Leita í fréttum mbl.is

Dvergar á Flores og á Íslandi

Við höfum áður rætt um Homo floresiensis, smávaxnar mannverur sem fundust á eyjunni Flores í Indónesíu. Ekki eru allir sáttir við þá túlkun Peter Brown og félaga að um H. floresiensis hafi verið sérstök tegund, og færðu rök fyrir því að um afdankaða fulltrúa Homo sapiens væri að ræða.

Hvort sem H. floriesiensis sé frændi vor eða Homo erectus, er kannski ekki merkilegasta spurningin, heldur sú hvernig þessi hópur varð svona smávaxinn.

Eleanor M. Weston & Adrian M. Lister birtu grein í Nature þar sem þau skoðuðu dvergvöxt í flóðhestum á Madagaskar (hljómar spennandi ekki satt?). Ályktanir þeirra eru þær að dvergvöxtur sé algengur á eyjum, og að vegna lögmála þroskunar sé ekki ólíklegt að höfuð viðkomandi dýra minnki hlutfallslega mest.

Á Íslandi eru líka dvergar, sem hafa þróast mjög hratt á síðustu 10000 árum. Um er að ræða dvergbleikjur sem finnast í Þingvallavatni og mörgum öðrum ferskvötnum og lindum. Er þetta ekki frábært, sama samspil þróunar og þroskunar virðist vera í gangi á eyjum Indlandshafs og í lindum Íslands. Dvergbleikjan gæti verið líkan fyrir þróun dvergmannsins.

17_EVOW_CH25

Mynd af höfuðkúpu H. floriesiensis af heimasíðu kennslubókar Barton og félaga (http://www.evolution-textbook.org/) 

Ítarefni og frumheimildir

Umfjöllun RUV.

Umfjöllun New York Times Feet Offer Clues About Tiny Hominid

Ágrip greinar Junger og félaga í Nature, The foot of Homo floresiensis Nature 459, 81-84 (7 May 2009)

Ágrip greinar Weston og Lister í Nature, Insular dwarfism in hippos and a model for brain size reduction in Homo floresiensis Nature 459, 85-88 (7 May 2009)

 


mbl.is Hobbítarnir áður óþekkt tegund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Flott að fá álit sérfræðings á þessu máli, ég hef alltaf haft áhuga á þróun dýra og mannsins sérstaklega. Skemmtilegt viðfangsefni.

Loftslag.is, 7.5.2009 kl. 15:54

2 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Má kannski sjá svipað með "íslenska" hestinn með því að bera saman hesta í Færeyjum, Íslandi og Grænlandi?

Held hann sé lítill í Færeyjum, og gamlir stofnar hér (frá um 1920 held ég) eru líka smágerðir.

Eða hefur sá á Íslandi kannski bara stækkað (aftur)?

mkv frá Suður Grænlandi

Baldvin Kristjánsson, 7.5.2009 kl. 21:05

3 Smámynd: Arnar Pálsson

H. floresiensis og sérstaklega H. neanderthalensis minna okkur á hversu stutt er síðan maðurinn deildi jörðinni með öðrum mannöpum.

Íslenski hesturinn getur verið keimlíkari upprunalegum hestum á steppum Asíu, en vandamálið við hann (eins og önnur nytjadýr) er að maðurinn hefur valið fyrir allskonar eiginleikum sem hefur breytt honum. Líklega er ekki hægt að líta á hesta sem "náttúrulega" lengur, ekki valsa þeir um villtir í  hjörðum.

Arnar Pálsson, 8.5.2009 kl. 16:20

4 Smámynd: Páll Jónsson

Það eru nú greinilega ekki allir sammála um áhrif eyjabúsetu á stærð ef marka má Science Daily. Áhugavert hins vegar að heilinn skuli minnka þetta dramatískt mikið meira en sem samsvarar minnkun líkamans annars.

Páll Jónsson, 9.5.2009 kl. 18:08

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Páll fyrir að leggja áherslu á þennan punkt. Ég gaf mér ekki tíma til að ræða hann almennilega.

En það eru nefnilega fullt af dæmum um  hið gagnstæða, þar sem lífverur á eyjum þróast í risa, frekar en dverga. 

Greinin sem þú vísar í ræðir að ákveðnar ættir lífvera hafi tilhneygingu til að verða risar en aðrar ættir dvergar. Ef satt reynist þá væri gaman að vita hvort þroskun þeirra sé á einhvern hátt frábrugðin, sem gæti útskýrt þennan mun.

Megin ályktunin er samt sú að þótt þróunin lúti lögmálum, þá getum við ekki alltaf spáð fyrir um útkomuna. Ef við setjum dýrategund á eyju, getum við ekki spáð fyrir um hvort að hún eigi eftir að þróast út í dverga, risa eða meðaljóna.

Arnar Pálsson, 11.5.2009 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband