Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Kvikasilfur og sjávarsíðan

Nýlega birtist grein eftir Ester Rut Unnsteinsdóttur doktorsnema og Páll Hersteinsson (1951-2011) sem var prófessors í dýrafræði við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ,  og samstarfsmenn þeirra - sem lýsir rannsókn á kvikasilfursmengun í ref. Hér er hluti af fréttatilkynningu af vef Melrakkaseturs (sem Ester stýrir) endurbirt:

Þú ert það (og þar) sem þú étur - kvikasilfursmengun ógnar melrökkum við sjávarsíðuna

Niðurstöður spánýrrar rannsóknar sýna að melrakkar sem lifa og éta við sjávarsíðuna innbyrða hættulegt magn kvikasilfurs á lífsskeiði sínu. Vísindamenn frá Leibniz í Þýskalandi, Háskólanum í Moskvu í Rússlandi og Háskóla Íslands/Melrakkasetri eru höfundar greinar sem birt var í gær í vísindaritinu science online journal PLOS ONE, sjá: http://www.plosone.org/article/info%3Adoi%2F10.1371%2Fjournal.pone.0060879

Gerður var samanburður á þremur stofnum melrakka frá ólíkum búsvæðum. Kvikasilfur er eitt þeirra efna sem safnast upp í fæðukeðjunni og vísindamennirnir athuguðu því uppruna fæðunnar sem refirnir voru að éta. Refirnir á hinni rússnesku Commander eyju við Mednyi eyjaklasann lifa nær eingöngu á sjófuglum og selshræjum. Á Íslandi lifa refir við sjávarsíðuna að mestu á sjófugli og öðrum hafrænum fæðutegundum. Innanlands lifa refir að mestu á nagdýrum og fugli af landrænum uppruna. Mismunandi magn kvikasilfurs fannst í sýnum af þessum þremur búsvæðum. Mikið magn kvikasilfurs mældist í refum sem lifa á hafrænni fæðu, bæði á Íslandi og Mednyi.

Frekari umfjöllun á vef Melrakkaseturs.

Pistlar sem tengjast refum og músum (Melrakkasetur, Myndarlegir melrakkar, Ester Rut og hagamýsnar, Konungsríki refa og vellandi spóar).

 


Rannsóknir á steinbít á Látragrunni

Ásgeir Gunnarsson sérfræðingur á Hafrannsóknarstofnun mun fjalla um rannsóknir á steinbítnum (Anarhichas lupus) föstudaginn 10. maí (kl.12:30 í stofu 131). Erindið kallast Rannsóknir á steinbít á Látragrunni

steinbiturhafro_0.jpgÁgrip erindis:

Steinbítur hrygnir á haustin og klekkjast eggin út að vori. Aðalhrygningarsvæði steinbíts er á Látragrunni, árið 1999 byrjuð togskip að veiða steinbít í auknum mæli á Látragrunni á hrygningar- og klaktíma steinbíts. Frá árinu 2002 hefur verið friðað svæði á Látragrunni vegna hrygningar steinbíts. Rannsóknir sýna að steinbítur byrjar að hrygna á Látragrunni í seinnihluta septembers. Árið 2012 var farinn sérstakur rannsóknaleiðangur til að kanna hrygningu steinbíts á Látragrunni. Tilgangur hans var að athuga þéttleika hrygningarsteinbíts, athuga hvort hægt væri að meta þéttleika hrognaklasa með neðansjávar myndavél og sæbjúgsplóg og að merkja steinbít með rafeinda- og slöngumerkjum. Niðurstöður voru að ekki var hægt að meta þéttleika hrognaklasa steinbíts með neðansjávarmyndavélinni né sæbjúgsplógnum, myndir af svæðinu sýndu að steinbítur var oft í gjótum. Merktir voru 191 steinbítur með rafeindamerki, endurheimst hafa 20 steinbítar og sýna niðurstöður að far steinbíts virðist vera breytilegt milli friðaða svæðisins á Látragrunni og nærliggjandi svæða.

 Mynd af steinbíti - úr safni Hafrannsóknastofnunar Picture copyright HAFRO.

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 132 í Öskju, náttúrfræðahúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.


Lifandi steingervingur með DNA

Sagan af Bláfisknum er ævintýri í hæsta gæðaflokki. Hann lifði af ótrúlega atburði. Hann var vitni að endalokum risaeðlanna. Vísindamenn héldu að hann hafi dáið út fyrir rúmum 65 milljónum ára.

En síðan birtist hann í fiskikörfu árið 1938, ekki alveg sprellifandi - en að minnsta kosti ekki löngu dauður. Þeir sem hafa áhuga a sögu bláfisksins er bent á skrif Örnólfs Thorlacius í Náttúrufræðingnum, og vísindavefspistil Jóns M. Halldórssonar (tenglar neðst).

Nú hefur erfðamengi Bláfisksins verið raðgreint, og í ljós kemur að hann er í raun skyldari spendýrum en öðrum fiskum. Þ.e. að lungnafiskum aðskildum, sem eru okkur aðeins náskyldari en bláfiskurinn.

Þróunarfræðilegar greiningar sýna líka að viss svæði í erfðamengi hans hafa varðveist vel milli bláfiska og spendýra. T.d. eru vel varðveitt svæði við Hox genin sem  duga til að kveikja á þeim í frumum sem byggja útlimi (ugga, vængi eða leggi). Rannsóknin sýnir einnig að viss Hox gen hafa einnig verið endurnýtt, t.d. við að búa til legköku spendýra eða utanfóstursvefi hænsnfugla.

Bláfiskurinn segir því sögu bæði þróunarlegra varðveislu og afhjúpar hvernig gen hafa verið endurnýtt við tilurð nýrra eiginleika og aðlaganna lífvera.

Eftirskrift: Steinbíturinn er ekki alveg jafn gamall og bláfiskurinn (þróunarfræðilega amk.) en hann er sannarlega forvitnileg tegund. Ásgeir Gunnarson mun fjalla um Steinbít á Látragrunni föstudaginn 10. maí 2013.

Ítarefni

Vísindavefurinn: Hvers konar fiskar eru bláfiskar?

Chris T. Amemiya og fl. The African coelacanth genome provides insights into tetrapod evolution Nature 2013. 

Ridley - Evolution: living fossils.

Örnólfur Thorlacius: Sagan af bláfiskinum - Náttúrufræðingurinn 1995, í gegnum tímarit.is.

Lifandi steingervingar


Edzard Ernst berst við Kalla prins

Edzard Ernst er læknir sem hefur rannsakað óhefðbundnar meðferðir, og skrifað bókina Trick or Treatment ásamt blaðamanninum Simon Singh. 

Ernst hélt erindi á málþingi til heiðurs Magnúsi fimmtudaginn 18. apríl 2013. Kastljós tók viðtal við hann að því tilefni, og var það flutt eftir kosningaösina (Virka óhefðbundnar lækningar?).

Þar lýsir hann meðal annars átökum sínum við bresku konungsfjölskylduna, sem er hlynnt óhefðbundnum meðferðum og hindurvitnum af ýmsu tagi. Sérstaklega Karl bretaprins, sem styður markaðsetningu smáskammtasulls sem lyfja.

Tenglar og annað skylt efni.

 

edzardernst.com

www.amazon.com/Trick-Treatment-Undeniable-Alternative-Medicine/dp/0393337782

Snákaolía og sannleikurinn á völtum fótum

The Guardian Ian Sample 2011 Prince Charles branded a 'snake oil salesman' by scientist


Nám og kennsla í náttúrufræðigreinum á 21. öldinni

Rannsóknarstofa um náttúrufræðimenntun efnir til málþings um nám og kennslu í náttúrufræðigreinum á 21. öldinni, miðvikudaginn 5. júní 2013 kl. 9:30 - 16:30.
Málþingið verður haldið í aðalbyggingu Menntavísindasviðs við Stakkahlíð og er ætlað kennurum á öllum skólastigum. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá, fyrirlestra, kynningar og smiðjur. Aðalfyrirlesari málþingsins verður Michael Reiss prófessor við University of London.
Málþingið er ætlað kennurum, stjórnendum hvers konar og öðru áhugafólki um náttúrufræðinám.

Undirbúningsnefnd málþingsins leitar að áhugaverðum fyrirlesurum, kynningum og/eða smiðjustjórnendum. Gera má daginn feiki skemmtilegan fyrir náttúrufræðikennara um umhverfi, náttúru, sjálfbærni, vísindi og fl.
Náttúrufræðikennarar hér á landi búa yfir mikilli reynslu og eru að kenna á fjölbreyttan hátt á þessu sviði sem áhugavert verður fyrir aðra kennara að nema af.
Undirbúningsnefndin vill gera þennan dag ókeypis og ánægjulegan fyrir alla kennara á öllum skólastigum og þess vegna verður ekki greitt fyrir erindi í peningum heldur vonum við að áhugasamir vilji deila reynslu og þekkingu sinni í skiptum fyrir fræðslu frá öðrum þennan sama dag.

DNA dagurinn 25. apríl

Fyrir rúmum 60 árum var bygging erfðaefnisins ráðgáta. Tilraunir höfðu sýnt fram á að ríbósakjarnsýra var erfðaefnið, en ekki prótínin sem lengstum höfðu verið í kastljósi vísindamanna. Kjarnsýra þessi var undarleg að því leyti að hún var saman sett úr 4 mismunandi grunneiningum, svokölluðum bösum. Vísindamönnum fannst ómögulegt að efni búið til úr svo fáum grunneiningum gæti mögulega skráð fyrir hinum fjölbreytilegu og stórkostlegu eiginleikum lífvera.

Hvernig gátu blóm rósanna, vængur leðurblökunar eða atferli kattarins verið mótað af svo einföldu efni?

Um 1950 var spurningin um byggingu erfðaefnisins ein mesta ráðgáta vísindanna. Margir virtir lífefnafræðingar og örverufræðingar tókust á við hana, en það var ekki fyrr en Francis Crick og James Watson tóku upp samstarf að lausnin fannst.

Lausnin er sú að DNA er byggt úr tveimur strengjum sem tvinnast saman í gorm. Í hvorum streng er röð basanna fjögurra, og þar í geymast upplýsingarnar. Seinna kom í ljós að þrír basar saman mynda tákn sem skrá fyrir röð amínósýra í prótínum. Þannig getur 4 stafa róf, myndað þúsundir ólíkra prótína!

Karl Blöndal fjallar um þessi tímamót í ljómandi góðum pistli, sem byggir að einhverju leyti á grein Adams Rutherford í the Guardian. Tímamót þessi eru oftast miðuð við 25. apríl1953, vegna þess að þá kom grein Watson og Crick út í Nature. Greinin byrjaði á þessum fleygu orðum

We wish to suggest a structure for the salt of deoxyribonucleic acid (D.N.A.). This structure has novel features which are of considerable biological interest.

Það gleymist oft að í sama hefti Nature voru greinar eftir Maurice Wilkins og Rosalind Franklin, sem höfðu verið að rannsaka kristalsbyggingu DNA. Sannarlega hjálpuðu gögn Rósalindu þeim félögum, en það er einnig vitað að Linus Pauling hafði sett fram hugmynd um þriggja þátta DNA. Líklegast er að Watson og Crick hafi bara landað lausninni, en að í raun hafi svarið legið í loftinu!

Eins og Karl ræðir í grein sinni, er oft talað um að Rosalind hafi verið snuðuð um heiðurinn og því haldið fram að hún hefði ekki fengið Nóbelinn hefði hún lifað. Hluti af ástæðunni er e.t.v. sú háðuglega umfjöllum sem Rósalinda fékk í bók Watson "The double helix". Þar afhjúpar Watson sýnar vanþroskaðari hliðar, kvennfyrirlitningu, snobb og strákshátt. Hins vegar miðlar bókin líka spennu rannsóknanna merkilega vel, óvissunni, tilraununum og fiðringnum í maganum þegar maður stendur frammi fyrir glænýrri þekkingu.

25. apríl hefur verið skilgreindur DNA dagurinn. Mörg fag og félagasamtök staðið fyrir viðburðum og keppnum um erfðafræði til að minnast þessara tímamóta og fá fók og nemendur til að hugsa um stöðu erfðafræði í nútímasamfélagi. Nýlega má minnast þess að Evrópska erfðafræðifélagið efndi til ritgerðasamkeppni um DNA og raðgreiningu erfðamengis mannsins. Verðlaunin voru veitt 25. apríl. Íslenska mannerfðafræðifélagið heldur utan um keppnina frá hendi Íslands, þótt ég viti ekki hversu margir pistlar fóru héðan til keppni.

Ítarefni

Nature DNA at 50. (tenglar á greinar Watson og Crick, Wilkins og félaga og Franklin og Gosling)

Adam Rutherford  DNA double helix: discovery that led to 60 years of biological revolution the Guardian 25. apríl 2013.

DNA dagurinn á vef Evrópsku erfðafræðisamtakanna www.dnaday.eu

Mannerfðafræðifélag íslands


mbl.is Skilningi á lífinu breytt til frambúðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband