Þótt fólk eigi erfitt með að kyngja þeirri staðreynd að maðurinn er dýr, náskylt öpum og fjarskyld amöbum, þá mun það samt kyngja afurðum náttúrulegs vals, í ræktuðum hænum og villtum hundasúrum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband