Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Stórkostlegar framfarir á 60 árum

RÚV sýnir þessa dagana þætti um framfarir í náttúrufræðisjónvarpi og störf David Attenboroughs.

Í síðustu viku var það örk Attenboroughs (Attenborough's Ark)  og í gær 60 ár í náttúrunni (Attenborough - 60 Years in the Wild).

Þátturinn í gær var mjög flottur, og sýndi jafnvel hvernig vísindin virka. Attenborough og félagar höfðu sett fram hugmynd um að ákveðin planta náði í nitur með því að "veiða" skordýr. En mér skjátlaðist sagði Attenborough í þættinum.

Seinni tíma rannsóknir sýndu að líklegra var að plantan lokkaði til sín dýr (með hunangi) og fengi í staðinn spörð með nitri.

Áhugasömum bendi ég einnig á flotta samantekt á störfum Attenboroughs á vef HÍ.

 


Með fróðleik í fararnesti - Kræklingaferð í Hvalfjörð


Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, leiða ferð á slóðir kræklingsins í Hvalfirði. Kræklingi verður safnað og fræðst um hann og verkun hans. Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 10.00. Hægt verður að sameinast þar í bíla. Gert er ráð fyrir að ferðin taki um það bil þrjár klukkustundir að akstrinum í Hvalfjörð meðtöldum. Mælt er með því að þátttakendur taki með sér stígvél og ílát fyrir krækling. Ferðin er farin í samvinnu við Ferðafélag barnanna.

http://www.hi.is/vidburdir/med_frodleik_i_fararnesti_kraeklingaferd_i_hvalfjord_0

 


Dílaskarfurinn er staðfugl og sést í Öskju

Dílaskarfurinn (Phalacrocorax carbo) er afar útbreidd tegund og nær frá Grænlandi og austurströnd N-Ameríku allt til Afríku, Asíu og Ástralíu. Hann er staðfugl hérlendis og heldur sig allt í kringum land að vetrinum en verpur í þéttum byggðum á hólmum og skerjum við Faxaflóa og Breiðafjörð. 
 
dilaskarfur_arnthor
 

Arnþór Garðarsson (prófessor emeritus) og Jón Einar Jónsson (forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi) munu fjalla um dílaskarfinn í föstudagserindi líffræðinnar 26. apríl 2013. Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 132 í Öskju náttúrfræðahúsi HÍ, milli kl. 12:30-13.10.

Mynd af dílaskörfum tekin af Arnþóri - picture copyright Arnthor Gardarsson.

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

 


mbl.is Krían er komin og sást í Hornafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dílaskarfurinn í flutningi Arnþórs og Jóns Einars

Arnþór Garðarsson (prófessor emeritus) og Jón Einar Jónsson (forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi) munu fjalla um dílaskarfinn í föstudagserindi líffræðinnar 26. apríl 2013. Ágrip erindis.

 

Dílaskarfurinn (Phalacrocorax carbo) er afar útbreidd tegund og nær frá Grænlandi og austurströnd N-Ameríku allt til Afríku, Asíu og Ástralíu. Hann er staðfugl hérlendis og heldur sig allt í kringum land að vetrinum en verpur í þéttum byggðum á hólmum og skerjum við Faxaflóa og Breiðafjörð. Þar er mest af grunnsævi landsins og því mest fæðuframboð fyrir skarfana sem kafa yfirleitt ekki neðar en á 20 m dýpi. Fram eftir 20. öld voru dílaskarfabyggðir í sjávarhömrum á nokkrum stöðum utan núverandi útbreiðslusvæðis en þær eru nú horfnar. Þessi breyting á útbreiðslu tengist breytingu á lifnaðarháttum og útbreiðslu manna – dreifð byggð með ströndinni og nytjar úti um eyjar eru að mestu horfin.

 

Dílaskarfurinn á Íslandi hefur nokkra óvenjulega eiginleika sem henta til rannsókna á stofninum: Til dæmis er hægt að telja öll hreiðrin, meta viðkomu og kanna lífskilyrði kringum byggðirnar, meta hlutfall ungfugla í byrjun (september) og lok (febrúar) vetrar og hlutfall geldfugla í febrúar. Þannig fást samhliða lýðfræðilegar upplýsingar bæði fyrir einstakar byggðir og fyrir stofninn í heild.

dílaskarfar

Byrjað var að telja hreiður í dílaskarfsbyggðum með myndatöku úr lofti vorið 1975 og talið öðru hverju fram til 1990. Í fyrstu virtist stofninn standa nokkurn veginn í stað, alls um 3300 hreiður en talsverðar staðbundnar sveiflur t.d. í Faxaflóa. Árið 1994 var byrjað var að telja árlega en þá hafði hreiðrum fækkað og voru nú um 2400 talsins. Eftir það hófst hægfara fjölgun, 3,7% á ári, og varð fjöldinn mestur 5250 hreiður árið 2010. Á síðustu tveimur árum hefur fækkað nokkuð, auk þess sem útbreiðsla hefur aukist – ný byggð hefur myndast við Húnaflóa. Grunnsævið í Faxaflóa og Breiðafirði er að fyllast og fjöldinn þar getur varla vaxið meira. Í fyrstu jókst meðalstærð byggða jafnframt fjölguninni og náði hámarki árið 2001 en hefur stöðugt minnkað eftir það. Núna, vorið 2013, virðist ólíklegt að varpstofninn geti aukist meira nema til komi útbreiðsluaukning.

 

Frá því 1998 hefur verið fylgst með aldursamsetningu dílaskarfsins og nýlega hefur verið þróuð aðferð til að meta varpárangur í hverri byggð. Aldurssamsetning hefur verið nokkurn veginn stöðug en áætluð árleg líftala breytileg milli ára. Varpárangur er einnig mjög stöðugur, um 2,4 ungar á hreiður snemma sumars. Flest bendir til að dreifing og fjöldi varpstofnsins sé háð þéttleika og fari að mestu eftir staðbundnu fæðuframboði, viðkoman takmarki ekki stofninn ennþá, en efri mörk séu ákvörðuð af vetrarskilyrðum.

 

Mynd af dílaskörfum tekin af Arnþóri - picture copyright Arnthor Gardarsson.

 

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 131 í Öskju náttúrfræðahúsi HÍ, milli kl. 12:30-13.10). Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.

Sjá einnig frétt á vef HÍ frá 2012 Dílaskarfurinn í sókn.


Alvarlegar myndasögur á degi bókarinnar

Bækur eru mér ákaflega kærar, og þeim vil ég hampa frekar en flokki og stjórnmálasannfæringu. Í dag, 23. apríl er dagur bókarinnar, og af því tilefni var Stefán Pálsson í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2. Eða kannski var ástæða sú að nú um helgina átti teiknimyndapersónan Svalur (Spirou) 75 ára afmæli.

Það má alveg bölsóttast yfir því hversvegna í ósköpunum Ríkisútvarpinu datt í hug að tala um teiknimyndasögur á degi bókarinnar. Eru ekki teiknimyndasögur niðursoðnar bókmenntir, án boðskaps, skáldleika og andagiftar? Eru þær ekki hluti af steypiregni glepjandi miðla (með vídjóinu, netinu, tölvuleikjum og göngusnældutækjum (walkman)), sem fylla heila okkar af myndefni og tónum, og kæfa hæfileika okkar til að lesa og skilja flóknar frásagnir, tilfinningar og orsakasamhengi?

Reyndar hef ég ekki svar við þessari spurningu, eða vill ekki vita svarið, því teiknimyndasögur eru mér afskaplega kærar. Ég get alveg kvittað undir barnslegan eða allt að því þráhyggjulegan áhuga á sögunum um Sval og Val, sbr. pistil frá 2011 (Svalur á milli góðra bóka). Sval og Val bækurnar hef ég lesið mörgum sinnum og keypt danskar og evrópskar útgáfur þeirra hefta sem aldrei voru gefin út af Iðunni. Á tímabili dreymdi mig söguþráð Sval bóka, sem aldrei hafa komið út, og voru draumfarirnar svo öflugar að í vitandi vöku var ég óviss um hvort þær væru sannar eður ei.

Í stuttu máli, þá er ég pikkfastur á teiknimyndasögukróknum. Hérlendis eru teiknimyndasögur ekki merkilegt listform, og ekki sæmir kennurum við æðstu menntastofnanir að liggja í slíku skólpi. Samt er ég með hillumetra af þessum bókum á skrifstofunni. Stefán segir að í Belgíu sé ástandið annað, þar séu teiknimyndasögur í hávegum hafðar. Spurning er hvort að það sé vegna þess að þær séu svo útbreiddar, vinsælar, skaffi atvinnu og tekjur eða vegna þess að þær segi fólki eitthvað merkilegt um heiminn? Sem fyrr hef ég engin svör.

Mig grunar reyndar að góðar teiknimyndasögur nýti sér bæði hraða framvindu og hasar, sem gera kvikmyndir (og tölvuleiki, vidjó) svo heillandi og Iconografíu, sem markaðsfræðin hefur þróað. Einföld tákn, eins og gormdýrið eða blaðamaðurinn svalur, kalla fram jákvæð viðbrögð í heila lesenda, svona rétt eins og lógóin fyrir Lego, Armani eða Malt. Heilinn okkar er mjög næmur fyrir myndefni, bæði hreyfingu og skýrum táknum. Heilinn bregst sérstaklega sterkt við afmörkuðum formum - jafnvel formum sem kölluð eru "supernormal". Þekkt er að fuglar draga egg sem lenda utanveltu, inn í hreiðrið sitt (þá eru minni líkur á að þeir tapi eggjum og eignist færri afkvæmi). Tilraunir sýna að þegar fugl getur valið á milli eggs og golfkúlu, velur hann frekar golfkúluna. Þannig að náttúrulega tilhneygingin getur verið fuglinum skaðleg, þegar "supernormal" kostur er á borðum. Eða, kannski nákvæmar, getur leitt til þess að  fuglinn vanræki afkvæmi sitt.

Það er einmitt þess vegna, sem ég góði faðirinn, gaf syni mínum teiknimyndasögurnar...

E.s. Þessi pistill er ekki skrifaður sem fræðipistill, eingöngu sem hugleiðing. Í bókaskápnum bíður bunki af ágætum bókum eftir því að ég riti um þær almennilega bókarýni. Þetta eru t.d.

Tilviljun og nauðsyn eftir J. Monod

Denialsim eftir Michael Specter

The age of american unreason eftir Susan Jacoby

Unscientific america eftir Chris Mooney og  Sheril Kirshenbaum

og auðvitað 

Bad Pharma eftir Ben Goldacre


Flugufóstur, stofnfrumur og krabbamein

Í dag og á morgun verða nokkur erindi um sameindalíffræðileg efni.

Fyrst ber að nefna erindi þroskunarfræðingsins Anne Ephrussi - EMBL Heidelberg - um mikilvægi RNPagna fyrir þroskun flugna (RNP assembly and transport in the Drosophila oocyte). Askja stofa 132 kl 16:00 þann 22. apríl. 2013.

Í öðru lagi mun Erna Magnúsdóttir fjalla um þætti sem stýra þroskun og einkennum stofnfruma kímlínu. Erindið heitir A tripartite transcription factor network for PGC specification og verður flutt 23. apríl 2013, í stofu 131 kl 12:30.

Í þriðja lagi mun Mannerfðafræðifélag Íslands og Samtök um krabbameinsrannsóknir á Íslandi standa fyrir málþing 23. apríl 2013 undir yfirskriftinn Erfðir krabbameina á Íslandi - nýting þekkingar í þágu þjóðar

Málþingið verður í stofu 101 í Odda, frá 16:15 til 17:45.


Vá æðislegt, frítt forrit fyrir alla

Staða Íslenskrar erfðagreiningar meðal þjóðarinnar er mjög sérkennileg. Sumt fólk er stolt af fyrirtækinu á meðan aðrir hatast út það og stjórnendurna.

Ástæðurnar eru fyllilega skiljanlegar. Fyrirtækið, í skjóli stjórnvalda, settu fram mjög róttækar hugmyndir um hagnýtingu erfðafræðilegra og lækinsfræðilegra upplýsinga. Gagnagrunnurinn fjallaði ekki bara um heilsufarsupplýsingar, heldur áttu erfðaupplýsingar að vera þar inni - óháð upplýstu samþykki lifandi eða dauðra einstaklinga!

Hitt aðalatriðið er að hlutabréf með fyrirtækið  voru seld á gráum markaði áður en almennt hlutafjárútboð fór í gang. Eins og lýst er í bók Fortun frá 2008 (), þá voru samningarnir um hlutabréfakaupin mjög skuggalegir og fyrirtækinu mjög mikið í hag að blása út eigið ágæti og framtíðarmöguleika. Ríkistjórn Davíðs Oddsonar spilaðu undir í þessari sölusinfoníu, en þegar bréf ÍE komu á almennan markað kom í ljós að verðgildi bréfanna var langtum lægra. Þeir sem keyptu gráu bréfin töpuðu miklu.

Þeir sem héngu á sínum bréfum töpuðu á endanum öllu, þegar móðurfélag ÍE fór á  hausinn árið 2008. Hið forvitnilega er að kaupendur íslenska dótturfélagsins, voru nokkrir af sömu aðillum og höfðu átt þátt í að stofna ÍE upphaflega. Þeir fengu síðan heilmikið fyrir sinn snúð þegar Amgen keypti ÍE á síðasta ári. Almennir hluthafar fengu ekki neitt, nema kannski frítt forrit ef þeir eiga nógu fínann síma.

Ég viðurkenni að mat mitt á ÍE er beggja blandið. Ég skráði mig úr gagnagrunninum við fyrsta tækifæri, en síðan réð ég mig til fyrirtækisins árið 2006. Þar starfaði ég í tæpt ár, og vann að mjög framsæknum og skemmtilegum rannsóknum. En vinnuumhverfið var verulega sérkennilegt, miðað við það sem ég átti að venjast, sérstaklega hinn niðurnegldi pýramídastrúktúr með forstjórann á toppnum. Allar ákvarðanir urðu að fara í gegnum hann, nokkuð sem einkennir frekar költ eða einræðisríki en venjuleg fyrirtæki. Það er einnig augljóst að togstreita verður innan fyrirtækis sem er að græða peninga, en líka að gera traust vísindi. 

Ein jákvæð afleiðing ÍE er að nokkrir lykilmenn batterísins fengu gestaprófessorsstöðu við HÍ, sem hefur dregið HÍ inn á lista yfir bestu háskóla heims (Decode dregur upp Háskóla Íslands). Það er bókhaldbrella sem segir sex.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér sögu fyrirtækisins er bent á nýlega grein eftir Einar Árnason og Boga Andersen í eLS. 

deCODE and Iceland: A Critique

Einar Árnason, University of Iceland, Reykjavik, Iceland
DOI: 10.1002/9780470015902.a0005180.pub2

deCODE Genetics Inc. was a for-profit American corporation built around the idea of cloning and characterising the genes of Icelanders and marketing the information so obtained through a central database containing health information, genetic information and genealogy. deCODE's database plan in Iceland brought into focus business practices of the genomics industry and a number of ethical issues. The company promoted and sold its shares to the public in Iceland through a ‘grey market’ before its initial public offering, leading to large investment losses for common Icelanders with little investment experience. The law permitting the health sector database was found unconstitutional and the company never built the controversial database. Instead it pursued traditional genome-wide association studies attempting to identify genetic changes contributing to common diseases. Through this work, the company created a large database and contributed a large number of scientific papers, but was a commercial failure going bankrupt in 2009. After a stalking-horse sale it rose from the ashes and continued operation as a private company under almost the same name, focusing on whole genome sequencing data to understand common diseases and human variation. At the end of 2012, Amgen announced that it would pay $415 million to acquire deCODE. The sale price was based on a product derived from an Icelandic resource but no compensation was given to the Icelandic people.


mbl.is Sad Engineers Studios með besta appið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snákaolía og sannleikurinn á völtum fótum

Það er auðvelt fyrir okkur að hlæja að fólki sem fyrir 100 árum keypti snákaolíu í þeirri trú að hún myndi lækna meinsemdir.

Staðreynd málsins er að nútildags eru mörg þúsund vörur á markaði, sem eru einfaldlega snákaolíur i nýjum umbúðum. Heilsubúðir og vefsíður eru stappfullar af allskonar pillum, smyrslum, djúsum og fótaböðum sem gegna sama hlutverki. Það er að segja, færa seljandanum hagnað og kaupandanum andlega vellíðan. En það er ákaflega sjaldgæft að þessar meðferðir skili raunverulegum bata. Þær byggja nær allar á lyfleysuáhrifum, sem eru bara byggð á upplifun og væntingum til meðferða eða lækninga. Vísindalega gögn skortir um notagildi meðferðanna, og þegar þær hafa verið prófaðar, falla þær iðullega kylliflatar.

Vegna þessarar ofboðslegu markaðsvæðingar óhefðbundinna meðferða og mixtúra mun samfélag manna breytast. Eins og Carl Sagan ræddi í Demon haunted world, þá er veruleg hætta á því að stór hluti mannkyns muni afneita upplýsingunni, vísindalegum staðreyndum og lækningum. Og þetta mun ekki bara gerast meðal þeirra sem við upplýstir vesturlandabúar álítum "van"þróunarlönd, þetta er að gerast hér og nú.

Því er aldrei mikilvægara að þeir sem vilja viðhalda þekkingu, berjast gegn hindurvitnum og verja heilbrigðiskerfið fyrir atlögum galdralækna og sjálfskipaðra heilsupostula, að taka höndum saman og spyrna gegn flóðbylgjunni.

Nokkrir íslendingar hafa verið ötull á þessum vettvangi undanfarna áratugi. Einn þeirra er Magnús Jóhannesson læknir, sem lét af störfum hjá HÍ nýverið - vonandi með þá von í hjarta að hann geti varið meiri tíma í fræðslu og til að verja heilbrigðiskerfið.

Efnt til málþings til heiðurs Magnúsi núna á fimmtudaginn (18. apríl 2013, 16 - 17:30 í sal 105 á Háskólatorgi). Á málþinginu mun þekktur andstæðingur óhefðbundinna meðferða Edzard Ernst, halda erindi. Ég hvet alla til að fara á þessa málstofu.

Úr tilkynningu:

Nánar um Magnús:

Magnús Jóhannsson, prófessor emerítus við læknadeild HáskólaÍslands hefur verið ötull í almannafræðslu, birti m.a. um áratuga skeið fræðslupistla um lyf og heilsu í Morgunblaðinu. Hann hefur einnig rannsakað náttúrulyf og m.a birt greinar um aukaverkanir tengdar þessum efnum. Magnús mun á málþinginu fjalla um sínar rannsóknir og koma með hugleiðingar um efnið.
trick-or-treatment-cover-vsÁ málþinginu mun einnig halda erindi merkur vísindamaður, Edzard Ernst, læknir og emeritus professor við University of Exeter (http://edzardernst.com/). Hann er einn þekktasti læknir og fræðimaður heims á sviði rannsókna á hómópatíu og ýmsum náttúruefnum sem notuð eru við hjálækningar. Hann er mjög krítískur á þau fræði og hann er einnig mjög áhugaverð persóna. Hann skrifaði bókina “Trick or Treatment” ásamt blaðamanninum Simon Singh (http://www.amazon.com/Trick-Treatment-Undeniable-Alternative-Medicine/dp/0393337782) sem vakti mikla athygli. Hann hefur einnig vakið athygli í bresku pressunni vegna harðvítugrar deilu við bresku konungsfjölskylduna, sérstaklega Karl bretarpins sem hefur markaðsett í sínu nafni ýmis konar lækningajurtir. Sjá umfjöllun um þessa deilu hér: http://www.guardian.co.uk/lifeandstyle/2011/jul/30/edzard-ernst-homeopathy-complementary-medicine


Glær heili

Ný grein í Nature kynnir leið til að gera vefi gegnsæa.

Nú er hægt að skoða staðsetningu ákveðinna tauga, eða frumugerða í þvívídd, án þess að þurfa að sneiða niður vefi.

Þessu er lýst í umfjöllun The Guardian (CLARITY gives a clear view of the brain) og New York Times (Brains as Clear as Jell-O for Scientists to Explore).

Þið verðið að kíkja á myndbandið frá Nature (See-through brains clarify connections).

Önnur merkileg tíðindi eru þau að tónlist sem okkur geðjast að, vekur viðbrögð á "sömu" heilastöðvum og kynlíf (Brain's music pleasure zone identified The guardian). Vellíðan sem góður Triffids-slagari (A Trick of the Light ) vekur mér er semsagt raunveruleg ekki bara leikur ljósa.

Sophie Scott sem ræddi rannsóknina við blaðamann The Guardian varaði samt við oftúlkun (á borð við þá sem ég leyfði mér að ofan). Vitnað var í Scott í greininni:

"It is clearly the case that you get rewards for the music you like [but] I don't think we listen to music in any one way, we listen to music in the same way we read books or read poetry or engage with other sorts of art,"

Reward was only a snapshot of one particular brain system and its involvement in music, Scott said. "But don't think it's telling you everything about the totality of how your brain engages with music."

Chung, K., et al. (2013). Structural and molecular interrogation of intact biological systems. Nature, doi: 10.1038/nature12107


Tækni - lyf - heilbrigði - mýrin

Það verður að viðurkennast að þessi tíðindi vekja blendnar tilfinningar.

Tækni

Ég gleðst við að heyra að hugað sé að uppbyggingu á tæknilega framsæknu fyrirtæki. Líftæknin býr yfir miklum möguleikum, þó að sannarlega sé langt í land með að hún leysi öll heimsins vandamál. Líftæknin er öðruvísi en tölvutæknin, ferill afurða er lengri og oft mikil óvissa um hvort að afurðin virki yfir höfuð.

Lyf?

Málið er nefnilega það að þróun nýrra lyfja og meðferða er ekki auðveld. Margir halda að það sé nóg að vera með hreint hráefni, eða snjalla hugmynd, og þá sé hægt að lækna sjúkdóma. Fjölmörg fyrirtæki ganga út frá þessari hugmynd, en hún hangir á þeirri staðreynd að varan virki. Nærtækt dæmi eru afurðir SagaPro, sem haldið er fram að geti hindrað vöxt krabbameina, sbr. pistil Sigmundar Guðbjarnason (Umhverfið og krabbamein Þriðjudagur 19.03.2013):

Rannsóknirnar voru gerðar á músum og sýndu niðurstöðurnar mismun á vexti (stærð) krabbameinsæxla í músum eftir því hvort þau fengu hvannalaufaseyði eða ekki fyrir sýkingu með krabbameinsfrumum. Tveir hópar músa voru sprautaðir með brjósta-krabbameinsfrumum. Annar hópurinn, viðmiðunarhópur, fékk venjulegt fóður og mynduðust æxli í öllum músunum. Hinn hópurinn fékk hvannalaufaseyði bætt í fóðrið tveim vikum áður en mýsnar  voru sprautaðar með krabbameinsfrumum. Flest dýranna fengu engin eða mjög lítil æxli. Hvannalaufaseyðið hefur því efni sem geta hindrað vöxt á krabbameinsæxlum í músum. Hvannalaufaseyðið er notað í framleiðslu á SagaPro sem hefur verið notað af nokkrum einstaklingum sem eru með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hefur þeim tekist að stöðva vöxt æxlisins með notkun á SagaPro en hvannalaufaseyðið eyðir ekki meininu, þ.e. læknar ekki krabbameinið. Frekari rannsóknir og þróunarvinna munu skila nýjum og virkari afurðum úr gjöfulli flóru Íslands.

Það er sannarlega lofsvert að farið hafi verið út í rannsókn á æxlum í lifandi dýrum, en ekki bara að skoða áhrif efna á frumur í rækt (Vitað er að efni sem hægja á vexti fruma í rækt eru ekki öll heppileg lyf - eða lyfjakandidatar - vegna annara auka áhrifa eða óskilgreindra lífeðlisfræðilegra þátta).
En svipaðir varnaglar gilda einnig um tilraunir á dýrum - t.d. þeim sem eru sprautuð með krabbameinsfrumum. Aðal málið er hversu yfirfæranlegar niðurstöður eru frá slíku líkani - á menn. Það er misjafnt hversu vel slíkar niðurstöður nýtast við meðferð - eftir lyfjaþróun, og alla þrjá fasa lyfjaprófa.
Ég saknaði þess sérstaklega að sjá ekki varnagla og varnaðarorð af þessu tagi í pistli Sigmundar. Þegar ég sendi Sigmundi línu, lagði han áherslu á þvagfærarannsóknina og sagið að " [s]íðar meir er áformað að gera klíníska rannsókn á krabbameinsvirkri afurð sem mun innihalda m.a. hvannlaufaseyði en slík rannsókn kostar >30 mil. króna." Það er gott að fræða fólk um nýja þekkingu, en einnig þykir mér mikilvægt að vekja ekki falskar vonir hjá fólki. Og auðvitað ekki að selja þeim óreynd efni, undir gráu flaggi.

Heilbrigði

En jafnvel lyf sem markaðsett eru af stórum fyrirtækjum eru ekki endilega fullkomin. Mörg lyf hafa aukaverkanir, og því miður hafa mörg lyfjafyrirtæki verið staði að því að halda leyndum upplýsingum um aukaverkanir. Alvarlegra er að fyrirtæki hafa einnig verið uppvís af því að blása út jákvæð áhrif nýrra "lyfja". Almannatenglsadeildir stórra lyfjafyrirtækja hafa oft haldið á lofti blekkingum um ágæti nýrra afurða, sem hafa síðan reynst gagnslaus eða amk. engu betri en eldri og ódýrari lyf. Þetta er stórt og mikið svið, sem ég mun reyna að gera skil í skipulagðari skrifum fljótlega. 

Miðað við frétt MBL.is hyggst Alvogen nýta sér einkaleyfaumhverfið hérlendis, til að hefja framleiðslu á líftæknilyfjum sem fara bráðum að detta úr einkaleyfum. Ég vill sannfæra sjálfan mig um að þeir velji líftæknilyf, sem vitað er að virki vel og séu með vægar eða þolanlegar aukaverkanir. Ég vona amk að þeir fari ekki bara að framleiða líftæknilyf sem virka illa, bara gróðans vegna...

Mýrin

Þótt ég sé ákaflega fylgjandi því að Tæknigarðar rísi, þá verð ég að segja að það verður eftirsjá af mýrarslitrunum milli Öskju og Íslenskrar erfðagreiningar.


mbl.is Skoða uppbyggingu hátækniseturs hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband