Leita í fréttum mbl.is

Leyndardómar loftæðanna

Mánudaginn 5. janúar ver Sara Sigurbjörnsdóttir doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Flókin frumuform: sameindir og kerfi semmóta þroskun endafruma í loftæðakerfi Drosophila melanogaster (Complex cell shape: Molecular mechanisms of tracheal terminal cell development in Drosophila melanogaster).

Ágrip
Loftæðakerfi ávaxtaflugunnar kemur í stað lungna en það er net pípna sem bera súrefni til vefjanna. Á endum loftæðanetsins eru holar endafrumur sem eru í beinni snertingu við aðrar frumur sem þarfnast súrefnis. Endafrumur eru mjög greinóttar og í hverri grein er pípa eða loftæð sem er umlukin skautaðri frumuhimnu. Á lirfustiginu er vöxtur endafrumnanna ör og er þá aukin þörf á prótein- og himnuflutningi til bæði ytri frumuhimnunnar og innri pípuhimnunnar. Uppgötvuð hafa verið tvö prótein, Rab8 og Tango1, sem eru nauðsynleg fyrir myndun greinóttrar frumugerðar endafrumunnar. Rab8 er GTPasi sem talinn er flytja frumuhimnu og seytiprótein frá Golgi-kerfinu til beggja skauta frumuhimnunnar. Rab8 er nauðsynlegt fyrir myndun greina og mótun loftæðarinnar í endafrumum. Gögn rannsóknarinnar benda til að Rab8 gegni mikilvægu hlutverki í himnuflutningi til ytri frumuhimnunnar. Tango1 er himnuprótein sem hleður stórum kollagen-sameindum í seytibólur sem eru á leið frá frymisneti til Golgi-kerfis. Til þessa hefur Tango1 einungis verið tengt við flutning á kollageni. Sýnt er fram á að Tango1 leiki áður óþekkt hlutverk í flutningi margvíslegra himnu- og seytipróteina frá frymisneti til Golgi-kerfis próteina í endafrumum og fitufrumum ávaxtaflugunnnar. Við uppgötvun gena er tengjast þroskun loftæðanna er nauðsynlegt að framkvæma nákvæman samanburð á erfðabreyttum frumum og villigerð. Því hefur verið hönnuð aðferðarlýsing sem byggist á því að mæla ýmsa þætti er viðkoma lögun frumunnar. Fjöldi þekktra gena sem taka þátt í þroskun loftæðanna eiga sér mörg hver hliðstæðu í spendýrum. Því geta rannsóknir sem þessar mögulega veitt innsýn í virkni sambærilegra ferla í spendýrum og orsakir hinna ýmsu sjúkdóma.

loftaedar_em_sarasigurbjornsdottir.jpgAndmælendur eru dr. Stefan Ernst Luschnig, vísindamaður við Institute of Molecular Life Sciences, University of Zürich, Sviss, og dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var dr. María Leptin, forstöðumaður við European Molecular Biology Laboratory (EMBL) í Heidelberg, Þýskalandi. Í doktorsnefnd sátu dr. Arnar Pálsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, dr. Marko Kaksonen og dr. Stefano De Renzis, báðir vísindamenn við European Molecular Biology Laboratory í Heidelberg.

Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, stjórnar athöfninni.


Penninn er máttugri en lyklaborðið

Það er betra að læra með því að glósa en að hlusta. En þar sem tölvur hafa að miklu leyti komið í staðinn fyrir stílabækur, má spyrja hvort sé betra að læra með því að handskrifa glósur eða slá inn í tölvu?

Nýleg grein tveggja sérfræðinga við Bandaríska háskóla, Pam A. Mueller og Daniel M. Oppenheimer, lýsir þremur tilraunum sem tókust á við þessa spurningu.

Niðurstöðurnar eru skýrar.

Þeir sem handskrifa glósur ná betra valdi á staðreyndum og hugmyndum en þeir sem vélrita glósur.

Áhrifin hanskriftar á hugmyndir eru sterkari en á staðreyndir. Það er mikilvægt vegna þess að hugmyndirnar skipta oft meira máli en undirliggjandi staðreyndir. Í mínu fagi má t.d. segja að það skiptir ekki öllu máli hvað genin heita sem hafa áhrif á þroskun hjartans, en hvernig þroskunargen stýra mörkun, vexti og sérhæfingu hjartavefsins skiptir meira máli.

Athyglisvert er að þeir sem vélrita skrifa fleiri orð og vitna oft beint í fyrirlesarann. En á móti virðast þeir ekki ná að innbyrða, melta og endursegja grundvallaratriðin.

Munurinn á handskrift og vélritun var enn til staðar, jafnvel þótt að brýnt væri fyrir þeim sem vélrituðu að taka ekki nótur orðrétt, og reyna að greina grundvallaratriðin.

Sem stílabókafíkill þykja mér þessar niðurstöður ansi forvitnilegar. Glósutækni er mikilvægur eiginleiki, og það er möguleiki að nútímakennsla, með slæðum á netinu fyrir tímann og opnum tölvum hamli námi nemenda.

Ítarefni:

Pam A. Mueller Daniel M. Oppenheimer The Pen Is Mightier Than the Keyboard: Advantages of Longhand Over Laptop Note Taking Psychological Science June 2014 vol. 25 no. 6 1159-1168


Plat"vísinda"rit og svindl á alnetinu

Á alnetinu má finna margt misjafnt. Þar er ótrúleg gylliboð um frægð, fé og lengri útlimi. Þar eru einnig beitur fyrir vísindafólk, eða fólk sem heldur að það séu að stunda vísindi. Vísindaleg samfélög og útgefendur birta tímarit sín á netinu, sum gegn...

Varpar ljósi á uppruna og fjölbreytileika hesta

Hákons Jónsson er doktorsnemi við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur verið að rannsaka erfðafræðilegan skyldleika og þróun hesta, asna og zebrahesta, og m.a. erfðaefni úr tegund Equus quagga quagga sem var útrýmt snemma á síðustu öld. Nýlega birtist...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband