Leita í fréttum mbl.is

Nafnlaus börn kortleggja sögu Ameríku

Mannfræðingar og erfðafræðingar hafa lokið upp leyndarmálum um sögu mannkyns. Með því að greina leifar fólks í jarðlögum, meta aldur beina, mannvistarleifa og jarðlaga, er hægt að kortleggja útbreiðslu forfeðra okkar um álfurnar og eyjarnar.

Með sameindaerfðafræði er hægt að raðgreina erfðaefni úr beinum, ef þau eru nægilega ung og ekki skemmd. Þannig var hægt að raðgreina erfðamengi Neanderdalsmanna og Clovis drengsins, sem við fjölluðum um í febrúar. Úr þeim pistli:

---------------------

Nafnlaus drengur kortleggur sögu Ameríku

[Nýlega] bárust fréttir af niðurstöðum stórrar rannsóknar Eske Willerslev við Kaupmannahafnarháskóla og samstarfsmanna hans, sem varpa ljósi á sögu Ameríkubúa.

Forsagan er sú að fyrir rúmum 50 árum fannst bein á Anzick landareigninni í Montana. Beinið fannst á sama stað og sérlega vandaðir steinoddar, sem kenndir eru við Clovis-menninguna. Clovis menningin er forvitnileg fyrir sögu Ameríku, því þar fundust fyrst háþróaðir spjótsoddar, sem hægt var að festa á kastspjót. Gripirnir eru um 13.000 ára gamlir, og finnast vítt og breitt um N. Ameríku. Í eldri jarðlögum finnast engar menjar um menn eða verkfæri. Því er talið að Clovis menn hafi verið fyrstu landnemarnir í Ameríku. Einnig hefur því verið haldið fram að Clovis fólkið hafi veitt og útrýmt mörgum stórum landdýrum sem fyrir voru í Ameríku (t.d. stórum letidýrum, amerískum hestum og sverðtígrinum).

Ýmsar hugmyndir voru um uppruna Clovis fólksins, t.d. að það hefði komið frá Síberíu yfir Beringseiðið, eða jafnvel frá Eyjaálfu eða Evrópu.

Raðgreining á DNA í Anzick beininu sýnir hins vegar að drengurinn er náskyldur núverandi íbúum Ameríku. Sérstaklega er mikill skyldleiki við ættbálka í S. Ameríku en einnig við frumbyggja N. Ameríku og austurhluta Síberíu. Gögnin duga ekki til að skera úr um hvort að Ameríka var byggð af einni holskeflu, eða hvort fleiri bylgjur fólks hafi numið þar land.

---------------------

Erfðafræði til að greina sögu og staðfesta fordóma

Vísindablaðamaðurinn Nicholas Wade við New York Times gaf nýlega út bókina A Troublesome Inheritance (Vandræðalegur arfur?). Þar fjallar hann um framfarir í erfðafræði og rannsóknum á sögu mannsins. Hann segir að nú séum við tilbúin að greina erfðaþættina sem útskýri greind og félagslega færni. Og hann er nokkuð viss um að greind og félagslegir eiginleikar séu mismunandi á milli kynþátta. Reyndar hefur hann engin gögn til að styðja mál sitt, en samkvæmt ritdómi þá leggur hann upp í skáldaleiðangur mikinn til að undirbyggja hugmyndir sínar. Hann segir t.d.

slight evolutionary differences in social behavior” underlie social and cultural differences. A small but consistent divergence in a racial group’s tendency to trust outsiders — and therefore to accept central rather than tribal authority — could explain “much of the difference between tribal and modern societies

Síðan heldur hann því fram að landafundirnir og nýlenduveldin hafi verið bein afleiðing þess að við vesturlandabúar værum þróunarlega greindari en hinir. Þetta eru fordómar og kynþáttahatur í nýjum fötum.

Stofnerfðafræðingar hafa hakkað röksemdir hans í sig og Arthur Allen, sem ritaði dóm fyrir NY Times var alls ekki hrifinn:

When it comes to his leitmotif — the need for scientists to drop “politically correct” attitudes toward race — Mr. Wade displays surprisingly sanguine assumptions about the ability of science to generate facts free from the cultural mesh of its times. He argues that because the word “racism” did not appear in the Oxford English Dictionary until 1910, racism is a “modern concept, and that pre-eugenics studies of race were “reasonably scientific.” This would surely surprise any historian of European colonies in Africa or the Americas.

Hann lýkur ritdóminum með:

The philosopher Ludwik Fleck once wrote, “ ‘To see’ means to recreate, at a suitable moment, a picture created by the mental collective to which one belongs.” While there is much of interest in Mr. Wade’s book, readers will probably see what they are predisposed to see: a confirmation of prejudices, or a rather unconvincing attempt to promote the science of racial difference.

Þannig að með aukinni þekkingu koma líka tækifæri fyrir fólk að fóðra sína fordóma. Því er mikilvægt að muna söguna og hvernig foringjar, stjórnmálamenn og hagsmunahópar hafa teygt og togað staðreyndir (trúar)sannfæringu sinni til réttlætingar.

Ítarefni.

Arnar Pálsson 14.2.2014 Kóngar og nafnlausir drengir

Arthur Allen 15. maí 2014 NY Times. Charging Into the Minefield of Genes and Racial Difference: Nicholas Wade’s ‘A Troublesome Inheritance’

Arnar Pálsson | 25. maí 2011 Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Arnar Pálsson | 15. mars 2012  Ný-útdauðir frummenn

Leiðréttingar: Síðdegis 16. maí var nafn Arthur Allens leiðrétt og tengli bætt við.


mbl.is Stúlkan sem ljóstrar upp leyndarmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins?

Tvíburar eru af tveimur megingerðum, eineggja eða tvíeggja. Tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðahring og bæði leiða af sér fósturvísa. Eineggja tvíburar koma úr einu frjóvguðu eggi sem myndar tvo fósturvísa. Þannig eru eineggja tvíburar alltaf af sama kyni meðan tvíeggja tvíburar geta verið af sama kyni eða sitthvoru. Samkvæmt lögmálum erfða deila tvíeggja tvíburar jafn mörgum genum og venjuleg systkin, um 50%. En eineggja tvíburar eru frábrugðnir því báðir fá sama erfðamengi frá hinu frjóvgaða eggi; þeir eru því erfðafræðilega eins (100% genanna eru þau sömu). Guðmundur Eggertsson svaraði spurningunni Eru eineggja tvíburar með nákvæmlega eins erfðaefni? árið 2000 á þessa leið:

Eineggja tvíburar eru komnir af einni og sömu okfrumunni og hafa nákvæmlega eins erfðaefni ef undan eru skildar stökkbreytingar sem kunna að hafa orðið í líkamsfrumum þeirra. Þeir eru samt aldrei alveg eins, sem sýnir og sannar að genin ein ráða ekki öllu um þroskun einstaklingsins.

Eineggja tvíburar koma úr einu frjóvguðu eggi sem myndar tvo fósturvísa á meðan tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðahring og bæði leiða af sér fósturvísa.

Guðmundur vísar hér til mikilvægis umhverfis og tilviljunar. Eiginleikar lífvera eiga sér rætur í erfðum, umhverfi og tilviljunarkenndum atburðum. Hlutfallslegt mikilvægi þessara þátta er mismikið, eftir eiginleikum. Flestir átta sig á áhrifum erfða og umhverfis en mikilvægi tilviljana er oftast vanmetið. Tilviljanirnar koma hins vegar skýrt í ljós við þroskun einstaklinga. Hægri og vinstri hlið líkamans hafa sömu arfgerð, fá sömu næringu en eru samt ekki nákvæmlega eins; þannig getur erfðasamsetning hægra nýra og vinstra nýra sama einstaklings verið ólík. Staða og stærð fæðingarbletta er til dæmis háð tilviljun í þroskun og einnig er oft ósamhverfa í andlitsfalli eða lögun handa. Bókhaldsgreiningar sýna að tilviljun útskýrir ef til vill sjaldan meira en 1-5% í breytileika í eiginleikum. Slíkar greiningar sýna líka að arfgengi, það er áhrif genanna, mismunandi eiginleika er mismikið. Þær sýna að eiginleikar eineggja tvíbura eru oft mjög áþekkir en aldrei nákvæmlega eins vegna til dæmis tilviljana eða mismunandi umhverfis, það er annar tvíburanna borðaði hugsanlega hafragraut en hinn slátur. Lögun andlits er með frekar hátt arfgengi, þá eru áhrif umhverfis og tilviljana lítil. En staðsetning fæðingarbletta er með mjög lágt arfgengi vegna þess að þar ræður tilviljun mestu. Því er mjög ólíklegt að eineggjatvíburar séu með fæðingarbletti á sama stað. Vitað er að eineggja tvíburar eru ekki nákvæmlega eins í útliti og dæmi eru um að annar tvíburinn fær sjúkdóm sem hinn sleppur við. Oftast er umhverfi eða tilviljun kennt um. En eins og Guðmundur víkur að er málið ekki svo einfalt. Lífverur eru samansettar úr tvennskonar frumum, kímlínufrumum og líkamsfrumum (einnig kallaðar sómatískar frumur). Kímlínan eru frumur sem koma til með að mynda kynfrumurnar og þær fara í gegnum tiltölulega fáar skiptingar. Líkamsfrumurnar skipta sér hins vegar margfalt oftar og mynda alla aðra vefi líkamans, til dæmis húð, lungu og taugar.

Sumir eiginleikar mannfólks eru með sterkt arfgengi og verða það svipaðir milli eineggja tvíbura að þeir virka sem spegilmyndir hvor af öðrum. Aðrir eiginleikar, eins og fæðingarblettir, eru meira tilviljun háðir og munu ekki speglast á milli eineggja tvíbura frekar en milli hægri og vinstri hliðar sama einstaklings.

Árið 2008 birti hópur við háskólann í Birmingham Alabama niðurstöður í tímaritinu American Journal of Human Genetics sem sýna að eineggja tvíburar eru ekki með nákvæmlega eins erfðaefni. Þeir beittu nýlegri tækni sem finnur grófar breytingar í erfðamengjum. Niðurstöðurnar sýna að eineggja tvíburar eru fjarri því að vera með eins erfðamengi, til dæmis geta heilu genin dottið út. Einnig var sýnt fram á að mikill munur getur verið á milli vefja, til dæmis lungna og tauga, þar sem sum gen vantar í ákveðna vefi en ekki aðra. Þetta getur náttúrulega útskýrt hvers vegna annar tvíburi fær ákveðinn sjúkdóm en hinn ekki. Það er því staðfest að eineggja tvíburar eru ekki með 100% eins erfðamengi. En ekki er ljóst hver rétta talan er, það er hvort hún sé til dæmis nálægt 99.999% eða 99.998%. Og eins og þekkt er úr erfðafræðinni og þróunarfræðinni geta litlar breytingar vegið mjög þungt. Ef eineggja tvíburar eru grunaðir um glæp, má nýta sér þetta til að finna út hvor þeirra var á vettvangi. Með réttri tækni er hægt að greina erfðasamsetningu úr skinnpjötlu sem finnst á morðvopni og þar með skera úr um hvor eineggja tvíburanna er sá seki. Stuttu svörin eru því þessi.
  • Eineggja tvíburar verða aldrei nákvæmlega eins vegna áhrifa tilviljunar, umhverfis og breytinga á líkamsfrumum.
  • Eineggja tvíburar eru ekki með nákvæmlega eins erfðaefni í öllum frumum sínum.
  • Eineggja tvíburar eru ekki spegilmyndir hvor annars. Það sama á við um tvíeggja tvíbura.

Pistillinn birtist á vísindavefnum í janúar.

Arnar Pálsson. „Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins?“. Vísindavefurinn 14.1.2014. http://visindavefur.is/?id=53647. (Skoðað 15.5.2014).

Ítarefni:

Upphafleg spurning hljóðaði svo:
Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins eða er möguleiki á að vera eineggja tvíburar þegar annar er með fæðingarblett á hægri öxlinni en hinn á vinstri en samt á nákvæmlega sama stað? Spurning mín er eiginlega hvort að eineggja tvíburar geti "speglað" hvorn annan eða eru þeir þá tvíeggja?

Hvað vilt þú gera við genin þín?

Tækni til að greina erfðaefni og breytileika í því fleygir fram. Breytileiki í erfðaefninu tengist mörgum sjúkdómum og eiginleikum mannsins, þótt áhrif umhverfis og tilviljunar séu líka sterk og í flestum tilfellum veigameiri en genanna. Hefðbundnar...

Umræða um erfðafræði og einkalíf

Fyrir rúmum áratug var mikil umræða hérlendis um friðhelgi, einkalíf og erfðafræði. Umræðan var ekki alveg nógu víðtæk, og stór hluti þjóðarinnar spáði lítið í því sem um var rætt. En framfarir í erfðafræði eru það miklar að við þurfum að kynna okkur...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband