Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Efnisleg gagnrýni

Í skýrslu hagfræðistofnunar er ekki bein hagnaður af veiðum á hval.

Hagnaðurinn sem vísað er til í umfjöllun fjölmiðla er álitin koma af óbeinum áhrifum af hvalveiðum, í gegnum vistkerfi hafsins.

Þessi óbeinu áhrif eru metin upp á 12 milljarða króna.

Hilmar Malmquist er vistfræðingur sem hefur um áratuga skeið rannsakað vistkerfi og hefur skrifað mikið um áhrif stórra sjávarspendýra á vistkerfi hafsins.

Hann segi: (af vefsíðu NSÍ).

að allt eins sé hægt að nota forsendur saman líkans til að mæla ekki með hvalveiðum

Hilmar hefur áður rætt þetta mál og sagt (í grein frá 2003):

Þá má fullyrða að svonefnt "fjölstofnalíkan" Hafrannsóknastofnunar, sem hvalveiðisinnar hafa mikið hampað til að réttlæta meintan skaða hvala á fiskistofnunum, gefur glannalega einfalda mynd af íslensku sjávarlífríki, en í líkaninu eru aðeins sex þátttakendur; þorskur, loðna, rækja og þrjár hvalategundir. Fyrir utan einfaldleika líkansins eru niðurstöður þess bæði umluktar svo víðum öryggismörkum og háðar svo mörgum óvissum forsendum að þær geta ekki talist áreiðanlegar við ráðgjöf á auðlindanýtingu sjávarlífvera ...

Þjóðin á allt betra skilið en að alast upp við ranghugmyndir um hvali og hvernig sjávarlífríkið umhverfis landið gengur fyrir sig.

Semsagt, hagfræðingarnir byggja niðurstöðu sína á mjög sveiganlegu líkani, og virðast einblína á "jákvæðustu aðstæður" til að reyna að réttlæta hvalveiðar við Ísland.

Maður hlýtur að spyrja, hverjir greiddu fyrir viðkomandi skýrslu?

Ég tek mér bessaleyfi og endurprenta grein Hilmars J. Malmquist frá árinu 2003, þegar mikið var rætt um að hefja hvalveiðar að nýju. (ég fann greinina á málefnin.is)

Laugardaginn 20. september, 2003

Vafasöm hvalveiðistefna of varasöm.

RÍKISSTJÓRN Davíðs Oddssonar með Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra í fararbroddi er í slæmum málum vegna hvalveiðistefnu sinnar. Ekki aðeins vegna vísindaveiðanna á hrefnunni, sem lýst er í Morgunblaðinu sem illa undirbúinni ákvörðun og fjölmiðlaklúðri sem skaðað hefur ímynd Íslands (sbr. Reykjavíkurbréf laugardaginn 23. ágúst), heldur einkum og sér í lagi vegna þess að rökin að baki hvalveiðistefnu ríkisstjórnarinnar eiga sér ekkert hald í líffræðilegu tilliti.

"Jafnvægið" í hafinu
Um nokkurra ára skeið hafa háværir málsvarar hvalveiða talað fyrir þeirri skoðun að hvalveiðar séu nauðsynlegar til að viðhalda svokölluðu "jafnvægi" í sjávarlífríkinu á Íslandsmiðum. Talsmenn jafnvægisins fullyrða að vistkerfið innan íslensku efnahagslögsögunnar hafi orðið fyrir skakkaföllum síðastliðin 15 ár, eða síðan stórhvalaveiðar lögðust niður árið 1989 eftir samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins. "Ójafnvægið" sem nú ku ríkja í hafinu stafar að sögn jafnvægissinna af því að hvölunum hafi fjölgað óhóflega, þeir séu nú orðnir allt of margir og éti hvort tveggja í senn, allt of mikið æti frá fiskunum og óforsvaranlega stóran skerf úr nytjafiskistofnum okkar. Fækkun hvala með hvalveiðum sé því nauðsynleg til að koma aftur á jafnvægi í hafinu og, sem svo einkennilega vill til að er fylgifiskur hvalveiðanna, til að stækka nytjafiskistofnana á Íslandsmiðum!

Sjávarútvegsráðherra er fylgismaður jafnvægiskenningarinnar, eins og lesa má í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi, en þar segir hann m.a. um hvalveiðar að: "Auðvitað vonar maður að einn góðan veðurdag vakni menn til vitundar um að það er eðlilegt að nýta alla þætti vistkerfisins, ekki bara suma þeirra. Ef það sé ekki gert myndast ójafnvægi og markmiðið með nýtingunni sé að viðhalda jafnvæginu ...".

Hvað segja vísindin?
Jafnvægiskenningin á sér enga formælendur meðal vísindamanna í líffræði, enda er æði margt í kenningunni sem gengur engan veginn upp, hvorki í líffræðilegu tilliti né hvað varðar auðlindanýtingu sjávar almennt. Hugmyndir um jafnvægi og stöðugleika í náttúrunni, þar sem aðskiljanlegum lífverum er skipaður fastur og óumbreytanlegur sess samkvæmt guðlegri forskrift má rekja til kirkjunnar manna langt aftur í aldir. Það eimir greinilega enn eftir af þessari frumstæðu hugsun meðal íslenskra hvalveiðisinna á 21. öld.

Í ljósi fyrirliggjandi vísindalegrar þekkingar á vistkerfi sjávar, sem samanstendur af tugþúsundum tegunda í afar flóknu og síbreytilegu samspili, jafnt innbyrðis sín á milli og við ótal umhverfisþætti, má fullyrða að allar hugmyndir um eitthvert jafnvægi í hafinu um lengri eða skemmri tíma eru víðs fjarri raunveruleikanum. Jafnvægishugmyndin er í besta falli óskhyggja hagsmunaaðila í sjávarútveginum og í versta falli alger bábilja, en líklega hvort tveggja.

Jafnframt má fullyrða í ljósi vísindalegrar þekkingar á lífríki sjávar að sá skerfur sem hvalir éta af fiskum og æti frá fiskum er aðeins brot af því sem aðrir þættir í vistkerfinu éta af hinu sama. Í flestum sjávarvistkerfum heims éta fiskar langmest af fiski og æti frá fiskum. Sjófuglar eru einnig afar drjúgir, en einna drýgstir við átið af fiski og æti frá þeim eru marglyttur, burstaormar, pílormar og ótal önnur hrygglaus dýr sem svamla um í sjónum.

Þá má fullyrða að svonefnt "fjölstofnalíkan" Hafrannsóknastofnunar, sem hvalveiðisinnar hafa mikið hampað til að réttlæta meintan skaða hvala á fiskistofnunum, gefur glannalega einfalda mynd af íslensku sjávarlífríki, en í líkaninu eru aðeins sex þátttakendur; þorskur, loðna, rækja og þrjár hvalategundir. Fyrir utan einfaldleika líkansins eru niðurstöður þess bæði umluktar svo víðum öryggismörkum og háðar svo mörgum óvissum forsendum að þær geta ekki talist áreiðanlegar við ráðgjöf á auðlindanýtingu sjávarlífvera, allra síst þegar haft er í huga hve viðkvæmt mál hvalveiðar eru á alþjóðavettvangi.

Sjávarútvegsráðherra verður að vera samkvæmur sjálfum sér og útskýra hvernig jafnvægi getur komist á með því að einblína á hvali og nokkra nytjafiskistofna en leyfa bróðurpartinum af "fiskiafætunum" að leika lausum hala í hafinu. Forvitnilegt væri t.d. að sjá áætlun um hvenær marglyttuveiðar hefjast hér við land og hversu mörg tonn af hverri tegund fyrir sig þurfi að veiða árlega til að viðhalda meintu jafnvægi í hafinu.

Þáttur Hafró
Sjávarútvegsráðherra er e.t.v. vorkunn með þá fyrirætlan að stjórna einhverju sem ekki er til með hvalveiðum, hvað þá heldur að stjórna einhverju sem ekki fyrirfinnst með því að nýta "alla þætti" vistkerfisins. Það verður nefnilega að segjast eins og er að þáttur ráðgjafans, Hafrannsóknastofnunar, virðist ekki upp á marga fiska í þessu máli. Til dæmis er undarlegt að stofnunin hefur aldrei mér vitandi reynt að leiðrétta með eindregnum og skýrum hætti klisjuna um jafnvægið og nauðsyn hvalveiða til að stækka fiskistofnana, sem opinberir ráðamenn hafa ítrekað haft í frammi við ýmis tækifæri á undanförnum árum. Þetta er mjög bagalegt vegna þess að hætt er við að þetta líffræðilega fleipur festist í þjóðarvitundinni. Þjóðin á allt betra skilið en að alast upp við ranghugmyndir um hvali og hvernig sjávarlífríkið umhverfis landið gengur fyrir sig.

Jafnvægissinnar eiga bágt
Í áðurnefndu Reykjavíkurbréfi Morgunblaðisins kvartar sjávarútvegsráðherra yfir því að það sé mjög "erfitt að búa við þær aðstæður að þegar hvalveiðar væru annars vegar væri algengt að hvorki almenningur, stofnanir né jafnvel ríkisstjórnir tækju rökum"!

Ég efast reyndar um að ríkisstjórnir séu eitthvað móttækilegri fyrir rökum eða röklegri í orði og æði en aðrir, en á hinn bóginn er ég fullviss um að það er óvinnandi vegur fyrir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að sannfæra umheiminn um hið göfuga hlutverk okkar Íslendinga að viðhalda jafnvægi í N-Atlantshafi til hagsbóta fyrir vistkerfið. Ég tel víst að vísindasamfélagið, a.m.k. á líffræðisviðinu, bæði hér heima og þó einkum erlendis muni ekki sitja þegjandi undir þessum hjáfræðum um lífríki hafsins. Sumt er einfaldlega ekki hægt að selja og sumir selja sig einfaldlega ekki.

Þá sýnist mér að sjávarútvegsráðherra vanmeti rök og þekkingu annarra ríkisstjórna í andstöðu sinni gegn veiðum Íslendinga á stórhvölum. Það er t.d. forvitnilegt í þessu samhengi að skoða nýlegt rit sem gefið er út af bandaríska viðskiptaráðuneytinu (U.S. Department of Commerce) þar sem fjallað er um hvali og fiskistofna í heimshöfunum. Af lestri ritsins er ljóst að þekking innan bandaríska stjórnsýslustigsins á líffræði hvala og stöðu þeirra í sjávarvistkerfinu stendur mun nær raunveruleikanum en tilfellið er hér heima með ráðamenn þjóðarinnar.

Niðurlag
Það er brýnt að hafa í huga að veiðar á stórhvölum er afar viðkvæmt alþjóðamál, sérstaklega í ljósi sögulegra staðreynda um ofveiði á hvölum í heimshöfunum langt fram yfir miðja 20. öld. Í kjölfarið öðluðust hvalir táknræna merkingu í baráttunni fyrir umhverfisvernd almennt í heiminum. Þann sess skipa hvalir enn í dag og sætir það engri furðu. Vel má vera að Íslendingar súpi nú að ósekju seyðið af misgjörðum annarra þjóða fyrr á tímum. Ef þetta er tilfellið breytir það ekki hinu að það er sá raunveruleiki sem horfast verður í augu við af yfirvegaðri skynsemi í stað þvergirðingsháttar krydduðum þjóðernisrembu og hjáfræðum um lífríki hafsins.

Það verður að teljast mjög líklegt, ef heldur fram sem horfir með núverandi hvalveiðiforsendur ríkisstjórnarinnar, að hvalveiðistefnan muni fyrr en síðar bíða algert skipbrot og verða landi og þjóð til enn frekara tjóns og álitshnekkis en orðið er. Að stefna fram á alþjóðavettvangi með jafnvægiskenninguna á lofti og boðskapinn um að hvalveiðar séu nauðsynlegar af því að hvalirinr éti svo mikið af fiski er ekki aðeins móðgun við líffræðina sem vísindagrein heldur er verið storka heildarhagsmunum Íslendinga. Forsendur núverandi hvalveiðistefnu eru þar að auki algerlega óþarfar.

Allt sem til þarf að stunda hvalveiðar, vilji menn það á annað borð, er að stunda þær á þeim forsendum einum að veiðikvótar stefni hvalastofnunum ekki í hættu. Við ákvörðun kvóta verður að byggja á sem allra öruggasta stofnstærðarmati og ítrustu varfærni verður að gæta við útreikninga á veiðiþoli. Þetta er ekki nema eðlileg krafa í ljósi sögunnar á ofveiði hvala og stöðu þeirra í dag í umhverfismálum. Og svo má náttúrulega ekki fórna meiri hagsmunum fyrir minni. 


mbl.is NSÍ gagnrýnir hvalveiðiskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaleyfi á genum felld úr gildi

Vissar stökkbreytingar í BRCA1 og BRCA2 genunum auka líkurnar á brjóstakrabbameini, og hafði fyrirtækið Myriad genetics sjö einkaleyfi á greiningu á göllum í þessum tveimur genum.

American civil liberties union og tveir einkaaðillar sóttu dómsmál til að hnekkja þessum einkaleyfum.

Málið var metið á ríkisgrundvelli af dómaranum Robert W. Sweet (United States District Court). Ályktun hans var afgerandi, einkaleyfi á genum eru óviðeigandi því ekki er hægt að fá einkaleyfi á lögmálum náttúrunnar. Úr umfjöllun NYTimes. 

Judge Sweet, however, ruled that the patents were “improperly granted” because they involved a “law of nature.” He said that many critics of gene patents considered the idea that isolating a gene made it patentable “a ‘lawyer’s trick’ that circumvents the prohibition on the direct patenting of the DNA in our bodies but which, in practice, reaches the same result.”

The case could have far-reaching implications. About 20 percent of human genes have been patented, and multibillion-dollar industries have been built atop the intellectual property rights that the patents grant.

Í framhaldi greinarinnar var síðan rætt um afleiðingarnar. Mörg fyrirtæki, þar á meðal Decode genetics, byggja starfsemi sína að einhverju eða öllu leyti á þeirri hugmynd að hægt sé að selja erfðapróf. Myriad genetics hafði einkaleyfi á stökkbreytingum sem auka líkurnar á brjóstakrabba mjög mikið, og seldu konum erfðapróf fyrir brjósta og eggjastokkakrabbamein upp á $3000.

ACLU sótti málið einnig á grundvelli einkaréttar ákvæða stjórnarskrárinnar en Sweet dómari áleit ekki nauðsynlegt að meta málið á þeim grundvelli, einkaleyfalögin myndu duga til að meta málið.

Líklegt er að Myriad genetics vísi málinu til hæstaréttar.

Því miður gerist það veitt eru einkaleyfi á líffræðilegum fyrirbærum eða aðferðum vegna þess að matsaðilla vantar þekkingu til að meta þau almennilega.

Ítarefni

Judge Invalidates Human Gene Patent eftir  JOHN SCHWARTZ og ANDREW POLLACK New York Times. March 29, 2010

Turna Ray á www.genomeweb.com Can ACLU Expect to Win Its BRCA Gene Patenting Case Before it Even Gets to Trial?

Af vefsíðu ACLU Patents On Breast Cancer Genes Ruled Invalid In ACLU/PubPat Case

*Leiðrétting - fyrsti titillinn var alger skelfing "Óleyfilegt að fá einkaleyfi á genum", vonandi er sá nýi skárri. 30. mars 2010, kl 12.26.


kynslóð fram af kynslóð

Það er mjög erfitt að finna fólk sem hafnar eftirfarandi staðreynd:

börn líkjast foreldrum sínum vegna þess að þau erfa afrit af genum foreldranna.

Einnig er sjaldgæft að fólk hafni því að

barnabörn líkjast afa og ömmu vegna þess að þau erfa afrit af genum þessara forfeðra sinna.

Að sama skapi hafna því fáir nútildags að:

afríkubúar og evrópubúar séu skyldir, vegna þess að þeir erfðu afrit af genum sameiginlegs forföður.

Samt er hellingur af fólki sem getur ekki kyngt eftirfarandi staðreynd:

menn og simpansar eru svipaðir að upplagi og byggingu, vegna þess að þeir erfðu afrit af genum sameiginlegs forföður.

Þessar fjórar staðreyndir hafa aldrei verið hraktar, þrátt fyrir margskonar tilraunir og ítarleg próf.

Samt er umtalsverð andstaða við staðreynd fjögur. Ástæðan er sú að hún stangast á við þá sannfæringu sumra um að maðurinn hljóti að vera skapaður af yfirnáttúrulegri veru.

En sömu gögn og staðfesta skyldleika foreldris og barns, afa og barnabarns, og allra núlifandi manna, styðja skyldleika manna og simpansa.

Í greininni sem fjallað er um í mbl.is er unnið með sýni af óþekktri mannveru úr Denisova hellinum í austanverðu Rússlandi/Síberíu, og gögnin sýna að hvatberalitningu hennar er fjarskyldur þeim sem fundist hafa  mönnum og í Neanderthalsmönnum.(mynd úr grein Krause og félaga - afsakaði lélega upplausn).

nature08976-f3_2.jpg Röðin úr Denisova beininu er lituð í rauðu á ættartrénu. Hún er greinilega fjarskyldust þeirra sem þarna eru skoaðar, bláu sýnin eru úr beinum Neanderthalsmanna. Grálituðu greinarnar eru úr mismunandi stofnum manna, dýpstu greinarnar eru afrískar og evrópubúarnir sitja um miðbik ættartrésins.

Með aðferðum stofnerfðafræðinnar er hægt að meta að u.þ.b. 1 milljón ár eru síðan síðasti sameiginlegi forfaðir okkar og Denisova mannsins/manntegundarinnar var uppi. Skekkjan er umtalsverð, 780-1300 þúsund ár.

Ég á ekki beinlínis von á að grein Krause og félaga geri sköpunarsinnum kleift að sjá villu síns vegar. 

Það er hægt að benda á hversu samfelldur breytileikinn í náttúrunni er. Það væri hægt að nota dæmið hér í upphafi, og rekja tíunda staðreyndirnar um erfðir og skyldleika kynslóð fram af kynslóð.

Það sem á við foreldri og barn, afa og barnabarn, langaafa og barnabarnabarn....o.s.frv, á einnig við um okkur og sameiginlegan forföður manna og simpansa. Það að afneita staðreyndum sameindalíffræði og þróunarfræði við 100uðasta ættlið eða þann milljónasta  er annað hvort hentistefna eða fáviska.

Af einhverri ástæðu treysta sköpunarsinnar sér til þess að afneita lögmálum um erfðir og sameiginlegan uppruna þegar þeim hentar, þ.e. þegar þeim þykir vegið að trú sinni á sköpunarsögu biblíunar.

Ítarefni:

Johannes Krause o.fl. The complete mitochondrial DNA genome of an unknown hominin from southern Siberia Nature 2010.


mbl.is Áður óþekkt frummannategund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurfarsbreytingar og lífríki sjávar á Íslandi

Næstkomandi mánudag 29. mars mun Dr. Ólafur S. Ástþórsson, sjávarlíffræðingur hjá
Hafrannsóknarstofnuninni, fjalla um veðurfarsbreytingar og lífríki sjávar. Erindið á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags og hefst kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi
Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip erindisins fylgir hér:
Á jaðarsvæðum heitra og kaldra sjógerða líkt og á hafsvæðinu við Ísland hafa umhverfisskilyrði veruleg áhrif á lífríki sjávar. Í hafinu umhverfis Ísland og á nálægum hafsvæðum í Norður Atlantshafi hafa á seinustu 100 árum verið áberandi hlýviðrisskeið á árunum 1925-1945, kuldaskeið á árunum 1965-1971 og hlýviðrisskeið frá 1996 til dagsins í dag. Í erindinu verður vikið að straumakerfi og langtímasveiflum í umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland og á hvern hátt veðurfar getur haft áhrif á lífverur sjávar. Þá verður greint frá því sem vitað er um breytingar á lífríki sjávar frá hlýjum árum milli 1925-1945 og frá köldum árum milli 1965-1971. Loks verður fjallað um þær breytingar á lífríkinu í sjónum við Ísland sem tengja má hlýnuninni síðan 1996. Frá seinasta tímabilinu er vitneskjan ítarlegust og á því hafa m.a. orðið verulegar tilfærslur í útbreiðslu og stofnstærðum margra hryggleysingja, nytjafiska og sjaldséðra fisktegunda, sjófugla og spendýra. Þá hafa á undanförunum árum fundist við landið margar nýjar tegundir bæði fiska og hryggleysingja sem greint verður frá

Hvað lærir maður í háskóla?

Fyrr í dag voru nemendur af náttúrufræðibraut Verslunarskólans í heimsókn hjá okkur í Öskju. Við kynntum fyrir þeim nám í líffræði við HÍ og Þórarinn Guðjónsson ræddi við þau um námsmöguleika við Læknadeild HÍ.

Nemendurnir spurðu margar ágætra spurninga. Ein spurning sem brennur ætið á nemendum sem eru að ljúka framhaldskóla, "hvaða starfsmöguleika gefur þetta nám?"

Það fer vitanlega dálítið eftir því hvaða námsbraut fólk fer á hvaða starfsmöguleikar liggja beinast við. Við lögðum hinsvegar áherslu á að nám í háskóla, og að okkar viti sérstaklega í raungreinum og læknisfræði, er í raun nám í vinnubrögðum.

Það sem maður lærir í háskóla er:

  • að tileinka sér þekkingu, með því að lesa eða framkvæma athuganir og rannsóknir.
  • að miðla þekkingu sinni eða niðurstöðum, í rituðu máli, í fyrirlestri eða því að kenna öðrum.
  • aðferðir vísinda og þjálfa gagnrýna hugsun.
  • vinnulag, t.d. að skipuleggja vinnu sína, brjóta verkefni í litlar framkvæmanlegar einingar, halda tímaáætlun.
  • að vinna í hóp og eiga samskipti við fólk.

Vitanlega skiptir grunnþekkingin máli, eins og að vita hvernig manneskjan er uppbyggð, hvernig bakteríur virka og hvaða lögmál stjórna vistkerfum (sjávar og spítala).

Að loknu líffræðiprófi var ég örlítið undrandi því ég kunni ekki nöfn allra íslenskra blóma. Ætli það hafi ekki verið þá sem það rann almennilega upp fyrir mér að ein manneskja getur aldrei lært allt. Í veröldinni eru a.m.k. 35.000.000.000 tegundir lífvera. Það að ætla að leggja nöfn þeirra allra á minnið er álíka gagnlegt og að muna aukastafina á Pí eða telja öll orðin á veraldarvefnum.*

Mikilvægast að geta sett sig inn í málin og rætt þau af skynsemi.

*Síðasta málsgreinin var leiðrétt 28 mars 2010, innsláttarvilla fjarlægð og orðalag betrumbætt.


Útúrsnúningur

Fyrir skemmstu fjallaði RÚV um orkuverð til Norðuráls, og eins og Orkubloggarinn sagði

Þar á bæ þótti eðlilega fréttnæmt að hið nýlega álver Norðuráls á Grundartanga greiði sem nemur um 25-30% lægra verð fyrir raforkuna, heldur en orkuverð til álvera í heiminum er að meðaltali.  

Orkubloggarinn gerir þetta að umræðuefni í ítarlegum pistli Strictly Confidential.

Nýjasta útspil Norðuráls hljómar eins og tilraun til a:

a) skipta um umræðuefni,

b) leggja áherslu á jákvæð atriði,

c) hundsa neikvæða gagnrýni,

d) halda uppi skvaldri á meðan fólk gleymir,

e) allir ofangreindir kostir.

Það er skylda að lesa pistil orkubloggarans, þótt í lengra lagi sé. Þáttaka í lýðræðisamfélagi á ekki að takmarkast af lestrarþoli.

 


mbl.is Segir stóriðjuna borga meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raforkuverð til Norðuráls

Orkubloggarinn fjallar um skýrslu Hatch um orkuverð til Norðuráls. Strictly Confidential

Þar á bæ þótti eðlilega fréttnæmt að hið nýlega álver Norðuráls á Grundartanga greiði sem nemur um 25-30% lægra verð fyrir raforkuna, heldur en orkuverð til álvera í heiminum er að meðaltali. 

...

Og eins og venjulega þegar einhver nýtur óvenju góðra kjara - sérkjara -  er einhver annar sem er hýrudreginn. 

Gott fólk, það er Landsvirkjun og þar með íslenska þjóðin sem er hýrudregin.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vernda náttúrunna, náttúrunnar vegna. Það er hreinlega rangt að mínu mati að setja upp ágoða af virkjun á móti illa skilgreindum ágoða af ósnortnu landi, eins og Landsvirkjun er tamt.

Því fleiri ósnortin svæði sem við virkjun, því fágætari og einstakari verða þau svæði sem eftir standa. Auðlindir vatnsfalla Íslands eru takmarkaðar, og því ber okkur að umgangast þær og nýta af ráðdeild.

Ólafur Páll Jónsson heimspekingur hefur rætt muninn á þessum tveimur nálgunum í umræðunni um náttúruvernd og nýtingu, sérstaklega í bókinni Náttúra, vald og verðmæti.

Sjá einnig annan góðan pistil orkubloggarans:

Leyndarmálið um raforkuverð til álvera á Íslandi

Leiðrétting:

Nafni minn á bestu þakkir skyldar fyrir að benda á gallaða setningu: "náttúrunnar vegna ekki vegna." Feitletruðu orðunum var ofaukið og þau hafa verið fjarlægð.


Áskoranir lífsins - RÚV í kvöld

Náttúrufíklar athugið, kvöld lystisemdanna blasir við.

Rúv hefur sýningar á BBC þáttaröðinni Lífið.

David Attenborough kynnir okkur fyrir fjölbreytileika lífsins, og í fyrsta þættinum verða skoðaðar þær áskoranir sem lífverur þurfa að takast á við. Lífsbaráttan er margslungin og oft hatrömm. Engu að síður hríslast um mann unaðshrollur við að sjá hvernig veigalitlir frokar takast á við veröldina eða þegar hnúfubakar stökkva upp úr hafinu með ginið fullt af síld.

Viðfangsefni lífsins

Sýnt: mánudagur 22. mars 2010 kl. 20.10.

Í þættinum er sagt frá þeim furðulegu hlutum sem dýr og plöntur verða að gera til þess að lifa og auka kyn sitt. Við sjáum hettuapa brjóta pálmahnetur með bareflum, flóðhesta stökkva upp úr vatni og kameljón stela bráð úr kóngulóarvef. Við sprettum úr spori með blettatígrum á strútaveiðum, sjáum höfrunga fanga fisk í gildru og syndum með sel á flótta undan háhyrningum í hafísnum við Suðurskautslandið.

bangsaslagur.jpgMynd tók AP. Aðrir pistlar um David Attenborough.

Stórviðburðir í náttúrunni

Attenborough ofsóttur


Frábært sjónarspil

Eldgos eru stórkostleg sjónarspil, svo lengi sem enginn ferst eða missir rollur í gíginn.

Það er svo sérkennilegt, í hvert sinn sem eldgos verður hérlendis þá hríslast um mann þjóðernisstolt, nei sko sjáðu hvað litla landið mitt getur.

Eldgos eru eitt af skemmtilegri fyrirbærum náttúrunar, og ég sem líffræðingur er næstum því afbrýðisamur yfir því hversu mikilfengleg þau eru.

Vandamálið við það að rannsaka jarðfræði er vitanlega það að tilraunir eru frekar erfiðar, allavega á þessum skala. Á meðan líffræðingar geta tekið flugurnar sínar og breytt umhverfi þeirra, fjarlægt frumur eða kveikt á genum á vitlausum stöðum, þá geta jarðfræðingar ekki sett af stað jarðskjálfta eða dælt í kvikuhólf.

Það er samt ákaflega gaman að fylgjast með eldgosinu og heyra í jarðfræðingum okkar útskýra herlegheitin. Það er nákvæmlega ekkert að því að velta upp þeim möguleika að Katla muni gjósa, gögnin sem þeir búa yfir benda til virkni beggja eldstöðva sé tengd, þó ekki sæki þær kviku í sömu hólf.

Jarðfræðingarnir hljóta að vera ólmir í að ná sýni af nýja hrauninu til að vita hvort þetta sé úr kvikuhólfi Eyjafjallajökuls eða Kötlu. Miðað við lætin í Öskju (náttúrufræðihúsi HÍ) virðist vera nóg af sjálfboðaliðum til að fara og sækja eins og eina hraunslettu í skál.


mbl.is Þurfum að fylgjast með Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin kenning Darwins

Charles Darwin er þekktastur fyrir þróunarkenninguna. Hún felur í sér að allar lífverur á jörðinni séu af sama uppruna og myndi eitt risastórt þróunartré. Darwin og samtímamaður hans Alfred Wallace settu einnig fram hugmyndina um náttúrulegt val, sem útskýrir hvernig lífverur aðlagast umhverfi sínu og breytast í tímans rás. Náttúrulegt val byggist á því að í stofni lífvera eru mismunandi einstaklingar, munurinn á milli þeirra er arfgengur að hluta, og þeirri staðreynd að einstaklingar eignast mismörg afkvæmi (eða lifa mislengi). Þar að auki er barátta fyrir lífinu, og saman tryggja þessar forsendur að í stofni lífvera muni, með tíð og tíma, ákveðnar gerðir veljast fram yfir aðrar og stofninn breytast. Hann lagast að umhverfi sínu.

Hin kenning Darwins er tilbrigði við náttúrulegt val, og byggist á togstreitu á milli kynjanna. Þetta kallaði Darwin sexual selection, sem hefur verið þýtt sem kynjað val eða kynval á íslensku.

Grundvöllurinn er sá að hjá mörgun dýrum er mikill munur stærð kynfruma. Kvendýr búa til fáar stórar kynfrumur en karldýr fleiri og minni. Einnig er algengara að kvendýr sinni ungviðinu. Þar af leiðir fjárfesta kvendýr yfirleitt meira í afkvæmum sínum og kenning Darwins spáir því að kvendýrin séu vandfýsnari á maka en karldýrin. Og sú er raunin.

Einnig spáir kenningin því að togstreita sé milli karldýra og kvendýra eftir frjóvgun, karlávaxtaflugur sprauta t.d. eiturefnum í kvensunar sem dregur úr kynáhuga þeirra (svo þær fari nú ekki að sprella með einhverjum örðum köllum - flugur geta geymt sæði í nokkra dag og helst það merkilega ferskt).

Í náttúrunni þekkjast nokkur dæmi þar sem karldýrin fjárfesta meira en kvendýrin, sæhestarnir og hornsíli eru kannski þekktust. Kenning Darwins um kynjað val spáir því að við slíkar kringumstæður, þá kjósi karldýrin maka af meiri kostgæfni, en kvendýrin hegði sér meira eins og "venjuleg" karldýr.

Sæhestar og pípufiskar geta borið nokkur egg í sekk sínum, og alið þannig fyrir nokkrum afkomendum í einu.

800px-Green_pipefish

Það sem Kimberly A. Paczolt & Adam G. Jones sýndu í grein sinni (og ljómandi myndbandi) var að karldýrin eru ekki bara að velja kvendýr, heldur velja þeir einnig að fjárfesta minna í að ala upp egg kvendýra sem þeir telja "minna spennandi". Í þeirra tilfelli eru stærri kvendýr spennandi en rýrir og litlir fiskar ekki (dálítið á skjön við sýn ritstjóra Vogue).

Mynd af wikimedia commons.


mbl.is Karlarnir sjá um meðgönguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband