Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Botninn úr Prozac tunnunni

Það fer ekkert á milli mála að þunglyndi er sjúkdómur, og að mikill breytileiki í geðslagi, skapferli og sveiflum í lund. Óljós er hvaða líffræðilegu þættir liggja að baki, hvernig samspil einstaklinga og samfélagsins ýtir undir eða bælir geðsjúkdóma, og auðvitað hver er besta meðferðin.

Lyfjafyrirtækið Eli Lily þróaði Prozac (markaðsnafn á pillu með "virka"efninu fluoxetine) fyrir tuttugu árum og nú eru á markaðnum heil fjölskylda af skyldum efnasamböndum, sem seld eru sem geðlyf.

Ný rannsókn, leidd af Irving Kirsch við háskólann í Hull sem naut aðstoðar vísindamanna í Bandaríkjunum og Kanada birtist í PLOS medicine, sló botninn endanlega úr tunnunni. Hópurinn framkvæmdi heildargreiningu ("meta-analysis") sem dregur saman niðurstöður úr mörgum lyfjaprófunum og metur hvort áhrif efnisins á líðan sjúklinga séu marktæk. Venjulega eru lyfjapróf sett upp þannig að sjúklingum er skipt í tvo hópa, tilviljun er látin ráða hvor fær lyfið og hver fær sykurpillu. Sykurpillan er plat (svokallað "Placebo" á ensku) og er sá hópur til viðmiðunar. Síðan er athugað hvort að lyfið hafi tölfræðilega marktæk áhrif á sjúkdómseinkenni, í þessu tilfelli líðan sjúklinga. Marktæknin er skilgreind þannig að bætt líðan sjúklinga sé ólíklegri en svo að búast megi við henni vegna tilviljunar. Oft er miðað við, að ef tilraunin væri framkvæmd 20 sinnum, þá megi búast við svona miklu fráviki vegna tilviljunar einu sinni.

Eli Lily og önnur fyrirtæki höfðu lagt fram niðurstöður sem bentu til þess að Prozac bætti líðan sjúklinga (Reyndar hafa nokkrar rannsóknir á síðustu árum dregið þessa niðurstöðu í efa, en af einhverju ástæðum hafa þær ekki komist í hámæli (erfitt að kollvarpa viðtekinni þekkingu!). En hængurinn var sá að Eli Lily hafði ekki lagt fram niðurstöður allra sinna rannsókna á Prozac, bara þær jákvæðu! Það þurfti ákvæði bandarískra laga um upplýsingaskyldu ("freedom of information act") til að draga niðurstöður hinna rannsóknanna úr hirslum lyfjarisanna (sjá frétt the Guardian eða BBC).

Þessi "týndu" gögn voru síðan greind af Kirsch og félögum, og sýna að Prozac hefur ekki jákvæð áhrif á líðan þunglyndra. Reyndar líður sjúklingunum betur eftir meðferð, en einnig þeim sem fengu sykurpillu (vegna hinna dásamlegu sykurpillu áhrifa -"Placebo effect"), og enginn marktækur munur er á hópunum! Það er augljóst að lyfjafyrirtækin stóðu sig ekki sem skyldi eins og Darian Leader lýsir í nýlegri samantekt the Guardian.

"Á gullöld kynningarstarfs fyrir þunglyndislyf voru einungis 10% rannsókna á áhrifum lyfjanna birtar. Tvær af hverjum þremur slíkum rannsóknum eru fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjum, og rannsóknir þeirra eru 4 sinnum líklegri til að finna jákvæð áhrif lyfja en óháðar rannsóknir" Mín þýðing á orðum Darian Leaders

("In the heyday of antidepressant PR, only about 10% of results about how the drugs affected quality of life were published. More than two-thirds of studies today are industry funded, and such research is four times as likely to find in favour of the drugs than independent inquiry. ")

Er það undarlegt að fólk vantreysti lyfjafyrirtækjum, ef þau stunda svona óvönduð vinnubrögð? Mér finnst samt rétt að árétta að léleg tölfræði og slæleg vinnubrögð finnast ekki bara hjá lyfjafyrirtækjum, og á ég þá við mörg svið "óhefðbundinna lækninga" sérstaklega (sjá t.d. færslu um smáskammta"lækningar").

Rétt er að árétta að Prozac og skyld lyf virðast bæta líðan þeirra sem eru með alvarlegustu þunglyndiseinkennin. Aðal vandamálið er náttúrulega það að við skiljum  þunglyndi ósköp illa, hvað er rót sjúkdómsins, einkenni hans og afleiðingar.


mbl.is Efast um virkni þunglyndislyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tigna forheimskuna

Mannskepnan er gædd þeim dásamlega eiginlega að geta hlegið, skemmt sér og sínum, og notið augnabliksins með flissi og fíflalátum. Hún býr einnig yfir þeim hæfileika að geta skipulagt líf sitt, t.d. fyrirhugaða veiðileiðangra eða flutninga vegna yfirvofandi vetrarkulda. Það er augljóst að greind og skipulagshæfileikar hafa gert mannkyninu kleift að lifa við harðar umhverfisaðstæður og yfirstíga margar þrautir. Nú til dags, höfum við nýtt gáfur okkar og þekkingu til að búa mannkyninu (eða allavega hluta þess) mjög notalegt líf, þar sem fæða er næg, skjól gott og æxlunarmöguleikar þó nokkrir. Við slíkar kringumstæður er augljóst að dægurmál, spaug og annað geta fengið meira rými. Nú er spurt hvort að dægurmálin, hin léttu og laufléttu, séu að yfirgnæfa þá þætti sem skópu velmegun okkar?

Rétt er að árétta áður en lengra verður haldið að vissulega hafa samfélagslegir eiginleikar manna hagnýtt gildi þar sem maðurinn er félagsvera. Leikir og gamanmál styrkja tengsl innan hópsins/þorpsins og geta þar með aukið samheldni og samstöðu. 

Nútildags er leikur og gaman orðið að ástríðu mjög margra, og þá oft á kostnað þekkingar og reynslu. Þetta lýsir sér sem andstaða við fræði og fræðimenn, "anti-intellectualism" er enska heitið sem mætti e.t.v. þýða sem andvitsmunalegt (tillögur óskast). Ein skilgreining á orðinu er að, of mikil þekking getur verið hættuleg (“too much learning can be a dangerous thing”).

Þetta er alls ekki sér íslenskt fyrirbæri, og hefur oft skotið upp kollinum í mannskynsögunni (t.d. barðist Kaþólska kirkjan gegn vísindum á fyrri öldum, eins og Stalínistarnir í Sovétríkjunum og George W. Bush á sínu kjörtímabili). Susan Jacoby hefur ritað bók um þessi efni, i lauslegri þýðingu, öld Amerísku rökleysunnar (“The Age of American Unreason”).

Eins og rakið er í nýlegri grein í New York Times, þá er andvitsmunaleg viðhorf mjög algeng í vestrænum samfélögum (það er reyndar huggun harmi gegn að þessi grein var mest lesna greinin eina nýliðna helgi, en ekki einhver "frétt" um Porche sem vafðist um tré). Það sem Jacoby bendir á í bók sinni er önnur, ef ekki hættulegri skoðun sé í uppsveiflu. Þetta er rökleysuhyggja (mín þýðing á orðinu "anti-rationalism"), sem staðhæfir að það sé ekki til neinn sannleikur eða staðreyndir, bara skoðanir (á ensku “the idea that there is no such things as evidence or fact, just opinion”).

Við vitum að veröldin er stappfull af lögmálum og staðreyndum, jörðin snýst um sólina, HIV veiran ræðst á ónæmiskerfi mannsins, bólusetningar verja okkur gegn sýkingum, sem vísindin hafa afhjúpað og auðveldað okkur að skilja. Á sama hátt hafa vísindin afsannað margar tilgátur og hugmyndir, eins og að veira valdi Riðu (sýkjandi efnið er prótín - príon), að bóluefni valdi einhverfu, að heit glös dugi eða smáskammta"meðferð" dugi til að lækna sjúkdóma. Vissulega eru til fyrirbæri innan mannlegrar tilvistar, t.d. fatnaður og tónlist, sem ekki er  hægt að leggja hlutlægt mat á  (og þess vegna má rífast um það út í hið óendanlega). En við verðum að gera greinarmun þar á og varast það að fara út í rökleysu í umræðu okkar um mikilvæg atriði er varða heilsufar, umhverfi og samfélag okkar.

Jacoby leggur áherslu á að rökleysishyggja og andvítsmunahyggja sé nú að blandast í Bandaríkjunum, sem boði ekki gott upp á greind og gáfur komandi kynslóða. Auðvitað er þetta vandamál til staðar hérlendis, þar sem sumir halda að fjöldi orða og greina bæti á upp skort á röksemdum.


Þróaðist trúar "hæfileikinn"?

Grundvallarspurningin er hvers vegna er mannfólk svona trúgjarnt? Eru einhverjar náttúrulegar ástæður fyrir því að fólk trúir. Við sjáum ekki vísbendingar um svona hegðun hjá öðrum tegundum, ekki einu sinni okkar nánustu frændum simpönsunum. Með orðum Scott Atran: "trú er von án rökstuðnings"  (“belief in hope beyond reason”). 

Lítum aðeins á áætlunina hjá starfsmönnum Ian Ramsey center, sem setur upp þrjár megin spurningar.

Hvers vegna trúir fólk á guði? ("Why do people believe in gods?)

Hvers vegna trúir fólk á guð (þennan kristna!)? ("Why do people believe in God?")

Þýðir náttúrulegur grunnur trúa að þær þarfnist ekki frekari skýringa við, og að við ættum ekki að trúa á guð? ("Does the naturalness of religious beliefs mean that they've been explained away and you shouldn't believe in God?")

Tvö atriði við spurningarnar sem vekja athygli.

Hópurinn er greinilega sérstaklega forvitin um guð hinna svokölluðu kristnu manna. Guðunum er ekki gert jafn hátt undir höfði!

Samkvæmt síðastu spurningunni, þá er eins og hópurinn búist við því að trú eigi sér náttúrulegar ástæður (sem ég held að sé rétt hjá þeim), en þeir leggja samt áherslu á að kanna hvort að sé ekki bara allt í lagi að trúa afram. Það bendir til þess að þeir séu ekki að leita að einhverjum sannleik, heldur að leita að réttlætingu. Það er regin munur á þessu tvennu! 

Mbl.is er með tilvitnun, eignaða Roger Trigg "Ein ályktunin er sú að trú sé ásköpuð afstaða en að guðleysi þurfi hins vegar frekari útskýringa við." Þýðingin er ekki gallalaus hjá mbl.is (sérstaklega notkun orðsins ásköpuð). Enska tilvitnunin, úr fréttaskoti The Associated Press, sá t.d. yahoo.com "One implication that comes from this is that religion is the default position, and atheism is perhaps more in need of explanation,". Þessi athugasemd er athyglisverð, vegna þess hún felur í sér að eitthvað mat verði lagt á hvort sé eðlilegra, að trúa á yfirnáttúruleg fyrirbæri, eða ekki.

Satt best að segja bind ég ekki miklar vonir við þessa rannsókn, ég held að mannfræðingar, sálfræðingar og þróunarfræðingar séu okkar besta von í þessum málum. Við eigum að geta rannsakað undireiningar vitundar okkar og rót trúarinnar:

hvaðan við sækjum sannfæringu?,

hvernig við rökstyðjum ákvarðanir okkar og gjörðir?

hvernig við eigum við mótsagnir?

er trúin afleiðing þróunar?

Sérstaklega þykir mér seinasta spurningin spennandi, því við vitum að þróun mótar líffræði okkar og hegðan. Einn möguleiki er sá að þróun hafa leitt til eiginleika sem hafi gert frummanninn berskjaldaðan fyrir hugmyndinni um trú. Annar er sá að arfgerðir og samfélög sem hafa sterkar trúarlegar sannfæringu hafi sigrað í samkeppni við trúlausa ættbálka. Þessar spurningar eru ræddar í grein í New York times frá síðasta ári. Væri það nú ekki spaugileg  niðurstaða ef líklegsta skýringin á trúarhita og sannfæringu sköpunarsinna væri þróun?

 


mbl.is Innbyggð trú rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforð eða von um bóluefni

David Baltimore sinnir skyldu sinni sem Nóbelsverðlaunahafi, og leggur hlutlægt mat á baráttu okkar við HIV. David sem vann verðlauning 1975 ásamt Renato Dulbecco og Howard Temin, fyrir rannsóknir á áhrifum veira á krabbamein og kerfi frumunnar. Framlag Davids var skilgreining á víxlrita úr HIV veirunni. Víxlriti er ensím sem notar RNA mót og nýmyndar DNA, sem er óvenjulegt í frumum, sem venjulega nota DNA sem erfðaefni og RNA sem millistig í nýmyndun prótína.

Hann benti nýlega á að þrátt fyrir 25 ára (ekki 20! mbl.is) rannsóknir værum við enn fjarri því lækningu á HIV, sérstaklega myndun bóluefnis. Lykilvandamáli er að HIV veiran, sem veldur sjúkdómnum alnæmi er herjar á ónæmiskerfi okkar, þróast innan líkama okkar. Hröð þróun veirunnar gerir henni kleift að sleppa undan varnarkerfum líkamans, og að endingu að yfirvinna þau.

Í grein árið 1986 sagði hann að það væru allavega 10 ár í bóluefni gegn HIV, og hefur ítrekað þá skoðun í öðrum greinum síðan. Hann staðhæfir að þetta eigi enn við ("I still think that an Aids vaccine is at least 10 years away,") en að það sé raunhæfur möguleiki á að mynda bóluefni gegn HIV.  ("You are quite within bounds to say, well if it's been 10 years away for the last 20 years does that really mean that it's never going to happen? And there are people saying now that it will never happen.") Hann viðurkennir einnig að það séu vísindamenn sem séu mjög efins um að það sé hægt að mynda bóluefni gegn HIV, að öllum líkindum vegna þess hversu hratt veiran þróast.

Hann ver sína ályktun, á þeim grundvelli að hið gangstæða sé neikvæð afstaða, sérstaklega þar sem mjög mikið sé í húfi. ("I'm not prepared to say that because I don't want to take a pessimistic stance. I want to take an optimistic stance and say this is too important to give up on.") Orð Baltimores hafa eðlilega vakið eftirtekt, og eru flestum holl.

Þessi umræða vekur samt upp spurningu um ábyrgð og hlutverk vísindamanna. Við rannsökum veröldina og viljum skilja hvernig stjörnur, eldfjöll og frumur virka. En það er einnig krafa á að rannsóknir hafi hagnýtt gildi, bæti líf og líðan fólks. Vissulega hafa margar vísindalegar framfarir skilað sér t.d. í læknavísindum, en það er erfitt að ákvarða hvaða grunnþekking hefur hagnýtt gildi, sérstaklega fyrirfram. En við verðum að varast að gefa fólki falska von, hvað þá ígildi loforðs um lækningu.

Samt sem áður leyfa vísindamenn sér oft að tilgreina mögulegan ávinning af rannsóknum sínum. Ef þú ert að rannsaka HIV, þá gæti þekkingin þín leitt til þróunar bóluefnis...svona óbeint, eftir 3, 30 eða 300 ár. Þegar samkeppnin um athygli, fjármagn og nemendur er orðin mjög hörð, þá hafa sumir vísindamenn freistast til að blása meira vægi í ályktanir sínar en efni standa til, og bendla rannsókninar við einhvern sjúkdóm sem margir þjást af. Hversu oft heyrir maður um framfarir í krabbameinsrannsóknum, sem reynast síðan ómerkileg hliðarspor þegar upp verður staðið. Þetta er almennt vandamál, fyrir 10 árum var möguleikum genalækninga ("gene-therapy") hampað sem allra meina bót, en nú er ljóst að slíkar aðferðir eru ekki raunhæfar. Vissulega er það mennskt að hafa rangt fyrir sér, en maður verður líka að hafa dug til að játa slíkt.

Helsti kostur vísinda, sá að þau eru stunduð af greindu og skapandi mannfólki*, gæti einnig verið fagsins veiki hlekkur.

 *(við vitum ekki til þess að fulltrúar annara tegunda, allavega á jörðinni, beiti hinni vísindalegu aðferð)


mbl.is Engin lækning fundin þrátt fyrir 20 ára baráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með daginn Darwin

Í dag eru 199 ár síðan merkasti líffræðingu sögunar, Charles Robert Darwin fæddist. Hann er ásamt Alfred Russel Wallace faðir þróunarkenningarinnar. Kenningin, sem ætti með réttu að kallast lögmál, samanstendur af tveimur grundvallaratriðum, náttúrulegu vali og skyldleika tegunda.

Í fyrsta lagi náttúrulegt val, sem getur útskýrt varðveislu tegunda og tilurð og starfsemi eiginleika (svo kallaðara aðlagana - e. "adaptation"). Náttúrulegt val byggir á nokkrum forsendum, um 1) breytileika á milli einstaklinga, að 2) hluti breytileikans erfist milli kynslóða og 3) mishraða æxlun (það er að einstaklingar eigi mismörg afkvæmi). þessar forsendur standast fyrir allar tegundir og eiginleika (þótt sumir eiginleikar séu með lítinn erfðabreytileika, t.d. fjöldi handa á mönnum). Og með hliðsjón af þeirri staðreynd að auðlindir eru takmarkaðar og þar með að samkeppni hlýtur að vera á milli lífvera ("the struggle for existance") leiða þessar forsendur til náttúrulegs vals. Svo einfallt er það, skýrar forsendur standast, og af þeim leiðir að valið verður gegn vanhæfum arfgerðum og fyrir hæfari. Afleiðingarnar eru þær að stofnar breytast og eiginleikar, eins og auga, verða betri til að sinna vissum störfum (aðlagast).

Hinn burðarás þróunarkenningarinnar er skyldleiki lífvera, sem er mjög eðlileg afurð náttúrulegs vals. Darwin sýndi fram á að lífverur raðast í þróunartré, þar sem nærskyldar tegundir (eins og menn og apar) sitja á nálægum greinum og að ólíkar tegundir eins og menn og svampar, lenda á greinum sem aðskiljast neðarlega í trénu (fyrir langa löngu).

Að ári verður 200 ára ártíð hans, og einnig verða 150 ár síðan bók hans, "Um uppruna tegundanna..." kom út. Að því tilefni hafa nokkur félagasamtök gert skurk í að gera skrif hans, bækur og dagbækur, sendibréf og annað ritað efni opinber fyrir leikmenn og lærða. Einnig eru vefsíður helgaðar starfi hans og lífi.  Að auki setti the Guardian saman ítarleg vefsíðu, með pistlum sem ræða skyldleika manna og apa, steingervingasoguna, tilurð tegunda og vitanlega rimmu sem  þróunarfræðingar og vísindafólk eiga við bókstafstrúarmenn beggja vegna Atlanshafs.  Rétt er að árétta að sú rimma er ekki vísindalegs eðlis, því hugmyndin um almáttugan skapandi guð (eða spaghetti skrímsli) er ekki, afsannanleg með vísindalegum aðferðum.


Skyldleiki og frjósemi

Fyrrverandi samnemendur mínir við erfðafræðideild North Carolina State University stríddu mér oft á að Íslendingar væru innræktaðir og afbrigðilegir. Vitanlega tók ég þessu með ró, en reyndi líka að fræða þá um sögu og stofnerfðafræði þjóðarinnar, að bæði keltneskt og norrænt fólk hafi flust (eða verið flutt) hingað, að landnámsþjóðin hafi verið stór (um 30000) og að töluvert far hafi verið milli Íslands og annara landa í álfunni. Allir þessir þættir draga úr líkunum á innrækt, og þannig úr líkunum á að skaðlegar stökkbreytingar verði algengar (nái hárri tíðni). Vissulega eru einhver áhrif á stofngerð okkar, eins og há tíðni stökkbreytingar sem veldur brjóstakrabbameini bendir til (Thorlacius et al) og einnig finnst munur á tíðni arfgerða innan Íslands.

Megin rök samnemenda minna voru þau að innræktun dregur úr hæfni og frjósemi, nokkuð sem búast má við út frá stofnerfðafræðilegum líkönum. 

Í dag birtist grein í Science frá Agnari Helgasyni, Snæbirni Pálssyni við Háskóla Íslands og fleirum við Íslenska Erfðagreiningu, nefnd "An association between the kinship and fertility of human couples". Sú rannsókn sýnir að frjósemi para fellur ekki jafnt með auknum skyldleika. Það virðist sem ættingjar í þriðja og fjórða lið eigi fleiri afkvæmi, en bæði þeir sem eru fjarskyldari og skyldari. Vissulega er sýnið ekki mjög stórt fyrir skyldustu einstaklingana, en annars er gagnasettið nokkuð viðamikið. 

Túlkunin er náttúrulega vandamálið, og Agnar og félagar eru varkárir og álykta að um líffræðilega ástæðu sé að ræða frekar en umhverfis eða samfélagslega. En spurningin er hvort að þetta sé hrein áhrif erfðaþátta, eða hvort um sé að ræða afleiðingar stofnbyggingarinnar, eða samspil stofngerðar og samfélagsþátta.

Hver sem ástæðan er þá virðist mynstrið traust og rétt að óska Agnari og Snæbirni til hamingju með pappírinn. Í framhaldi af fyrri umræðu um léttar fréttir (hér og hér) á þessi niðurstaða eftir að fara sem eldur um vefinn samanber "kissing cousins" á heimasíðu BBC.


Gena-spilastokkur

Uppgötvun Íslenskrar erfðagreiningar sem rædd er í frétt mbl.is (sem birtist einnig í fréttablaðinu en ekki á visir.is, sem torveldar beinan samanburð!) fjallar um uppstokkun gena.

Þannig er mál með vexti að þegar erfðaefnið raðast í kynfrumur þá aðskiljast litiningarnir handahófskennt (litningur 1 kom frá pabba, tvö og þrjú frá mömmu, 4 frá pabba og svo koll af kolli). Þar að auki getur erfðaefni víxlast milli eintaka móður og föður, samanber mynd úr kennslubók Griffiths og félaga (2008). Upprunalegu eintökin (parental) erfast heil, en litningavíxl leiða til endurröðunar (recombinants) erfðaefnis.

Endurröðun hefur verið þekkt í rúma öld. Annað lögmál Mendels fjallar um óháðar erfðir gena, sem geta verið vegna endrröðunar, ef genin eru nægilega langt frá hverju öðru á litningi. Frávik frá óháðum erfðum sjást ef gen liggja nærri hvort öðru á litingum.

Að auki hefur það verið vitað að endurröðun er ekki jöfn, hún er mismikil eftir litningasvæðum, mismunandi milli lífvera og eins og ÍE sýndi fram á 2002 (Augustine Kong var þá líka fyrsti höfundur) þá er endurröðunartíðni ekki sú sama í kynfrumum karla og kvenna. Tilraunir hafa sýnt að ákveðin prótin eru nauðsynleg fyrir endurröðun, en enginn hefur hingað til fundið erfðaþætti sem hafa áhrif á náttúrulegan breytileika (t.d. milli einstaklinga) í endurröðun.

Nýja rannsóknin fann erfðaþátt, stökkbreytingu í RNF212 geninu, sem hefur áhrif á endurröðun bæði í körlum og konum (22% og 6%). Það er merk niðurstaða í erfðafræði.

En skiptir þetta máli fyrir þróun eða skilning okkar á þróun?

Kynæxlun hefur lengi verið ráðgáta, vegna þess að einstaklingar fjárfesta í kynfrumum en láta síðan afkvæmið bara fá helmingin af sínum genum. Samkvæmt einföldum líkönum eiga slíkar lífverur ekki að eiga roð í þær sem fjölga sér kynlaust, með einföldum skiptingum (eins og gerlar!). Ein tilgáta er að endurröðun hafi jákvæð áhrif á þróun, með því að stokka upp erfðasamsetningar. Því t.d. ef jákvæð stökkbreyting (sem eykur hæfni) situr á litningi með alvarlegum erfðagalla (sem drepur viðkomandi á arfhreinu formi), þá mun sú stökkbreyting ekki eiga möguleika á að veljast...nema til komi endurröðun. Endurröðun getur brotið tengslin milli skaðlegra og jákvæðra stökkbreytinga og þannig "aðstoðað" þróun.

Athugið þetta líkan færir tegundinn ávinning síðar á lífsleiðinni, ekki strax í dag. Annað likan staðhæfir að endurröðun sé nauðsynleg fyrir pörun litninga, og sé því bein aukaafurð þess að margar lífverur eru tvílitna (það fylgir því margskonar ávinningur að vera tvílitna, ekki rakið hér). Endurröðun milli litninga er nauðsynleg fyrir rétta pörun í rýrisskiptingu (meiósu).

Mér finnst umræða mbl.is á efninu full glaðhlakkaleg, e.t.v. vegna orðalags fréttatilkynningarinnar, og virðist hún í litlu samhengi við skilning viðkomandi á efninu (sbr klunnalegar þýðingar). í alvörunni fáið einhvern nær efninu, þó ekki væri nema kynningarfulltrúa decode til að lesa yfir herlegheitin.

Og að auki, ÍE er að selja erfðagreiningaprófin sín (sér kapitulli sem rakin verður seinna) og bætir við í fréttatilkynningunni að þeir sem taki þátt geti komist að því hvort þeir séu með þessar stökkbreytingar í RNF212 geninu. Í hamingjunar bænum, hvað á fólk að gera við slíkar upplýsingar? Ef ég er karlmaður og með viðkomandi stökkbreytingu, þá eru hærri líkur á endurröðun í kynfrumunum mínum. Sem er gjörsamlega gagnslaus vitneskja.


mbl.is Nýju ljósi varpað á þróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband