Leita í fréttum mbl.is

Hvatberi í útrýmingarhættu

Mannkynið mun deyja út...einhvern dag (líklega óháð veðri). 99,99% allra tegunda sem stigið hafa fæti, rót eða þreifara á plánetu okkar hafa dáið út. Þetta er eitt af lögmálum þróunar, sem gjörðir okkar, trú og orð fá ekki breytt. Það er þó óskandi að við sem tegund njótum jafn langrar dvalar á hnettinum og skeifukrabbar.

Spurningin sem Spencer Wells og félagar hjá National Genographic Project (sem er rekið af National Geographic) eru að eiga við er uppruni mannkyns. Reynt er að meta breytileika í erfðamengi nútímamanna, til að kanna sögu og far þjóða og þjóðarbrota (athugið, kynþættir í gamaldagsmerkingu orðsins eru gagnslausir). Nálgunin er að safna erfðaefni frá fjölda fólks, skima fyrir erfðabreytileika og reikna ættartré fyrir mannkynið. Greinin í American Journal of Human Genetics, sem gat af sér fréttirnar í Jyllandspóstinum, Mogganum, Science Daily og fleiri miðlum einblíndi á hvatberalitninga úr 624 Afrískum einstaklingum. Ættartréð endurspeglar að einhverju leyti landfræðilega legu einstaklingana, og gera höfundarnir mikið upp úr því að einstaklingar sem tilheyra Khoisan ættinni hópast á eina greinina. Höfundar gera því skóna að mannkynið hafi skipts upp í tvo aðskilda hópa fyrir u.þ.b. 100.000 árum sem gæti hafa tengst erfiðum veðurskilyrðum í Afríku. Það sem hefur varið mesta athygli, er ályktun byggð á þessum gögnum, um að mannkynið hafi verið mjög fámennt á ákveðnum tímapunkti, verið á mörkum útdauða. Tilvitnun þessi er ekki komin frá Wells og félögum, heldur Meave Leakey sem reyndar tilheyrir NGP sjá orðrétt.

"Who would have thought that as recently as 70,000 years ago, extremes of climate had reduced our population to such small numbers that we were on the very edge of extinction."

Það sem gleymist í tilvitnunum, herlegheitunum og fréttatilkynningum er að einungis lítill hluti erfðamengisins var notaður í rannsókninni. Og vitað er, bæði frá lögmálum erfða og þróunarfræði og rannsóknum á fleiri erfðamörkum, er að genin eiga hvert sína sögu. Ef við skoðuðum genið fyrir blóðrauða (hemoglóbín) fyrir sömu einstaklinga er öruggt að við fáum annað tré, og það gildir fyrir öll önnur gen í erfðamenginu. Nú er jafnvel boðið upp á nútíma ættfræði "greiningu" byggða á erfðabreytileika, til að reyna að komast að þróunarlegum uppruna einstaklinga, það eru skottuvísindi af verstu gerð. Rannsóknir á þessu sviði eru ekki alveg vonlausar, því ef nægilega mörg erfðamörk eru skoðuð getum við fengið örlitla yfirsýn um skyldleika innan hóps einstaklinga. 

Rétt er að árétta að því fer fjarri að fólk sé mótað af genunum eingöngu. Ættartré hvers gens er einstakt, eins og samsetning gena í hverjum einstaklingi. Það gildir jafnt um menn, hundasúrur og skeifukrabba.


mbl.is Mannkynið var í alvarlegri útrýmingarhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér finnst það vera dæmi um mikla þrautseigju mannsins að hafa yfirleitt lifað af síðustu ísöld. En mannkynið munu þó að lokum líða undir lok á einhvern hátt. Einn möguleikinn er sá að ný manngerð muni þróast út frá nútímamanninum sem síðan útrýmir okkur. En það er nú bara framtíðarsymfónía.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.4.2008 kl. 23:32

2 Smámynd: Ottó Marvin Gunnarsson

Og fólk segir mig svartsýnan, enda hefur maður góða ástæður til?

Tilgangsleysið með lífinu alveg að sannast með vísindum, engin tilgangur er í því að reyna lifa heilsusannlega eða vera góður maður því engu breytir það.

Raunveruleikinn er tapaður leikur..

En gæti maðurinn ekki verið 0.01% af þeim lífverum sem lifa af tímann? ef ekki, af hverju ekki?

Ottó Marvin Gunnarsson, 29.4.2008 kl. 08:54

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Emil, ég er sammála varðandi frummanninn. Líf á ísöld hefur tæplega verið ljúft, og þótt miðaldir hafi verið skárri, er maður frekar sáttur að hafa fæðst nú en ekki þá. Örlög mannkyns eru auðvitað óráðin. Þegar ég spyr nemendurnar, hvað þeir telji líklegast, i) að maðurinn breytist í nýja tegund, ii) klofni í tvær, iii) viðhaldist óbreyttur um aldir alda, og iv) deyji út, þá velja flestir síðasta kostinn. 

Marwin, skemmtileg flétta hjá þér, frá angist til vonar. Það er ekki hægt að spyrja vísindalegra spurninga um tilgang. Hver einstaklingur fyrir sig getur skilgreint sinn tilgang, t.d. rjóma, síðan skipt um skoðun og ákveðið að lifa fyrir ástina eða njóla. Það er undur og ævintýri mannshugans, hugarflugið og mótsagnirnar.

Arnar Pálsson, 29.4.2008 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband