Leita í fréttum mbl.is

Lok, lok og læs...

Fæstar lífverur stunda einkvæni. Fjölkvæni og endurteknar frjóvganir skapa grundvöll fyrir þróunarfræðilegt kapphlaup, t.d. milli karldýra sem vilja tryggja að kvenndýrið noti sæði þeirra en ekki annara keppinauta. Kapphlaupið fer fram á mörgum vígvöllum, karldýr seyta hormónum sem deyfa kynlöngun kvenndýra, þeir moka út sæði keppinauta með oft groddaralegum verkfærum, stunda efnahernað gegn öðrum sæðisfrumum og loka leiðinni fyrir sæði sem á eftir kemur.

Ormurinn (Caenorhabditis elegans) beitir þessari síðustu lausn. Forfeður kvikindisins var einkynja og eru skyldar tegundir nauðbeygðar til kynæxlunar. En ormurinn sjálfur er tvíkynja og getur frjóvgað sjálfan sig ef svo ber undir. 

Þetta hefur leitt til þess að valþrýstingur fyrir tappanum (sem er þýðing á "plug") sem notaður var til að hindra aðgengi annara karldýra minnkar töluvert. Ef þú ert alltaf að frjóvga sjálfan þig, þá er ekki mikil þörf á að koma í veg fyrir að aðrir æxlist við þig. (ætla ekki að rekja þetta frekar til að særa ekki blygðunarkennd lesenda).*

Í Nature vikunnar birtist grein eftir Palopoli, Rockman og félaga sem lýsir einangrun gensins sem skráir fyrir prótínum sem mynda tappann. Einnig er sýnt fram á að stökkbreytt útgáfa af geninu hefur náð hárri tíðni í ormastofninum. Í framhaldi af fyrri færslu um stökkbreytirófið er gaman að geta þess að stökkbreytingin er orsökuð af hoppandi geni, svokölluðum stökkli.

Mér fannst líka gaman að sjá að annar tveggja meginhöfunda Matt Rockman (gamall félagi vor frá Norður Karólínu) hafði varið tíma sínum vel. Hvað er skemmtilegra en skoða kynæxlun orma?

*Karldýr finnast í orminum, en þau eru mjög óalgeng. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband