Leita í fréttum mbl.is

Darwin var fiskur

Í kæringi reyndi ég að sannfæra Skúla Skúlason um að halda erindi með þessum titli, sem hluta af hátíðarhöldum vegna afmælis Charles Darwin 12 febrúar 2009 ("hefur maðurinn eðli?" og darwin.hi.is). Skúli tók uppátækinu af miklu jafnaðargeði, og mun halda erindi sem ber titillinn "maðurinn sem náttúruvera".

Samt ber fyrirsögnin, Darwin var fiskur, í sér örlítinn sannleiksvott. Menn og simpansar eru skyldir, þar sem við eigum einhvern sameiginlegan forföður sem lifði og dó fyrir nokkrum milljónum ára. Eins deilum við, og þar með Darwin líka þar sem hann tilheyrði tegundinni Homo sapiens eins og við, forföður með núlifandi fiskum. Það er vitanlega mjög langt síðan forfaðir okkar og núlifandi fiska spriklaði í hafi, en skyldleikinn er óumdeilanlegur*. 

Þegar rýnt er í þroskun hryggdýra, sést að mörg skref eru sambærileg milli tegunda, t.d. liðskipting fóstursins, myndun útlimavísa, þroskun beina í útlimum, myndun tauga og vöðva. Þegar við berum saman beinabyggingu núlifandi tegunda sjáum við mikinn fjölbreytileika, t.d. í höfuðkúpunni. En þegar við rýnum í þroskun þessara lifvera sjáum við að uppruni beinanna er úr sambærilegum einingum. Í mannafóstrum finnast t.d. tálknabogar, sem síðar mótast og breytast. Alþekkt er að bein sem mynda kjálka hjá skriðdýrum mynda eyrnabeinin "hamar" og "steðja" ("malleus" og "incus") hjá spendýrum - sjá mynd úr bók Gilberts Development 6 útgáfa.

ch22f21 Þróun gerist nefnilega í litlum skrefum, þar sem eiginleikar lífveru breytast og mótast vegna náttúrulegs vals og stundum vegna tilviljunar. Aðalatriðið er að hráefnið fyrir þróun eru þeir eiginleikar og sá breytileiki sem er til staðar í stofni lífvera hverju sinni. Þróun hefur verið líkt við þúsundþjalasmið, sem smíðar úr því sem hendi liggur næst. Þúsundþjalasmiður sem situr að gömlum kadilakk og kassa fullum af sikkrisnælum, mun nota nælurnar til að gera við bílinn. Á sama hátt breytir náttúrulegt val eiginleikum lífvera, lagar að umhverfinu og nýtir stundum til nýrra lausna...eins og flytja titring frá hljóðhimnu að hljóðskynjandi líffæri.

Kveikjan að titlinum er stórgóð bók Neil Shubin**,"þinn innri fiskur" (e. "your inner fish"). Shubin leggur áherslu á að við berum með okkur arfleið forföður sem bjó í hafinu. Á sama hátt má segja að við berum með okkur arfleið sameiginlegs forföður okkar og ávaxtafluga, okkar og amöbu og okkar og gersvepps.

Hvernig lýst ykkur á þetta, Darwin var fiskur, þú varst ljón og ég ávaxtafluga.

 

* Nema auðvitað þeir sem afneita hinni vísindalegu aðferð og taka bókstafi trúarrita framar vísindalegum niðurstöðum.

** Neil Shubin er prófessor við Chicago Háskóla. Hann var þjálfaður sem steingervingafræðingur en stundar einnig rannsóknir á þroskun núlifandi tegunda, til að rýna í þau ferli sem byggja lífverur og hafa breyst þegar hin margvíslegu form og nýjungar þróuðust. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Erlingur

Það að vísa í týnda hlekkinn er skírskotun til þess að við vitum ekki allt um þróunarsögu lífvera. Við vitum samt megindrætti og getum dregið upp skyldleikatré, byggt á útliti, þroskunarferlum og erfðamengjum. Því verður ekki haggað að menn eru hryggdýr, og að okkar nánustu ættingjar eru apar.

Það að vísa til týndra hlekkja er eins og að segja að vissir atburðir í sögunni hafi ekki gerst, vegna þess að við vitum ekki allt sem gerðist. Venjulega tek ég 14-2 sem dæmi, en við getum líka horft á búsáhaldabyltinguna. Við vitum ekki allt sem gerðist á Austurvelli þessa örlagaríku daga, en það þrætir engin fyrir að byltingin hafi verið raunveruleg og að stjórnin hafi fallið í kjölfarið.

Kenning Darwins er ekki órökstudd tilgáta. Hún er vísindaleg og afsannanleg tilgáta, sem hefur ALDREI verið afsönnuð (aldrei hefur fundist kanína á meðal fiskibeina í 300 milljón ára gömlum jarðlögum eða fuglagen í Orang-utan).

Arnar Pálsson, 8.2.2009 kl. 12:44

2 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Það getur verið gagnlegt í rökræðum sem þessari að rifja upp gömlu, góðu „fíluna“ og velta fyrir sér eðli hugtakanna „tilgáta“, „fyrirbæri“ og „kenning“. Í stuttu máli má segja að kenning sé útskýring á fyrirbæri, en tilgáta sé sett fram til prófunar á kenningunni. Þróunarkenning Darwins er þannig kenning (theory), en ég myndi ekki segja að hún sé tilgáta (hypothesis). Hana má, hins vegar nota til að smíða hrekjanlegar (falsifiable) tilgátur sem prófa má með tilraunum.

Menn geta svo haft sínar skoðanir á því hversu góð kenning þróunarkenningin er, en það að hafna kenningunni leiðir ekki sjálfkrafa af sér að hægt sé að hafna fyrirbærinu þróun. Ef menn vilja gera það verður kenningin að sjálfsögðu marklaus, en þá þurfa menn að geta útskýrt breytileika, skyldleika o.sfr.v. á einhvern annan hátt (og þá ekki síður svara spurningunni: Hvernig getur þróun ekki verið til staðar í heimi þar sem lífverur fjölga sér og margar þeirra með kynæxlun og tilheyrandi erfðabreytileika!?)

Annars er gaman að heyra að það standi til að heiðra minningu þessa stórkostlega hugsuðs! Ég vona að mér vinnist tími til að fylgjast með tilstandinu.

Oddur Vilhelmsson, 8.2.2009 kl. 17:49

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Oddur fyrir að rifja upp lykilhugtök hinnar vísindalegu aðferðar.

Það er alltaf gott að rifja upp að náttúrulegt val er vélræn afleiðing 1) breytileika, 2) erfða og 3) mishraðrar æxlunar. Þegar við bætum við baráttunni fyrir lífinu, erum við komin með náttúrulega skýringu á aðlögun lífvera að umhverfi sínu.

Ef líffræðingar finna ekki hjá sér ástæðu til að fagna á afmælisdegi Darwins, hvenær eiga þeir þá að fá sér mola út í kaffið?

Arnar Pálsson, 9.2.2009 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband