Leita í fréttum mbl.is

Skjöldur fyrir gat í þróunarsögunni

Skjaldbökur eru stórfurðulegar skepnur. Þær bera með sér ekki bara eina heldur tvær skeljar sem hylja bak þeirra og kvið. Allþekkt er að þær kippa útlimum og höfði inn undir skelina ef rándýr ber að garði. Við sáum líka í þætti David Attenboroughs um líf með köldu blóði, að ein tegundin getur meira að segja dregið saman kvið og bakskeljarnar og næstum því skellt í lás.

Uppruni skjaldbaka hefur löngum verið á huldu, þótt augljóst sé út frá byggingu og samanburði á genum að hún tilheyri skriðdýrunum. Steingervingasagan er ekki alveg samfelld, sem þýðir að göt eru í ættartré tegundanna. Þekktasta slíka gatið var milli risaeðla og fugla, en nokkrir nýlega uppgötvaðir steingervingar hafa stoppað í það gat.

Sérstaklega hefur vantað upplýsingar um uppruna skjaldarins.  Eins sjá mátti í þætti Attenboroughs myndast skel skjaldbaka úr umbreyttum rifbeinum og hornhúð sem hleðst upp á ytra borði lífverunnar. Skjaldbökur stækka stöðugt og skelin stækkar með. Þannig að jafnvel þótt skelin virðist vera gegnheil, eru frumur á mörkum platnanna sem geta bætt við þær og stækkað skelina.

Nýlega fann kínverskur rannsóknahópur 220 milljón ára steingervingur af skjaldböku sem er með hálfa skel, sem hlaut nafnið Odontochelys semitestacea (sjá mynd frá hryggdýrasteingveringa og mannvistaleifastofnuninni í Peking, mín gallaða þýðing á "Institute of Vertebrate Palaeontology and Palaeanthropology, Beijing"). Odontochelys sýnir okkur hvernig einn forfaðir skjaldbaka nútímans leit út og gefur vísbendingar um uppruna skjaldarins.

Við getum sagt að Odontochelys lendi í gati í þróunarsögunni. En einnig er hægt að segja að fundurinn búi til nýtt gat, því gamla gatinu var í raun bara skipt í tvennt! Sköpunarsinnarnir ættu því að vera himinlifandi yfir því að þegar vísindamenn skilgreina fleiri steingervinga og byggja traustara þróunartré, þá fjölgar götunum í trénu. Sem er svona álíka og segja að lopapeysa sé götótt af því að þræðirnir mynda ekki samfellda heild.

Heimild: Li C, Wu X-C, Rieppel O, Wang L-T, Zhao L-J (2008) An ancestral turtle from the Late Triassic of southwestern China. Nature 456: 497-501.

Ítarefni

Grein Ian Sample í the Guardian, Fossils reveal how the turtle got its shell.

PZ Myers, ritaði um skjaldbökuna á Pharyngla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Það finnast engir steingervingar af millistigum tegunda. Lífið er um 10.000 ára, og skyldleiki skýrist af því að Guð skapaði mest allt líf eftir sömu formúlunni.

Syndaflóðið átti sér stað, það vitum við af því að það kemur fyrir í mörgum trúarbrögðum og kristna útgáfan réttust af því bara.

Öhm...og Jólin eru kristin hátíð, sem hefur verið haldin í núverandi verslunaræðisósómaformi frá örófi alda.

Allir vísindamenn eru í leynilegu Darwinistafélagi sem óafvitandi vinnur fyrir Lucifer við að hraða uppgjöri góðs og ills.

Darwinismi leiðir skilyrðislaust til Nasisma.

Pol pot er holdgerfingur siðgæðis trúleysingja.

Guð hatar ekki homma, bara sjúkdóminn sem þeir þjást af, bænin er lækningin.

Skjaldbökur eru bara skjaldbökur.

Takk fyrir!

mbk,

Kristinn Theódórsson, 9.12.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Arnar Pálsson

KT

Auðvitað, nú sé ég villu míns vegar. Um áratugi hef ég vafrað í þoku og mekki, en týran er nú loksins greinileg og ég hleyp af stað en klafar innrætingar, efahyggju, skopskyns og mannlegra kennda hamla för minni. Ekki gefast upp, heldur leggjast á bæn á hlaupunum, leggja heit glös á bakið, teyga snákaolíu, láta persóngreina sig með blóðflokki og lækna líffærin með lithimnugreiningu, steypa í sig messuvíninu og deyja svo til þess eins að vera ræstur aftur af sveimandi geimverum sem eru að leita að hermönnum í sameiginlegan her Jesús og Pol Pots.

Samt læðist að mér efi, skjaldbökur eru kannski eitthvað annað en skjaldbökur...

Arnar Pálsson, 10.12.2008 kl. 11:18

3 Smámynd: Kristinn Theódórsson

touché!

:)

mbk,

Kristinn Theódórsson, 10.12.2008 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband