Leita í fréttum mbl.is

Tilraunastofa á háalofti

Fyrir tæpum mánuði var kynning á haskólanámi fyrir framhaldskólanema og aðra í leit að menntun. Við í líffræðinni vorum með opinn dag í Öskju, þar sem fólk gat fengið að kíkja á froskana, körtur, sjá hauskúpur og klónaðar plöntur, DNA örflögur og stökkbreytta sveppi. Á Háskólatorgi vorum við með lifandi krabba og hreinsuðum DNA úr lauk. Það er alveg frábærlega einfallt að einangra erfðaefnið úr lauk, m.a. vegna þess hversu mikið DNA er í hverri frumu. Til þess atarna þarf blandara (til að mauka laukinn), sápu, kjötmýkingarefni, og alkahól. Ein ferð í Hagkaup og ríkið dugir. DNA er hvítt og þráðkennt efni, sem leitar inn í alkahólfasann, og það er hægt að vinda það upp á tannstöngul. Margir höfðu gaman að því að sjá DNA en merkilega fáir vildu fá sýnishorn í túbu með sér heim. (leiðbeiningar á ensku má nálgast hér á pdf formi)

Í hádeginu las ég bráðskemmtilega grein í the Guardian um fólk í bandaríkjunum sem hefur komið sér upp aðstöðu heimavið til rannsókna í sameindalíffræði (The geneticist in the garage). Það er einfallt að einangra DNA, og með réttum græjum er hægt að klippa saman og einangra ákveðin gen og rannsaka forvitnilegustu hluti. Ein manneskjan sem rætt er um í fréttinni er að reyna að þróa geril sem gefur frá sér grænt ljós ef eiturefni eru í umhverfi hans. Hugmyndin er að gerillinn skynji eiturefnið melamín í jógúrt (efnið er stórhættulegt en sumir kínverskir framleiðendur bættu því út í mjólkurafurðir, til að ýta undir mat á prótíninnihaldi).

í gamla daga voru vísindin framkvæmd í hlutastarfi, fólk með brennandi áhuga fann sér tíma að kvöldi eða um helgar til að spyrja knýjandi spurninga og leita svara við þeim. Nú til dags er til heil stétt atvinnuvísindamanna (sem ég tilheyri víst) en það þýðir ekki að aðrir geti ekki haft heilmikið til vísindalegra framfara að leggja. Ég hlakka til að heyra um forvitnilega líffræði, sem einhver uppgötvaði með tilraunum sínum á háaloftinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Sjá má umfjöllun í Morgunblaði dagsins um þessa frétt einnig. Því miður er ekki allt efni prentaða blaðsins aðgengilegt nema með áskrift.

Arnar Pálsson, 20.3.2009 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband