Leita í fréttum mbl.is

Andlega vanfærir menn

Mannkynið er álitið sérstakt vegna greindar. Greind er oft skilgreind sem námshæfileikar, geta til að áætla tölur og reikna, hugsa fram í tímann og fleira í þeim dúr. En mörg dýr sýna mikla námshæfileika og framsýni, og þessir hæfileikar eru ekki bundnir við Homo sapiens og okkar nánustu ættingja heldur finnast um allt dýraríkið (Sjá t.d. nýlega grein í National Geographic og persónulegar frásagnir Heiðu Maríu af rannsóknum á öpum). Mynd af Border Collie er af síðu National Geographic.

En hvernig geta manneskjur verið svona sérstakar fyrst námshæfileikar finnast um allt dýraríkið? 

Eins og svo oft skiptir spurningin máli. Dr. Tadeusz Kawecki áður við Háskólann í Friburg en nú við Háskólann í Lausanne spyr

    "Ef greind er góð, hví eru flest dýr svona vitlaus?"

    Upp á ensku “If it’s so great to be smart, why have most animals remained dumb?”

Carl Zimmer gerir rannsóknum Dr. Kawecki skil í læsilegum pistli í New York Times. Eins og oft áður, er langur vegur frá vel mótaðri spurningu að svari, sérstaklega ef vísindalegum aðferðum er beitt.* Í stuttu máli þá getur starfsemi lífvera og þróunarkenningin útskýrt það sem við getum í gríni kallað "andlega vanfærni" annarra dýra. Megin tilgáta Dr. Kawecki er að togstreita milli námshæfileika og annara eiginleika sé að baki. Við gætum ímyndað okkur dæmi þar sem greindar kanínur eru með litlar lappir; slíkar kanínur geta þær fattað snemma að úlfurinn er hæla þeirra, en komast ekki undan. Tilraunir Dr. Kawecki og samstarfsmanna eru ekki gallalausar, en þeir hafa sýnt fram á að ávaxtaflugur sem hafa lært (þekkja safa með eitri) hafa minni lífslíkur en viðmiðunarhópur. Það getur bent til þess að nám kosti orku, sem annars væri hægt að nýta í annað. Í annarri tilraun völdu þeir fyrir námshæfileikum, þ.e. þær flugur sem bestar voru í að læra ólu af sér næstu kynslóð (endurtóku þetta fyrir 15 kynslóðir). Augljóst var að lærdómshæfileikarnir svöruðu valinu, sem þýðir að geta til náms er að einhverju leyti arfbundin (í ávaxtaflugum allavega). Að auki tóku þeir eftir því að flugurnar með auknu námshæfileikana voru með verri lífslíkur en viðmiðunar flugurnar. Niðurstaða þessi er samhljóða tilgátunni um að námi fylgir kostnaður. En varnaglinn er sá að gervival af þessari gerð getur einnig leitt til þess að skaðlegar stökkbreytingar aukist í tíðni. Ef skaðlegar stökkbreytingar sitja á sama litningi og gen sem eykur námshæflileika, þá eykst þær fyrrnefndu í tíðni þegar valið er fyrir þeim síðarnefndu.

Að varnöglum slegnum er spennandi að velta upp þeim möguleika hvort svipuð togstreita milli námshæflleika og orkubúskapar sé til staðar meðal mannkynsins. Carl Zimmer leggur áherslu á að um 20% af orku mannslíkamans er nýtt af heilabúinu sem er óvenju hátt hlutfall, og að e.t.v. séu einhverjir sjúkdómar sem herja á mannkynið bein afleiðing af vali fyrir greind í forfeðrum okkar.

Við erum andlega færar skepnur sem getum rannsakað vísindalega greind og námshæfileika, í ávaxtaflugum og okkur sjálfum. Næsta er spurt hvort slíkar tegundir velti sér upp úr naflaskoðun á eigin greind, eða spyrji stærri spurninga t.d. um hrærigrautinn sem er erfðamengi malaríusýkilsins?

* Ef við gerum ekki þessa kröfu geta svörin "vegna margföldunar" og "vegna aukinnar andremmu á norðurslóð" verið jafngild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ísdrottningin

Ég skil ekki hugtakið "val fyrir"
t.d. "Í annarri tilraun völdu þeir fyrir námshæfileikum" 
Bæði er merkingin að þvælast fyrir mér svo og notkun þágufallsins í setningunni.  
Skil ég það rétt að þú sért að meina að:  þeir hafi valið að rannsaka námshæfileika flugnanna í næstu tilraun?  Eða er ég að misskilja?

Ég vil ennfremur gera athugasemdir við  orðalagið "að aukast í tíðni" það er ekki góð íslenska.

Ísdrottningin, 6.5.2008 kl. 17:50

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ísdrottning, takk fyrir ábendingarnar.

Um er að ræða gervival þar sem fyrst eru mældir eiginleikar hjá hópi lífvera. Í þessu tilfelli voru námshæfileikar flugna mældir með ákveðnu prófi. Næst eru þeir einstaklingar sem stóðu sig best á prófinu, t.d. 20 efstu af 100 valdir til að geta af sér næstu kynslóð. Afkvæmum hinna er ekki haldið til haga. Slíkt gervival hefur verið notað í aldaraðir til að bæta eiginleika húsdýra og nytjaplantna. T.d. eru kálfar undan kúm með hæstu nytina settir á, en kálfum lélegri mjólkurkúa slátrað. Aukningin á nyt í hverri kynslóð er frekar lítil, en að hundrað kynslóðum liðnum er munur orðin verulegur. 

Varðandi breytingar á tíðni stökkbreytinga. Án þess að afsala persónulegri ábyrgð á orðalaginu, þá held ég að líklega sé við takmörk íslenskunar sem vísindamáls og skorts á málhefð á því sviði að sakast. Stökkbreytingar eru misalgengar í stofnum. Í þróun getur tíðni þeirra breyst t.d. vegna tilviljunar eða náttúrulegs vals. Ef valið er fyrir stökkbreytingu, þ.e. þeir sem bera hana eru hæfari en aðrir,  mun hún til lengri tíma litið aukast í tíðni. Hér er verið að lýsa breytingu í tíðni stökkbreytingar yfir fjölda kynslóða. Í dæminu að ofan var valið fyrir nyt kúa. Afleiðingin er sú að stökkbreytingar með jákvæð áhrif á nyt kúa, aukast í tíðni í kúastofninum.

Vinsamlegast deildu með okkur liprara orðalagi ef þú hefur það á takteinum.

Arnar Pálsson, 7.5.2008 kl. 09:24

3 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Velti Richard Dawkins þessu ekki einmitt fyrir sér í bókinni The Selfish Gene?  Reyndar nokkuð langt síðan ég las hana. En þar hélt hann því fram að það séu hæfustu genin en ekki hæfustu enstaklingarnir sem lifi af.

Skemmtilegir pistlar hjá þér Arnar.

Þorsteinn Sverrisson, 9.5.2008 kl. 15:08

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Þorsteinn fyrir athugasemdina...

og benda á rit Richard Dawkins. Hann beindi kastljósinu að genum sem einingum þróunar. Samt vitum við að einstaklingar eru lifandi, gen ein og sér eru ekki lifandi (með undantekningum!). Genin vinna saman fyrir einstaklinga í lífi og starfi, og einstaklingarir eru byggðir af genum. Hvorugt getur án annars verið.

Það sem hvataði skrif Dawkins voru uppgötvun stökkla, sem eru gen sem geta stokkið fram og til baka í erfðamenginu. Stökklar eru náskyldir veirum, nema hvað þeir hafa einungis erfðaefni, engan hjúp eða prótín. Stökklar eru sjálfstæð gen, en samt undantekning því nær öll gen í erfðamenginu þurfa að vera í réttu samhengi til að virka. Hornamaður virkar vel í handboltaliði, en lítið kæmi út úr honum í lúðrasveit. Á sama hátt virka genin okkar vel í okkur, en gera minna gagn eða ekkert í flugum.

Arnar Pálsson, 12.5.2008 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband