Leita í fréttum mbl.is

Kvikmynd um Darwin

Ráðstefna um Darwin, sýning um Darwin, málþing um Darwin, pistill um Darwin...og nú loksins kvikmynd um Darwin. Í tilefni þess að 200 eru liðin frá fæðingu Charles Darwin hefur fólk fundið sér ýmislegt til dundurs. Yðar auðmjúkur er hér ekki undanskilinn. Í raun mætti segja að við höfum á köflum skrifað of mikið um þennan líffræðing, á kostnað annara fræðimanna og kannski það sem meira máli skipti annarra líffræðilegra viðfangsefna.

Þannig er það nú samt að manneskjur hafa áhuga á öðrum manneskjum. Þegar verið er að kenna einhver fræði er oft taldir upp forkólfar viðkomandi vísinda, Kepler, Pascal, Darwin, Haldane og Blackburn, sem gerir lærdóminn auðmeltari. Listi af staðreyndum hefur ekki sama aðdráttarafl og saga af ævintýralegum leiðöngrum, krassandi rifrildi eða ofsóknum frá hendi kirkjunar. 

Hinn hlédrægi og heimakæri Charles Darwin þætti væntanlega lítið til koma fjaðrafok vegna 200 ára afmæli hans, þótt vissulega hafi hann upplifað móðganir "tjöru og fiður"-fólks þegar hann gaf út Uppruna tegundanna. Þegar fræðin og skrif Darwins eru krufin vill það oft gleymast að hann var bara ósköp venjulegur maður, vissulega efnaður, en fjölskyldufaðir, eiginmaður og sveitungi. Þessi mannlega hlið Darwins er kjarninn í kvikmynd um æfi Darwins sem frumsýnd verður á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú í haust.

Kvikmyndin heitir sköpun ("creation") og er byggð á bók eftir einn af afkomendum Darwins Randal Keynes ("Annie’s Box: Charles Darwin, his Daughter, and Human Evolution"). Titill myndarinnar virðist sniðinn til þess að kveikja í trúuðum, en kjarni bókarinnar er dauði Annie, 10 ára gamallar dóttur Darwin hjónnana. Dauði hennar hafði mjög sterk áhrif á Darwin, og virðist hafa valdið vissri togstreitu milli hans og Emmu eiginkonu hans (hún var trúuð en Darwin var á þeim tíma að missa leifarnar af þeirri trú sem hann tók með sér í siglinguna á Hvutta).

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið bókina um Annie, en styðst við umfjöllun Oliviu Judson um kvikmyndina og bókina. Moore og Desmond gáfu út í upphafi árs nýja ævisögu Darwins, sem kallast "Darwins sacred cause". Þeir færa rök fyrir því að andúð Darwins á þrælahaldi hafi verið kveikjan að þróunarhugmyndum hans, og að margar rannsóknir hans hafi átt rætur í spurningunni um skyldleika kynþátta. Margir af samtíðamönnum Darwins héldu því fram að hvítir menn og svartir hefðu verið skapaðir í sitt hvoru lagi, og því væri algerlega verjandi að hlekkja blökkumenn og selja í þrældóm. Samkvæmt bók þeirra er Darwin vísindamaður, sem er drifinn af trúarlegri samkennd með mönnum, sama hvernig þeir eru á litinn, byggðir eða lagaðir. 

Bæði bók Moore og Desmond og kvikmyndinni um Annie kynna Darwin sem venjulegan mann, ástríkan og breyskann. Ástæðan fyrir því að við munum betur eftir honum, en sveitungum hans er að hann hugsaði skýrar en margur og setti fram þrjár af lykilhugmyndum líffræðinnar. Breytileikinn í stofnum er það sem skiptir máli, náttúrulegt val getur útskýrt aðlaganir lífvera að umhverfi sínu og allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði.

Eftir viku mun RÚV sýna þátt frá BBC um "kallinn" og lífsins tré.

Ítarefni:

The Creation of Charles Darwin, Olivia Judson 8 september 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Passaðu þig bara á því að minnast alls ekki á þetta við Mofa he he

Þorvaldur (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 21:56

2 identicon

Endilega að nefna þetta við Mofa... Mofi sýnir öllu hugsandi fólki hversu steiktur heili er í trúuðum... þeir hlusta ekki á neitt ef það segir að þeir fái ekki extra líf í lúxus að eilífu.
Endilega að virkja mofa eins mikið og kostur er... hann er einn helsti andstæðingur kristni á íslandi, ásamt JVJ, Gunnari Á krossinum og öðrum.

Húrra fyrir Darwin... reyndar væri ég algerlega trúlaus þó enginn þróunarkenning hefið komið... trú er svo stúpid :)

Praise humanity & science

DoctorE (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 09:00

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Blessunarlega eru ekki allir trúaðir jafn öfgafullir og Mofi. 

Ég tek undir með doktornum, það þarf ekki rök þróunarfræðinar til að hrekja fullyrðingar fólks um guðleg inngrip.

Arnar Pálsson, 10.9.2009 kl. 09:38

4 identicon

Þorvaldur og DoctorE, athyglisvert hvað Mofi er ofarlega í huga ykkar. Hans lífsýn virðist vera að raska ró ykkar!

Palli (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 09:40

5 identicon

Já Palli ég finn svo mikinn óróleika í mínum beinu að ég bara get ekki orða bundist.  

Nei stundum verða menn nú að skilja grínið þegar þeir sjá það. Málið er að Mofi hefur stundað nánast ótrúlega hatrammar ofsóknir gegn kenningum Darvins. þær eru vissulega ofarlega í huga hans. Ég er nú stríðinn að eðlisfari og sá leik á borði þarna.

Þorvaldur (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 09:47

6 identicon

Einn einn sem Mofi hefur haft áhrif á, Arnar velkomin í hópinn. Það er athyglisvert hvað málflutingur eins manns getur raskað ró margra.

Palli (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 09:55

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Fólk bloggar af mismunandi ástæðum. Mofi virðist á stundum vera í persónulegri krossferð, gegn þróunarkenningunni og þar af leiðandi vísindum.

Ásteytingapunkturinn er sá að hann meðtekur yfirnáttúrulegar útskýringar á eiginleikum heimsins, en ég og líklega Doktorinn og Þorvaldur sættum okkur ekki við slíkt. Við viljum útskýra heiminn með náttúrulegum lögmálum ekki guðlegu inngripi.

Ég blogga um þau hugðarefni sem mér þykja merkilegust, sem eru erfðir, þróun og undur líffræðinnar. Einnig leiðrétti ég það sem er rangt í fréttaflutningi opinberra miðla, og einstaka sinnum í pistlum einstaklinga.

Arnar Pálsson, 10.9.2009 kl. 10:03

8 identicon

Ég er nú þess eðlis að ég er þakklátur fyrir frelsið. Samviskufrelsið, málfrelsið, trúfrelsið osfrv. Sumir vilja hefta frelsi bloggara. Er ekki jákvætt að fólk hafi misjafnar skoðanir og geti komið þeim á framfæri, svo framarlega sem fólk rökstyður málflutning sinn sem mér finnst Mofi reyna að gera. Er háð gegn skoðunum einstaklings ekki grunnur málflutningu?

Palli (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 10:08

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Palli

Ég er sammála þér með frelsið, trúfrelsi, ritfrelsi o.s.frv.  Ég myndi aldrei vilja hefta það. 

Fellur háð ekki undir málfrelsi?

Mér sýnist skoðun Mofis vera að yfirnáttúruleg fyrirbæri þurfi til að útskýra aðlögun lífvera að umhverfi sínu og fjölbreytileika þeirra. Hann hafnar einfaldari og náttúrulegri skýringu, sem er þróunarkenning Darwins.

Það sem þú kallar rökstuddan málflutning er blanda af löngu hröktum fullyrðingum, útúrsnúningum, og tilvísunum teknum úr samhengi. Það sem pirrar mig mest er það að hann kastar fram sömu fullyrðingunni aftur og aftur, þótt hún hafi verið hrakin með tilheyrandi rökum og tilvísunum. 

Arnar Pálsson, 10.9.2009 kl. 13:22

10 Smámynd: Arnar

Frelsi.. kannski er það bara ég en mér finnst hugmyndir flestra um frelsi vera frekar einhliða.

Mófi hefur fullt frelsi til þess að bulla hvað sem hann vill um guðinn sinn en aðrir hafa fullt frelsi til þess að taka hann ekki alvarlega.  Ef þú nýtir frelsi þitt til að tjá þig um eitthvað á opinberum vettvangi hafa aðrir fullt frelsi til þess að gagnrýna það sem þú segir.  Mófi full nýtir sér svo frelsi sitt til að algerlega hunsa alla gagnrýni sem hann vill ekki heyra.

Annars finnst mér mjög óábyrgt að bjóða ekki Mófa, hann hefur margar og miklar ranghugmyndir um Darwin og 'Darwinisma'.  'Darwinismi' hjá honum nær td. yfir DNA (sem Darwinn vissi ekkert um), kolefnisaldursgreiningar, landrek og rof, kjarnasamruna í stjörnum, myndun tungla.. plánetna.. stjarna.. sólkerfa og helling annað sem Darwin hafði bara ekkert með að gera.

Arnar, 10.9.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband