Leita í fréttum mbl.is

Lesum um uppruna tegundanna

Hugmyndin er frekar einföld, arfgengur breytileiki milli einstaklinga getur skipt máli fyrir lífslíkur og afkomu. Þeir sem þrauka af og æxlast ná að senda afrit af genum sínum til næstu kynslóðar. Með tíð og tíma breytast eiginleikar stofnsins og erfðasamsetning; tegund sem ekki bjó í eyðimörk getur hundrað kynslóðum síðar lifað af án vatns í fleiri daga. Þetta er þróun vegna náttúrulegs vals, grundvallarhugmynd sett fram af Charles Darwin og Alfred Wallace.

Charles Darwin er samt álitin faðir þróunarkenningarinnar af þeirri einföldu ástæðu að hann skrifaði stutt ágrip um kenninguna í bók sem heitir um uppruna tegundanna af völdum náttúrulegs vals, eða að sumum stofnum vegnar betur en öðrum í lífsbaráttunni ("On the origin of species by means of natural selection, or the preservation of favoured races in the struggle for life"). Upprunalega handritið hans spannaði fleiri bindi og hann þjappaði því saman í "ágrip" sem er betur þekkt sem "Um uppruna tegundanna". Hann barðist lengi fyrir því að hafa orðið ágrip í titli bókarinnar en útgefandinn hafði vit fyrir honum.

Þegar ég var í námi í HÍ fyrir einhverjum árum lásum við fyrstu útgáfu af bókinni. Það var besta námskeið sem ég hef nokkurn tíman tekið. Það var í umsjá Einars Árnasonar sem kynnti okkur fyrir Darwin, lífshlaupi hans, samtímamönnum og stöðu náttúrufræðinnar á nítjándu öld. Hluti námskeiðsins snerist um ferðalag Darwins á skipi hennar hátignar Hvutta (HMS Beagle) og þær uppgötvanir sem Darwin gerði á ferðinni. Höfuðáhersla var á "Um uppruna tegundanna", og hvernig hugmyndir Darwins mótuðust á árunum eftir siglinguna á Hvutta. Við lásum bókina í þaula og ræddum í umræðutímum, sem oft á tíðum voru mjög líflegir.

Í tilefni afmælis Darwins og bókarinnar finnst okkur tilefni að endurtaka þetta námskeið. Það verður kennt haustið 2009 (undir númerinu LÍF515M og nafninu Sérsvið þróunarfræði) og er aðgengilegt nemum í HÍ.

Við erum einnig að velta fyrir okkur að setja saman námskeið hjá endurmenntun HÍ um Darwin og uppruna tegundanna sem kennt yrði sama haust. Það væri gaman að vita hvort slíkt námskeið hafi hljómgrunn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband